Hörgárdalsheiði

Frá Fremri-Kotum í Norðurárdal að Ásgerðarstöðum í Hörgárdal.

Gissur Þorvaldsson og Oddur Þórarinsson fóru 1254 um Hörgárdalsheiði til Eyjafjarðar að brennumönnum Flugumýrar. 1255 höfðu Þorgils skarði Böðvarsson og Þorvarður Þórarinsson varðmenn á Hörgárdalsheiði. Síðar um sumarið fóru Þorgils og Þorvarður í herför um heiðina til Eyjafjarðar. Algengara var þá að fara Öxnadalsheiði, sem nú er jafnan farin.

Þjóðsaga segir, að bóndinn í Hálfdánartungum hafi deilt við húsfreyjuna á Silfrastöðum um, hvar málnyta væri þroskameiri. Á Silfrastöðum mátti leggja sjóvettling ofan á rjómatrogin, án þess að neitt tylldi við hann. Í Hálfdánartungum mátti leggja þar skaflaskeifu, án þess að markaði fyrir á rjómaskáninni.

Förum frá Fremri-Kotum með gamla þjóðveginum norðvestur að beygjunni að gömlu brúnni yfir Norðurá. Höldum þar áfram norðvestur Norðurárdal um garða á eyðibýlinu Hálfdánartungum. Þaðan liggur leiðin austur yfir ána og síðan upp með henni að austanverðu í 500 metra hæð undir Reiðgilshnjúk, Selfjalli og Víkingsfjalli. Þar heitir Hörgárdalsheiði. Upp á háheiðina förum við norður um Fremri-Slakka í 610 metra hæð og síðan bratt niður Sveig í Hörgárdal. Við förum áfram norðaustur dalinn um eyðibýlin Flögusel og Ásgerðarstaðasel að Ásgerðarstöðum.

14,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Öxnadalsheiði, Hjaltadalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort