Árnessýsla austur

Svartárbugar

Frá fjallaskálanum í Árbúðum að fjallaskálanum í Svartárbotnum.

Förum frá fjallaskálanum Árbúðum yfir Svartá og norðnorðaustur meðfram ánni um Svartárbuga alla leið í að fjallaskálanum í Svartárbotnum.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Svartárbotnar: N64 44.630 W19 25.927.
Árbúðir: N64 36.553 W19 42.235.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Svartárbotnar

Frá Svartárbotnaskála a Kili um Kjalfell að Hveravöllum.

Beinahóll er kenndur við beinaleifar af sauðfé og hestum og þar er minnisvarði um Reynistaðabræður, sem urðu þar úti í stórviðri haustið 1780. Látið beinaleifarnar liggja óhreyfðar. Af Rjúpnafelli er gott útsýni yfir Kjöl og Hveravelli. Tveimur kílómetrum norðan fellsins er stór hraunhóll með mörgum vörðum. Í hólnum er hellir, sem opinn er í báða enda, kallaður Grettishellir.

Byrjum hjá vegi 35 við Fosstorfur á Kili. Förum norðvestur hjá Svartárbotnaskála yfir Vestri-Svartárbotna. Til norðurs austan Kjalfells og vestan Beinahóls, norður um Kjalhraun, hjá Grettishelli í 700 metra hæð og síðan vestan Rjúpnafells. Á veg 35, að Hveravöllum.

4,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Svartárbotnar: N64 44.630 W19 25.927.
Hveravellir : N64 51.960 W19 33.260.
Hveravellir eldri: N64 52.013 W19 33.756.

Nálægir ferlar: Jökulfall, Þjófadalir, Stélbrattur, Guðlaugstungur.
Nálægar leiðir: Kjalfellsleið, Krákur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sultarfit

Frá fjallaskálanum Hallarmúla að fjallaskálanum í Sultarfitjum.

Farið er frá fjallaskálanum Hallarmúla á afrétti Flóa- og Skeiðamanna, norðaustur með dráttarvélaslóð, þvert yfir línuveg um Ísahrygg, áfram norður um ýmis Svartárver, að fjallaskálanum í Sultarfitjum á Flóa- og Skeiðamannaafrétti.

Sultarfit geta verið kuldalegur staður, samanber frásögn Páls Árnasonar: “Þá fórum við á Sultarfit á Flóamannaafrétti og fengum fyrst grenjandi slagveður frá Grímsstöðum og inn á ásana fyrir neðan Fit. Þá kom hann á með grenjandi gaddbyl. Og þú skalt trú mér, að þá var kaldranalegt að tjalda á Fitinni. Þær litlu ábreiður, sem við gátum haft með, urðum við að breiða yfir hestana, svo þá var ekkert annað að gera en leggjast niður á blautan tjaldbotninn. Jæja, ég vaknaði í skafli um morguninn og þó beit þetta ekki á mann.”

Förum frá Hallarmúla. Þaðan liggur slóðin fyrst vestur stuttan spöl og síðan norðaustur á Kofaás að Langöldu. Þaðan förum við vestur í Syðstu-Svartárver og síðan áfram norðaustur með Svartá, með vesturhlið Ísahryggs í Mið-Svartárver og síðan upp ásinn austan við Innstu-Svartárver og áfram vestan við Kóngsás eftir Fitjaásum að skálanum á Sultarfitjum.

25,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.
Fitjaásar: N64 14.650 W19 46.910.
Sultarfit: N64 19.752 W19 39.427.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hallarmúli, Ísahryggur, Fitjaásar.
Nálægar leiðir: Skeiðamannafit, Kista.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Stóru-Laxárvað

Frá Laxárdal í Gnúpverjahreppi að Hruna í Hrunamannahreppi.

Þetta er hluti hinnar fornu þjóðleiðar milli Nautavaðs á Þjórsá og Kópsvatnseyra á Hvítá með viðkomu í Hruna.

Förum frá Laxárdal suðvestur um Leirdal og vestur um vað á Stóru-Laxá sunnan við Bláhylshnúk. Þaðan norðnorðvestur um Hrunalaug að Hruna.

4,2 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað, Litla-Laxá.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Sólheimar, Hlíðarfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Stóriskyggnir

Frá Kirkjuskarði í Hrunamannahreppi um Stóraskyggni að Jötu.

Á móts við Jötu er skilti sem vísar veg vestur Skipholtsfjall að einu af byrgjum Fjalla-Eyvindar. Hann fæddist og ólst upp þar í nágrenninu, á Hlíð, þar sem foreldrar hans bjuggu. Jón, bróðir Eyvindar, bjó líka hér í nágrenninu, í Skipholti. Stundum kom Eyvindur þangað úr útlegð sinni af öræfum og leyndist þar í skreiðarskemmu í skjóli bróður síns eða við skápinn í Skipholtsfjalli. Eyvindur var í tuttugu ár í útlegð á fjöllum og bjó víða, enda mátti alltaf búast við eftirleit yfirvaldsins. Bezt bjó hann í Eyvindarkofaveri á Sprengisandi. Minnisvarði um hann er á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum, þar sem hann var bóndi um skeið.

Förum frá Kirkjuskarði norður um Stóraskyggni, Kotlaugafjall og Skipholtsfjall og loks austur á slóðina milli Foss og Jötu.

9,41 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Hrunamannahreppur, Skipholt.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Hermannsson

Stóra-Laxá

Frá Laxárdal í Gnúpverjahreppi að Kaldbaki í Hrunamannahreppi.

Stóra-Laxá er ein af meiriháttar laxveiðiám landsins. Fjöldi laxa er ekki mikill, en margir stórir veiðast þar, einkum í efsta veiðisvæði árinnar og þá einkum, þegar liðið er á veiðitímann. Árin er raunar fremur þekkt fyrir stórbrotna náttúru, mikil gil og erfiða aðkomu á mörgum stöðum. Úr því hefur verið bætt með göngustígum og göngubrú.

Förum frá Laxárdal suðvestur um Leirdal, vestur yfir Stóru-Laxá sunnan Blágilshnúks. Síðan norðnorðaustur fyrir vestan Blágilshnúk, vestan Folaldahlíðar, að Hörgsholti. Norðvestur á Kaldbaksveg og eftir honum norðnorðaustur að Kaldbaki.

10,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Kaldbaksvað, Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Hildarfjall, Sólheimar, Stóru-Laxárvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Stélbrattur

Frá Hveravöllum, eftir jeppaslóð austur og suður fyrir Þjófafell, að Þjófadalaleið.

Þetta er jeppaslóðin, reiðslóðin er aðeins norðar og liggur um Tjarnardali. Þessi leið liggur hins vegar beint ofan á fjallinu Stélbratti.

Byrjum við veðurathugunarstöðina á Hveravöllum. Förum vestur á Stélbratt og síðan niður í Tjarnardali. Þar förum við til suðurs um Sóleyjardal og síðan áfram við austurhlið Þjófafells og suður fyrir fjallið að mynni Þjófadala að sunnanverðu. Þar endar jeppaslóðin og við tekur gamla reiðleiðin niður með Fúlá.

12,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Hveravellir : N64 51.960 W19 33.260.
Hveravellir eldri: N64 52.013 W19 33.756.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þjófadalir, Guðlaugstungur.
Nálægar leiðir: Svartárbotnar, Krákur, Kjalfellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sprengisandur

Frá Suðurlandi til Norðurlands milli Hofsjökuls og Tungnafellsjökuls.

Allar aldir hafa verið tvær leiðir um Sprengisand fyrir utan Bárðargötu. Önnur leiðin lá úr byggð vestan Þjórsár og hin austan Þjórsár. Vestari leiðin hefur einkum verið notuð af hestafólki, því að hún er grónari. Hér er vestari leiðinni lýst frá suðri til norðurs undir heitunum Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar, Háumýrar, Háöldur og Kiðagil. Austurleiðinni er lýst undir heitunum Nýidalur og Fjórðungsalda. Sjáið leiðarlýsingar Sprengisands á viðkomandi stöðum. Sprengisandur var kallaður Gásasandur og Sandur í Sturlungu. Á fyrsta nákvæma Íslandskortinu frá 1849 eru vestari og eystri leiðirnar tengdar saman um Sóleyjarhöfðavað.

Sjá að öðru leyti texta um einstakar leiðir á Sprengisandi. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti. Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa.

? km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Háöldur, Háumýrar, Nýidalur, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar,Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sólheimar

Frá Núpstúni í Hrunamannahreppi um Sólheima að eyðibýlinu Hörgsholti.

Förum frá Núpstúni austur fyrir Núpstúnskistu og norður með henni og Galtafelli meðfram Stóru-Laxá að Sólheimum. Þaðan vestan Bláhylshnjúks, vestan Álatjarnar, yfir Nónása og loks að Hörgsholti.

11,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Stóru-Laxárvað, Galtafellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sóleyjarhöfðavað

Frá fjallaskálanum í Tjarnarveri að fjallaskálanum Bólstað við Sóleyjarhöfða.

Hluti vörðuðu Sprengisandsleiðarinnar. Kaflarnir eru, taldir frá suðri: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás 1, Tjarnarver, Sóleyjarvað. Handan Sóleyjarvaðs tekur við slóðin Háumýrar og síðan Háöldur til Laugafells eða Gásasandur til Þingeyjarsýslu.

Sóleyjarhöfði er austan vaðsins. Nafnið stafar af gulum mosagróðri.

Förum frá fjallaskálanum í Tjarnarveri vörðuðu reiðleiðina norður með Þjórsá að vaði hjá fjallaskálanum Bólstað við Sóleyjarhöfða. Vaðið er traust, en djúpt. Það er riðið í tveimur kvíslum um eyri í miðri ánni. Vestari kvíslin er miklu meiri. Á vaðinu sjálfu er góður hraunbotn, en ofan og neðan þess er hætt við sandbleytum.

3,5 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Tjarnarver : N64 31.948 W18 49.139.
Sóleyjarhöfði: N64 33.110 W18 46.270.

Nálægir ferlar: Háumýrar.
Nálægar leiðir: Tjarnarver, Blautakvísl, Arnarfellsalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið og Herforingjaráðskort

Sóleyjarbakki

Frá Gunnbjarnarholti um Sóleyjarbakkavað að Sóleyjarbakka.

Byrjum hjá þjóðvegi 30 við Gunnbjarnarholt. Förum þaðan norður yfir Stóru-Laxá að þjóðvegi 340 milli Birtingaholts og Sóleyjarbakka.

2,1 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Iðubrú, Hvítárbakkar, Þjórsárbakkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skyggnisalda

Frá Svínárnesi á Hrunamannaafrétti í Leirárdal.

Leið, sem ég fer til að forðast jeppavegi með því að komast meðfram Leirá.

Förum frá Svínárnesi þvert austur um Skyggnisöldu á Leirárleið milli skálanna Leppistungna og Helgaskála.

4,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur.
Nálægar leiðir: Leirá, Svínárnes, Kjalvegur, Harðivöllur, Sandá, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skúmstungur

Frá Hólaskógi á Gnúpverjaafrétt að Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétt.

Hluti hins forna Sprengisandsvegar, sem lá sunnan úr Þjórsárdal norður í Bárðardal. Leiðin liggur yfir líparítfjallið Sandafell og gróðursælar Skúmstungur, upp Skúmstungnaheiði, um Starkaðsver og Hjallaver í Gljúfurleit. Engir jeppar eiga að geta verið á leiðinni, ef farin er forna slóðin og ekki jeppavegurinn. Vörðurnar hafa verið endurnýjaðar, svo að auðvelt er að rata eftir þeim, þótt reiðslóðin sé orðin fáfarin, síðan fáfróðir fóru að ríða jeppaveginn. Undir Starkaðssteini varð úti norðanmaður á leið til unnustu sinnar í hreppum. Dreymdi hana, að Starkaður kæmi til sín og kvæði þessa vísu: “Angur og mein fyrir auðarrein / oft hafa skatnar þegið, / Starkaðs bein und stórum stein / um stundu hafa legið.”

Förum frá fjallaskálanum í Hólaskógi í 280 metra hæð og fylgjum vörðuðu Sprengisandsleiðinni vestan Þjórsár. Fyrst til vesturs gegnum girðingu og síðan með girðingunni til norðausturs. Áfram upp Sandafell í 450 metra hæð og síðan niður af því til norðausturs að Sultartangalóni, þar sem gerði er í Skúmstungum. Fylgjum Innri-Skúmstungnaá til norðurs upp á Skúmstungnaheiði, fyrst vestan árinnar og síðan austan hennar um blautt en greiðfært Starkaðsver. Förum þar framjá Starkaðssteini. Bílvegurinn er á svipuðum slóðum. Um Hjallaver liggur slóðin töluvert vestan vegar í 560 metra hæð, en reiðvegur og bílvegur mætast við Blautukvísl áður en komið er að afleggjara til austurs yfir Gljúfurá og undir Lönguhlíð að skálanum í Gljúfurleit í 480 metra hæð.

22,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.
Gljúfurleit: N64 17.751 W19 20.901.

Nálægir ferlar: Gjáin-Stöng, Ísahryggur, Hraunin.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skeiðamannafit.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið

Skipholtskrókur

Frá Kjalvegi yfir Jökulfall á Hrunamannaafrétt.

Af þessari er skammt að Skipholtskrók til að finna hinn heilaga bikar, sem Jesú Kristur drakk úr við síðustu kvöldmáltíðina í Jerúsalem. Vitringurinn Giancarlo Cianazza telur þennan Gral vera þar í leynilegri hvelfingu, sem sé fimm metrar á hvern veg. Musterisriddarar eru sagðir hafa falið hann þar, þegar kaþólsk kirkja snerist með látum gegn riddarareglunni. Cianazza telur Snorra Sturluson hafa verið viðriðinn varðveizlu bikars þessa. Því er ómaksins vert að æja þarna og svipast um eftir leynihvelfingunni og bikarnum.

Förum einn kílómetra austur eftir Kerlingafjallavegi 347 frá mótum hans og Kjalvegar 35. Beygjum þar út af til suðurs og yfir Jökilfallið á vaði. Síðan áfram suður eftir afrétti Hrunamanna að veginum um afréttinn vestan Skeljafells og austan Mosfells.

8,3 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Skillandsá

Frá Kaldbaksvaði á Stóru Laxá um Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

Förum frá Kaldbaksvaði suðvestan undir Kaldbaksfjalli. Upp með Stóru-Laxá að austanverðu að girðingu austan jeppaslóðar. Um hlið á girðingunni og síðan austur og upp með Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

8,1 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson