Eftirlit með eftirliti

Punktar

Alla tíð hafa falskar sögur haft meiri áhrif en sannar sögur. Á torgum fyrri alda fékk fólk æsandi lygasögur ekki síður en merkilegar fréttir. Slíkt byrjaði ekki með fésbók. Allt satt og logið berst bara margfalt hraðar en áður. Hugsanlega er hægt að nota fésbók til að greina betur í sundur satt og logið. Hægt er að rekja myndskeið, sem eru frá öðrum atburðum en þeim, sem sagt er frá. Staðreyndavaktir vara fólk við fölskum fréttum, en fáir notfæra sér þær. Svo þarf líka að vakta vaktirnar, hafa eftirlit með eftirlitinu. Fésbók hyggst auka eftirlitið, og er það af hinu góða. En í kapphlaupi frétta geysist lygi áfram hraðar en sannleikur.