Punktar

Vænisjúkur Napóleon

Punktar

Óttablandið hatur flokksbrots í Framsókn á fréttastofu Ríkisútvarpsins er svo furðulega vænisjúkt, að það skilst ekki. Eðlilega spyr fréttakona Sigmund Davíð út í einstæðar langtíma fjarvistir hans úr vinnunni. Og allt fer á hvolf. Jafnvel Davíð Oddsson og Björn Bjarnason ná ekki upp í nef sér. Heimtuð er rannsókn á fréttamennsku Ríkisútvarpsins. Eina stóra fréttamiðilsins, sem ekki er í eigu þröngra sérhagsmuna. Spurning Sunnu Valgerðardóttir var fyllilega réttmæt og einstaklega tímabær, ekkert annað. Spunnin er þvæla um alþjóðlegt samsæri á vegum George Soros. Um að skera íslenzku stælinguna á félaga Napóleon niður við trog.

Rústun Landspítalans

Punktar

Ég er einn af mörgum, sem hef þurft að nota þjónustu Landspítalans síðustu árin. Fáir okkar sjá eins illa og Landlæknir, sem þarf að fá sér gleraugu. Sjúklingar liggja á göngum, í geymslum, í baðherbergjum. Rúm fyllast af sjúklingum, sem hafa fengið meðferð, en fá ekki inni á hjúkrunarheimilum. Þarna er fjárskortur og ekki síður skortur á skipulagi af hálfu embættis Landlæknis. Hann ætti ekki að fara sér óðslega í að gera lítið úr vandræðunum. Þúsundir manna hafa horft á þau, en Landlæknir telur brýnna að bera blak af peningavaldinu. Landspítalinn hefur verið rústaður til að rýma fyrir einkarekstri, þrátt fyrir slæma reynslu Svía og Breta.

Gamla og nýja hægrið faðmast

Punktar

Í efnahags- og viðskiptanefnd alþingis hefur náðst meirihluti um afar mikla kjaraskerðingu þúsunda. Lífeyrisframvarp Bjarna Benediktsson snýst öðrum þræði um jöfnun lífeyrisréttinda. En það nær þeim árangri með því að jafna niður á við, skerða kjörin. Þingmennirnir Benedikt Jóhannesson, Sigríður Á. Andersen, Björt Ólafsdóttir, Brynjar Níelsson, Elsa Lára Arnardóttir og Vilhjálmur Bjarnason eru sammála um þetta. Það er meirihluti Sjálfstæðis og Framsóknar, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Engin sátt er í samfélaginu um lög, sem vísa til afturhalds- ríkisstjórnar eftir áramót. Gamla og nýja hægrið fallast í faðma. Fyrirsjáanlegt.

Ótal fjárlagafrumvörp

Punktar

Ef við gizkum á, að meginþættir fjárlaga séu hundrað talsins, sjáum við, að mjög flókið er að afgreiða þau. Ekki er til neinn meirihluti, sem getur valtað yfir minnihluta, svo sem venja hefur verið. Hver flokkur hefur sína sýn og einstakir þingmenn geta haft sína sérstöku sýn. Einnig er greinilegt, að Viðreisn er annar flokkur í skriflegri stefnu en í aðild að ríkisstjórn. Við getum því átt von á nokkur hundruð breytingartillögum. Það næst ekki fyrir jól og varla fyrir áramót. Ekki fyrr en því er lokið, er hægt að taka aftur upp þráðinn við stjórnarmyndun. Varla verður fullreynt með meirihlutastjórn fyrr en í lok janúar eða í febrúar.

Stríðið gegn prívatakstri

Punktar

„Fjár­magnið yrði sett í vist­væn­ar al­menn­ings­sam­göng­ur,“ segir yfirskipulagsstjóri Reykjavíkur. Hjálmar Sveinsson útskýrir, hvers vegna ekki verði lögð mislæg gatnamót í tíu ár. Segir „það engu breyta, þótt byggð verði mis­læg gatna­mót“. Gatnakerfið muni hvort sem er springa á þeim tíma. Það, sem gert yrði, mundi hvort sem er ekki nægja og þess vegna verði ekkert gert. Ég er ósammála þessari sérstæðu röksemdafærslu. Ekkert bendir til annars en að umferð bíla aukist eins og áður. Sérstaklega ef tveggja sæta sjálfeknir rafbílar eru þá að skutlast út um allt með einn farþega í einu. Erfitt er að knésetja dálæti fólks á prívatakstri.

Stjórnarmyndun frestast lengi

Punktar

Fráleit er sú skoðun, að grið séu í pólitíkinni. Hún er að fara á hæsta snúning,  meðan fjárlög eru til meðferðar. Viðræður um nýja ríkisstjórn verða að bíða eftir niðurstöðum fjárlaga og þær eru sízt á næsta leiti. Þar birtist, hvar flokkarnir standa í stórum málum, þar á meðal heilbrigðis- og húsnæðismálum, málum aldraðra og öryrkja. Svo eru að birtast kannanir á fylgi flokka á landsvísu og í Reykjavík sérstaklega. Þar vekur mesta athygli, að Viðreisn kemst ekki einu sinni á blað. Allt þetta mun hafa áhrif á tilraunir til stjórnarmyndunar á nýju ári. Línur í stjórnarmyndun munu fylgja línum í atkvæðagreiðslu um einstaka greinar fjárlaga.

Eftirlit með eftirliti

Punktar

Alla tíð hafa falskar sögur haft meiri áhrif en sannar sögur. Á torgum fyrri alda fékk fólk æsandi lygasögur ekki síður en merkilegar fréttir. Slíkt byrjaði ekki með fésbók. Allt satt og logið berst bara margfalt hraðar en áður. Hugsanlega er hægt að nota fésbók til að greina betur í sundur satt og logið. Hægt er að rekja myndskeið, sem eru frá öðrum atburðum en þeim, sem sagt er frá. Staðreyndavaktir vara fólk við fölskum fréttum, en fáir notfæra sér þær. Svo þarf líka að vakta vaktirnar, hafa eftirlit með eftirlitinu. Fésbók hyggst auka eftirlitið, og er það af hinu góða. En í kapphlaupi frétta geysist lygi áfram hraðar en sannleikur.

Vond alþingishönnun

Punktar

Vond eru fyrstu, önnur og þriðju verðlaun hönnunar húsa á alþingisreitnum frá Alþingi að Herkastala og Ráðhúsi. Ekki að vísu eins vond og reitirnir tveir við Lækjargötu, neðan Arnarhóls og við Iðnó. Þar er skelfileg hönnun, í hróplegri og áberandi andstöðu við það gamla. Ég er ekki að biðja um Guðjón Samúelsson, heldur biðja um samræmi hins nýja við hið gamla. Sem tengir saman þingholt og vesturholt um Kvosina. Ekki kassa með láréttum línum, heldur klassíska Reykjavík með mjó hús og hallandi þökum. Enga skrifstofuveggi á jarðhæð. Þar séu veitingar og kaffihús og búðir fyrir hönnunarsölu, frímerki, gamlar bækur, antík og aðra sérvizku.

Sætaframboð mikilvægast

Punktar

Áætlanir flugfélaga ráða mestu um fjölda ferðamanna hér. Aukin lendinga- eða farþegagjöld geta leitt til minna sætaframboðs og snöggrar fækkunar ferðamanna, sem gæti orðið óþægileg. Betra er að leggja gjöld á þjónustu í landinu, svo sem aukið gistináttagjald eða fullan virðisaukaskatt. Slíkt hefur miklu minni áhrif á fjölda ferðamanna en gjöld á sætaframboð, sem snerta flugfélögin beint. Hefur verið ljóst síðan fyrir tímasóun ónothæfs ráðherra í fúsk um náttúrupassa. Kemur líka minna við pyngju þjóðarinnar, sem notar lítið af hótelum og veitingahúsum á ferðum sínum um landið. Ríki og sveitir þurfa eðlilega hlutdeild af ferðatekjum.

Ógeðslega þjóðfélagið

Punktar

Þótt gróðinn hrannist upp í ferðaþjónustu og sjávarútvegi fer ekkert af sælunni til þeirra sem minnst mega sín. Það eru þeir húsnæðislausu, svo og öldungar og öryrkjar. „Nú er ekki rétti tíminn til þess“ segja þeir, sem flytja gróðann til Panama. „Þetta er ógeðs­legt þjóð­fé­lag, þetta er allt ógeðs­legt“, segir fyrrum ritstjóri Mogga, seint og um síðir. Yfirstétt samfélagsins er gegnrotin, jafnvel hæstaréttardómarar. Stærsti stjórnmálaflokkurinn er sótsvartur bófaflokkur, nú um stundir undir Panama-stjórn. Bófarnir fá afskrifað að vild, en almenningur er krossfestur. Hér duga ekki einu sinni kosningar, kjósendur eru vangefnir sauðir.

Í topp 10 flokknum

Punktar

Matarkjallarinn heitir nýjasti matstaðurinn undir veitingahúsinu Geysi við austurenda Vesturgötu. Aðgengið er núna utanhúss, svo auðveldara er fyrir ókunnuga að finna staðinn. Þetta er eitt af tíu topphúsum landsins, með ágætan fisk dagsins á 2.350 krónur í hádeginu. Makalaust hvað margir kokkar hafa náð að elda ferskan fisk. Á matseðli dagsins er fleira áhugavert, húsið er því oft þéttsetið í hádeginu. Viðskiptavinir eru flestir innlendir, efri miðstéttin er aftur komin í álnir eftir hrunið. Í hádeginu eru víðast fleiri heimamenn en útlendingar á toppstöðunum tíu. Þjónusta er viðkunnanleg. Breytingar á húsnæði eru hér til góðs, en þó ekki í hinum dramatíska stíl, sem nú er í tízku hér í bæ.

Skoðanir breytast ekki

Punktar

Því miður sýna skoðanakannanir, að viðhorf kjósenda til flokkanna eru óbreytt frá því fyrir kosningar. Nýjar kosningar mundu því ekki neinu breyta. Pattið milli íhalds og framfara heldur bara áfram. Flokkar, sem lugu 100% um stefnu sína, fá svipað fylgi og áður. Íslendingar neita að læra, láta bara ljúga að sér eins og hverjum hentar. Eini flokkurinn, sem raunverulega stendur með framförum, fær líka svipað fylgi og áður. Er ekki einu sinni stærsti eða næststærsti flokkurinn. Með þessu framhaldi verðum við áfram þrælar auðgreifa um ókomna tíð. Það er óboðlegt fyrir okkur hin, að helmingur kjósenda skuli vera meira en lítið vangefinn.

Sökin er kjósenda

Punktar

Þótt mikill meirihluti þjóðarinnar vilji bjóða upp veiðileyfi til að fá hærri auðlindarentu, þá nægir það ekki. Hluti af þessum meirihluta heldur áfram að kjósa Sjálfstæðis eða Framsókn, VG, Viðreisn eða Bjarta framtíð. Allir þessir flokkar styðja þjóðareign kvótans með semingi og reyna að tefja málið. Aðeins Píratar og Samfylkingin styðja málið eindregið. Meðan þessir tveir flokkar fá innan við 20% fylgi alls, er engin von til, að þjóðþrifamálið ná fram að ganga. Satt að segja er hálf þjóðin íhald, hægra eða vinstra, og vill bara hafa hlutina eins og þeir hafa verið. Meðan svo er, má búast við patti í pólitísku skákinni.

Afneitar loforði sínu

Punktar

Viku fyrir kosningar gaf Viðreisn út skriflega stefnuyfirlýsingu. Þar var lofað: 10 milljörðum í nýjan Landspítala, 18 milljörðum í uppsafnaða þörf á spítalanum, 6 milljörðum í stórátak í öldrunarþjónustu, 4 milljörðum í minni greiðsluþátttöku almennings og 1 milljarði í heilsugæzlu. Í stjórnarmyndunarviðræðum í vikunni skrapp þetta niður í samtals 7 milljarða. Pawel Bartoszek þingmaður afneitaði beinlínis loforðinu í Kastljósi og sagði blaðamann ljúga til um það. Þeir geta verið brattir glæframenn Viðreisnar. Sömdu stefnuskrá í anda velferðar. Afneita henni svo, þegar þeir kasta grímunni og birtast sem höfuðandstæðingar velferðar.

Lærið af reynslunni

Punktar

Um áramótin geta kjósendur litið yfir öndverðan veturinn, séð mistök sín og reynt að læra af þeim. Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki frjálshyggju, er bófaflokkur pilsfaldastefnu kvótagreifa og annarra auðgreifa. Viðreisn er frjálshyggjuflokkur atvinnulífsins, en enginn miðflokkur. Stefnan er marklaus að því leyti og sama má segja um Bjarta framtíð. Hvorir tveggja vernda kvótagreifa, eins og Vinstri græn gera raunar líka. VG hafa að öðru leyti góða stefnu, en of einþykka til að semja um völd. Píratar hafa bezta stefnu, bezta pólitíkusa. Hafa lært að slá af kröfum til að ná fram öðrum kröfum. Í stjórnarviðræðum flokkanna hafa píratar borið af.