Mælifellsdalur

Frá skálanum við Galtará um Mælifellsdal að Hvíteyrum í Skagafirði.

Þessa leið hafa menn farið allar aldir ofan af Kili niður í Skagafjörð. Hér fóru Gissur jarl og Kolbeinn ungi 19. ágúst 1238 með níuhundruð manns og fjölda hesta til móts við Skagfirðinga, þegar þeir gerðu atlögu að Sturlu og Sighvati í Örlygsstaðabardaga, sem lýst er í Sturlungu. Mælifellsdalur er djúpur og þröngur og nær langt vestur undir drög Svartárdals. Fylgt er jeppaslóð alla leiðina frá Galtará til Mælifells. Sjálfur Mælifellshnjúkur er með hæstu fjöllum á svæðinu, 1138 metra hár og sést um óravegu í góðu skyggni.

Förum frá fjallaskálanum við Galtará í 500 metra hæð og fylgjum vegi norðaustur yfir Þingmannaháls að Bugaskála við suðvesturhorn Aðalmannsvatns. Þaðan förum við vestan vatnsins til norðurs og síðan til austurs við norðurenda þess. Vegurinn beygir fljótlega til norðurs og upp hlíðar Haukagilsheiðar austan við Stafnsgil og allt norður fyrir Heiðarhaus, þar sem við náum 600 metra hæð. Síðan niður brekkurnar í Mælifellsdal og út eftir dalnum til norðurs, yfir brú og að þjóðvegi 751 um Mælifellsá. Fylgjum þeim vegi að þjóðvegi 752 inn Skagafjörð. Förum þann veg hundrað metra að réttinni við Hvíteyrar.

38,1 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haugakvísl.
Nálægar leiðir: Stífluvegur, Fossaleið, Hraungarður, Gilhagadalur, Kiðaskarð, Héraðsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson