Árnessýsla austur

Skeiðamannafit

Frá fjallaskálanum í Sultarfitjum að fjallaskálanum í Skeiðamannafitjum.

Hliðarleið milli skála á afrétti Flóa- og Skeiðamanna.

Förum frá skálanum í Sultarfitjum fyrst eftir jeppaslóð suður frá skálanum skamma leið og beygjum síðan til austurs eftir jeppaslóð um Fitjaása og Kóngsás að fjallaskálanum í Skeiðamannafitjum.

18,6 km
Árnessýsla

Skálar:
Sultarfit: N64 19.752 W19 39.427.
Skeiðamannafit: N64 18.732 W19 32.426.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sultarfit, Fitjaásar.
Nálægar leiðir: Skúmstungur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skáldabúðir

Frá Steinsholti í Gnúpverjahreppi um Hlíðarfjall að Skáldabúðum.

Í Steinsholti er rekin ferðaþjónusta fyrir hestamenn.

Förum af vegi 326 við Grettisgeil, austan við Hlíðarfjall, að vegi 329 við Skáldabúðir.

6,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað, Kaldbaksvað Hallarmúli.
Nálægar leiðir: Fossnes, Hamarsheiði, Þjórsárholt, Illaver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sigvaldakrókur

Frá Kjalvegi yfir Jökulfall í Sigvaldakróki til Fosslækjarvers á Hrunamannaafrétti.

Önnur höfuðleið þeirra ferðamanna af Kili, sem vildu fara ofan í Hreppa. Hin leiðin er á vaði yfir Jökulfallið við brúna á Hvítá við Bláfell. Nú er jafnan farið um brú á Jökulfalli á vegi í Kerlingarfjöll.

Byrjum við þjóðveg 35 á Kili við Skútaver á móts við Mosfell handan Jökulfalls. Förum suðaustur um verið að Jökulfalli og yfir það á vaði í Sigvaldakróki. Austan ár förum við síðan til suðurs fyrir vestan Mosfellsháls og austan Húnbogaöldu að fjallaskálanum í Fosslækjarveri.

10,0 km
Árnessýsla

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Fosslækur: N64 34.524 W19 36.144.

Nálægar leiðir: Grjótá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sandá

Frá skála í Leppistungum á afrétti Hrunamanna suðvestur með Sandá að skála í Svínárnesi á afrétti Hrunamanna.

Leiðin fylgir ekki jeppaslóðinni, heldur liggur um gróna bakka Sandár vestan árinnar alla leið í Svínárnes.

Miklumýrar eru víðáttumikið votlendi, erfitt yfirferðar utan vegarins.

Förum frá fjallaskálanum í Leppistungum yfir Sandá og suður með henni um Miklumýrar og vel færan Ófærukrók. Síðan til vesturs fyrir norðan Skyggni í Lausamannsölduver og loks yfir Sandá að fjallaskálanum í Svínárnesi.

17,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Kjalvegur, Harðivöllur, Leirá, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Rjúpnafell, Klakkur, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Rjúpnafell

Frá Bjarnalækjarbotnum á Gnúpverjaafrétti í Leppistungur á Hrunamannaafrétti.

Þessi leið tengir saman leiðir á afréttum Gnúpverja, Skeiðamanna, Flóamanna og Hrunamanna. Liggur frá Þjórsá til Hvítár.

Förum frá skálanum í Bjarnalækjarbotnum beint norðvestur að Eystra-Rjúpnafelli og tökum stefnu í það norðanvert og förum yfir Fellakvísl, sem er efri hluti Dalsár. Þegar við nálgumst fellið, förum við suður fyrir það og norðan við Rjúpnafellsvatn. Síðan áfram suður fyrir Vestra-Rjúpnafell og fyrir norðan Grænavatn, þar sem við komum á dráttarvélaslóð. Henni fylgjum við norðvestur að jeppaslóð milli skálanna í Leppistungum og Klakki. Fylgjum þeirri slóð skamma leið yfir Fúlá og síðan út af slóðinni til vesturs meðfram Stóra-Leppi að sunnanverðu og loks vestur fyrir fjallið að Leppistungum.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Bjarnalækjarbotnar: N64 24.833 W19 09.826.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Nálægir ferlar: Kóngsás, Fjórðungssandur, Fitjaásar, Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Tjarnarver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykholtslaug

Frá fjallaskálanum Kletti um Reykholtslaug í Þjórsárdal að Stöng.

Förum austsuðaustur frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal og stefnum í skarðið norðan við Reykholt. Förum um skarðið að Reykholtslaug og áfram austur að Stöng í Þjórsárdal. Þaðan er stutt að fjallaskálanum Hólaskógi á Gnúpverjaafrétti.

6,6 km
Árnessýsla

Skálar:
Klettur: N64 10.872 W19 52.287.
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Pálsbær

Frá reiðslóð meðfram Leirá að fjallaskálanum við Sultarfit.

Förum frá reiðslóðinni meðfram Leirá sunnan Frægðarvershnúks austsuðaustur norðan fjallsins Pálsbæjar að fjallaskálanum í Sultarfitjum.

7,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Sultarfit: N64 19.752 W19 39.427.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Núpstúnskista

Frá Hrepphólum meðfram Stóru-Laxá að Sólheimum.

Förum frá Hrepphólum austur veg að stuðlabergsnámu í hólunum og síðan áfram norður að Núpstúnskistu og austan með henni og Galtafelli, vestan við Stóru-Laxá að Sólheimum í Hrunamannahreppi.

7,6 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Nautavað

Frá Þjórsárholti um Nautavað í Fjártanga sunnan Þjórsár.

Enginn fer yfir Nautavað án leiðsagnar Árna Ísleifssonar í Þjórsárholti. Vaðið er stórgrýtt og varasamt að norðanverðu, en hvergi óþægilega djúpt. Syðri hluti vaðsins er auðriðinn. Árni Ísleifsson bóndi í Þjórsárholti, segir: “Nautavað í Þjórsá er alltaf eins, ein helzta samgönguæð Suðurlands frá fornu fari. Það er breitt og með góðum botni, nema vestast, þar sem það er dálítið grýtt.” Sagan segir, að strokunaut frá Páli Jónssyni, biskupi í Skálholti við upphaf Sturlungaaldar, hafi fundið vaðið. Frægt er, að Gottsveinn Jónsson óð vaðið á nítjándu öld í bónorðsferð til Kristínar í Steinsholti. Setti hann grjót í vasana til að fljóta ekki upp.

Förum frá Þjórsárholti suður og niður á Vaðvöll, suður yfir Þjórsá, þar sem hún er breiðust, um Vaðeyri og Vindáshólma, og tökum land í Fjártanga sunnan Þjórsár.

1,8 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Hagavað, Þjórsárholt, Vaðvöllur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Miklumýrar

Frá brúnni á Jökulfalli að Leppistungum á Hrunamannaafrétt.

Greið leið um eyðimerkurnar vestan og sunnan Kerlingarfjalla. Á síðari hluta leiðarinnar er stuttur afleggjari til Fosslækjar, þar sem er fjallaskáli í gróðurvin, þar sem sagður er hafa verið heiðarbær fyrr öldum. Engar menjar finnast samt um slíkan bæ. En gott er að gista í Fosslækjarveri sem og í Leppistungum eftir ferð ofan úr eyðimörkinni við Kerlingarfjöll. Síðan brúin kom yfir Jökulkvísl á veginum af Kili til Kerlingarfjalla, hefur þetta verið algeng ferðaleið hestamanna. Úr sveitum austan Hvítár hafa menn farið þessa leið í flokkum á landsmót í Skagafirði. Gamla leiðin lá miklu vestar og sunnar, yfir Grjótá í Hrafntóftaveri, síðan um Grjótártungu og yfir Jökulkvísl á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells.

Byrjum í 660 metra hæð á veginum frá Kili til Kerlingarfjalla, þar sem komið er austur yfir brúna á Jökulfalli. Við brúna er jeppaslóð suður með fjöllunum í Leppistungur og áfram til byggða austan Hvítár. Frá brúnni förum við þá slóð suður að Kerlingarfjöllum og síðan meðfram þeim, suður með vesturjaðri Skeljafells og síðan milli Mosfells að vestanverðu og Kúpu að austanverðu. Þar förum við hæst í 700 metra hæð. Síðan hallar slóðinni niður til suðurs og síðan til vesturs að Búðarhálsi. Við höldum áfram frá vegamótunum til suðausturs yfir norðurenda Miklumýra og komum að vesturhlið Kerlingaröldu. Við förum suður með henni að fjallaskálanum Leppistungum, sem er í 500 metra hæð undir Stóra-Leppi.

24,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Kerlingarfjöll: N64 41.074 W19 18.119.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Illahraun, Jökulfall.
Nálægar leiðir: Sandá, Leirá, Rjúpnafell, Klakkur, Grjótá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Litla-Laxá

Frá Hruna í Hrunamannahreppi að Fagradal.

Í Fagradal rennur Litla-Laxá á grónum eyrum.

Byrjum á gatnamótum þjóðvega 344 og 345 við Hruna í Hrunamannahreppi Förum ofan bæjar eftir gömlu leiðinni norður yfir Litlu-Laxá að Berghyl. Um bæjarhlaðið og áfram til norðurs undir Berghylsfjalli, unz við komum að jeppaslóða upp og suður taglið á fjallinu. Fylgjum þeirri slóð alla leið norður að eyðibýlinu Hildarseli. Þar er Kistufoss í Litlu-Laxá. Við förum síðan áfram norður og upp í Fagradal. Þar er vatnsveita Flúða. Þegar jeppavegi lýkur getum við haldið áfram reiðslóð á vestri bakka Litlu-Laxár stutta leið að reiðslóð um Fagradal milli Tungufells og Kaldbaks.

9,7 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Galtafellsleið, Stóru-Laxárvað, Sólheimar, Hrunamannahreppur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Leirá

Frá Helgaskála á Hrunamannaafrétt upp með Leirá í Leppistungur á Hrunamannaafrétt.

Þessi leið er að mestu á leið, sem ekki er fær jeppum. Góðar reiðgötur eru víða í Leirárdal og Frægðarveri.

Förum frá Helgaskála norður með Geldingafelli að vestanverðu og Leirá og Stóraversöldu að austanverðu. Síðan áfram norður með ánni í Frægðarver milli Frægðarvershnúks og Frægðarversöldu að austanverðu og Miklualdar að vestanverðu. Síðan stutt norður að Illaveri og áfram norður með Skyggni austanverðum að jeppaslóð nálægt Sandá í Leppistungur. Fylgjum þeirri slóð norðaustur á leiðarenda.

28,9 km
Árnessýsla

Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Ísahryggur, Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Rjúpnafell, Klakkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Laxárgljúfur

Frá Kaldbak í Hrunamannahreppi til Helgaskála á Hrunamannaafrétt.

Við förum meðfram voldugum gljúfrum Stóru-Laxár, hrikalegum og fallegum, einum stórfenglegustu gljúfrum landsins. Hin eiginlegu gljúfur byrja að ofan þar sem Leirá fellur í Stóru-Laxá úr norðri. Gljúfrin eru tíu km löng niður að eyðibýlinu Hrunakróki ofan við Kaldbak. Dýpt þeirra er 100-200 m. Þrengsti og efsti hlutinn nefnist Svartagljúfur. Á köflum eru gljúfraveggirnir þverhníptir til beggja handa, en sums staðar er víðara. Gljúfrin eru víða torfær eða jafnvel ófær göngumönnum. Bæði menn og skepnur hafa fallið þar niður og slasast. Stóra-Laxá rennur silfurtær í botninum.

Förum frá Kaldbak austur yfir bæjarlækinn og fylgjum dráttarvélaslóð, sem liggur í sneiðingum um hálsana milli bæjar og Stóru-Laxár. Síðan norðaustur milli Kaldbaksfjalls og Stóru-Laxár, um tún á eyðibýlinu Hrunakrók og um gilið upp af bænum, milli Seláss að vestan og Skollaáss að austan. Þegar við komum upp úr gilinu eru Laxárgljúfur á hægri hönd. Við förum norður með gljúfrunum, undir Flóðöldu að vestan og síðan um Stóraver og Laxárklettsver. Þar förum við um hlið á afréttargirðingu og síðan austur brekkur niður að Leirá. Við förum hana á vaði og síðan norðaustur yfir Leirártungu og yfir Stóru-Laxá. Svo yfir Tangaás og erum þá komin í Tangahorn og sjáum Helgaskála handan árinnar. Við getum farið hér beint yfir ána eða haldið áfram jeppaslóðina að vaði, sem er austan skálans og farið þar yfir ána áður en við komum að skálanum.

20,6 km
Árnessýsla

Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.

Nálægir ferlar: Kaldbakur, Laxárdalsvað, Fagridalur, Kaldbaksland, Fjallmannaleið, Kaldbaksvað, Ísahryggur.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Sólheimar, Svínárnes, Leirá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Laxárdalsvað

Lítið notuð reiðslóð yfir í Gnúpverjahrepp, milli Kaldbaks og Mástungu.

Á Kaldbak er gistihólf, traust skiptigerði og hnakkageymsla fyrir ferðahesta. Þessi leið er rúmum kílómetra styttri en leiðin um Kaldbaksvað, en heggur nær túnum bænda á Þverspyrnu og í Laxárdal.

Förum frá Kaldbak með þjóðvegi 345 suður úr Kaldbakslandi um hlið á girðingu. Við Húsafell fylgjum við ekki þjóðveginum, sem beygir upp hálsinn, heldur höldum áfram með skurði suður að hliði á girðingu um Þverspyrnu. Förum þar inn, milli túna og síðan eftir jeppavegi upp á þjóðveg 345. Þar förum við til austurs stutta leið, förum yfir veginn og að girðingarhorni. Förum þar um hlið og inn á dráttarvélaslóð um Folaldahlíð suður og niður að Stóru-Laxá. Bratt er niður að ánni. Ríðum yfir ána á Laxárdalsvaði og niður hana 100 metra unz við komum að slóð, sem liggur bratt upp úr ánni. Hún leiðir okkur í hlað í Laxárdal. Þar tekur við þjóðvegur 329 og fylgjum við honum til suðurs framhjá Skáldabúðum að Minni-Mástungu í Gnúpverjahreppi.

15,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Kaldbakur, Fagridalur, Kaldbaksland, Fjallmannaleið, Laxárgljúfur, Kaldbaksvað, Hallarmúli.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Sólheimar, Hildarfjall, Skáldabúðir, Illaver, Fossnes, Hamarsheiði, Þjórsárholt.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Langholtsfjall

Frá þjóðvegi 31 um Langholtsjall til Flúða í Hrunamannahreppi.

Fðrum frá þjóðvegi 31 hjá Ósabakka andspænis Langholtsfjalli. Förum norðnorðaustur yfir Stóru-Laxá, yfir þjóðveg 340 og upp suðurenda Langholtsfjalls. Síðan eftir fjallinu endilöngu og að lokum meðfram þjóðvegi 340 norðnorðaustur til Flúða í Hrunamannahreppi.

11,3 km
Árnessýsla

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH