Nýjabæjarfjall

Frá Ábæ í Austurdal til Torfufells í Eyjafirði.

Við Ábæ í Austurdal var eina þrautavaðið á Jökulsá eystri í Skagafirði. Austdælingar bjuggu til vetrarbrýr á Jökulsá. Vaður úr hrosshári var strengdur þvert yfir ár neðan til á hyljum, þannig að hann rétt snerti vatnsborðið, Krapaburður staðnæmdist við strenginn, fraus saman og varð að manngengum ís. Nýjabæjarfjall er langur og hár fjallvegur um nakið grjót, grófur undir hóf og sjaldan farinn. Nýjabæjarfjalls er getið í Sturlungu og það var farið allar aldir síðan. Austdælingar fóru hér sínar kaupstaðarferðir. Lestarferðir um Nýjabæjarfjall lögðust ekki niður fyrr en 1908. Nú á dögum er þessi leið nánast aldrei farin. Hún er leiðinlega grýtt og seinfarin á fjallinu og verst austast. Við Ábæ er kennd Ábæjar-Skotta, einn frægasti draugur landsins, oft í för með öðrum draugi, Þorgeirsbola.

Förum frá Ábæ suður Austurdal, norðaustan við Eystri-Jökulsá, framhjá eyðibýlunum Tinnárseli og Nýjabæ. Þar sem Hvítá rennur að austan í Jökulsá förum við til austurs upp brattan og þunnan Hvítármúla milli Ytri- og Fremri-Hvítár. Erum þá komin upp á Nýjabæjarfjall, sem er afar breitt fjall á mörkum þess að vera jökull. Leiðin liggur norður af austri, hæst í 1020 metrum norðan fjallaskálans Litlakots. Síðan sunnan við Galtárhnjúk og niður Galtártungur milli Galtár og draga Torfufellsár, austur yfir Torfufellsá og niður með henni allan Torfufellsdal að Villingadal eða Torfufelli.

36,0 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Hildarsel: N65 15.344 W18 44.131.
Litlakot: N65 15.410 W18 30.415.

Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Laugafell, Elliði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort og Árbækur Ferðafélagsins