Punktar

Látið Persíu í friði

Punktar

Á sjálfvirkan hátt eru þrjú atriði athugaverð við aðild Evrópu að þrýstingi á Persíu út af kjarnorkumálum. Í fyrsta lagi hefur aldrei gefizt vel að hóta stríði. Í öðru lagi hefur aldrei gefizt vel að fara að ráðum Bandaríkjanna í utanríkismálum. Í þriðja lagi hefur aldrei gefizt vel að þjóna hagsmunum Ísraels. Betra er að fara í flokk með Rússlandi og Kína og hleypa Bandaríkjunum einum á foraðið. Aldrei hefur verið gefin skýring á, af hverju Persar megi ekki gera það, sem Ísraelsmenn og Bandaríkjamenn, Indverjar og Pakistanir hafa mátt gera.

Málfrelsi í hættu

Punktar

Evrópa er að taka ranga afstöðu með félagslegum rétttrúnaði og gegn málfrelsi, segir Richard Bernstein í International Herald Tribune í dag. Hann bendir á málaferli gegn fólki, sem hefur raskað ró trúaðra í Þýzkalandi, Póllandi og Austurríki og hvellinn út af skrípamyndum af Múhameð spámanni. Bernstein segir, að málfrelsi sé slíkur hornsteinn þjóðskipulagsins, að önnur viðhorf á borð við siðsemi megi ekki skyggja á það. Við þetta má bæta, að persónuvernd hefur læðst inn í stjórnsýslu og dómvenju, þótt málfrelsi sé í stjórnarskrám, en alls ekki persónuvernd.

Þrýstihópar dansa

Punktar

Lagafrumvörp um sambúð þrýstihópa og stjórnvalda mistókust í þessari viku á Evrópuþinginu og á Bandaríkjaþingi. Í Evrópu gerir það ekki ráð fyrir, að þrýstihópar upplýsi, fyrir hverja þeir starfa, hvernig þeir eru fjármagnaðir og hver sé sambúð þeirra við þingmenn. Í Bandaríkjunum er frumvarpið hrein sjónhverfing, bannar til dæmis ekki mútur í gjöfum og greiðslu á ferðakostnaði og matarkostnaði og tekur ekki á hringekju manna milli þingmennsku og vel launaðra starfa hjá þrýstihópum. Enda hefur heimsins mesti spillingarflokkur meirihluta á bandaríska þinginu.

Sambandslaust

Punktar

Kosningaloforð eru orðin sambandslaus við veruleikann í baráttunni um borgarstjórn í Reykjavík. Þar leikur harðast Framsókn, sem hefur í ríkisstjórn reynt að skaða borgina, til dæmis með því að skerða vegafé til hennar. Þrátt fyrir andstöðu flokksins við Sundabraut, lofar flokkurinn dýrustu leiðinni við gerð hennar strax. Lengra verður tæpast komizt í sambandsleysi við staðreyndir. Einnig sanna dæmin í ríkisstjórn og á Alþingi, að Framsókn er óvinur gamlingja og sjúklinga, fjölskyldna og barna, en hjá borginni þykist hún vera bezti vinur allra, sem lítils mega sín.

Endurkoma Hitlers

Punktar

Pólverjar eru yzt á hægri kanti stjórnmála. Þar er ríkisstjórn Kaczynski-tvíburanna. Hún verndar Marija, ofbeldissinnaða og ofsatrúaða útvarpsstöð, sem er gegnsýrð gyðinghatri. Kaczynski-tvíburar bönnuðu líka árlega göngu samkynhneigðra í vetur. Fulltrúi Páfagarðs hefur opinberlega þvegið hendur sínar af útvarpsstöðinni, sem stríðir gegn lögum gegn gyðingahatri, en samt hafa Kaczynski-tvíburarnir ekkert gert. Þeir hafa hins vegar ráðizt gegn helzta dagblaði landsins, Gazeta Wyborcza, þar sem starfa nokkrir gyðingar. Er Hitler genginn aftur?

Kúgun rofnar

Punktar

Frakkar hafa lagt til, að hafnar verði að nýju greiðslur til Palestínu, sem lagðar voru niður, þegar Hamas vann sigur í frjálsum kosningum. Þeir vilja, að settur verði upp evrópskur sjóður í Alþjóðabankanum og að úr þessum sjóði verði greitt beint til opinberra starfsmanna í Palestínu, sem nú fá ekki laun. Bush Bandaríkjaforseti er algerlega andvígur, því að hann vill svelta Palestínu til hlýðni. Sem betur fer rennur upp fyrir Evrópu, að ekki má hunza niðurstöðu frjálsra kosninga. Hún stofnar því sjóðinn án aðildar Bandaríkjanna. Þá rofnar hin vestræna kúgun Palestínu.

Verkin tala hærra

Punktar

Tekjur gamals fólks eru tvískattaðar. Fyrst er skertur ellilífeyrir þess, ef það hefur tekjur úr eigin lífeyrissjóði. Svo eru tekjur úr lífeyrissjóði skattlagðar eins og aðrar tekjur. Samtals tekur ríkið 70% og allt upp í 85% af fólki í skerðingu og skatt. Stefán Ólafsson prófessor benti á þetta í erindi í gær. Þetta dæmi sýnir viðhorf stjórnvalda til velferðar í verki. Viðhorf Framsóknar og Sjálfstæðis til velferðar verður svipað hjá borginni, ef þeir komast þar til valda. Þá verður hætt við ókeypis leikskóla, þótt þeir lofi öðru. Verkin tala hærra en loforðin.

Tvö heilbrigðiskerfi

Punktar

Bandaríska læknatímaritið Journal of the American Medical Association hefur sýnt, að bandaríska heilbrigðiskerfið er lakara en evrópsk kerfi. Það kostar tvöfalt meira og nær minni árangri. Í Bandaríkjunum eru meiri líkur á, að fólk standi utan kerfisins. Miðaldra fólk þjáist þar meira af margs konar sjúkdómum, sumpart vegna nagandi öryggisleysis. Bandaríkjamenn eru sykursjúkir og taugaveiklaðir, hafa hjartatruflanir og krabbamein. Bandaríska heilbrigðiskerfið er fyrir fáa útvalda og þjónar þessum fáu útvöldu verr en evrópsk kerfi þjóna öllum almenningi.

Mafíufrí verzlun

Punktar

106 kaupmenn í Palermo á Sikiley hafa sameinazt um mafíufría verzlun og fengið undirskrifuð loforð 7000 neytenda um viðskipti. Þetta er mikil breyting á eyju, þar sem 80% viðskiptalífsins gjalda mafíunni mánaðarlegan skatt. Samanlagt nemur þessi skattur 35 milljörðum evra á ári. Mafíufrí verzlun hefur ekki verið til á Sikley í manna minnum. Þess vegna hefur mannleg reisn ekki verið til á eyjunni og þess vegna hef ég aldrei viljað fara þangað, ekki einu sinni til að skoða grískar rústir. Nú fer kannski að líða að því, að ég geti skoðað Sýrakúsu og Agrigentum.

Ákveðandinn kominn

Punktar

Tungutak nútímans minnir í auknum mæli á söguna “1984” eftir George Orwell. George W. Bush segist vera “ákveðandinn”. Fangar “hverfa” í fangelsum Bandaríkjamanna víða um heim. Fangar heita “óvinveittir bardagamenn” til að halda þeim utan við Genfarsáttmálann. Mannfall óbreyttra borgara heitir “óviðkomandi skemmdir”. Lögfræðingar sitja með sveittan skallann á stjórnarskrifstofum við að búa til ný orð til að fara kringum gamalt gildismat. Í “1984” óttuðust menn mest friðarráðuneyti hersins og ástarráðuneyti lögreglunnar. Förum við í “frið” við Íran?

Sannleikur lekur út

Punktar

Bandarískir fjölmiðlar koma vikulega upp um meira svindl og svínarí en samanlagðir evrópskir fjölmiðlar gera á heilu ári. Það stafar af, að vestan hafs vefengja menn þá, sem völdin hafa, og hafna því, að satt megi kyrrt liggja. Samt eru bandarískir fjölmiðlar háðir félagslegum rétttrúnaði hvers tíma. Þeir geta ekki andæft gegn stríði, trúarofstæki, fána og þjóðsöng. Þeir tóku seint við sér í Víetnam og þeir tóku seint við sér í Írak. En þar lekur þó sannleikurinn út um síðir, sem seint mundi gerast í hvimleiðu blaðri íslenzkra fjölmiðla upp úr fréttatilkynningum.

Félagsleg villutrú

Punktar

Lítið er um félagslega villutrú hér á landi. Hér er tæpast nokkur Galíleó. Flestir syngja sama leiðindasönginn, auðhyggju í viðskiptum og félagshyggju í opinberu lífi. Loforð flokkanna í Reykjavík eru nokkurn veginn eins. Enginn fjölmiðill er á jaðri hins mögulega, kannar útjaðra félagslegs rétttrúnaðar og rambar út fyrir þá. Í auknum mæli ráða þrjú spakmæli Íslandi einu, en ekki öðrum löndum. Fyrsta spakmælið er: “Oft má satt kyrrt liggja.” Annað er: “Þeim, sem guð gefur embætti, gefur hann líka forstand.” Þriðja er: “Allir eiga annan séns.”

Blað og vefur

Punktar

Kosturinn við að skrifa skoðanir á vefinn er, að efnið fer beint á vefinn. Þegar ég skrifaði í blöð, birtist efnið í blaðinu daginn eftir og tveimur dögum síðar á vefnum. Þótt skoðanir í blöðum fari heim til tugþúsunda manna, en aðeins hundruð eða þúsundir manna sæki sér skoðanir á vefnum, verð ég ekki var við neinn mun. Sneggri birting kemur á móti meiri útbreiðslu. Þeir, sem vilja lesa pistla mína, lesa þá, hvort sem þeir eru í blaði eða á vefnum. Fólk, sem ég hitti á förnum vegi, vitnar jafnmikið eða -lítið í pistlana, hvort sem þeir voru fyrst í blaði eða bara á vefnum.

Hindra samkomulag

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hindra samkomulag í nefnd um fjármál stjórnmálaflokkanna, auðvitað af því að þeir hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Málið er ekki flókið, ef menn eru ekki að velta fyrir sér boðum og bönnum. Það eina, sem þarf, er að gera fjármálin gegnsæ, þannig að hver króna, sem gefin er í fé eða fríðu til einstakra frambjóðenda eða framboða, verði gefin upp, gegn skattaafslætti. Þetta er svo sem ekki mikið, sem beðið er um. En Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn telja sér ekki verða refsað í kosningum fyrir þvergirðinginn.

Auðræði Framsóknar

Punktar

Auðræði ríkir, þar sem frambjóðendur verja mestum hluta tímans til að sníkja peninga hjá hagsmunaaðilum. Mesta peninga fá þeir, sem hafa sýnt eindreginn stuðning við hagsmunaaðilann eða lofa honum. Mestum árangri nær frambjóðandi, sem sameinar þetta einlægri framkomu gagnvart kjósendum, sem telja sér trú um, að hann sé að vinna fyrir þá. Úr þessu verður kerfi pólitíkusa, sem blekkja kjósendur. Menn tala lýðræði en fremja auðræði. Þetta bandaríska kerfi er á leið hingað, þar sem fylgislaus Framsókn veður í peningum handa frambjóðendum, sem bezt geta blekkt þig.