Þjóðleiðir

Öxarfjörður

Frá Snartarstöðum í Öxarfirði að Syðri-Bakka í Kelduhverfi.

Þetta er tengileið milli Kelduhverfis og leiða um Melrakkasléttu. Önnur leið að fjallabaki er kennd við Þverárhyrnu. Öxarfjörður er þurr og mjög gróin sveit, víða skógi vaxin frá fornu fari, notaleg að sumarlagi. Núparnir einkenna landslagið. Í Öxarnúpi er Grettisbæli, þar sem talið er, að Grettir hafi falizt. Mestur hluti þessarar leiðar er með þjóðvegi.

Förum frá Snartarstöðum með þjóðvegi 85 suður Öxarfjörð. Förum um Presthólahraun og Núpasveit, vestan við Valþjófsstaðafjall, framhjá fiskeldi Silfurstjörnunnar við Núpsvatn, meðfram Brunná undir Öxarnúpi. Förum að þjóðvegi 867 yfir Öxarfjarðarheiði, förum hann til austurs einn kílómetra að rétt neðan við Sandfellshaga. Þaðan förum við suður hjá eyðibýlunum Skeggjastöðum og Lækjardal, yfir Brunná og um Tunguhólma, upp á veg 865 að Hafrafellstungu. Förum nokkra tugi metra eftir þeim vegi til vesturs, og síðan áfram suður að Smjörhóli vestan Hafrafells og austan Smjörhólsfells. Sunnan Smjörhóls beygjum við til vesturs niður að Ferjubakka við þjóðveg 85. Þaðan er stutt leið með þeim vegi að brúnni á Jökulsá á Fjöllum. Við förum yfir brúna og fylgjum þjóðvegi 85 um Kelduhverfi, framhjá afleggjara að Tóvegg og Ávegg. Höldum síðan beint norður frá þjóðveginum að Bakkahlaupi og síðan norðvestur með hlaupinu, um Teigjur milli hlaupsins og Skjálftavatna. Förum norður og vestur fyrir Skjálftavötn og komum þar á slóð um eyðibýlið Þórunnarsel að Syðri-Bakka við Bakkahlaup.

55,3 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Klíningsskarð, Rauðhólar, Þverárhyrna, Öxarfjarðarheiði, Hafrafellsleið, Hljóðaklettar, Keldunesheiði.
Nálægar leiðir: Vellankatla, Beltisvatn, Hólaheiði, Hólsstígur, Ærlækjarsel, Urðir, Súlnafell, Hestatorfa, Dettifossvegur, Hrútafjöll, Bláskógavegur, Krossdalur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson

Öxarfjarðarheiði

Frá Sandfellshaga í Öxarfirði að Sævarlandi í Þistilfirði.

Til skamms tíma var þetta bílvegurinn yfir Öxarfjarðarheiði og áður póstleið. Aðalleiðin frá Öxarfirði til Þistilfjarðar. Hestamenn fara frekar um Rauðhóla og Svalbarðsskarð. Jón Trausti rithöfundur átti um skeið í æsku heima í Hrauntanga.

Byrjum við þjóðveg 85 í Öxarfirði, þar sem hefst þverleiðin yfir Öxarfjarðarheiði rétt norðan við Klifshaga. Við fylgjum þjóðvegi 867 austur í Þistilfjörð. Förum fyrst austur í Sandfellshaga og síðan upp brekkurnar milli Sandfells að sunnan og Þverárhyrnu að norðan. Við förum sunnan við Kálfhól og Kerlingarhrygg. Síðan förum við sunnan við eyðibýlið Hrauntanga. Austan eyðibýlisins förum við hjá fjallaskálanum á Öxarfjarðarheiði. Við höldum áfram austur og upp í Helgafell, þar sem við náum 400 metra hæð. Við förum áfram norðaustur fellið að brekkunum yfir Stóra-Viðarvatni. Við förum þjóðveginum þangað til hann beygir til norðurs. Þar förum við til suðurs eftir gamalli leið um Þjófaklettabrekkur og kjarri vaxnar hlíðar niður að Sævarlandi.

40,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Öxarfjarðarheiði: N66 10.209 W16 03.852.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Hafrafellsleið, Þverárhyrna, Djúpárbotnar, Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Urðir, Biskupsás, Sléttuvegur, Ferðamannavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Öræfatunga

Frá Leppistungum á Hrunamannaafrétt að Lambafellum.

Förum frá fjallaskálanum í Leppistungum á Hrunamannaafrétti til austurs eftir veginum til Klakks. Þegar við komum suður fyrir Stóra-Lepp, höldum við áfram austur um Öræfatungu og fyrir norðan Vestra-Rjúpnafell að Lambafellsslóð suðvestan við Lambafell.

11,2 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Öskjuleið

Frá Hrossaborg á Mývatnsöræfum um Herðubreiðarlindir að fjallaskálanum Dreka við Dyngjufjöll.

Fjölfarin sumarleið til nokkurra þekktra staða, Herðubreiðarlinda, Dyngjufjalla, Kverkfjalla og Gæsavatna. Herðubreiðarlindir eru margar og renna saman í Lindá. Þar er mikið blómaskrúð með nærri hundrað háplöntum. Einn fegursti staður landsins. Ólafur Jónsson segir: “Í Herðubreiðarlindun eru töfrar öræfa og eyðimarka dásamlega ofnir saman við klið svalandi linda og ilm af gróandi grasi.”

Byrjum við þjóðveg 1 um Mývatnsöræfi, rétt austan við Hrossaborg, í 380 metra hæð. Þar er jeppavegur suður í Öskju, sem við fylgjum. Fyrst um Grjót suður að Jökulsá á Fjöllum, suður að Ferjuási og meðfram honum vestanverðum, síðan vestan við Yztafell og aftur að Jökulsá norðan við Miðfell. Þar er fjallakofi. Við förum austan við Miðfell og Fremstafell að Grafarlöndum, þar sem við förum yfir Grafarlandaá. Síðan förum við vestan við Ferjufjall og um Grafarlönd austari að Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum í 470 metra hæð. Frá skálanum förum við áfram suður með Jökulsá. Þegar við nálgumst Hlaupfell, sveigir leiðin til vesturs að Herðubreiðartöglum. Við förum suður með töglunum austanverðum og síðan vestur yfir Vikursand fyrir sunnan Vikrafell. Þar sem við komum að Dyngjufjöllum, er fjallaskálinn Dreki í 780 metra hæð.

33,4 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Miðfellskofi: N65 23.630 W16 07.929.
Herðubreiðarlindir: N65 11.560 W16 13.390.
Dreki: N65 02.493 W16 35.710.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Péturskirkja.
Nálægar leiðir: Almannavegur, Veggjafell, Biskupaleið, Upptyppingar, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Öndverðarnes

Frá Gufuskálum á Snæfellsnesi um Öndverðarnes til Beruvíkur.

Í Wikipedia segir: “Öndverðarnes er vestasti tangi Snæfellsnes og um leið Neshrauns, sem runnið er úr Öndverðarneshólum og Saxhólum. Á Öndverðarnesi var á árum áður mikil útgerð og margar þurrabúðir, en hún hefur nú verið í eyði frá árinu 1945. Jörðin er ríkisjörð og má sjá nokkrar rústir, auk þess sem að þar er rekinn viti. Þar má og finna haglega hlaðinn djúpan og að nokkru yfirbyggðan brunn, er ganga má niður í eftir nokkrum steinþrepum. Brunnurinn, sem nefndur er Fálki var áður eina vatnsból Öndverðarness og er hann ævaforn og friðaður með öllu. Sagan segir og var sú trú manna, að í Fálka væri að finna þrjár ólíkar lindir. Var ein með fersku vatni, önnur bar með sér einkenni ölkeldu og sú þriðja keim af salti.”

Förum frá Gufuskálum með ströndinni vestur á Öndverðarnes og síðan suður um Neshraun og Öndverðarneshóla til eyðiþorpsins í Beruvík.

16,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Beruvík.
Nálægar leiðir: Ennisdalur, Ólafsvíkurenni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ölvesvatn

Frá Hvalnesi á Skaga um syðra Ölvesvatn að Refshalaleið við Fossá.

Byrjum við þjóðveg 745 sunnan við Hvalneslæk á Skaga. Förum til vestsuðvesturs fyrir sunnan Melrakkafell að Fossvatni. Síðan til suðsuðvesturs fyrir austan Ölvesvatn, um Bekki og síðan vestan við Selvatn. Suðsuðvestur um Hnausabrekkur og fyrir vestan Hraunvatn. Síðan á Fossbungu og á Refshalaleið við Fossá.

12,9 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Refshali, Bjarnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ölkelduháls

Frá Kolviðarhóli um Ölkelduháls til Villingavatns í Grafningi.

Förum frá Kolviðarhóli upp Hellisskarð/Yxnaskarð og höldum okkur síðan milli hrauns og hlíða. Eftir því kallast leiðin stundum “Milli hrauns og hlíða”. Við förum austnorðaustur í Skarðsmýri, norðan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Þaðan förum við austur yfir Hengladalaá og áfram austur á Ölkelduháls í 400 metra hæð. Vestur yfir Folaldaháls og sunnan við Kyllisfell, þar sem við beygjum til norðausturs í Laxárdal. Þaðan austnorðaustur um Selháls og síðan norðaustur að þjóðvegi 360 norðan við Gnípur við Úlfljótsvatn í Grafningi. Einnig er hægt að koma niður að Króki og fara síðan um Villingavatn og Dráttarhlíð yfir Sogið.

13,9 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Þrengsli, Lágaskarð, Hellisheiði, Hengladalaá, Ölfusvatnsá, Hagavík, Dráttarhlíð, Reykjadalur, Klóarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ölfusvatnsá

Frá Kolviðarhóli til Ölfusvatnsár við þjóðveg 360 í Grafningi.

Hér er lýst meginleiðinni. Af brún Hellisskarðs er útsýni til Reykjavíkur. Þegar komið er austur í Þverárdal má fara norður að Nesjavöllum eða til Hagavíkur.

Förum frá Kolviðarhóli upp Hellisskarð/Yxnaskarð og höldum okkur síðan milli hrauns og hlíða. Eftir því kallast leiðin stundum “Milli hrauns og hlíða”. Við förum austnorðaustur í Skarðsmýri, norðan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Við förum norðaustur yfir Ölkelduháls austan Hengils og norðaustur og niður í Þverárdal. Förum norðvestur með Ölfusvatnsá norðan við Hrómundartind og Stapafell og sunnan við Mælifell og Sandfell. Síðan meðfram Ölfusvatnsárgljúfri að sunnanverðu, og loks austan við Selhól norðnorðaustur að þjóðvegi 360 í Grafningi við Ölfusvatnsá.

11,5 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Þrengsli, Lágaskarð, Hellisheiði, Hengladalaá, Ölkelduháls, Hagavík, Dráttarhlíð, Reykjadalur, Klóarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Öldumóða

Frá Gafli í Svínadal um Öldumóðuskála að Arnarvatni.

Þetta er ein af nokkrum húnvetnskum leiðum, sem lágu suður á Skagfirðingaveg um Stórasand. Aðrir heiðavegir á svæðinu eru: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Grettishæð er talin vera sami staður og Grettishúfa, þar sem Grettis saga segir, að Þorbjörn önglull hafi grafið höfuð Grettis Ásmundarsonar.

Förum frá Gafli til suðurs vestan Hrafnabjargartjarnar og Kúputjarnar, Friðmundarvatns og Eyjatjarnar. Síðan yfir Vatnsdalsá og austan og sunnan Rifkelshöfða. Þaðan suður að Öldumóðu og svo austan við Þjófahæðir suður á Grettishæð. Við förum suðvestur um Stórasand um Beinkerlingu og Ólafsvörður norðan Bláfells að Skammá við Arnarvatn.

31,1 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Nálægir ferlar: Sandkúlufell, Bláfell, Suðurmannasandfell, Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Aðalbólsheiði, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Þverflár, Úlfkelshöfði, Dalsbunga, Friðmundarvatn, Áfangi, Stórisandur, Grímstunguheiði, Skagfirðingavegur, Forsæludalur, Gilsárvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Öldugilsheiði

Frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd að Leiru í Leirufirði.

Sjaldan farin, en einkum ef leiðin lá til Hrafnfjarðar.

Förum frá Unaðsdal norðaustur Unaðsdal og bratt upp í Álfsskarð. Þar uppi víkjum við til austurs frá leiðinni um Dynjandisskarð. Förum norður með Rjúkandi, sem kemur úr Öldugilsvatni. Stefnum í Öldugilsheiðarskarð í 550 metra hæð milli tveggja hóla. Þar taka við hjallar með lágum klettum. Klettabrún blasir við í norðri, Krubbuhorn syðra. Við förum austan við hornið og stefnum á bæinn Leiru. Hlíðin er brött, en vel gróin.

14,0 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta
Erfitt fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Kaldalón, Vébjarnarnúpur, Dynjandisskarð, Leirufjall, Hrafnfjörður, Rjúkandisdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Öldufell

Frá Brytalækjum á Mælifellssandi um Öldufell til Hrífuness í Skaftártungu.

Í Brytalækjum gerðu fjallmenn og bændur sér glaðan dag fram á tuttugustu öld. Öldufell er hátt og hrikalegt fjall í jaðri Mýrdalsjökuls. Sunnan Öldufells eru Einhyrningsfjöll, þar sem svo gróðursælt var á fyrri öldum, að naut og hestar gengu þar úti. Fagurt útsýni er af þessari stórbrotnu leið, en hestamenn fara frekar niður með Hólmsá, þar sem er gróður og fossaniður.

Byrjum á vegamótum Fjallabaksleiðar syðri á Mælifellssandi og Öldufellssleiðar, skammt vestan Brytalækja í 530 metra hæð. Við förum þverleiðina beint suður í Öldudal mlli Öldufells að vestan og Kerlingahnjúka að austan. Síðan förum við suðaustur fyrir Loðnugiljahaus og niður brekkurnar að Hólmsá að fjallaskálanum í Framgili í 190 metra hæð. Síðan förum við áfram með jeppaveginum suður á við og síðan til austurs fyrir sunnan Atlaey og suðurenda Hrísnesheiðar í Hrafnshóli að þjóðvegi 209 um Skaftártungu, í 80 metra hæð, rétt sunnan við Hrífunes.

34,7 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Framgil : N63 42.655 W18 43.259.

Nálægir ferlar: Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Hólmsá, Mýrdalssandur, Skaftártunguleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ærhólar

Frá Stóra-Meitilsleið að Vindheimum í Ölfusi.

Förum af Stóra-Meitilsleið undir Lönguhlíð, förum að þjóðvegi 39, skamman veg með honum og síðan suður að Vindheimum í Ölfusi.

4,3 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Stóri-Meitill

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ærlækjarsel

Frá Ferjubakka í Öxarfirði um Ærlækjarsel og Sandá að Núpum í Öxarfirði.

Förum frá Ferjubakka eftir slóð til norðurs meðfram Sandá og um Skinnastað áfram norður Randir á þjóðveg 866. Þar förum við suðvestur yfir brú á veginum yfir Sandá og síðan suðvestur að Bakkahlaupi. Þaðan norðvestur með Bakkahlaupi að Ytri-Bakka. Síðan norðaustur um Skóga og Ærlækjarsel að Hróastöðum við Sandá. Loks yfir Sandá að Núpum í Öxarfirði.

26,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Keldunesheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Æðarvötn

Frá Skinnalóni á Melrakkasléttu suður á Raufarhafnarveg.

Förum frá Skinnalóni til suðurs fyrir austan Æðarvötn og síðan um Stórholt að Raufarhafnarvegi, sem liggur frá Blikalóni til Raufarhafnar.

3,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Raufarhafnarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Æðarvatn

Frá Álftárósi á Mýrum um Æðarvatn að Urriðaá á Mýrum.

Förum frá heimreið Álftáróss suðaustur á þjóðveg 533 og yfir hann til austsuðausturs sunnan við Æðarvatn og norðan við Heyvatn. Síðan austur um Þrætutjörn á leið um Urriðaá.

7,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Hjörsey, Akrar.
Nálægar leiðir: Urriðaá, Saurar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort