Klíningsskarð

Frá Raufarhöfn um Melrakkasléttu til Kópaskers.

Ein af mörgum leiðum þvert yfir Melrakkasléttu. Ekki eins þekkt frá fornu fari og Hólsstígur, sem er nokkru sunnar, en hún er greiðfærari nú á tímum. Melrakkaslétta er flatlend með víðáttumiklu votlendi, ám, stöðuvötnum og tjörnum. Gróður og dýralíf einkennist af kaldri veðráttu. Hér eru mikilvægar fellistöðvar grágæsar og viðkomustaður rauðbrystings. Flórgoði var algengur varpfugl á Melrakkasléttu, 150-200 pör, en er nú að mestu horfinn vegna minks.

Förum frá Raufarhöfn suður með þjóðvegi 85 langleiðina að Höfða. Vestan okkar liggur slóð um læst hlið. Annað hvort fáum við bóndann á Höfða til að opna hliðið eða við klippum okkur í gegn, því að læsingin er ólögleg samkvæmt Járnsíðu og náttúruverndarlögum frá 1999. Fyrst fylgjum við veiðivegi norðan Hólsvatns og norðvestan Ytra-Deildarvatns, um eyðibýlið Grashól. Tveimur kílómetrum vestan vatnsins skiljast leiðir. Ein leiðin og sú greinilegasta liggur vestur í átt til Blikalóns og Kópaskers. Við förum þá leið vestur, framhjá afleggjara sunnan Hvanntjarnar til norðvesturs að fjallaskála á Melrakkasléttu. Við förum hins vegar suðvestur beina leið um Kambás að suðurenda Leirhafnarfjalla. Þar förum við suður fyrir enda Leirhafnarfjalla um Klíningsskarð og síðan niður Tumahlíðar að Snartarstöðum við Kópasker.

33,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Fjallgarður, Blikalónsdalur, Öxarfjörður.
Nálægar leiðir: Raufarhafnarvegur, Hólsstígur, Beltisvatn, Vellankatla.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson og Herforingjaráðskort