Dalir-Snæfellsnes

Straumfjarðará

Frá Skógarnesi að Stakkhamri á Snæfellsnesi.

Þetta er vestasti hluti Löngufjara. Þær eru leirur, sem koma upp á fjöru, en verða að sjó á flóði. Lögð hefur verið reiðslóð yfir mýrarnar frá Skógarnesi að Straumfjarðará. Þar heitir Tjaldtangi, sem farið er út á fjöruna. Þar handtók Jón biskup Arason árið 1549 Árna Arnórsson prófast. Ofar með ánni og vestan hennar er Búðarhamar, þar sem leiðarþing voru fyrr á öldum. Í Skógarnesi bjó á sautjándu öld Þorbjörn Þórðarson, sem kallaður var Æri-Tobbi. Í upphafi tuttugustu aldar var verzlunarstaður í Skógarnesi, fyrst frá Tangsverzlun í Stykkishólmi og síðan einnig frá Jóni Björnssyni & Co. í Borgarnesi. Þessi verzlun lagðist af upp úr 1920. Leifar sjást enn af mannvirkjum þessara verzlana.

Förum frá Skógarnesi um slóð norðvestur frá bænum og síðan eftir henni til suðvesturs og fyrir austan tún á eyðibýlinu Ytra-Skógarnesi og niður í fjöru. Fylgjum fjörunni út fyrir túnin og síðan yfir leiru upp í Tanga, þar sem er reiðslóð til norðvesturs að Straumfjarðará. Þar er Gullsteinn við fjöruna. Við förum norður fjöruna og um Tjaldtanga yfir í Landbrotavík, þar sem vaðið er. Fara þarf gætilega yfir vaðið og eingöngu á fjöru. Steinn er þar í miðri ánni og er vaðið talið fært, þegar hann sést. Einnig er hægt að fara upp eftir ánni og fara yfir hana töluvert vestar. Frá vaðinu förum við vestur um Skíðishólma. Þaðan má taka stefnu beint á bæjarhúsin í Stakkhamri og taka land norðarlega í fjörunni. Við förum hins vegar vestur í Stakkhamarsnes og fylgjum því sjávarmegin unz við komum að Stakkhamri. Þar förum við til norðurs að bænum.

12,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Löngusker.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Steinadalsheiði

Frá Gilsfjarðarbrekku í Gilsfirði um Steinadalsheiði að Undralandi í Kollafirði.

Gamall bílvegur, áður fjölfarinn, en nú lítið notaður. Andrés Guðmundsson, sonur Guðmundar ríka, fór yfir Steinadalsheiði frá Felli í Kollafirði, þegar hann hertók Reykhóla frá þeim bræðrum Birni ríka Þorleifssyni og Einari Þorleifssyni.

Förum frá Gilsfjarðarbrekku. Stutt er að Kleifum, þangað sem leið liggur um Snartartunguheiði og önnur um Krossadal. Fylgjum þjóðvegi 69 alla leiðina um heiðina. Förum norður Brekkudal milli Brekkufjalls að vestan og Þverbrúnar að austan. Síðan norðaustur á Steinadalsheiði framhjá Heiðarvatni og svo norður Þórarinsdal og norðaustur Steinadal undir Nónfjalli að vestan. Dalurinn sveigir til austurs og endar við Undraland í Kollafirði milli bæjanna Stóra- og Litla-Fjarðarhorns.

15,1 km
Vestfirðir

Jeppafært

Nálægir ferlar: Krossárdalur, Bitruháls, Snartartunguheiði.
Nálægar leiðir: Vatnadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sópandaskarð 3

Frá Torfhvalastöðum við Langavatn að Stóra-Vatnshorni í Haukadal.

Jeppaslóðin gerir leiðina fljótfarna hestamönnum, en dregur um leið úr fortíðartilfinningu svæðisins. Hér er farin reiðslóðín austan Langavatns.

Til skamms tíma ráku Borghreppingar fé sitt þessa leið heim úr Seljalandsrétt í Hörðudal. Leið þessi er fær jeppum vestan Langavatns og norður á Skógarströnd. Áður fyrr var Langidalur og Sópandaskarð fjölfarin leið milli byggða. Hennar er getið í Laxdælu og Sturlungu. Hér riðu Þorgils Hölluson, Bolli og Þorleikur Bollasynir í aðför að Helga Harðbeinssyni að Vatnshorni í Skorradal. Á Sturlungaöld bjó Lauga-Snorri Þórðarson í Laugardal og var hann hliðhollur Sturlungum. Lauga-Snorri féll í Örlygsstaðabardaga 1238 þegar hann reyndi að verja Sturlu Sighvatsson.

Förum frá fjallaskálanum Torfhvalastöðum norður með vatninu austanverðu og síðan yfir í vesturhlið Langadals, þar sem við komum að jeppavegi. Honum fylgjum við norður að Víðamúla og förum áfram vestan múlans, en austan Fossamúla og Þrúðufells. Þar erum við komin í Sópandaskarð í 380 metra hæð. Höldum svo áfram þröngt skarðið og þröngan Laugardal og fylgjum síðan Hörðudalsá norður að þjóðvegi 54 um Skógarströnd. Við förum norðaustur með þeim vegi yfir þjóðveg 60 um Miðdali, yfir gömlu brúna á Haukadalsá og síðan með þjóðvegi 586 norðan Haukadalsvatns að Stóra-Vatnshorni.

44,5 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Jafnaskarð, Svínbjúgur, Rauðamelsheiði, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sanddalur, Miðdalir, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif, Lambahnúkar, Eyðisdalur, Hallaragata, Miðá, Prestagötur.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson

Sópandaskarð 2

Frá Torfhvalastöðum við Langavatn að Hamraendum í Miðdölum.

Jeppaslóðin gerir leiðina fljótfarna hestamönnum, en dregur um leið úr fortíðartilfinningu svæðisins. Hér er farin reiðleiðin austan Langavatns.

Til skamms tíma ráku Borghreppingar fé sitt þessa leið heim úr Seljalandsrétt í Hörðudal. Leið þessi er fær jeppum vestan Langavatns og norður á Skógarströnd. Áður fyrr var Langidalur og Sópandaskarð fjölfarin leið milli byggða. Hennar er getið í Laxdælu og Sturlungu. Hér riðu Þorgils Hölluson, Bolli og Þorleikur Bollasynir í aðför að Helga Harðbeinssyni að Vatnshorni í Skorradal. Snorri Sturluson fór hér um 1225 til að fara á svig við frænda sinn Sturlu Sighvatsson á Sauðafelli. Á Sturlungaöld bjó Lauga-Snorri Þórðarson í Laugardal og var hann hliðhollur Sturlungum. Lauga-Snorri féll í Örlygsstaðabardaga 1238 þegar hann reyndi að verja Sturlu Sighvatsson.

Förum frá fjallaskálanum Torfhvalastöðum norður með vatninu að austanverðu og síðan upp á jeppaslóð norður Langavatnsdal um Rauðhól. Áður en komið er inn í Víðidal beygjum við til norðvesturs fyrir Fossamúla og síðan milli Víðimúla að austan og Þrúðufells að vestan upp í Sópandaskarð í 380 metra hæð. Næst förum við brekkurnar úr skarðinu norður í Þrúðudal, undir Hálfdánarmúla austanverðum og síðan undir Þrúðufelli. Þar heitir dalurinn Laugardalur. Þegar við komum að Tungu og Seljadal förum við áfram norður dalinn austan við Hörðudalsá. Við Hörðuból komum við niður á þjóðveg 54 um Skógaströnd. Fylgjum þeim vegi til austurs að Hamraendum.

34,8 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Jafnaskarð, Svínbjúgur, Rauðamelsheiði, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sanddalur, Miðdalir, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif, Lambahnúkar, Eyðisdalur, Hallaragata, Miðá, Prestagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Sópandaskarð 1

Frá Grenjum á Mýrum til Hörðubóls í Hörðudal.

Jeppaslóðin flýtir fyrir ferð hestamanna, en dregur um leið úr fortíðartilfinningu svæðisins.

Til skamms tíma ráku Borghreppingar fé sitt þessa leið heim úr Seljalandsrétt í Hörðudal. Af Langavatnsmúla er afar víðsýnt og leiðin sunnan hans er um gróið hraunaland og melhæðir. Öll þessi leið er fær jeppum. Áður fyrr var Langidalur og Sópandaskarð fjölfarin leið milli byggða. Hennar er getið í Laxdælu og Sturlungu. Hér riðu Þorgils Hölluson, Bolli og Þorleikur Bollasynir í aðför að Helga Harðbeinssyni að Vatnshorni í Skorradal. Á Sturlungaöld bjó Lauga-Snorri Þórðarson í Laugardal og var hann hliðhollur Sturlungum. Lauga-Snorri féll í Örlygsstaðabardaga 1238 þegar hann reyndi að verja Sturlu Sighvatsson.

Förum frá eyðibýlinu Grenjum norður slóð um Grenjadal meðfram Langá, undir Grenjamúla. Síðan til vesturs að Rauðukúlu og norðvestur að Lambafelli og með austurhlið þess norður að Fjallakofanum við Sandvatn. Síðan áfram norðvestur með fjöllunum, yfir Kvígindisdal og upp Langavatnsmúla vestan Langavatns. Niður af fjallinu austanverðu innan við Langadal og áfram norður Langavatnsdal um Rauðhól. Áður en við komum inn í Víðidal beygjum við til norðvesturs fyrir Fossamúla. Síðan milli Víðimúla að austan og Þrúðufells að vestan upp í Sópandaskarð í 380 metra hæð. Næst förum við brekkurnar úr skarðinu norður í Þrúðudal, undir Hálfdánarmúla austanverðum og síðan undir Þrúðufelli. Þar heitir dalurinn Laugardalur. Þegar við komum að Tungu og Seljadal förum við austur yfir dalinn að Hlíð og síðan áfram norðvestur dalinn austan við Hörðudalsá. Við Hörðuból komum við niður á þjóðveg 54 um Skógarströnd.

42,8 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Fjallakofinn: N64 45.463 W21 51.351.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Jafnaskarð, Svínbjúgur, Rauðamelsheiði, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sanddalur, Miðdalir, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif, Lambahnúkar, Eyðisdalur, Hallaragata, Miðá, Prestagötur.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Útivistarkort

Snartartunguheiði

Frá Kleifum í Gilsfirði til Snartartungu í Bitrufirði.

Skemmtileg leið, en varasöm nálægt Kleifum, ef ekki er fylgt réttri slóð. Því er nauðsynlegt að kynna sér leiðina þar vel eða hafa kunnugan með í för. Að öðru leyti er hún þægileg yfirferðar.

Í gamla daga var oft farið til fjallagrasa á heiðina. Þjóðsögur segja frá huldufólki, sem hafði að plagsið að hnupla smáhlutum af grasafólki á fjalli. Förum frá Kleifum suður og upp Kleifar hjá Hafurskletti og ofan við Gullfoss upp á Snartartunguheiði. Hana förum við til suðausturs milli Lambavatns í austri og Grjótárlægða í vestri, og erum þar í 340 metra hæð. Förum síðan suðvestur um Torfalægðir niður í Norðdal, sunnan Eyrarfjalls og norðan Tungumúla. Förum austur Norðdal. Fyrir mynni dalsins er Snartartunga, þar sem mætast Norðdalur og Brunngilsdalur.

14,0 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Gaflfellsheiði, Krossárdalur.
Nálægar leiðir: Hölknaheiði, Steinadalsheiði, Vatnadalur.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Herforingjaráðskort

Skógarströnd

Frá Bílduhóli á Snæfellsnesi að Hamraendum í Miðdölum.

Þetta er gamla þjóðleiðin um Skógarströnd og kemur nokkrum sinnum fyrir í Sturlungu. Leiðin liggur áfram til vesturs í Álftafjörð, yfir hann á fjöru og síðan áfram um Helgafellssveit í Stykkishólm. Á leiðinni til austurs er farið um horfna verzlunarstaði frá því fyrir tíma hafnarmannvirkja, Gunnarsstaðaey og Vestliðaeyri. Hvammsfjörður hefur sama aðdráttarafl fyrir hestamenn og Löngufjörur, býður ýmsa kosti í fjörureið og leirureið.

Förum frá Bílduhóli austur með þjóðvegi 54, unz við komum að Emmubergi. Þar förum við frá veginum til norðurs og norður fyrir Hólmlátur og Hólmlátursborg að fjörunni í Hvammsfirði. Fylgjum henni síðan til austurs, út í Gunnarsstaðaey, gamlan verzlunarstað, og þaðan til austurs eftir grandanum, aftur í fjöruna við Skiphól og síðan áfram austur, um Vestliðaeyri, sem líka er gamall verzlunarstaður. Förum út fyrir Hörðudalsá að Miðá og svo upp með Miðá. Síðan upp á þjóðveg 54 við brúna yfir Miðá og förum suður yfir brúna. Síðan austur með fjallinu að Hamraendum.

28,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Heydalur, Kvistahryggur, Rauðamelsheiði, Sópandaskarð, Svínbjúgur, Miðdalir, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Fossavegur, Hattagil, Miðá, Hallaragata.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Skógarnesfjörur

Fram og til baka frá Skógarnesi um staðarfjörurnar.

Margir fara á hraðferð um Löngufjörur án þess að stanza í Skógarnesfjörum. Þær eru fjölbreytt sýnishorn af flestu því, sem Löngufjörur státa af. Þar eru leirur og sandfjörur. Einnig eru þar minjar um meira mannlíf, þegar Skógarnes var einn af verzlunarstöðum landsins 1905-1920. Fyrst var þar útibú frá Tangsverzlun í Stykkishólmi. Síðan kom þar einnig útibú frá verzlun Jóns Björnssonar í Borgarnesi. Verzlunin lagðist niður, þegar kreppa sótti að Vesturlöndum. Enn standa leifar af steinveggjum og uppskipunarbáti.

Förum frá Skógarnesi norður fyrir gripahúsin og jeppaslóð suður í ósinn. Förum þar þvert yfir rifið til vesturs, alla leið í vesturodda Melness. Þar förum við norðaustur í Viðeyjar, þaðan austur og suður til baka. Síðan austur með sjávarströndinni vestur á Skógarnes og síðan með ósfjörunni til baka í Skógarnes.

17,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Straumfjarðará, Löngusker.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skothryggur

Frá Kýrunnarstöðum í Hvammssveit að Biskupsvörðu vestan Skeggaxlar.

Förum frá Kýrunnarstöðum vestnorðvestur í Kýrunnarstaðafell, áfram norður hjá Skothrygg svo norðan við Hrossaborg og norðvestur að Biskupsvörðu. Hjá upptökum Hvarfdalsár skiptist leiðin og er annaðhvort farið í Búðardal eða Villingadal.

14,0 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skoravíkurmúli, Fellströnd, Flekkudalur, Skeggaxlarskarð, Hvarfsdalur, Búðardalur, Sælingsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Skoravíkurmúli

Frá Kýrunnarstöðum í Hvammssveit að Skógum á Fellsströnd.

Byrjum á vegi 590 austan Kýrunnarstaða í Hvammssveit. Förum suðvestur með ströndinni, suður fyrir Skoravíkurmúla, norðvestur um Skuggafoss að vegi 590 við Skóga.

15,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Fellsströnd, Skothryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skjólhvammsgata

Frá Kolbeinsstöðum eða Snorrastöðum að Stóra-Hrauni í Hnappadal.

Fjórar leiðir eru austur-vestur um Eldborgarhraun. Elzta gatan og gamla póstleiðin er Skjólhvammsgata um norðanvert hraunið. Hún liggur norður frá Snorrastöðum meðfram Borgarlæk og sveigir vestur í hraunið á móts við Haukatungu. Einnig er farið beint norður af austri frá Kolbeinsstöðum, sunnan við Kolbeinsstaðatjarnir og Stórhólmatjörn, en norðan við Haukatungutjarnir. Sameinast þar slóðirnar. Við Leynifit við Hábrekknavað á Haffjarðará komum við að heimreið að Stóra-Hrauni og fylgjum henni síðan. Engin þessara hraunleiða er fær jeppum.

Hér að framan er getið póstleiðarinnar um Skjólhvammsgötu. – Þrællyndisgata er syðst í hrauninu, frá Snorrastöðum niður með Kaldá og síðan austur með Kaldárós. Þar sem ósinn sveigir til suðurs förum við beint norðvestur hraunið að eyðibýlinu Litla-Hrauni. Erfið gata og seinfarin. Frá Litla-Hrauni förum við um Krókabotn að Stóra-Hrauni. – Eldborgargata er ekki forn, fannst síðar. Liggur beint austur frá Yztu-Görðum um mitt hraun fyrir norðan Eldborg beint að Stóra-Hrauni. -Loks er nýleg hitaveituleið frá Snorrastöðum beint norðvestur að Stóra-Hrauni.

18,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Saltnesáll, Gamlaeyri, Hítará, Haffjarðará, Haffjarðareyjar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort og Útivistarkort

Skeggaxlarskarð

Frá Krossi á Skarðsströnd um Skeggaxlarskarð til Sælingsdalstungu í Hvammssveit.

Förum frá Krossi austur og inn Villingadal, upp úr enda dalsins í Fjalldal. Síðan norðaustur um Biskupstungu og Búðardalsdrög í Skeggaxlarskarð í 690 metra hæð. Þaðan austur um Merkjahrygg og til suðausturs niður í Sælingsdal, að vegi 60 við Sælingsdalstungu í Hvammssveit. Frá Skeggaxlarskarði eru margar leiðir í ýmsa dali.

31,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Hvarfsdalur, Galtardalur, Skothryggur, Flekkudalur, Hvammsá, Nónborg, Búðardalur, Sælingsdalsheiði, Sælingsdalur, Skarðið, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skarðið

Frá Skarði á Skarðsströnd um Skarðið að Búðardal á Skarðsströnd.

Á 18. öld var Skarðið fjölfarin leið, enda var það þá vel gróið þéttum skógi. Nú er allur skógur horfinn og gatan orðin grýtt. Þannig hefur farið fyrir mörgum skemmtilegum reiðgötum á landinu. Í Skarðinu miðju er dys og varða, sem heitir Illþurrka. Þar er kona Geirmundar heljarskinns sögð vera heygð. Bær þeirra var á svipuðum slóðum og Skarð. Rétt ofan við Skarð er Andakelda, þar sem Geirmundur er talinn hafa fólgið dýrgripi sína. Skarð var öldum saman eitt allra mesta höfuðból landsins. Þar bjó Björn ríki Þorleifsson hirðstjóri og síðan ekkja hans Ólöf ríka á síðari hluta 15. aldar. Um skeið var verzlunarstaður í fjörunni, Skarðsstöð.

Förum frá Skarði austur Skarð og niður í Búðardal. Þar beygjum við til norðurs eftir veiðivegi og fylgjum honum út á þjóðveg 590 við Búðardalsá.

6,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Búðardalur, Hvarfsdalur, Skeggaxlarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sátudalur

Frá Breiðabólsstað á Skógarströnd um Sátuhryggi og Sátudal á Flatnaveg til Hnappadals.

Fyrrum mikið farinn af lausríðandi mönnum, en ekki til lestarferða. Oft var sótt frá Breiðabólstað á Skógarströnd í heyskap á brokmýrum í Sátudal.

Förum frá Breiðabólsstað til suðurs mili Háskerðings að vestan og Kláffells að austan, suður um Valshamarsá og Valshamarsárkvíslar, í 240 metra hæð. Síðan suður í Sátudal á Flatnaveg að Höfða eða Rauðamel.

13,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Flatnavegur Kvistahryggur.
Nálægar leiðir: Háskerðingur, Valshamar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Saurstaðaháls

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Svínhóli eða Kringlu í Miðdölum.

Seinasti hluti leiðarinnar er sá þýfðasti, sem ég hef lent í.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur með þjóðveginum að Eiríksstöðum og þar suður veg að Saurstöðum. Þar förum við suður á Saurstaðaháls og síðan vestsuðvestur hálsinn. Við förum mest í 220 metra hæð, síðan norðan við Svínhólsgil og komum niður að þjóðvegi 585 við Svínhól eða Kringlu.

8,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Prestagötur, Sauðafell.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson