Skagafjörður

Litla-Vatnsskarð

Frá Laxárdal um Litla-Vatnsskarð til Sauðárkróks.

Litla-Vatnsskarð er lágt skarð og greiðfært. Engar torfærur eru á allri leiðinni úr Laxárdal til Sauðárkróks. Í skarðinu er eyðibýlið Móbergssel, þar sem skáldið Sveinn í Elivogum var fæddur. Víðidalur er þröngur, langur og gróinn dalur, sem var áður fyrr í byggð.

Byrjum milli eyðibýlanna Refsstaða og Merkur í Laxárdal. Förum norðaustur um Litla-Vatnsskarð og sunnan Móbergsselstjarnar að Víðidal. Þar er fjallaskálinn Þúfnavellir. Förum norður Víðidal að Hryggjafjalli. Síðan til austurs fyrir sunnan Hryggjafjall um Hryggjadal og til norðnorðausturs meðfram Gönguskarðsá að þjóðvegi 744 gegnt Veðramótum í Skagafirði og Sauðárkróks.

18,5 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Þúfnavellir: N65 38.330 W19 49.480.

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Gyltuskarð, Vatnaöxl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kúskerpi

Frá Stapa í Lýtingsstaðahreppi eftir Laugardalsvegi 754 og yfir Héraðsvötn að Kúskerpi og Silfrastöðum í Akrahreppi.

Þetta er leiðin, sem hestamenn fara nú á tímum yfir Héraðsvötn á vaði. Einnig er farið nokkru sunnar, milli Kúskerpis og Silfrastaða. Héraðsvötn dreifast víða og eru reiðfær á mörgum stöðum, ekki bara á formlegum vöðum.

Förum frá Stapa norðan við Hellisás og tökum stefnuna beint austur á Kúskerpi handan Héraðsvatna. Síðan eftir slóð frá Kúskerpi suðsuðaustur um Uppsali og eftir gamla þjóðveginum suðaustur um Bólu að Silfrastöðum.

6,0 km
Skagafjörður

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Vindheimar, Norðurárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Magnús Pétursson

Kotagil

Frá Kotagili í Norðurárdal um Kotabotna og Miðsitjuskarð að Miðsitju í Blönduhlíð.

Þessi leið er ófær hestum. Krækja þarf vel fyrir þvergilin, þegar ofar dregur.

Leiðin er stórfengleg, einkum gilið. Það víkkar, þegar innar dregur og verður rúmlega hálfs kílómetra vítt, þar sem það er víðast. Þetta er hyldjúpur hamradalur, sem líkist engu öðru hér á landi.

Byrjum á þjóðvegi 1 við mynni Kotagils í Norðurárdal. Förum norðnorðvestur um krókóttan botn Kotagils. Síðan áfram norðnorðvestur um Kotabotna upp í Miðsitjuskarð í 1040 metra hæð. Að lokum vestnorðvestur úr skarðinu niður að eyðibýlinu Örlygsstöðum eða að Miðsitju.

15,5 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Ranghali, Suðurárdalur, Ullarvötn, Vindárdalur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Kirkjuskarð

Frá Kirkjuskarði í Laxárdal um Kirkjuskarð á Vatnaaxlarleið í Skálahnjúksdal.

Undirlendi er lítið í Mjóadal, þurrlent með valllendi í hlíðum. Gálgagil er, þar sem mætast Balaskarð, Mjóidalur, Hvammshlíðardalur og Ambáttardalur. Þar segir sagan, að níu þjófar hafi verið hengdir. Aðeins norðar á dalamótunum er eyðibýlið Höskuldsstaðasel. Ambáttardalur er votlendur og liggur slóðin vel sunnan árinnar.

Förum frá Kirkjuskarði norðnorðaustur Kirkjuskarð í 620 metra hæð og síðan norður Mjóadal að Gálgagili. Sunnan Hvammshlíðarfjalls förum við norðaustur eftir Ambáttardal að mótum Laxár og Mörár í Skálahnjúksdal. Þar liggur Vatnaaxlarleið milli Gauksstaða á Skaga og Veðramóta í Skarðshreppi í Skagafirði.

14,4 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Geitaskarð, Balaskarð, Vatnaöxl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kiðaskarð

Frá Hvíteyrum í Skagafirði að Stafni í Svartárdal.

Hér var fyrrum fjölfarið milli byggða. Bændur úr Skagafirði, sem áttu fé í Stafnsrétt, ráku það austur um skarðið og gera enn. Skarðið er þröngt, en greiðfært.

Förum fráá Hvíteyrum stuttan spöl norður veginn og beygjum síðan vestur eftir þjóðvegi 751 að Mælifellsá. Beygjum þaðan suðurs á brúna á Mælifellsá og förum þrjá kílómetra vestur Mælifellsdal. Þar er þverleið norður yfir Mælifellsá á grýttu vaði og upp með henni að vestanverðu. Síðan þverbeygjum við til vesturs sunnan Selhnjúks upp í Kiðaskarð. Þröngt er skarðið, sveigir til suðurs og síðan aftur til vesturs. Þar komum við upp á Þröskuld í 550 metra hæð. Þaðan liggur leiðin til vesturs á fjallinu og síðan til suðurs og vesturs á fjallsbrúnina fyrir ofan Stafn í Svartárdal. Förum brattan sneiðing niður fjallið að Stafnsrétt.

14,5 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Hvammsdalur, Vesturheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ketubruni

Frá Keldulandi í Húnaþingi um Ketubruna að Ketu á Skaga í Skagafirði.

Ketubruni eru háir og lítt grónir hraunhólar með djúpum bollum milli hólanna. Leiðin liggur raunar norðvestan við Ketubruna, sem eru á miðjum skaganum.

Leiðarlýsing í Árbók FÍ 2007: “Var farið um Moldás, eftir fjöruborði Langavatns og yfir Langavatnsá á ósnum, síðan áfram með vatninu upp að tveimur tjörnum í Langavatnsflóa. Yfir vík á neðri tjörninni, beygt til hægri upp í jaðar á lágu holti, upp með því, beygt til vinstri, fyrir illfærustu keldu Langavatnsflóa. Þaðan upp í Háaleiti, framhjá gamalli torfvörðu. Áfram yfir Háaleiti, skammt vestan við Háaleitis-tjörnina, áfram út holtin. Þar sér á stöku stað fyrir merkingu leiðar með smá vörðum eða steinum reistum á rönd. Götuslitur langleiðina austur undir vestara Höfðavatn. Framhjá vatninu að suðaustanverðu.”

Byrjum á þjóðvegi 745 um Skaga norðan við Kelduland. Förum norðaustur með Fjallsöxl og vesturenda Langavatns. Síðan norðaustur um Bessalækjarbreiður og norðvesturhorn Ketubruna í 200 metra hæð, norðaustur um Höfðavötn og austan við Skálavatn. Síðan um Urðarselstjörn norðaustur á þjóðveg 745 við Ketu á Skaga.

21,8 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Aravatn, Heylækur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kattárdalur

Frá Miðgrund í Blönduhlíð um Kattárdal og Hvammsdal að Hvammi í Hjaltadal.

Förum frá Miðgrund austur að bænum Djúpadal og þaðan austur í Djúpadal. Þar sem dalurinn klofnar, förum við norðaustur Kattárdal og síðan norðnorðaustur um nyrðri dalbotninn upp á Tungufjall. Við höldum síðan áfram norður á fjallinu í 1080 metra hæð, förum fyrir botn Austurdals og komum á slóðir upp úr Austurdal og Vindárdal. Þar náum við greiðri en brattri leið norðaustur í Hvammsdal. Eftir dalnum er bein leið að Hvammi í Hjaltadal.

23,2 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kotagil, Ranghali, Suðurárdalur, Ullarvötn, Vindárdalur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Ingólfsskáli

Frá Kjalvegi F35 vestan Skiptahóls norður fyrir Hofsjökul í Ingólfsskála.

Þetta er jeppaslóð, sem liggur heldur norðar en gamli Eyfirðingavegurinn. Í Svörtutungum ofanverðum er víða fjölbreyttur gróður í votu landi. Þar er farið yfir Blöndu á grýttu vaði með góðum botni. Annars staðar á leiðinni eru víðast urðir og melar og sandar. Þetta er að mestu friðað svæði, frá Blöndukvíslum að Sátu. Það er eitt stærsta rústasvæði landsins og eitt af varplöndum gæsa.

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

Byrjum hjá Kjalvegi F35 í 630 metra hæð austan Rjúpnafells og vestan Skiptahóls á Kili. Förum norðaustur yfir Blöndukvíslar og austur yfir Svörtukvíslar. Síðan norður fyrir Þverbrekku og Sátu, þar sem leiðin liggur austur frá Sátu að jökli í 840 metra hæð. Síðan til norðausturs og norður fyrir Krókafell að Ingólfsskála í 830 metra hæð norðan Hofsjökuls.

37,7 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Eyvindarstaðaheiði, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Skiptamelur, Fossakvísl, Svartárbotnar, Kjalfellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hörgárdalsheiði

Frá Fremri-Kotum í Norðurárdal að Ásgerðarstöðum í Hörgárdal.

Gissur Þorvaldsson og Oddur Þórarinsson fóru 1254 um Hörgárdalsheiði til Eyjafjarðar að brennumönnum Flugumýrar. 1255 höfðu Þorgils skarði Böðvarsson og Þorvarður Þórarinsson varðmenn á Hörgárdalsheiði. Síðar um sumarið fóru Þorgils og Þorvarður í herför um heiðina til Eyjafjarðar. Algengara var þá að fara Öxnadalsheiði, sem nú er jafnan farin.

Þjóðsaga segir, að bóndinn í Hálfdánartungum hafi deilt við húsfreyjuna á Silfrastöðum um, hvar málnyta væri þroskameiri. Á Silfrastöðum mátti leggja sjóvettling ofan á rjómatrogin, án þess að neitt tylldi við hann. Í Hálfdánartungum mátti leggja þar skaflaskeifu, án þess að markaði fyrir á rjómaskáninni.

Förum frá Fremri-Kotum með gamla þjóðveginum norðvestur að beygjunni að gömlu brúnni yfir Norðurá. Höldum þar áfram norðvestur Norðurárdal um garða á eyðibýlinu Hálfdánartungum. Þaðan liggur leiðin austur yfir ána og síðan upp með henni að austanverðu í 500 metra hæð undir Reiðgilshnjúk, Selfjalli og Víkingsfjalli. Þar heitir Hörgárdalsheiði. Upp á háheiðina förum við norður um Fremri-Slakka í 610 metra hæð og síðan bratt niður Sveig í Hörgárdal. Við förum áfram norðaustur dalinn um eyðibýlin Flögusel og Ásgerðarstaðasel að Ásgerðarstöðum.

14,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Öxnadalsheiði, Hjaltadalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hvarfdalsskarð

Frá sæluhúsinu á Lágheiði um Hvarfdal á slóð um Hákamb.

Vel fært hestum. Gunnlaugur Jónsson fór þessa leið 1936 með bústofn sinn, ær og kýr. Flestar leiðir á Tröllaskaga eru færar hestum, ef varlega er farið. Þær eru hestfærar, en ekki reiðfærar. Þú situr ekki á baki upp og niður brekkurnar.

Förum frá sæluhúsinu á Lágheiði suðvestur tvo kílómetra með þjóðveginum að Hvarfdal. Suður dalinn og upp í Hvarfdalsskarð fyrir botni dalsins, austan Einstakafjalls. Förum suður fyrir Einstakafjall í 820 metra hæð á slóðina í 900 metra hæð um Hákamba frá Fjalli í Kolbeinsdal að Deplum í Fljótum.

11,0 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Skálar:
Lágheiði: N65 56.315 W18 50.540.

Nálægar leiðir: Klaufabrekkur, Sandskarðsleið, Unadalsjökull, Hákambar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hvammsdalur

Frá Hvammi í Svartárdal um Hvammsdal upp á Kiðaskarðsleið.

Förum frá Hvammi austur Hvammsdal sunnanverðan og síðan suðaustur meðfram Hvammsá á Kiðaskarðsleið í 550 metra hæð vestan við Kiðaskarð. Sú leið er milli Stafnsréttar í Svartárdal og Mælifells í Skagafirði.

5,9 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Kiðaskarð, Valadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Húseyjarkvísl

Frá Lauftúni við Varmahlíð meðfram Húseyjarkvísl að Geldingaholti.

Förum frá Lauftúni eftir vegi að graskögglaverksmiðunni norðan Löngumýrar. Þaðan vestur að Húseyjarkvísl og síðan norður með kvíslinni á móts við Geldingaholt. Þar förum við yfir kvíslina og áfram eftir heimreið Geldingaholts vestur á þjóðveg 75 í Skagafirði.

7,0 km
Skagafjörður

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ingimar Ingimarsson

Húngilsdalur

Frá Knappstöðum við Stífluvatn í Fljótum um Húngilsdal að Þverá í Ólafsfirði.

Förum frá Knappstöðum austur á Efrafjall og síðan beint norðautur á Breiðafjall í 800 metra hæð. Þaðan þvert yfir drög Holtsdals og austnorðaustur á Ólafsfjarðarfjall í 860 metra hæð. Þaðan austnorðaustur um Húngilsdal að Kvíabekkjardal og austur þann dal að Þverá eða Kvíabekk.

10,5 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Ólafsfjarðarskarð, Heiðarmýrar, Grímubrekkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hrísháls

Frá Enni um Hrísháls að Laufskálarétt.

Farið er um Viðvíkursveit. Miðja vega leiðarinnar er Viðvík. Þar bjó Þorbjörn öngull Þórðarson, sem drap Gretti Ásmundarson í Drangey. Áður en bílvegur var lagður inn að Hólum í Hjaltadal var þetta aðalleiðin til biskupssetursins.

Byrjum hjá þjóðvegi 76 við Enni. Síðan norður og austur með Viðvíkurfjalli, að Laufskálarétt.

8,9 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Brimnes, Þverárjökull, Héðinsskarð, Hólamannavegur, Heljardalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort