Þjóðleiðir

Þversum Ísland

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

? km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur, Eyjafjörður, Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Suðurárhraun, Kiðagil, Ingólfsskáli, Skagfirðingavegur, Norðlingafljót, Skarðheiðarvegur, Múlavegur, Löngufjörur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þverflár

Frá Marðarnúpi í Vatnsdal að Hrafnabjörgum í Svínadal.

Bratt er frá Marðarnúpi austur á fjallið, en þó er þar skýr reiðgata.

Förum frá Marðarnúpi í sneiðingum suðaustur og upp á Marðarnúp. Síðan til austnorðausturs um Marðarnúpsfjall og yfir Þverflár. Suðaustan við Leirtjarnir og sunnan við Axlir í 570 metra hæð. Næst austur og niður með Kaldaklofslækjum að norðanverðu. Loks norðnorðaustur að eyðibýlinu Marðarnúpsseli sunnan við Hrafnabjörg.

12,0 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Öldumóða, Úlfkelshöfði, Dalsbunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þverfjall

Tengileið á fjallinu milli Botnsheiðar og Breiðadalsheiðar.

Tengir saman Skutulsfjörð, Súgandafjörð og Önundarfjörð.

Byrjum á fjallveginum um Botnsheiði. Förum um Efra-Austmannafjall, austan Þverfjalls, í 500 metra hæð að fjallveginum um Breiðadalsheiði.

3,0 km
Vestfirðir

Skálar:
Kristjánsbúð: N66 02.376 W23 17.432.

Nálægar leiðir: Botnsheiði, Breiðadalsheiði, Nónhorn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þverdalur

Frá Hvammi í Dölum um Þverdal og Traðardal til Kjarlaksvalla í Saurbæ.

Þessarar leiðar er getið í Sturlungu, en hefur sjaldan verið farin.

Förum frá Hvammi norðaustur Skeggjadal og áfram norðaustur Þverdal. Upp úr dalbotninum á leið um Nónborg norðvestur undir Skeggaxlarskarð. Þaðan norðnorðaustur um Dragatungur niður í Traðardal og síðan norðaustur Traðardal að Kjarlaksvöllum.

19,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Nónborg, Hvammsá, Náttmálahæðir, Flekkudalur, Sælingsdalur, Sælingsdalsheiði, Búðardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Þverdalsdrög

Frá Neðri-Miðvík í Aðalvík um Þverdalsdrög til Húsatúns í Aðalvík. Hestfær leið og allgreið.

Förum frá Neðri-Miðvík suðaustur um Efri-Miðvík og síðan suðsuðaustur á fjallið. Þegar upp í skarðið er komið í 380 metra hæð, beygjum við til vesturs og síðan til norðvesturs um Þverdalsdrög niður í Þverdal. Þaðan vestur að Húsatúni.

8,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hesteyrarskarð, Aðalvík, Sléttuheiði, Hraunkötludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Þverárjökull

Frá Þverá í Svarfaðardal um Þverárjökul að Hólum í Hjaltadal.

Ætíð fáfarinn.

Förum frá Þverá suðvestur upp í Þverárdal og eftir löngum dalnum sunnanmegin inn í botn. Upp botninn förum við vestur í stefnu á Jökulhnjúk. Sveigjum síðan til suðvesturs upp í skarðið fast við hnjúkinn í 1080 metra hæð. Þaðan förum við vestur og niður í Skíðadal, norðan megin í dalnum, og þaðan út í Kolbeinsdal. Vestan Fjallsréttar förum við suður yfir Hálsgróf til Hóla.

29,7 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Mjög bratt

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.

Nálægar leiðir: Heljardalsheiði, Héðinsskarð, Hólamannavegur, Tungnahryggur, Hákambur, Skíðadalsjökull, Heiðinnamannadalur, Holárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Þverárhyrna

Frá Efri-Hólum í Núpasveit um fjallabaksleið að Sandfellshaga í Öxarfirði.

Þetta er leið um grónar heiðar að fjallabaki, aftan við flata móbergshnjúkinn Valþjófsstaðafjall og píramídalaga Þverárhyrnu. Fyrst er farið yfir gróið Rauðhólahraun og síðan reiðgötu um vel gróna haga. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð fyrr en komið er á veginn um Öxarfjarðarheiði.

Förum frá Efri-Hólum veginn vestur að Presthólum. Áður en við komum að bænum beygjum við út af veginum til suðurs í áttina að Valþjófsstaðafjalli. Beygjum síðan austur með norðurhlið fjallsins, förum um Leynidal og síðan um skarðið milli Valþjófsstaðafjalls og Hálsa. Förum svo þvert suður Arnarstaðadal og síðan austur og upp dalinn og síðan til suðurs sama dal, þar sem hann heitir Fremridalur. Þar förum við milli Ytra-Horns og vestan við Sandfellshaga að rétt neðan við bæinn.

27,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Rauðhólar, Öxarfjörður, Öxarfjarðarheiði, Hafrafellsleið.
Nálægar leiðir: Hólaheiði, Hólsstígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þverárbugar

Frá þjóðvegi 50 við afleggjara að Hamraendum í Stafholtstungum um Þverárbuga að þjóðvegi 522 við Hjarðarholt.

Förum frá þjóðvegi 50 suðaustur að Þverá og meðfram ánni, unz við erum andspænis Neðra-Nesi. Förum þar á vaði yfir ána og síðan bugana upp með ánni að austanverðu. Þegar við komum að veiðivegi að Hvítá, förum við norður yfir Þverá og með henni að austanverðu að þjóðvegi 50. Þar förum við á brú austur yfir ána og síðan norður með ánni austanverðri og loks vestanverðri að þjóðvegi 522 við Hjarðarholt.

13,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Erfitt fyrir göngufólk

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Þúfur

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Skjaldabjarnarvík um Þúfur til Bjarnarfjarðar.

Þessi leið er líka kölluð Spónagata. Sæta verður sjávarföllum.

Þúfurnar eru þrír grasi vaxnir sandhólar. Sagan segir, að í neðsta hólnum sé skip Skjalda-Bjarnar, í miðhólnum séu gull hans og gersemar og að hann sé sjálfur heygður í efsta hólnum.

Förum frá Skjaldabjarnarvík með ströndinni austur í Þúfur. Síðan til suðurs um fjöru, kleifar og klettarið undir Rönd til Selvíkur og Skaufasels og áfram suðvestur undir fjallinu til Bjarnarfjarðar.

7,8 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta

Nálægar leiðir: Fossasdalsheiði, Reykjafjarðarháls, Miðstrandir, Drangajökull.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Þrívörðuháls

Frá Sauðabanalæk ofan við Bessastaði í Fljótsdal um Þrívörðuháls að Klausturseli í Jökuldal.

Hluti gamla sýsluvegarins af Héraði um Klaustursel og Sænautasel í Möðrudal. Meginleiðin lá hins vegar vestur um Vegkvíslar að Brú á Jökuldal. Milli Hákonarstaða og Klaustursels í Jökuldal er elsta akfæra brú landsins. Sérsmíðuð í Bandaríkjunum, flutt í hlutum hingað, hnoðuð saman á staðnum og sett upp 1908.

Byrjum hjá þjóðvegi 910 við Sauðabanalæk. Förum norðvestur á Vegufs. Við förum norður og síðan norðaustur um Miðheiðarháls og Þrívörðuháls og síðan í Grautarflóa upp af Jökuldal. Þar förum við niður með Fossá, fyrst norðvestur og síðan norðaustur að Jökulsá á Dal við Klaustursel.

21,4 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Vegkvíslar, Fljótsdalsheiði, Eyvindará, Merkisgreni, Sænautafell, Eiríksstaðavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þríhyrningsleið

Frá Öskju yfir Dyngjufjalladalsleið að Öxnadalsá á Bárðargötu.

Byrjum við skálann Dreka við Öskju. Förum suður með Dyngjufjölum og austur fyrir Dyngjuvatn og vestan við Vaðöldu. Þar beygjum við til suðvesturs, síðan til vesturs og norðvesturs, unz við komm á Dyngufjallaleið sunnan við Kattbekking. Förum norðvestur og síðan vestur jeppaslóðina F910 fyrir norðan Þríhyrning og Trölladyngju, mest í 800 metra hæð. Komum að Bárðargötu við Öxnadalsá.

67,9 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært
Athugið nýtt Holuhraun

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög.
Nálægar leiðir: Dyngjufjalladalur, Gæsavötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Þríhyrningur

Frá Goðalandi í Fljótshlíð að Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Hér eru Njáluslóðir um allt. Á leiðinni upp í Vatnsdal er Höskuldslág, þar sem Höskuldur Njálsson var veginn í Njálssögu. Úr Vatnsdal er farið upp í Þríhyrning, þar sem Flosi Þórðarson er talinn hafa hulizt með mönnum sínum eftir Njálsbrennu. Norðan Þríhyrnings voru áður margir bæir, en þeir eru allir komnir í eyði. Keldur eru einn sögufrægasti sveitabær landsins, miðstöð Oddaverja. Þar bjó Jón Loftsson og síðar Hálfdán Sæmundarson, sem kemur mjög við sögu í Sturlungu. Gamli torfbærinn á Keldum er með merkari menningarsögulegu minjum í landinu.

Byrjum við réttina hjá Kirkjulæk í Fljótshlíð. Förum eftir þjóðvegi 261 til vesturs að mótum fjallvegar um Vatnsdal. Förum þann veg til norðurs, framhjá skógræktinni á Tumastöðum, síðan norður og upp Tungu milli Fjallgarðs að austan og Sléttafells að vestan. Þar komum við að eyðibýlinu Vatnsdalskoti undir Vatnsdalsfjalli. Förum síðan til norðausturs með fjallinu, í stefnu á norðurhlið Þríhyrnings. Förum síðan norður Engidal, yfir Fiská, norður með vesturhlið Reynifellsöldu að eyðibýlinu Reynifelli. Þaðan förum við til norðvesturs á brú yfir Eystri-Rangá og síðan með þjóðvegi um Keldur vestur að þjóðvegi 264 um Rangárvelli. Með þeim vegi förum við til vesturs að Gunnarsholti.

25,8 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fljótshlíð, Hungurfit, Grasleysufjöll, Knafahólar, Heklubraut.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þrengsli

Frá Kolviðarhóli að Litlalandi í Ölfusi.

Hin gamla Þrengslaleið hestaaldar liggur austar en núverandi bílvegur um Þrengslin. Fylgir gróðurræmu milli hrauns og hlíða frá Kolviðarhóli suður fyrir Litla-Meitil. Þetta er ein af mörgum leiðum Hellisheiðar austur í Ölfus.

Förum frá Kolviðarhóli, þar sem áður var gististaður ferðafólks. Förum suður með fjallshlíðinni við hraunjaðarinn. Fyrst meðfram Stóra-Reykjafelli og klöngrumst yfir þjóðveg 1. Áfram meðfram Litla-Reykjafelli, Stakahnúki, þar sem við erum í 250 metra hæð, Stóra-Meitli og Litla-Meitli, þar sem fjallgarðinum lýkur við Votaberg. Öll þessi leið var milli hrauns og hlíða. Nú stefnum við út á hraunið og förum austan við Sandfell, yfir Þrengslaveg bílanna og síðan vestan við Krossfjöll. Þar sveigjum við til suðausturs og förum niður Fagradal að eyðibýlinu Litlalandi.

17,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Dyravegur, Ólafsskarð, Lágaskarð, Skóghlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þóruskarð

Frá Engidal í Skutulsfirði að Seljalandi í Álftafirði.

Ekki fær hestum.

Á Vestfjarðavefnum segir m.a.: “Þegar komið er að Þóruskarði sunnan Vatnahnjúks, fer leiðin að verða brattari og getur verið svolítið brölt að komast upp í skarðið. Þegar komið er niður úr skarðinu, er ganga auðveld meðfram ánni niður á Seljaland í Álftafirði.”

Förum frá Engidal suður Engidal og suðaustur dalsdrögin og fyrir sunnan Vatnahnjúk austur í Þóruskarð í 720 metra hæð. Þaðan suðaustur í Svarfhólsdal og austur með ánni að Seljalandi.

11,1 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Álftafjarðarheiði, Hestskarð vestra, Lambadalsskarð, Breiðadalsheiði, Botnsheiði, Nónhorn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þóristindur

Frá Hrauneyjum um Þóristind að slóðum til Jökulheima og Veiðivatna.

Tengileið milli hótelsins í Hrauneyjum og Veiðivatna.

Förum frá hótelinu í Hrauneyjum meðfram þjóðvegi til austurs og síðan áfram austur á vegi 228 fyrir norðan Fellsendavatn og Þóristind að vegamótum til Botnavers. Á vegamótunum beygjum við til suðausturs að öðrum vegamótum til Veiðivatna og Jökulheima.

26,9 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson