Miðstrandir

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Krákutúni í Meyjardal að Húsá í botni Ófeigsfjarðar.

Í Húsavík er heit lind og setlaug upp með Húsá og þar er göngubrú yfir ána. Drangaskörð eru ein stórbrotnasta náttúrusmíð landsins.

Förum frá Krákutúni suðaustur með ströndinni, fyrst í Húsavík. Síðan til austurs út fyrir Bæjarfjall að Drangahlíð. Þaðan skýra götu suður og upp í slakkann Kattardal og áfram suðaustur um vel varðaðan Drangaháls í 300 metra hæð innan við Skarðafjall. Góðir göngumenn geta líka farið dramatískari leið um Drangaskörð utan við Skarðafjall. En við komum suðaustur og um sneiðinga niður í Drangavík. Förum þaðan fyrir Skerjasundsmúla og undir Engineshlíðinni inn í Eyvindarfjörð. Þar er göngubrú yfir Eyvindarfjarðará. Næst förum við austur um Básana og suður fyrir skriðurunninn Hrúteyjarnesmúla. Áfram suður með ströndinni um víkina Látur, um Borgarháls ofan við Borg, fyrir mynni Dagverðardals, ofan við Strandatún og Háareka að Hvalá, mesta vatnsfall Vestfjarða. Þar er brú og þar komum við á jeppaslóð. Að lokum förum við áfram suður með ströndinni að Húsá.

25,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Skjaldabjarnarvík, Drangajökull, Ófeigsfjarðarheiði, Brekkuskarð, Seljanesmúli, Þúfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort