Skúmstungur

Frá Hólaskógi á Gnúpverjaafrétt að Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétt.

Hluti hins forna Sprengisandsvegar, sem lá sunnan úr Þjórsárdal norður í Bárðardal. Leiðin liggur yfir líparítfjallið Sandafell og gróðursælar Skúmstungur, upp Skúmstungnaheiði, um Starkaðsver og Hjallaver í Gljúfurleit. Engir jeppar eiga að geta verið á leiðinni, ef farin er forna slóðin og ekki jeppavegurinn. Vörðurnar hafa verið endurnýjaðar, svo að auðvelt er að rata eftir þeim, þótt reiðslóðin sé orðin fáfarin, síðan fáfróðir fóru að ríða jeppaveginn. Undir Starkaðssteini varð úti norðanmaður á leið til unnustu sinnar í hreppum. Dreymdi hana, að Starkaður kæmi til sín og kvæði þessa vísu: “Angur og mein fyrir auðarrein / oft hafa skatnar þegið, / Starkaðs bein und stórum stein / um stundu hafa legið.”

Förum frá fjallaskálanum í Hólaskógi í 280 metra hæð og fylgjum vörðuðu Sprengisandsleiðinni vestan Þjórsár. Fyrst til vesturs gegnum girðingu og síðan með girðingunni til norðausturs. Áfram upp Sandafell í 450 metra hæð og síðan niður af því til norðausturs að Sultartangalóni, þar sem gerði er í Skúmstungum. Fylgjum Innri-Skúmstungnaá til norðurs upp á Skúmstungnaheiði, fyrst vestan árinnar og síðan austan hennar um blautt en greiðfært Starkaðsver. Förum þar framjá Starkaðssteini. Bílvegurinn er á svipuðum slóðum. Um Hjallaver liggur slóðin töluvert vestan vegar í 560 metra hæð, en reiðvegur og bílvegur mætast við Blautukvísl áður en komið er að afleggjara til austurs yfir Gljúfurá og undir Lönguhlíð að skálanum í Gljúfurleit í 480 metra hæð.

22,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.
Gljúfurleit: N64 17.751 W19 20.901.

Nálægir ferlar: Gjáin-Stöng, Ísahryggur, Hraunin.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skeiðamannafit.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið