Keldunesheiði

Frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi til Heiðarbótar í Reykjahverfi.

Bláskógavegur og Keldunesheiði liggja um grónar heiðar Kelduhverfis, sundurskornar af gjám, sem liggja norður í framhaldi af Gjástykki. Þetta er dulmagnað heiðarland. Bezt er að fylgja slóðum dráttarvéla, því að víða leynast gjár undir grónu yfirborði. Einnig af því, að víða er kargaþýfið erfitt yfirferðar. Heiðin er óvenjulega vel gróin, þótt hraunið standi sums staðar upp úr. Hér er mikið af litskrúðugum blómum. Beitilyng, krækiberjalyng, sortulyng og fjalldrapi, gulvíðir og grávíðir, birki og reyniviður. Og mikil fugladýrð, þrestir, maríuerlur, sólskríkjur og margar fleiri tegundir.

Förum frá Syðri-Bakka/Þórseyri við Bakkahlaup suður framhjá eyðibýlinu Þórunnarseli, meðfram Skjálftavötnum að vestan, að Lindarbrekku og þaðan vestur á þjóðveg 85 um Kelduhverfi. Við förum yfir þjóðveginn og suðvestur um Keldunesheiði. Förum suðvestur um Ólafsborgarhæðir og Garðsheiði að Dimmadalsás sunnanverðum og síðan áfram suðvestur að Reykjaheiðarvegi. Þeim vegi fylgjum við til vesturs gegnum hlið við Rauðhól og síðan sunnan undir Sæluhúsmúla. Þaðan förum við þvert vestur heiðina að Höfuðreiðarmúla. Fylgjum fjallgarðinum til vesturs um Árnahvamm í 300 metra hæð og síðan suðvestur um Geldingadal, yfir Grjótgil og niður í Skógabotna, að Tröllagili. Þar beygjum við til vesturs að Heiðarbót.

43,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Þeistareykir, Hvammsheiði.
Nálægar leiðir: Krossdalur, Ærlækjarsel, Bláskógavegur, Sæluhúsmúli, Reykjakvísl.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson