Strandasýsla

Hólsfjall

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Laugarhóli í Bjarnarfirði um Hólsfjall til Laugarhóls í Bjarnarfirði.

Um Svanshól segir á Vestfjarðavefnum: “Í Njálu og Grettissögu segir af Svani á Svanshóli í Bjarnarfirði. Hann var mikill galdramaður … magnaði þoku mikla á Bjarnarfjarðarhálsi, sem varði hann fyrir óvinum sínum. Þeir reyndu í þrígang að komast yfir hálsinn, en galdraþokan kom ætíð í veg fyrir það.

Ofan við bæinn á Svanshóli er grunnt gil í hlíðina er heitir Svansgjá og er samnefnd gjá í Kaldbakshorni norðar á Ströndum. Munnmæli herma að Svanur hafi gengið inn í Hólsfjall við bæ sinn og út um Svansgjá í Kaldbakshorni þá er hann fór til sjóróðra. Njála getur þess að hann hafi týnst í sjóróðri út af Veiðileysufirði og þá hafi fiskimenn í Kaldbaksvík séð hann ganga í land undir Kaldbakshorni og hverfa inn í Svansgjá.”

Förum frá Laugarhóli. Leiðinni er þannig lýst á Vestfjarðavefnum: “Við þjóðveginn þar sem hann liggur yfir Hallardalsá, rétt utan við Hótel Laugarhól í Bjarnarfirði, er gönguleiðaskilti sem markar upphaf leiðarinnar. Gengið er yfir brúna á þjóðveginum sem liggur yfir Hallardalsá og síðan upp með ánni eftir varnargarði. Gengið er meðfram Hallardalsárgljúfri og að Goðafossi sem steypist ofan í gljúfrið efst í því. Ofan við fossinn er haldið yfir ána og stefnt í norðvestur á skarð í fjallsöxlina og skásneitt upp að klettum. Víðsýnt er yfir Bjarnarfjarðarháls, Steingrímsfjörð, til Húnaflóa, Langjökuls og Eiríksjökuls. Þverá er síðan fylgt niður af fjallinu en hún steypist í mörgum fossum ofan í Þverárgljúfur. Neðan við gljúfrið er göngubrú yfir ána og þaðan er fylgt götum niður í dalinn fyrir ofan bæinn Svanshól og út að Laugarhóli aftur.”

8,1 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Urriðavötn, Þórisgata, Dimmudalir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hólmavatnsheiði

Frá Sólheimum í Laxárdal í Dölum að Prestbakka í Hrútafirði.

Förum frá Sólheimum norður og upp Sólheimaöxl austanverða. Áfram norður fyrir austan Hólmavatn og vestan Reiðgötuvatn á Hólmavatnsheiði í 240 metra hæð. Síðan norðaustur fyrir norðan Reyðarvatn og sunnan Reyðarvatnstjörn og niður Bakkadal að Prestbakkaá og meðfram henni norðaustur á Prestbakka.

15,2 km
Snæfellsnes-Dalir, Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Holtavörðuheiði

Frá Sveinatungu í Norðurárdal að Melum í Hrútafirði.

Holtavörðuheiði var lengst af eini færi fjallvegurinn að vetri til milli Suður- og Norðurlands. Var nefnt “að fara sveitir” gagnstætt því “að fara fjöll” en þá var farið um Arnarvatnsheiði eða Tvídægru.

Þegar Kolbeinn ungi Arnórsson fór með mikinn flokk að Þórði kakala Sighvatssyni í nóvemberlok 1242 reið hann suður Tvídægru og til baka Holtavörðuheiði. Farið var upp hjá Sveinatungu og komið niður fyrir framan Mela í Hrútafirði. Vegur þarna var víða grýttur og blautur. Heiðin sjálf frá Fornahvammi var talin ein þingmannaleið eða 37.5 km. Litlum sögum fer af Holtavörðuheiði í Sturlungu, enda kusu vígamenn hennar frekar að fara Arnarvatnsheiði og síðan beint niður í þá dali, þar sem þeir áttu sökótt við menn. Svo að njósn bærist síður af ferðum þeirra.

Förum frá Sveinatungu til norðurs með austurhlið Sveinatungumúla og vestan Norðurár, reiðleið um Kattarhrygg að gangnakofa í Fornahvammi. Þar var lengi hótel og veitingasala. Þaðan förum við til norðausturs eftir gömlum vegum meðfram Norðurá og yfir hana hjá Heiðarsporði. Förum síðan norður með ánni, meðfram Rauðhól og vestan við Bláhæð í 360 metra hæð. Síðan austan með Holtavörðuvatni og Grunnavatni, vestan núverandi þjóðvegar 1, norður með Miklagilskvísl og vestur fyrir gljúfur Miklagils og niður í Grænumýrartungu, þar sem lengi var gisting, en er nú í eyði. Áfram förum við með vegi vestan við Hrútafjarðará að gömlu brúnni yfir ána og áfram að gömlu símstöðinni á Melum í Hrútafirði.

27,3 km
Borgarfjörður-Mýrar, Húnavatnssýslur

Skálar:
Fornihvammur: N64 54.120 W21 11.550.

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Hrútafjarðará, Sölvamannagötur, Jörfamúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Háafell

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kúvíkum í Reykjafirði um Háafell upp á slóð um Trékyllisheiði.

Leiðin er vörðuð.

Förum frá Kúvíkum suður og upp með Búðará að þjóðvegi 643 og síðan vestur yfir þjóðveginn um Langahjalla. Áfram til suðvesturs fyrir norðan Háafell að Djúpavíkurá og suðvestur með henni. Við höldum áttinni til suðvesturs, förum milli ónefndra vatna og komum nokkru sunnar á jeppaveginn yfir Trékyllisheiði. Hann liggur milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur.

11,4 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kambur, Trékyllisheiði, Tagl

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Haukadalsskarð

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Stað í Hrútafirði.

Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin milli Dala og Norðurlands. Hennar er getið í Njáls sögu og Sturlungu. Í Sturlungu segir: “En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils skarði Böðvarsson og Vigfús Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega.” Þetta var 1244. Sama ár eftir Flóabardaga riðu Sturla Þórðarson og Þórður kakali norður skarðið í misheppnaðri aðför að Kolbeini unga.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur dalinn norðan Haukadalsár um Eiríksstaði, Leikskála, Núp, Smyrlahól og Giljaland, inn fyrir beygjuna á dalnum og suður fyrir eyðibýlin Kross og Skarð. Skammt sunnan Skarðs förum við jeppaveg til austurs milli Geldingafells í norðri og Klambrafells í suðri upp í Haukadalsskarð. Við förum í austur og síðan í norðaustur, komumst í 280 metra hæð. Síðan um brekkurnar norðaustur af heiðinni niður með Ormsá að Melum í Hrútafirði. Við förum niður að Hrútafjarðará og fylgjum henni til norðurs, unz við erum komin andspænis gamla Staðarskála. Þá förum við þvert yfir ána og upp brekkurnar, yfir þjóðveg 1 að Stað í Hrútafirði.

32,5 km
Snæfellsnes-Dalir, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Saurstaðaháls, Tröllháls, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Prestagötur, Villingadalur, Krossbrún, Haukadalsá, Jörfamúli, Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson

Hamarssneiðin

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði upp á Bitruháls.

Förum frá Stóra-Fjarðarhorni suðsuðvestur Þrúðardal og upp til suðausturs á leiðina um Bitruháls milli Kollafjarðar og Bitrufjarðar.

4,6 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Bitruháls.
Nálægar leiðir: Steinadalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Göngumannaskörð

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Bolungarvík á Hornströndum til Barðsvíkur á Hornströndum.

Útsýni er gott úr skarðinu. Þaðan sést vel að Hornbjargi og í forgrunni sjást handan Smiðjuvíkurháls grasi vaxnir og mýrlendir Almenningar.

Förum frá sæluhúsinu í Bolungarvík þvert norður yfir Bolungarvík að Seli. Þaðan norður um bratta og torsótta brekku upp á Bæjarhjalla og síðan norður á Selhjalla, sem sumir eru brattir. Við förum norður í Skarðsfjall upp í Göngumannaskörð í 350 metra hæð. Við förum um eystra og lægra skarðið. Þaðan strax bratt niður í Barðsvík. Þar er gistihús úti við sjó.

5,6 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Bolungarvík: N66 18.143 W22 14.147.
Barðsvík: N66 20.117 W22 14.000.

Nálægar leiðir: Bolungarvíkurbjarg, Bolungarvíkurheiði, Sópandi, Hornstrandir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fossadalsheiði

Frá Reykjafirði um Fossadalsheiði til Bjarnarfjarðar á Ströndum.

Vörðuð leið um urðir á heiðinni.

Förum frá gistihúsinu í Sigluvík suður dalinn um eyðibýlið Kirkjuból og upp Fossadal austan ár. Þar komum við á Fossadalsheiði í 300 metra hæð. Síðan suðaustur yfir drög Sunndals og yfir Rönd að fjallsbrún norðan Bjarnarfjarðar. Niður fjallið förum við um ótal sneiðinga og komum niður við fjarðarbotninn.

8,0 km
Vestfirðir

Skálar:
Reykjarfjörður: N66 15.425 W22 05.372.

Nálægar leiðir: Skjaldabjarnarvík, Þúfur, Reykjafjarðarháls, Þaralátursnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Drangajökull

Frá Skjaldfönn á Langadalsströnd um suðurbrún Drangajökuls að Meyjardal norðan Drangaskarða.

Þessa leið var oft farið með rekavið, dreginn á klökkum.

Förum frá Skjaldfönn austur Skjaldfannardal og upp úr botni dalsins til norðurs fyrir vestan Jökulgil og síðan til austurs eftir Langahrauni. Þá förum við yfir jökulröndina í suðurbrún Drangajökuls, fyrst í austur og síðan í norðaustur, í 720 metra hæð. Næst sveigjum við austur að Kringluvatni, förum vestan við það og til norðurs niður í Meyjardal. Förum hann austanverðan, ausan við Meyjarvatn til strandar við eyðibýlið Krákutún sunnan Meyjarmúla við Bjarnarfjörð á Ströndum.

31,1 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Ófeigsfjarðarheiði, Hraundalsháls, Miðstrandir, Skjaldabjarnarvík, Þúfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Dimmudalir

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Laugarhóli í Bjarnarfirði um Dimmudali til Asparvíkur.

Byrjum rétt austan við Laugarhól í Bjarnarfirði. Þar er þessi leið merkt á stiku. Förum norður Hallárdal fyrir austan Hallárdalsá og áfram með ánni upp á fjall, unz sést niður í Asparvíkurdal. Þá er beygt þar til austsuðausturs um Dimmudali meðfram Fossá niður í Asparvíkurdal og áfram austur dalinn til Asparvíkur við þjóðveg 643 um ströndina.

13,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hólsfjall, Þórisgata, Urriðavötn, Bassastaðaháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Brekkuskarð

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Eyri í Ingólfsfirði að Húsá í Ófeigsfirði.

Á Eyri eru minjar um síldarsöltun og síldarverksmiðju, sem lögð var niður 1952.

Förum frá Eyri í Ingólfsfirði inn með firðinum sunnanverðum, fyrir botn hans og um bratta Ingólfsfjarðarbrekku norður á Teigahrygg. Síðan norðvestur um Brekkuskarð og niður að Húsá við botn Ófeigsfjarðar.

7,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Seljanesmúli, Krossnesmúli, Miðstrandir, Ófeigsfjarðarheiði, Tagl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Bjarnagata

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Hvalskeri í Patreksfirði um Bjarnagötu að Móbergi á Rauðasandi.

Var fyrrum kaupstaðarleið Rauðsendinga.

Förum frá Hvalskeri suðvestur Hall milli Skersár að norðan og Litladalsár að sunnan. Beygjum síðan til suðurs að þjóðvegi 614, þar sem hann þverbeygir til suðausturs. Þar förum við yfir slóð milli Sauðlauksdals og Konungsstaða í Patreksfirði. Fylgjum þjóðveginum inn í Mjósund, en förum þar austur af veginum á Bjarnagötu, sem liggur nær gilinu en þjóðvegurinn. Förum suðaustur Bjarnagötudal að vegi um Rauðasand og loks austur með þeim vegi að Móbergi á Rauðasandi.

8,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Rauðisandur, Hreggstaðadalur, Strandaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Bitruháls

Frá Gröf í Bitrufirði um Bitruháls að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði.

Dæmigerð Vestfjarðaleið, stutt leið yfir fjall milli tveggja fjarða.

Byrjum á þjóðvegi 641 við Gröf í Bitrufirði norðanverðum. Þaðan förum við nokkuð bratt norður hlíðina vestan Grafargils upp á Bitruháls. Upp hlíðina eru sneiðingarnir dálítið frábrugðnir þeim, sem sýndir eru á herforingjaráðskortum. Um hálsinn förum við gömlu hestagötuna sunnan og vestan við toppinn á Stórubungu í tæplega 400 metra hæð. Síðan norður með bungunni og til norðurs á ská niður hlíðina að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði við þjóðveg 61 um Strandir.

9,7 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Krossárdalur.
Nálægar leiðir: Hamarssneiðin, Steinadalsheiði, Spákonufell.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Bassastaðaháls

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Skarðsrétt í Bjarnarfirði um Bassastaðaháls að Hálsgötugili í Steingrímsfirði.

Förum frá Skarðsrétt eftir gamla þjóðveginum í átt til Hólmavíkur. Fyrst norðvestan þjóðvegar 643 og síðan suðaustan hans. Förum hjá Selkollusteini og komum með Hálsgötugili til vegamóta þjóðvega 643 og 645 í Steingrímsfirði.

5,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sandneshryggur, Hólsfjall, Dimmudalir, Trékyllisheiði, Staðarfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort