Ingólfsskáli

Frá Kjalvegi F35 vestan Skiptahóls norður fyrir Hofsjökul í Ingólfsskála.

Þetta er jeppaslóð, sem liggur heldur norðar en gamli Eyfirðingavegurinn. Í Svörtutungum ofanverðum er víða fjölbreyttur gróður í votu landi. Þar er farið yfir Blöndu á grýttu vaði með góðum botni. Annars staðar á leiðinni eru víðast urðir og melar og sandar. Þetta er að mestu friðað svæði, frá Blöndukvíslum að Sátu. Það er eitt stærsta rústasvæði landsins og eitt af varplöndum gæsa.

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

Byrjum hjá Kjalvegi F35 í 630 metra hæð austan Rjúpnafells og vestan Skiptahóls á Kili. Förum norðaustur yfir Blöndukvíslar og austur yfir Svörtukvíslar. Síðan norður fyrir Þverbrekku og Sátu, þar sem leiðin liggur austur frá Sátu að jökli í 840 metra hæð. Síðan til norðausturs og norður fyrir Krókafell að Ingólfsskála í 830 metra hæð norðan Hofsjökuls.

37,7 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Eyvindarstaðaheiði, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Skiptamelur, Fossakvísl, Svartárbotnar, Kjalfellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort