Kambur

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Veiðileysufirði fyrir Kamb til Kúvíkna í Reykjarfjarðar.

Á Vestfjarðavefnum segir m.a.: Kambur er sérkennilegt og áberandi fjall á nesinu milli Reykjarfjarðar og Veiðileysufjarðar í Árneshreppi á Ströndum. Upp úr Kambinum rísa þverhníptir tindar sem álengdar minna á tröllagreiðu … Samkvæmt þjóðsögunni er nafn fjarðarins þannig til komið að kerling nokkur sem Kráka hét missti tvo syni sína í róðri á firðinum. Lagði hún þá á fjörðinn að þar myndi aldrei fást framar bein úr sjó … Frá Látrum var nokkuð útræði fyrrum og talsverður reki er þar … Kúvíkur sem um 250 ára bil var eini verslunarstaðurinn á Ströndum frá því um aldamótin 1600. Þar voru um tíma tvær verslanir og heimavistarskóli var rekinn þar einn vetur (1916). Þar má ennþá sjá merki umsvifanna, til dæmis pott þar sem hákarlalýsið var soðið í.”

Förum frá sæluhúsinu í Veiðileysufirði meðfram sjó vestur og norður fyrir botn Veiðileysufjarðar. Þar er greinilegur slóði. Við fylgjum honum vestur ströndina um skrítnar sandsteinsmyndanir. Utarlega á nesinu komum við að Kambi. Þar var búið til 1954 og stendur húsið enn. Þar er grjótdys, sem heitir Spænskradys. Við förum út á Víganes og síðan vestur og inn með Reykjarfirði. Þar komum við að Látrum, þar sem við förum sjávarmegin við klettaborg með glufum og gjám. Þar breikkar gatan og er vandlega hlaðin yfir verstu farartálmana. Þar er ströndin vogskorin. Við höldum vestur og komum að Halldórsstöðum. Í landi bæjarins var verzlunarstaðurinn Kúvíkur. Þaðan förum við vestur á þjóðveg 643 í Reykjarfirði.

13,2 km
Vestfirðir

Skálar:
Veiðileysufjörður: N65 55.850 W21 26.090.

Nálægar leiðir: Trékyllisheiði, Háafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort