Norður-Þingeyjarsýsla

Kollavíkurskarð

Frá Kollavík í Þistilfirði yfir Fjallgarð á Seljaheiði í Þistilfirði.

Förum frá Kollavík vestur að Fjallgarði og síðan suðvestur með Kjarngili í Kollavíkurskarð. Þaðan vestur fyrir Fjallgarð yfir á Melrakkasléttu.

4,9 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Sléttuvegur, Hólaheiði, Hófaskarð, Krossavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Klíningsskarð

Frá Raufarhöfn um Melrakkasléttu til Kópaskers.

Ein af mörgum leiðum þvert yfir Melrakkasléttu. Ekki eins þekkt frá fornu fari og Hólsstígur, sem er nokkru sunnar, en hún er greiðfærari nú á tímum. Melrakkaslétta er flatlend með víðáttumiklu votlendi, ám, stöðuvötnum og tjörnum. Gróður og dýralíf einkennist af kaldri veðráttu. Hér eru mikilvægar fellistöðvar grágæsar og viðkomustaður rauðbrystings. Flórgoði var algengur varpfugl á Melrakkasléttu, 150-200 pör, en er nú að mestu horfinn vegna minks.

Förum frá Raufarhöfn suður með þjóðvegi 85 langleiðina að Höfða. Vestan okkar liggur slóð um læst hlið. Annað hvort fáum við bóndann á Höfða til að opna hliðið eða við klippum okkur í gegn, því að læsingin er ólögleg samkvæmt Járnsíðu og náttúruverndarlögum frá 1999. Fyrst fylgjum við veiðivegi norðan Hólsvatns og norðvestan Ytra-Deildarvatns, um eyðibýlið Grashól. Tveimur kílómetrum vestan vatnsins skiljast leiðir. Ein leiðin og sú greinilegasta liggur vestur í átt til Blikalóns og Kópaskers. Við förum þá leið vestur, framhjá afleggjara sunnan Hvanntjarnar til norðvesturs að fjallaskála á Melrakkasléttu. Við förum hins vegar suðvestur beina leið um Kambás að suðurenda Leirhafnarfjalla. Þar förum við suður fyrir enda Leirhafnarfjalla um Klíningsskarð og síðan niður Tumahlíðar að Snartarstöðum við Kópasker.

33,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Fjallgarður, Blikalónsdalur, Öxarfjörður.
Nálægar leiðir: Raufarhafnarvegur, Hólsstígur, Beltisvatn, Vellankatla.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson og Herforingjaráðskort

Keldunesheiði

Frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi til Heiðarbótar í Reykjahverfi.

Bláskógavegur og Keldunesheiði liggja um grónar heiðar Kelduhverfis, sundurskornar af gjám, sem liggja norður í framhaldi af Gjástykki. Þetta er dulmagnað heiðarland. Bezt er að fylgja slóðum dráttarvéla, því að víða leynast gjár undir grónu yfirborði. Einnig af því, að víða er kargaþýfið erfitt yfirferðar. Heiðin er óvenjulega vel gróin, þótt hraunið standi sums staðar upp úr. Hér er mikið af litskrúðugum blómum. Beitilyng, krækiberjalyng, sortulyng og fjalldrapi, gulvíðir og grávíðir, birki og reyniviður. Og mikil fugladýrð, þrestir, maríuerlur, sólskríkjur og margar fleiri tegundir.

Förum frá Syðri-Bakka/Þórseyri við Bakkahlaup suður framhjá eyðibýlinu Þórunnarseli, meðfram Skjálftavötnum að vestan, að Lindarbrekku og þaðan vestur á þjóðveg 85 um Kelduhverfi. Við förum yfir þjóðveginn og suðvestur um Keldunesheiði. Förum suðvestur um Ólafsborgarhæðir og Garðsheiði að Dimmadalsás sunnanverðum og síðan áfram suðvestur að Reykjaheiðarvegi. Þeim vegi fylgjum við til vesturs gegnum hlið við Rauðhól og síðan sunnan undir Sæluhúsmúla. Þaðan förum við þvert vestur heiðina að Höfuðreiðarmúla. Fylgjum fjallgarðinum til vesturs um Árnahvamm í 300 metra hæð og síðan suðvestur um Geldingadal, yfir Grjótgil og niður í Skógabotna, að Tröllagili. Þar beygjum við til vesturs að Heiðarbót.

43,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Þeistareykir, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Krossdalur, Ærlækjarsel, Bláskógavegur, Sæluhúsmúli, Reykjakvísl.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson

Jörundur & Eilífur

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum um Jörund og Eilíf að Ási í Kelduhverfi.

Áður fyrr var þetta önnur aðalleiðin milli Mývatns og Kelduhverfis. Í Austaraseli bjó upp úr miðri nítjándu öld Jón gæzka Jónsson, sem sagður var hafa skorið grastoppa með hníf og tínt í poka til vetrarfóðurs. Í Hlíðarhaga við Eilífsvatn var búskapur á síðari hluta 19. aldar.

Byrjum á þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum við farveginn Austaraselslind. Förum um eyðibýlið Austarael og norðaustur yfir Jörundargrjót að fjallinu Jörundi. Förum um skarð milli fjallsins og smáfells suðvestan þess. Síðan meðfram Jörundi að vestanverðu og sveigjum þar til norðausturs fyrir Hágöng. Síðan aftur til norðurs að fjallaskálanum Hlíðarhaga við Eilífsvatn. Förum austan vatnsins og síðan austan fjallsins Eilífs og þvert norður yfir Grjótháls og Svínadalsháls niður í Svínadal í Kelduhverfi. Þaðan er reiðleið um Jökulsár-þjóðgarðinn, sem nú er orðinn hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Leiðin merkt sem slík í Ásheiði, og komið niður að þjóðvegi 85 við Ás í Kelduhverfi.

32,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Hlíðarhagi: N65 45.845 W16 36.845.
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000. Hestagirðing

Nálægir ferlar: Péturskirkja, Sund, Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Dettifossvegur, Dettifoss, Hólmatungur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Höskuldsvatn

Frá Einarsstöðum í Reykjahverfi til vegamóta vestan við Höskuldsvatn.

Förum frá Einarsstöðum austnorðaustur eftir jeppaslóð til vegamóta á Reykjaheiði vestan við Höskuldsvatn.

7,0 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Keldunesheiði
Nálægar leiðir: Sæluhúsmúli, Reykjakvísl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hvannstaðir

Frá fjallaskálanum Sandskála á Hólsfjöllum um Búrfellsheiði að fjallaskálanum Hvannstöðum í Álandstungu í Þistilfirði.

Ein stærsta gróna heiði landsins umhverfis Búrfell, sem stendur eitt sér á miðri heiði. Mýrlend heiði í 200-300 metra hæð, þakin vötnum og tjörnum með mýrum og mólendi á milli. Hún er beitiland Öxarfjarðar, Hólsfjalla og Þistilfjarðar, landsins bezta sauðfjárland.  Fyrrum voru nokkur býli á heiðinni og við förum hjá sumum þeirra á leiðinni niður Álandstungu til sjávar. Um heiðina renna ýmsar ár, Svalbarðsá, Sandá, Hölkná, Laxá og Hafralónsá þeirra þekktastar. Við fylgjum fyrst Sandá og síðan Hölkná. Önnur leið um heiðina er norður með Hvannstaðafjallgarði í Laufskála og síðan niður með Svalbarðsá til byggða.

Frá Sandskála í 460 metra hæð krækjum við í tæplega 500 metra hæð suður fyrir Mynnisöxl um Hólsmynni og síðan norður á Búrfellsheiði. Við förum milli Hvannstaðafjallgarðs að vestan og Sandár að austan. Þegar við komum nálægt suðausturhorni Búrfells við eyðibýlið Foss, beygir Sandá til austurs og við fylgjum henni. Frá eyðibýlinu Halldórskoti liggur slóðin aftur meira til norðurs og við förum yfir Sandá austan við Stóra-Mosfell. Síðan um eyðibýlið Vatnsenda milli Vatnsendavatns og Vatnsendahnjúks. Þar er gangnamannaskálinn Hvannstaðir í bændaeigu.

32,1 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sandskáli: N65 52.389 W16 05.880.
Vatnsendi (Hvannstaðir): N66 00.625 W15 45.510.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sæmundur Eiríksson og Herforingjaráðskort

Hrútafjöll

Frá Lyngási í Kelduhverfi um Hrútafjöll að jeppaslóð frá Hólsfjöllum að Draugagrundarvegi til Kröflu.

Förum frá Lyngási suður að Undirvegg og síðan jeppaslóð áfram suður um Gjástykki að Mófelli. Suður með Mófelli að vestanverðu og suður að Hrútafjöllum austanverðum. Suður með þeim að jeppaslóð frá Hólsfjöllum að Kröflu um Draugagrund.

28,9 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Bláskógavegur, Draugagrund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hólsstígur

Frá Valþjófsstöðum í Núpasveit um Hólsstíg að Raufarhöfn. “Hólsstígur er oft bráðófær á vetrardag og ekki fjölfarinn hvorki vetur, vor né sumar, síðan uppsigling fékkst til Kópaskers; á honum er slæmur vegur, og mjög villugjarn á vetrum.” Svo segir Þórleifur Jónsson í Þjóðólfi 1893.

Förum frá Valþjófsstöðum norðaustur í Efri-Hóla. Förum Hólsstíg norðaustur Melrakkasléttu, suðaustan Álftatjarnar og um Kerlingarhraun, á Miðleiðisöldu. Síðan norðvestan Hólmavatns og um Grashól. Við förum til norðausturs fyrir vestan Ytra-Deildarvatn og Hólsvatn. Förum norður Voga að Raufarhöfn.

34,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Þverárhyrna, Rauðhólar, Klíningsskarð, Blikalónsheiði, Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Hólaleiði, Beltisvatn, Sléttuvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hólsfjöll

Frá Grímsstöðum á Fjöllum í Sandskála við Hólsmynni.

Hólsfjöll ná frá Jökulsá á Fjöllum að Dimmafjallgarði og Haugsöræfum. Hæsta og afskekktasta sveit landsins, sem nú er að mestu í eyði. Þarna var fyrst byggt á Hóli á 14. öld og síðar á Grímsstöðum.  Hólssel byggðist í kringum 1650.  Um miðja 19. öld spruttu upp nýbýli á Hólsfjöllum og sveitin var gerð að sérstakri sókn með kirkju á Víðirhóli.  Þarna bjuggu hundrað manns árið 1859. Hólsfjallahangikjötið var rómað fyrir gæði og óvíða annars staðar voru sauðir jafn vænir og á Hólsfjöllum. Nú er aðeins búið á Grímsstöðum og Grímstungu. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð, að minnsta kosti ekki þegar farið er að nálgast Mynnisöxl.

Förum frá Grímsstöðum norður jeppaslóð um Hólsfjöll. Við förum um gróið land með lækjum og vötnum og hálendisgróðri. Á eystri hönd er fjallgarðurinn sunnan Mynnisaxlar, oft kenndur með einu nafni við fjallið Haug og kallaður Haugsöræfi. Um þau liggur leið austur í Vopnafjörð. Fyrst förum við um Grundarhól og Strilli. Förum framhjá afleggjara til vesturs að Nýhól. Síðan vestan og norðan Viðarvatns að Víðirhól og áfram norður meðfram Víðirhólsfjallgarði og síðan norður um Stóruhæð. Förum til norðurs vestan Bunguvatns og síðan vestan Mynnisvatns norður að vesturhlíð Mynnisaxlar. Leiðin niður í Þistilfjörð liggur austan Mynnisvatns. En við höldum áfram í norður. Að síðustu förum við austan og norðan Silungavatns að fjallaskálanum Sandskála, sem er í 460 metra hæð og hálfum öðrum kílómetra frá Silungavatni.

29,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Grímsstaðir: N65 38.615 W16 07.050.
Sandskáli: N65 52.389 W16 05.880.

Nálægir ferlar: Péturskirkja, Álandstunga.
Nálægar leiðir: Dimmifjallgarður, Heljardalur, Haugsleið, Hestatorfa, Smjörbítill.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Sæmundur Eiríksson

Hólmatungur

Frá Svínadal í Hólmatungum að vegi 862 á Dettifossleið.

Þetta er aðeins gönguleið. Fylgið merkingum þjóðgarðsins.

Um Hólmatungur segir svo á Norðurlandsvefnum: “Hólmatungur er mjög gróskumikið svæði í Jökulsárgljúfrum og eru þar margar fagrar stuðlabergsmyndanir. Göngusvæðið á milli Hljóðakletta og Hólmatungna meðfram Jökulsá á Fjöllum er með því allra fegursta á landinu. Óteljandi lindir spretta upp í Hólmatungum og vatnið fellur af stalli niður í Jöklu. Þar er einnig að finna Gloppuhelli í Gloppu, sem er sérstök náttúrusmíð.”

Förum frá Svínadal suðaustur yfir Myllulæk, norður og austur fyrir Þúfubjarg. Síðan yfir Brandslæk og suður á Hnausa vestan Fossgils, og uppi á veg 862 á Dettifossleið.

5,5 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000. Aðeins næturhólf

Nálægir ferlar: Klappir, Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Jörundur & Eilífur, Dettifoss, Dettifossvegur, Hljóðaklettar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hólaheiði

Frá Presthólum í Núpasveit til Kollavíkur í Þistilfirði.

Lagður hefur verið bílvegur með slitlagi þessa leið og um framhald hennar í Hófaskarði. Því má líta svo á, að leiðin sé ekki lengur fær hestum.

Förum frá Presthólum austur um Efri-Hóla og Hildarselshraun. Síðan um Hnotastein upp á Hólaheiði. Þaðan austnorðaustur yfir Ormarsá og um Biskupsás að Fjallgarði við Kollavíkursel. Förum þaðan austur Bjarnaskarð og niður að Kollavík í Þistilfirði.

28,3 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Þverárhyrna, Rauðhólar, Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Hólsstígur, Sléttuvegur, Hófaskarð, Kollavíkurskarð, Krossavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hófaskarð

Frá Sléttuvegi á Melrakkasléttu um Hófaskarð til Kollavíkur í Þistilfirði.

Lagður hefur verið bílvegur með slitlagi þessa leið. Því má líta svo á, að leiðin sé ekki lengur fær hestum.

Rétt sunnan Hófaskarðs eru þrjú önnur skörð í Fjallgarði, Bjarnaskarð, Kollavíkurskarð og Svalbarðsskarð, sem mest er farið. Förum frá eyðibýlinu Krossavíkurseli vestur um Hófaskarð í 220 metra hæð. Síðan suðvestur og niður heiðina og síðast vestur í Kollavík á Melrakkasléttu.

5,4 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Sléttuvegur, Hólaheiði, Kollavíkurskarð, Krossavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hljóðaklettar

Frá Gilsbakka í Kelduhverfi um Hljóðakletta í Hólmatungur.

Þetta er ekki reiðleið, heldur eingöngu fyrir göngufólk. Hljóðaklettar eru sérkennileg þyrping stuðlabergskletta í mynni Vesturdals við Jökulsá á Fjöllum. Þeir eru gígtappar gígaraðar, sem síðara hamfarahlaup Jökulsár skolaði burt fyrir 3000 árum. Stuðlarnir hafa alls konar legu og ýmsar kynjamyndir. Nafnið er dregið af bergmáli af suði árniðarins. Skammt sunnan þeirra eru Karl og Kerling, hraunstandar neðst í gljúfrinu. Karlinn er 60 metra hár og Kerlingin lægri og grennri. Tröllahellir handan árinnar var bústaður þeirra áður en þau urðu að steini.

Förum frá Gilsbakka um gönguslóðina til suðurs og nálgumst Jökulsárgljúfur og förum áfram meðfram gljúfrinu. Förum um Rauðhóla og Hljóðakletta að Vesturdal og yfir Vesturdalsá. Áfram til suðurs hjá klettunum Karli og Kerlingu alla leið í Hólmatungur. Komum inn á leiðina um Hólmatungur hjá Vígabergsfossi.

16,8 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Klappir
Nálægar leiðir: Dettifossvegur, Hólmatungur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hestatorfa

Frá Smjörhóli í Öxarfirði um Hestatorfu í Sandskála á Fjöllum.

Förum frá Smjörhóli suðaustur með Hafrafelli, vestan Þrístikluvatns. Síðan suður með Dalfjalli vestanverðu, um Tungudal, að Sandskála norðan Silungavatns á Hólsfjöllum.

31,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sandskáli: N65 52.389 W16 05.880.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Hafrafellsleið, Álandstunga, Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Urðir, Súlnafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Helkunda

Frá Hafralónsá í Þistilfirði um Helkundu að Finnafjarðará í Finnafirði.

Helkunduheiði er einnig kölluð Helgundarheiði og Hallgilsstaðaheiði. Á Helkunduheiði voru til forna mörk fjórðunga og biskupsdæma.

Byrjum við brúna á Hafralónsá í Þistilfirði. Förum suður milli Hallgilsstaða og Stóralækjar. Síðan austur á Helkunduheiði, sunnan við Fiskárvötn og Krókavatn, austur í Finnafjörð við Finnafjarðará.

9,5 km
Þingeyjarsýslur, Austfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH