Hólsfjöll

Frá Grímsstöðum á Fjöllum í Sandskála við Hólsmynni.

Hólsfjöll ná frá Jökulsá á Fjöllum að Dimmafjallgarði og Haugsöræfum. Hæsta og afskekktasta sveit landsins, sem nú er að mestu í eyði. Þarna var fyrst byggt á Hóli á 14. öld og síðar á Grímsstöðum.  Hólssel byggðist í kringum 1650.  Um miðja 19. öld spruttu upp nýbýli á Hólsfjöllum og sveitin var gerð að sérstakri sókn með kirkju á Víðirhóli.  Þarna bjuggu hundrað manns árið 1859. Hólsfjallahangikjötið var rómað fyrir gæði og óvíða annars staðar voru sauðir jafn vænir og á Hólsfjöllum. Nú er aðeins búið á Grímsstöðum og Grímstungu. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð, að minnsta kosti ekki þegar farið er að nálgast Mynnisöxl.

Förum frá Grímsstöðum norður jeppaslóð um Hólsfjöll. Við förum um gróið land með lækjum og vötnum og hálendisgróðri. Á eystri hönd er fjallgarðurinn sunnan Mynnisaxlar, oft kenndur með einu nafni við fjallið Haug og kallaður Haugsöræfi. Um þau liggur leið austur í Vopnafjörð. Fyrst förum við um Grundarhól og Strilli. Förum framhjá afleggjara til vesturs að Nýhól. Síðan vestan og norðan Viðarvatns að Víðirhól og áfram norður meðfram Víðirhólsfjallgarði og síðan norður um Stóruhæð. Förum til norðurs vestan Bunguvatns og síðan vestan Mynnisvatns norður að vesturhlíð Mynnisaxlar. Leiðin niður í Þistilfjörð liggur austan Mynnisvatns. En við höldum áfram í norður. Að síðustu förum við austan og norðan Silungavatns að fjallaskálanum Sandskála, sem er í 460 metra hæð og hálfum öðrum kílómetra frá Silungavatni.

29,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Grímsstaðir: N65 38.615 W16 07.050.
Sandskáli: N65 52.389 W16 05.880.

Nálægir ferlar: Péturskirkja, Álandstunga.
Nálægar leiðir: Dimmifjallgarður, Heljardalur, Haugsleið, Hestatorfa, Smjörbítill.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Sæmundur Eiríksson