Sultarfit

Frá fjallaskálanum Hallarmúla að fjallaskálanum í Sultarfitjum.

Farið er frá fjallaskálanum Hallarmúla á afrétti Flóa- og Skeiðamanna, norðaustur með dráttarvélaslóð, þvert yfir línuveg um Ísahrygg, áfram norður um ýmis Svartárver, að fjallaskálanum í Sultarfitjum á Flóa- og Skeiðamannaafrétti.

Sultarfit geta verið kuldalegur staður, samanber frásögn Páls Árnasonar: “Þá fórum við á Sultarfit á Flóamannaafrétti og fengum fyrst grenjandi slagveður frá Grímsstöðum og inn á ásana fyrir neðan Fit. Þá kom hann á með grenjandi gaddbyl. Og þú skalt trú mér, að þá var kaldranalegt að tjalda á Fitinni. Þær litlu ábreiður, sem við gátum haft með, urðum við að breiða yfir hestana, svo þá var ekkert annað að gera en leggjast niður á blautan tjaldbotninn. Jæja, ég vaknaði í skafli um morguninn og þó beit þetta ekki á mann.”

Förum frá Hallarmúla. Þaðan liggur slóðin fyrst vestur stuttan spöl og síðan norðaustur á Kofaás að Langöldu. Þaðan förum við vestur í Syðstu-Svartárver og síðan áfram norðaustur með Svartá, með vesturhlið Ísahryggs í Mið-Svartárver og síðan upp ásinn austan við Innstu-Svartárver og áfram vestan við Kóngsás eftir Fitjaásum að skálanum á Sultarfitjum.

25,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.
Fitjaásar: N64 14.650 W19 46.910.
Sultarfit: N64 19.752 W19 39.427.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hallarmúli, Ísahryggur, Fitjaásar.
Nálægar leiðir: Skeiðamannafit, Kista.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort