Frá Siglufirði til Hrauns í Fljótum.
Siglufjarðarskarð var þjóðleiðin til Siglufjarðar, þangað til Strákagöng voru sprengd. Fyrir daga bílsins var leiðin talin hættuleg að vetrarlagi. Sjálfu skarðinu er lýst þannig í þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd.” Kvað svo rammt að slysum, að Þorleifur Skaftason prófastur í Múla var fenginn til að vígja skarðið. Það dugði ekki til. Svellbunkar voru í skarðinu og urðu menn stundum að skríða yfir þá. Árið 1940 var skarðið sprengt niður um fjórtán metra. Síðar var þar lagður bílvegur. Fagurt útsýni er úr skarðinu til beggja átta, Siglufjarðar og Skagafjarðar. Sunnan við Siglufjarðarskarð er Afglapaskarð, sem sumir fóru, ef þeir villtust af leið.
Förum frá Siglufirði gamla bílveginn upp dalinn og síðan brattar brekkur beint upp í Siglufjarðarskarð í 600 metra hæð. Vestan skarðsins förum við fyrst suður fjallshlíðina og síðan til vesturs utan í Breiðafjalli og áfram niður brekkurnar vestan fjallsins, þar sem við komum að Hrauni.
10,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður
Jeppafært
Nálægar leiðir: Dalaleið, Efrafjall, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins