Dalir-Snæfellsnes

Sauðafell

Frá Sauðafelli í Miðdölum að Háafelli í Náhlíð.

Sauðafell var eitt mesta höfðingjasetur Sturlunga. Þar bjuggu Sturla Sighvatsson og Sólveig Sæmundsdóttir frá Odda. Þar frömdu Vatnsfirðingar, Þórður og Snorri Þorvaldssynir, mikil hervirki í fjarveru Sturlu. Er honum voru sögð tíðindi, spurði hann, hvort Sólveigu hefði verið mein gert. Var honum sagt, að svo væri ekki. “Síðan spurði hann einskis”, segir Sturlunga. Ári síðar lét Sturla vega Þorvaldssyni á eyrunum innan við Bæ, handan árinnar, Hrafn Oddsson hirðstjóri bjó um skeið á Sauðafelli. Þar hafði Daði í Snóksdal bú og þar í kirkjunni tók hann höndum Jón biskup Arason og syni hans árið 1550 og færði til Skálholts, þar sem þeir voru höggnir.

Förum frá Sauðafelli eftir slóð austur fyrir fellið, förum hjá rústum bæjarins Glæsisvalla og áfram austur að Háafelli.

3,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Saurstaðaháls, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Prestagötur, Miðá, Hallaragata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Sanddalur

Frá Hamraendum í Miðdölum að Háreksstöðum í Norðurárdal.

Sanddalur var fyrr á öldum mikilvæg samgönguleið milli Norðurárdals og Dalasýslu, þótt Brattabrekka hafi alltaf verið helzta leiðin og sé það enn. Upp í Sanddal liggja fleiri leiðir úr Dölum en hér er lýst. Sunnan þessarar leiðar er leið vestan úr botni Reykjadals um Sprengibrekku og Mjóadal. Norðan þessarar leiðar er leið úr botni Haukadals um Sátudal. Sanddalur er gróinn dalur, fremur þröngur og var í byggð fyrr á öldum. Síðasti bærinn, Sanddalstunga, fór ekki í eyði fyrr en 1974.

Förum frá Hamraendum með þjóðvegi 582 upp með Miðá að suðvestanverðu með þjóðvegi 582 og síðan beggja vegna árinnar til suðausturs. Yfir þjóðveg 60 og til austurs inn í Reykjadal um Fellsendaskóg og eyðibýlið Fellsendakot og til austurs upp úr dalbotninum hjá Tröllakirkju. Komum þar í 410 metra hæð á Merkjahrygg, sýslumörkum Dala og Mýra. Síðan áfram austur um stutt og þröngt skarð, austur Heydal og beygjum til suðurs niður í Sanddal, sem við fylgjum út í Norðurárdal, alltaf vestan við Sanddalsá. Fjallið Sandur er að vestanverðu og Hádegisfjall að austanverðu. Við förum um eyðibýlið Sanddalstungu og síðan áfram suður meðfram Hvammsmúla að vestanverðu og Sveinatungumúla að austanverðu. Förum yfir þjóðveg 1 í Norðurárdal og síðan beint yfir Norðurá upp á þjóðveg 528 og eftir honum einn kílómetra vestur að Háreksstöðum.

38,3 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Skógarströnd, Jafnaskarð.
Nálægar leiðir: Miðá, Hallaragata, Eyðisdalur, Illagil.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson

Saltnesáll 2

Frá Snorrastöðum yfir Saltnesál og áfram um Stóra-Hraun yfir Haffjarðará og um Prestasker til Skógarness.

Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis. Löngufjörur eru draumaland hestamanna, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Ríði menn bara einu sinni þessa leið, er bezt að fara vestur og hafa Snæfellsjökul í fangið. Þetta er skjótasta útgáfan af Löngufjörum. Saltnesáll kemur úr lindum í Eldborgarhrauni, er svo breytilegur, að leita þarf vaðs á honum. Hann er því varasamur, farið hann eingöngu með staðkunnugum. Hafið flóðatöflurnar með í farteskinu. Hér reið Þórður kakali 1242 á flótta undan Kolbeini unga, svo sem segir í Sturlungu, og slapp yfir Saltnesál áður en flæddi að.

Förum frá Snorrastöðum með Kaldá að vestanverðu og síðan aðeins til vesturs með fjörunni, áður en við förum út á hana. Förum skammt utan við yztu tanga til vesturs unz við komum að Saltnesál. Algengast er að fara yfir hann 50-100 metrum frá landi. Hér hafa orðið slys á hestum og stundum legið við slysum á fólki. Þegar við erum komin vestur yfir álinn, förum við beint áfram vestur og tökum land í Viðarhólma, förum norður hólmann og aftur út á leirurnar vestan við Litla-Hraun. Stefnum beint á Stóra-Hraunsnes, þar sem við tökum land og förum jeppaslóð heim að bæ á Stóra-Hrauni. Förum aðeins upp fjöruna og út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á Bænahúsavaði og síðan vestur fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá Prestaskeri förum við áfram vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes.

23,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar: Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Hítará, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Saltnesáll 1

Frá Snorrastöðum yfir Saltnesál á Gömlueyri og áfram til Stóra-Hrauns.

Hafið flóðatöflurnar með í farteskinu.

Löngufjörur eru draumaland hestamanna, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Ríði menn bara einu sinni þessa leið, er bezt að fara vestur og hafa Snæfellsjökul í fangið. Þetta er skjótasta útgáfan af Löngufjörum. Saltnesáll kemur úr lindum í Eldborgarhrauni, er svo breytilegur, að leita þarf vaðs á honum. Hann er því varasamur, farið hann eingöngu með staðkunnugum. Gamlaeyri var þekktur rekastaður, fimm km löng. Mörg skip hafa strandað þar, einkum erlend fiskiskip. Þar á meðal tvær franskar skútur árið 1870.

Förum frá Snorrastöðum niður með Kaldá að vestanverðu og síðan aðeins til vesturs með fjörunni, áður en við förum út á hana. Förum skammt utan við yztu tanga til vesturs unz við komum að Saltnesál. Algengast er að fara yfir hann 50-100 metrum frá landi. Hér hafa orðið slys á hestum og stundum legið við slysum á fólki. Einnig er hægt að krækja upp í landið fyrir álinn og fara þá varlega milli pytta. Þegar við erum komin vestur yfir álinn, förum við beint til suðurs vestan við Öskjugrasey og alla leið suður á Gömlueyri. Við förum yfir á eyrina sjávarmegin og síðan eftir henni endilangri til norðvesturs eins langt og við viljum. Þar förum við í land í Viðarhólma, förum norður hólmann og aftur út á leirurnar vestan við Litla-Hraun. Stefnum beint á Stóra-Hraunsnes, þar sem við tökum land og förum jeppaslóð heim að bæ á Stóra-Hrauni.

20,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Hítará, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rauðamelsheiði

Frá Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal til Blönduhlíðar í Hörðudal.

Um Rauðamelsheiði og dalina vestan hennar voru alfaraleiðir á Skógarströnd og þaðan um Vestliðaeyri í Dalina. Örnefnið Götuvatn minnir á þetta. Rauðamelsheiðarvegur var fyrrum talinn liggja frá innstu bæjum á Skógarströnd og suður að Ölviskrossi. Með lest tók það fjórar stundir að fara þessa leið.

Árið 1234 reið Órækja Snorrason með liði suður Rauðamelsheiði til ránsferðar um sunnanvert Snæfellsness. Sturla Þórðarson reið suður heiðina 1253 til fundar við Þorgils skarða Böðvarsson í Eldshólma sunnan við Haffjarðará. 1255 riðu Sturla og Þorgils suður heiðina eftir að hafa áður mælt sér mót í Haukadalsskarði.

Förum frá Hallkelsstaðahlíð vestur með vatninu norðanverðu út fyrir Hlíðarmúla. Síðan með þjóðvegi 55 norður með Oddastaðavatni austanverðu um eyðibýlið Ölviskross og áfram norður frá vatninu að Svínavatni. Við norðausturenda vatnsins förum við frá þjóðveginum meðfram Syðsta-Þverfelli norðvestur um Löngutjörn að Götuvatni og förum norðan þess og sunnan Innsta-Þverfells að Almannaborg. Við förum sunnan hennar og eftir Tófudalsgii niður í Tófudal. Þaðan förum við til vesturs fyrir sunnan Seljafell og Efra-Berg. Og loks milli Hólmlátursvatna niður á þjóðveg 54 um Skógarströnd. Þaðan liggja vegir austur og vestur um ströndina. Við förum austur með þjóðveginum í Hörðudal að Blönduhlíð.

36,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Heydalur, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sópandaskarð.
Nálægar leiðir: Fossavegur, Hattagil, Miðá, Klifháls.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Prestagötur

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Kvennabrekku í Miðdölum.

Leiðin er einnig kölluð Kvennabrekkuháls. Prestar á Kvennabrekku fóru þessa leið til útkirkju að Stóra-Vatnshorni. Á Kvennabrekku fæddist Árni Magnússon 1666, síðar prófessor í Árnasafni.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur með þjóðveginum að Eiríksstöðum og þar suður veg að Saursstöðum. Síðan vestur um Litla-Vatnshorn að Haukadalsvatni og þaðan upp með Prestagili svokallaðar Prestagötur suður á Kvennabrekkuháls. Við förum mest í 160 metra hæð og komum síðan til suðvesturs niður af hálsinum að þjóðvegi 585 við Kirkjuskóg, næsta bæ norðan við Kvennabrekku.

8,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Saurstaðaháls, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Sauðafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Ólafsvíkurenni

Frá Rifi að Ólafsvík á Snæfellsnesi.

Sumir týndu lífi við Ólafsvíkurenni. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá Hettu tröllkonu, sem bjó í Ennisfjalli. Hún var úfin í viðskiptum sínum við Ingjald bónda á Ingjaldshóli og við ferðalanga, sem áttu leið um Ólafsvíkurenni. Jónas Hallgrímsson fór þarna: “Riðum við fram um flæði / flúðar á milli’ og gráðs, / fyrir Ólafsvíkurenni, / utan við kjálka láðs. / Fjörðurinn bjartur og breiður / blikar á aðra hlið, / tólf vikur fullar að tölu, / tvær álnir hina við. / Hvurt á nú heldur að halda / í hamarinn svartan inn, / ellegar út betur til þín? / Eggert, kunningi minn!”. Um Ennisdal var stundum farið þegar flóð var undir Ólafsvíkurenni en í fjörunni þar lá annars leiðin. Seinfarið er um Ennisdal vegna mikils grjóts víða. Nú er kominn breiður vegur fyrir ennið og stutt að fara milli Hellissands/Rifs og Ólafsvíkur.

Förum frá Hellissandi eða Rifi eftir þjóðvegi um Ólafsvíkurenni austur í Ólafsvík.

5,6 km
Snæfellsnes-Dalir

Bílvegur

Nálægir ferlar: Beruvík.
Nálægar leiðir: Ennisdalur, Fróðárheiði, Búlandshöfði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Nónborg

Frá Skerðingsstöðum í Hvammssveit um Hólafjall og Nónborg í Skeggaxlarskarð.

Förum frá Skerðingsstöðum til fjalls, norðvestur og upp í Hólafjall, hjá Nónborg milli Þverár og Lambadalsár og áfram norðvestur, þar til við komum í Skeggaxlarskarð í 690 metra hæð. Þaðan eru margar leiðir í ýmsa dali.

9,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Fáskrúð.
Nálægar leiðir: Hvammsfjörður, Hvammsá, Náttmálahæðir, Búðardalur, Skeggaxlarskarð, Sælingsdalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Náttmálahæðir

Frá Hofakri í Hvammsveit um Náttmálahæðir í Skeggaxlarskarð.

Förum frá Hofakri norðvestur til fjalls vestan við gilin sem liggja niður í Skeggjadal en austan Skothryggjar. Förum svo austan Skeggaxlar í Skeggaxlarskarð í 690 metra hæð. Þaðan eru margar leiðir í ýmsa dali.

12,6 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Fáskrúð.
Nálægar leiðir: Hvammsfjörður, Hvammsá, Nónborg, Búðardalur, Skeggaxlarskarð, Sælingsdalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Múlavegur

Frá Grímsstöðum á Mýrum til Snorrastaða í Hnappadal.

Forn leið milli Mýra og Snæfellsness og er enn mikið farin af hestamönnum. Enda er leiðin fjölbreytt um kjarr og einstigi í hrauni. Engir jeppar eru hér á ferð. Árið 1253 fóru hér Þorgils skarði Böðvarsson og Þórður Hítnesingur á leið frá Staðastað í aðför að Agli Sölmundarsyni í Reykholti vegna óvirðinga og sviksemi. Fóru hjá Fagraskógarfjalli þjóðgötuna að vaðinu á Hítará. Svo hraungötuna um Hagahraun eftir svonefndum Ferðamannavegi, með Múlum og undir Grímsstaðamúla. Þetta er önnur leið en sú, sem Þórður kakali og Kolbeinn ungi fóru vestur Mýrar 27 nóvember 1242. Þá var snjór og frost og þeir gátu farið það sem kallað var “vetrarvegur” beint af augum yfir mýrar og sund. Þurftu ekki að krækja fyrir torleiði. Þeir fóru sunnar en hér er lýst, um Álftártungu.

Förum frá Grímsstöðum í 100 metra hæð ofan túna undir Grímsstaðamúla til norðausturs og niður á jeppaveg undir múlanum. Förum með veginum um Hraundalshraun að mynni Hraundals. Við höldum áfram til vesturs undir Svarfhólsmúla eftir jeppavegi um Helluskóg og síðan til norðvesturs um Svarfhól og síðan eftir einstigi um Staðarhraun að þjóðvegi 539 um Hítardal. Við förum yfir veginn og áfram norðvestur að Grjótá og um Tálma yfir Hagahraun, þar sem við förum um einstigi að Hítará undir Bælinu. Við erum þar undir Grettisbæli og Fagraskógarfjalli. Förum vestur með fjallinu um eyðibýlin Moldbrekku og Skóga og síðan norður með fjallinu að rétt við Kaldá í mynni Kaldárdals. Förum síðan niður með ánni um Hraunsmúla að Kaldármelum og áfram upp að þjóðvegi 54, fylgjum honum nokkra tugi metra og förum síðan með afleggjara vestur og suðvestur að Snorrastöðum.

25,2 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Fagraskógarfjall, Kolbeinsstaðafjall, Saltnesáll, Hítará, Gamlaeyri.
Nálægar leiðir: Hrosshyrna, Hítardalur, Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Miðdalir

Frá Búðardal að Hamraendum í Miðdölum.

Þetta er tengileið með þjóðvegi. Út frá henni eru ýmsar reiðleiðir um Miðdali og nágrenni, til dæmis suður um Sópandaskarð eða Svínbjúg. Syðsti hluti Dalasýslu skiptist í Haukadal nyrst, síðan Miðdali og loks Hörðudal vestast, næst Skógarströnd.

Förum frá hesthúsahverfi Búðardals suður hesthúsveginn að Laxá og yfir hana og vestur með henni að þjóðvegi 60. Förum suður með þeim vegi vestur fyrir Laxárdalsháls, um Saura og Þorbergsstaði suðaustur að Haukadalsá. Yfir hana á gömlu brúnni austan þeirrar nýju. Síðan áfram suður með þjóðveginum, þangað til við komum að afleggjara að Miðskógi. Þar beygjum við af þjóðvegi 60 til suðurs, förum upp með Miðá og síðan yfir hana að Hamraendum undir Hlíðarhálsi.

15,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Gaflfellsheiði, Lækjarskógarfjörur, Sópandaskarð, Skógarströnd, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Miðá.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Miðá

Frá Snóksdalspollum í hæl Hvammsfjarðar að Þórólfsstöðum í Miðdölum.

Í Miðá sunnan Harrastaða er Leiðarhólmur. Þar voru haldin þing á fyrri öldum og þar var gerðu höfðingjar Leiðarhólmssamþykkt árið 1506 gegn kirkjuvaldi. Í Nesodda er skeiðvöllur hestamannafélagsins Glaðs í Dölum.

Förum frá Snókdalspollum austur og upp með Miðá úr fjörunni sunnan megin við ósinn. Fylgjum Miðá og förum svo upp með Tunguá, hjá veiðihúsi og áfram upp á reiðveg um Miðdali. Þar heitir Nesoddi milli Erpsstaða og Þórólfsstaða.

9,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Lækjarskógarfjörur, Skógarströnd, Sópandaskarð, Miðdalir, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Hallaragata, Prestagötur, Sauðafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Malarrif

Frá Háahrauni um Lónbjörg að Djúpalónssandi.

Malarrif er skammt vestan við Lóndranga, syðsti hluti Snæfellsness. Frá Malarrifi var útgerð og útræði öldum saman allt til 1900. Lóndrangar eru tveir basaltklettadrangar, fornir gígtappar er rísa stakir við ströndina. Hærri drangurinn er 75 metrar á hæð, sá minni 61 metrar. Fyrrum var útræði við Lóndranga og var lendingin austan við hærri dranginn, þar sem heitir Drangsvogur. Þaðan voru gerð út tólf skip, þegar mest var. Einarslón var um tíma að hálfu í eigu Jóhannesar Kjarval listmálara, er sótti þangað efni í mörg listaverk. Árið 1703 voru á Einarslóni um 62 ábúendur á tólf býlum alls, en er nú í eyði. Djúpalónssandur var meiri háttar verstöð fyrrum. Þar eru steintök, sem vermenn reyndu afl sitt á. Gönguleið er milli Djúpalónssands og Dritvíkur.

Byrjum hjá þjóðvegi 574 við Háahraun vestan Dagverðarár. Þar liggur leið milli Arnarstapa og Beruvíkur. Förum niður að sjó við Gjafa, vestur með Þúfubjörgum að eyðibýlinu Malarrifi. Síðan norðvestur um Lónbjörg að Einarslóni og Djúpalónssandi.

8,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Beruvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Löngusker

Frá Stakkhamri að Görðum á Snæfellsnesi.

Þetta er vesturendinn á Löngufjörum, fjölfarinni þjóðleið frá fornu fari. Ekki lengur leirur eins og vestan Stakkhamars, heldur gullin fjara úr skeljasandi. Víða eru sker utan fjörunnar eða í fjörunni, sem ýmist er farið ofan við eða neðan við eftir sjávarföllum. Fjaran nær frá Stakkhamri að Staðará. Hér eru eyðibýlin Melur og Krossar. Hjá þeim síðari fórst Galdra-Loftur. Hann fékk bát hjá bóndanum á Krossum, reri út á sjó og þar kom upp grá og loðin hönd, sem dró bátinn niður. Norskur sumarbúseti á Krossum amast stundum við ferð hestamanna um fjöruna, vill heldur að þeir fari upp fyrir bæjarhús og tún, svo að hrossin spori ekki fjöruna. Engir jeppar eiga að geta verið hér á ferð fyrr en komið er yfir Staðará.

Förum frá Stakkhamri vestur dráttarvélaslóð um fjöruna, fyrir sunnan Sauratjörn, vestur um eyðibýlið Melkot, gegnum hlið og fljótlega síðan niður í fjöruna og fylgjum henni vestur, neðan garðs í Krossum. Síðan landmegin við Löngusker og áfram fjöruna vestur að Staðará, förum þar yfir um 200 metra frá ósnum. Síðan meðfram girðingu upp að þjóðvegi 54. Fylgjum honum sunnan Langavatns að Görðum.

21,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Straumfjarðará, Skógarnesfjörur, Búðaós, Klettsgata.
Nálægar leiðir: Bláfeldarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Löngufjörur

Frá Hjörsey á Mýrum að Arnarstapa á Snæfellsnesi.

Sjá að öðru leyti texta um einstakar leiðir á Löngufjörum: Hítará, Saltnesáll, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker, Búðaós, Klettsgata.

Löngufjörur eru draumaland hestamanna, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Löngufjörur eru samheiti yfir margar reiðleiðir við norðvestanverðan Faxaflóa. Frá suðri til vesturs eru þær: Hjörsey, Akrar, Hítará, Saltnesáll, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Löngusker, Búðaós, Klettsgata. Engar reiðleiðir á Íslandi standast samjöfnuð við þessar. Skoðið hverja leið fyrir sig.

? km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hjörsey, Akrar, Hítará, Saltnesáll, Gamlaeyri, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Löngusker, Búðaós, Klettsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson