Punktar

Beztu miðlarnir

Punktar

Þótt bandarískir fjölmiðlar eigi bágt, er kemur að pólitískum rétttrúnaði á borð við herinn og stríðin og hryðjuverkin, eru þeir í heildina beztu fjölmiðlar í heimi. Þeir eru ágengir og hafa burði til að stunda reikninga og rannsóknir. Á einni viku grafa þeir upp fleiri leyndarmál en evrópskir fjölmiðlar gera á heilu ári. Bandarískir fjölmiðlar búa líka við meira svigrúm en þekkist í Evrópu. Svokölluð sólskinslög hafa leitt til, að þúsundir opinberra gagnabanka hafa ratað í hendur fjölmiðla. Allir þessir gagnabankar væru taldir ríkisleyndarmál hér á landi.

Skemmtiþula CBS

Punktar

Skemmtikrafturinn Katie Couric hefur verið ráðinn fréttaþulur CBS, þar sem áður voru þungavigtarmenn á borð við Walter Cronkite og Dan Rather, sem voru reyndir fréttamenn og vissu, hvað þeir voru að tala um. Með ráðningu skemmtikrafts eru fréttir orðnar sérgrein skemmtunar að mati CBS. Þar þurfa fréttaþulir bara að kunna að lesa línur á prompter, án þess að vita um efni málsins. Couric kemur úr skemmtiþættinum Today og stóð sig ekki vel sem fréttaþulur CBS á ólympíuleikunum á Ítalíu í vetur. Almennt er bandarískt sjónvarp á flótta frá fréttum og Couric er hluti af því.

Þreytt dagblað

Punktar

Washington Post hefur látið á sjá með árunum. Meira en tveir áratugir eru síðan blaðið skákaði New York Times í Watergate-málinu. Hin síðari ár hefur blaðið færzt til hægri, sem einkum má sjá í leiðurum blaðsins og vali þess á kjallarahöfundum, svo sem George F. Will og Charles Krauthammer. Leiðarar þess hafa stutt Íraksstríðið og styðja nú Bush forseta í lekamálinu, þar sem hann lét leka villandi upplýsingum til að sverta sendiherra, sem vildi ekki spila með, þegar Bush laug stríðinu upp á þjóðina. Washington Post er orðið að málgagni ömurlegra stjórnvalda.

Viktoría drottning

Punktar

Mér þótti Viktoría drottning gott og fallegt hótel í borgarmiðju Madríd, rétt hjá Puerta del Sol, með svölum við hvert herbergi. Þetta var nautabanahótelið, þar sem allir nautabanar gistu og þar sem allir samningar um nautaat voru gerðir til skamms tíma. Þegar ég kom við sögu, höfðu bandarískar ekkjur að mestu tekið við af nautabönum á hótelbarnum, en eigi að síður var þetta enn göfugt hótel. Nú er búið að loka Reina Victoria. Þar á í haust að stofna nýtt hótel, svonefnd Hard Rock Hotel með tilheyrandi hávaða. Um slíkt sögðu Rómverjar: “O tempora, o mores”.

Stiglitz heggur enn

Punktar

Joseph Stiglitz Nóbelsverðlaunahafi, áður aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, hefur enn ráðist á hagfræði hnattvæðingar, svokallaða Washington-sátt, sem áður hét Chicago-hagfræðiskólinn. Í Guardian í gær bendir Stiglitz á, að þeim ríkjum hafi vegnað bezt í þriðja heiminum, sem höfðu bein í nefinu til að hafna skipunum Alþjóðabankans. Fremst í flokki eru þar Kína, Indland og Malasía, sem áratugum saman hafa risavaxinn hagvöxt á mann, meðan kreppa hnattvæðingarinnar reið yfir þriðja heiminn. Í greininni fjallar Stiglitz einkum um Kína, sem hann segir standa sig betur en Bandaríkin í fjármálum og umhverfismálum.

Veik fyrir árásum

Punktar

Krónan er hluti af örlitlu þjóðfélagi og verður alltaf veik fyrir árásum, hvort sem að verki er norski olíusjóðurinn; Den Danske Bank, sem setti Færeyjar á hausinn fyrir 10-15 árum; eða George Soros, sem felldi brezka pundið árið 1992. Krónan þarf ekki bara að standa undir þjóðfélaginu, heldur líka undir útrás íslenzkra kaupsýslumanna. Betra er að hafa grunn, sem ekki bilar á örlagastundu. Evran er réttur grunnur, sterkari en dollar. Henni munar ekkert um að bæta á sig þjóð, sem á heimsmet í undirballans. Gerum evruna strax gjaldgenga í búðum, kortum og öðrum viðskiptum.

Herforingjar mótmæla

Punktar

Bandarísku hershöfðingjarnir John Batiste, Gregory Newbold, Paul Eaton og Anthony Zinni hafa hver í sínu lagi undanfarið lýst yfir, að stríðið gegn Írak hafi verið mistök, og hvatt til, að Donald Rumsfeld ráðherra verði látinn víkja fyrir að draga herinn út í svað. Áður hafði Eric K. Schinseki verið rekinn sem formaður herráðsins fyrir að andmæla hinum róttæka og ofurbjartsýna stríðsráðherra. Herforingjarnir eru minnugir hrakfara Bandaríkjanna í Víetnam og víðar og hafa áhyggjur af, að ungt fólks vill ekki lengur ganga í herinn. Auk þess telja þeir Rumsfeld vera fífl.

Hafna sköpunartilgátunni

Punktar

Elzta og merkasta vísindafélag í heimi, The Royal Society í London, hefur harðlega gagnrýnt þá tilgátu, að guð hafi skapað lífið, en það hafi ekki þróast samkvæmt kenningu Darwins. Aðvörun félagsins segir trú á sköpunina jafngilda trú á, að storkar komi með börnin í heiminn. Jafnframt hafa brezk kennarasamtök ályktað gegn opinberum fjárframlögum til skóla trúfélaga, þar sem sköpunartilgátan er kennd. The Royal Society gaf út yfirlýsingu við þetta tækifæri um eindreginn stuðning við þróunarkenningunna, sem hefur lengi verið hornsteinn vísindalegra framfara.

Loforð fyrir trúgjarna

Punktar

Íslendingar eru trúgjarnir með afbrigðum. Sumir eru jafnvel sannfærðir um, að þeir geti orðið ríkir á að svara tölvupósti frá Nígeríu. Sumir munu vafalaust trúa kosningaloforðum Framsóknarflokksins í Reykjavík, sem þekja heila síðu í dagblöðum. Þau slá fyrra Íslandsmet flokksins frá því fyrir sjö árum, þegar hann lofaði að leggja milljarð í baráttu gegn fíkniefnum og gera landið fíkniefnalaust fyrir síðustu aldamót. Allt er þetta auðvitað linnulaus lygi, en það er meira að segja til fólk, sem trúði því um daginn, að Nígeríumenn gætu galdrað peninga með því að hrista miða saman í poka.

Björn og Geir

Punktar

Björn Bjarnason vék að þessu sinni úr sæti veljanda og Geir Haarde hefur skipað Hjördísi Hákonardóttur í Hæstarétt. Vonandi er þar með bundinn endir á einkennilegt tímabil, þar sem ýmist persónulegt eða pólitískt ofstæki réð vali dómara. Það tímabil náði hámarki með skipun frænda Davíðs, sem nánast allir töldu óhæfan. Björn á raunar flokksins vegna að víkja úr valdastóli, hann er hálfgerður Rumsfeld, of einstrengingslegur og fanatískur til að vera í pólitík. Geir veit hins vegar, að hann þarf að geta selt flokkinn í kosningum eftir rúmt ár.

Fjölmiðlaþögn

Punktar

Við höfum séð, heyrt og lesið, að frumvarp um breytingar á eftirlaunalögum heilags Davíðs hafi frosið í forsætisnefnd Alþingis. Ég hef ekki séð á vefnum, að neinn fjölmiðill geti útskýrt, hvað gerðist í nefndinni. Er þar einhver meirihluti eða einn maður, sem heldur frumvarpinu föstu og getur hann þá ekki útskýrt gerðir sínar? Fjölmiðlar eru til þess að útskýra dularfull mál af þessu tagi fyrir fólkinu í landinu. Það er hlutverk þeirra að varpa fram svörum, en ekki ósvöruðum spurningum. Ef þeir hafa ekki burði til þess, eru þeir lítils virði.

Monty Roberts

Punktar

Monty Roberts hefur gert meira fyrir hesta en aðrir menn samanlagt, hefur kennt heiminum að temja hesta ekki með grimmd, heldur með lagi. Hann er kallaður hestahvíslarinn, talar við hesta á táknmáli. Hér á landi hafa tamningar færst óðfluga í þessa átt og nú er Monty kominn hingað til að kenna og sýna. Tamningar eru þegar orðnar góðar hér á landi og verða enn betri eftir komuna. Hestum líður vel, þeir verða hættulausir og hænast að fólki. Áður urðu hestar að éta það, sem úti frýs, en nú er velferð þeirra allt önnur og betri.

Tvennt óraunhæft

Punktar

Óraunhæft er að ræða við evrópsk ríki um samstarf að varnarmálum Íslands. Ríki Evrópu eru yfirleitt ekki áhugasöm um varnir, enda hafa kjósendur þar að mestu misst áhuga á þeim. Við fáum tæpast nokkuð frítt frá Evrópu, sem Bandaríkin tíma ekki að borga, þrátt fyrir heimsveldi þeirra. En ekki er síður óraunhæft að væla utan í USA, sem er hættulegasta hryðjuverkaríki heimsins um þessar mundir, andstæðingur flestra hugsjóna, sem einkennt hafa Vesturlönd í hálfa öld. Það er sjúklegt að biðja Bush og Rumsfeld, Cheney og Rice um aðstoð, af hverju þá ekki IRA eða Sinn Fein, alKaída eða Ísrael.

Vatnsmýrin enn

Punktar

Gísli Marteinn Baldursson er blessunarlega hættur að tala um byggð úti í sjó og talar nú um það, sem er heldur illskárra, byggð í Vatnsmýrinni samkvæmt félagslegum rétttrúnaði vinstri manna. Hvorki Reykjavíkurlistinn né Gísli Marteinn hafa þó reiknað, hversu mikið muni aukast álag á götur út af byggðinni í Vatnsmýri. Þeir reikna bara með, að menn vinni í sama hverfi og þeir búi. Raunveruleikinn er hins vegar, að flestir aka gegnum bæinn í vinnu og úr. Vatnsmýrin er verri en byggð á Kjalarnesi, af því að aukið álag kemur mest á Miklubraut og þröngar götur gamals nágrennis.

Græna íhaldið

Punktar

Á leið brezkra krata yfir á róttæka hægri kantinn í pólitík hefur myndazt tómarúm vinstra megin við flokkinn. Nú hefur Íhaldsflokkurinn með nýjum formanni, David Cameron, hlaupið í tómarúmið sem grænn umhverfisflokkur. Meðan Tony Blair flaðrar upp um geðveika ráðamenn Bandaríkjanna og tekur fríin út með bóndafangaranum Berlusconi á Ítalíu, er íhaldið að koma sér fyrir, þar sem brezkur almenningur er í pólitík. Líklega á mikið vatn eftir að renna um túrbínur áður en íslenzki íhaldsflokkurinn gerist grænn til að gleðja kjósendur.