Sprengisandur

Frá Suðurlandi til Norðurlands milli Hofsjökuls og Tungnafellsjökuls.

Allar aldir hafa verið tvær leiðir um Sprengisand fyrir utan Bárðargötu. Önnur leiðin lá úr byggð vestan Þjórsár og hin austan Þjórsár. Vestari leiðin hefur einkum verið notuð af hestafólki, því að hún er grónari. Hér er vestari leiðinni lýst frá suðri til norðurs undir heitunum Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar, Háumýrar, Háöldur og Kiðagil. Austurleiðinni er lýst undir heitunum Nýidalur og Fjórðungsalda. Sjáið leiðarlýsingar Sprengisands á viðkomandi stöðum. Sprengisandur var kallaður Gásasandur og Sandur í Sturlungu. Á fyrsta nákvæma Íslandskortinu frá 1849 eru vestari og eystri leiðirnar tengdar saman um Sóleyjarhöfðavað.

Sjá að öðru leyti texta um einstakar leiðir á Sprengisandi. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti. Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa.

? km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Háöldur, Háumýrar, Nýidalur, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar,Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort