Punktar

Svigrúm fyrir svindl

Punktar

Skipulagsráð borgarinnar hefur úrskurðað, að 30 sentimetrar séu innan við mælanlega vegalengd milli vina. Vesturgata 3 má vera 30 sentimetrum hærri en ákveðið var. Gott er fyrir borgarsamfélagið að ákveða í eitt skipti fyrir öll, hvert megi vera svigrúm fyrir svindl. Enda segir í úrskurðinum, að skuggi af 30 sentimetrum “sé óverulegur og nánast ómælanlegur”. Þetta er skilgreining, sem lengi hefur skort. Menn hafa verið með reglugerðir og skipulagspappíra í höndunum og átt erfitt með að fylgja þeim eftir. Gott kjörorð í kosningabaráttunni: “Leyfum 30 sentimetra svigrúm fyrir svindl.”

Fínn Vilhjálmur

Punktar

Vilhjálmur er fínn frambjóðandi til borgarstjóra, hæfilega sjóaður af langri reynslu í félagshyggju borgarmála til að stýra flokknum á miðjunni í pólitík. Hann er líka ekta kall, ekki yfirborðslegur eins og títt er um unga menn í pólitík. Þar sem sveitarstjórnamál eru meira fagleg en flokkspólitísk, þarf ekki að rífast á háa séi út af öllu og engu. Og Vilhjálmur hefur gætt hófs í þrasinu, en í staðinn unnið í málum og veit um hvað þau snúast. Hann og Don Alfredo vita mest um pólitíkina í Reykjavík, en Vilhjálmur er ekki nagli eins og hinn.

Sigra heiminn

Punktar

Unga fólkið er klárt á Íslandi, vel menntað og sumt jafnvel orðið auðugt. Það er að sigra heiminn í kaupsýslu og listum. Á hverju sviðinu á fætur öðru stígur ungt fólk fram og gert hluti, sem áður voru taldir óhugsandi. Of snemmt er að spá um farsæld þessa fólks, en enginn frýr því vits. Þetta eru allt aðrir og betri árgangar en þeir voru í gamla daga, þegar ég kom á vinnumarkað og þurfti bara að geta mætt og vera ófullur til að vera betri en hinir. Unga fólkið í dag er ekki með mosann í skegginu, það er óbilandi bjartsýnt og starfar ýmist í fjármálum eða listum. En sést ekki í pólitík.

Frír leikskóli

Punktar

Svo að ég gleymi því ekki, þá var það Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, sem setti fram ráðagerðina um að gera leikskóla borgarinnar ókeypis á nokkrum árum. Það var frábær hugmynd, sem allir voru hneykslaðir á, þegar hún kom fram í vetur. Nú þykjast allir Lilju kveðið hafa og allir flokkar lofa fríum leikskóla í áföngum á nokkrum árum. Ég held hins vegar, að enginn meini það í alvöru nema Steinunn Valdís. Hinir eru bara að keppast við að ljúga upp sem stærstum og flestum kosningaloforðum, svo að menn kjósi þá.

Sambandslaus

Punktar

Dagurinn er háður netinu. Þegar ég blogga eða skrifa skýrslu, rekst ég oft á atriði, sem ég er ekki viss um. Þá kemur netið til bjargar, einkum Google, fremur en handbækur eða orðabækur. Ég fletti meira að segja upp í Google, þegar ég er ekki viss um, að ég sé með rétt föðurnafn á Íslendingi. Rétt skal vera rétt. Ég fann, hversu háður ég er, þegar ADSL línan mín frá Símanum dó kl.6 í gærmorgun um leið og ég var búinn að koma bloggi dagsins á netið. Hún var dauð fram á kvöld og auðvitað enga þjónustu að hafa hjá gamla ríkisfyrirtækinu um helgar. Svo lifnaði hún eins og hún dó.

Húsnæðisvextir

Punktar

Af hverju tala pólitíkusar ekki um áhrif komandi verðbólgu á húsnæðislán? Unga fólkið, sem hefur steypt sér í miklar skuldir til að kaupa húsnæði fyrir okurfé, hefur það ekki áhyggjur af þróun mála? Það borgar tugi þúsunda á hverjum mánuði í vexti húsnæðislána og hlýtur að hafa áhyggjur af, að þeir hoppi upp. Það gera þeir, þegar Seðlabankinn fer þá gamalkunnu leið að stórhækka forvexti, sem þegar eru hæstir í heimi. Allt eru þetta vandræði, sem stafa af, að krónan er of lítil fyrir heimsmarkaðinn. Við þurfum evru og evrópska lágvexti, ekki séríslenzkt fúsk.

Skrítin Sikiley

Punktar

Skrítið land er Sikiley. Þar hefur gamall morðingi verið á flótta undan kerfinu í 43 ár. Kona hans hefur búið allan þennan tíma í Corleone, þvegið af honum og sent þvottinn til baka. Þótt Bernardo Provenzano sé forríkur, varð hann að lifa allan þennan tíma eins og flækingur, eina nótt á bedda og aðra nótt í heyi. Á þessum flækingi stýrði hann morðum og mannaráðningum, hverja átti að kjósa og hverja átti að rukka. Öflugt hefur verið það kerfi embættismanna og stjórnmálamanna, sem gerði honum kleift að leynast fyrir réttvísinni í 43 ár. Og nú er þessi merkismaður orðinn tugthúslimur.

Skattar allra á netinu

Punktar

Polly Toynbee vill í Guardian koma álagningu skatta á netið og bendir á Finnland og Noreg sem fyrirmynd. Á Íslandi er ekki hægt að sjá skatta fólks á netinu, bara fara og fletta í skrám takmarkaðan tíma á hverju sumri. Toynbee telur réttilega, að gengsæi sé hornsteinn lýðræðis, meðan útvíkkun einkalífs sé andsnúin lýðræði. Hér á landi vilja menn að líta á fjármál sem einkalíf og fyrirtæki sem handhafa einkalífs. Kominn er tími til, að menn stingi við fótum og flokkarnir fari að gefa kosningaloforð um afnám kontórsins Persónuverndar í núverandi mynd.

Fljúgandi furðuhlutir

Punktar

Hvað varð um fljúgandi furðuhlutina, spyr Iain Hollingshead í Guardian. Þeim hefur fækkað síðustu áratugi, einkum vegna rannsókna, sem gefa á þeim eðlilegar skýringar. Upp úr 1950 voru furðuhlutir í hámarki og stofnaðar deildir í hernum í Bandaríkjunum og Bretlandi til að safna upplýsingum um þá. Fljótlega kom í ljós, að furðuhlutirnir voru bara rugl. Eigi að síður voru þeir lengi vinsælir og fengu til dæmis sérstaka og langlífa þáttaröð, sem heitir X-files. Karl Bretaprins er sagður áskrifandi að tímaritinu The Flying Saucer Review. En almenningur hefur misst áhugann.

Gunnar hatar hestamenn

Punktar

Ekki skil ég, af hverju Gunnari I. Birgissyni, einræðisherra í Kópavogi, er svona illa við hestamenn. Það hlýtur að vera eitthvað persónulegt. Hann er búinn að svæla þá út úr hverfi þeirra og er nú með risablokkum og skurðum að svæla restina burt af Heimsenda. Reiðleiðin frá Heimsenda að Elliðavatni er ófær og illfær leiðin um Elliðahvamm til Reykjavíkur. Voru þó hestar eitt af því fáa indæla við Kópavog, sem er nú að breytast í steinsteypta slömm, einkum svæðið við Smáralind. Og af hverju eyðir hann útsvarinu í montskilti við Litlu Kaffistofuna? Þetta er ekki í lagi.

Séríslenzkar aðferðir

Punktar

Mig langar alltaf til Evrópu, þegar ég les eða heyri Bjarna Harðarson. Hann skrifar oft af angurværð um Framsókn þess tíma, er menn tóku ekki mark á fjölþjóðlegum straumum í pólitík og leyfðu séríslenzkri spillingu að dafna undir verndarvæng Framsóknar. Séríslenzkar aðferðir hafa ævinlega leitt til bölvunar, allt frá bátagjaldeyri til brennivínseinokunar. Okkur hefur gengið bezt, þegar við höfum stælt útlönd. Reglugerðir Evrópusambandsins hafa 95% verið okkur til gæfu. Mig langar á Caffè Greco í Róm eða Henri IV í París, þegar ég heyri í gúmmískónum og Kaupfélaginu á 21. öld.

Félagslegur rétttrúnaður

Punktar

Þriðjungur þjóðarinnar er hræddur við fjölgun nýbúa, af því að hann veit, að aðlögun þeirra hefur ekki gengið sem skyldi. Fólk er ekki óttaslegið, af því að Ásgeir Hannes Eiríksson hafi sagt eitthvað, sem ekki samræmist félagslegum rétttrúnaði, heldur af því að Eiríkur Bergmann Eiríksson dósent hefur útskýrt í smáatriðum, hvernig risið hafa vandamál tengd nýbúum og hversu andvaralaus stjórnvöld hafa verið og eru enn. Hann bendir á, að senn komi gettó til sögunnar, sem síðan breytist í púðurtunnur. Tilraunir til að lasta Ásgeir Hannes út af þessu eru félagslegur rétttrúnaður af ódýru tagi.

Sæluvíma Halldórs

Punktar

Meðan allt fer fjandans til, lifir Halldór Ásgrímsson í sæluvímu embættis forsætisráðherra. Hann hefur engin ráð við verðbólgunni önnur en fleiri álver, sem magna verðbólguna. Hann þekkir enga útlenda ráðamenn, þótt hann hafi verið á ferð og flugi árum saman sem utanríkisráðherra. Hann getur ekki beðið um grið fyrir árásum á krónuna. Hann getur ekki beðið um, að Evrópa hlaupi í skarð Bandaríkjanna. Þótt Keflavíkurvöllur verði næsta auður í haust, vilja tindátar Halldórs í Reykjavík láta fólk borga fyrir sérstakan flugvöll á Lönguskerjum. Eins og við vitum ekki aura okkar tal.

Eigum engan vin

Punktar

Þótt John Vinocur sé ekki merkasti dálkahöfundur New York Times, er rétt að taka mark á sumum atriðum í lýsingu hans á einangruðu Íslandi. Bandalagið við Bandaríkin er fyrir bí og utanríkisráðherra gengur stafkarls stíg um höfuðborgir Evrópu og Jan Mayen til að fá ríki Evrópu til að hlaupa í skarð verndarans. Á sama tíma og norska stjórnin veltir fyrir sér aðild að vörnum landsins, stjórnar deild í norska seðlabankanum árás á íslenzku krónuna. Vinocur er sérfræðingur í ráðabruggi Frakklands í alþjóðamálum og gefur lítið fyrir viðræður Geirs Haarde við frönsku naglana. Við eigum engan vin.

Hefnd að ári

Punktar

Hömlulaus hagvaxtarstefna ríkisstjórnarinnar hefur hefnt sín með hruni krónunnar, sem hefur rýrnað um tæpan þriðjung frá áramótum. Ríkisstjórnin hefur misst þau litlu tök, sem hún hafði á þjóðarhag. Fleiri aðilar hafa komið að fylleríinu, sem nú er liðið. Fólkið sjálft hefur spilað með stjórninni og steypt sér í skuldir, sem það getur ekki endurgreitt. Á næstu mánuðum fer verðbólgan upp í tíu prósent eða hærra og kippir fótunum undan þjóðarsáttinni um endalausan hagvöxt. Þegar hann bregzt, hefnir timbruð þjóðin sín og fellir stjórnina í kosningum að ári.