Greinar

Samanburður á ofbeldi

Greinar

Sumir farísear vilja greina milli ofbeldis ofstækismanna og ofbeldis á vegum ríkisstjórna, einkum vestræns ofbeldis gegn þriðja heiminum. Þessa verður mjög vart hjá þeim, sem harma sjálfsmorðssprengingar gegn almenningi í London og New York, en láta ekki mörg orð falla um vestrænar loftárásir á fólk.

Einhvern veginn finnst þessum faríseum, að nafnlaust ofbeldi úr lofti á saklaust fólk eða ofbeldi hernámsliðs gegn saklausu fólki sé sagnfræðilega viðurkennt ofbeldi, sem hafi fylgt mannkyni alla tíð. Þannig frömdu Vesturlönd ofbeldi í Hiroshima, Nagasaki og í Dresden í síðari heimsstyrjöldinni.

Stærðargráðurnar eru ólíkar. Læknaritið Lancet telur, að hundrað þúsund sakleysingjar hafi verið drepnir í Írak á vegum Vesturlanda. Hins vegar hafa ekki nema nokkur þúsund sakleysingjar verið drepnir á Vesturlöndum og ekki nema nokkrir tugir á þessu ári. Samt þykir það meiri óhæfa.

Ýmiss konar millispil sést í þessum samanburði. Ef meintir vinstri menn kvarta meira yfir vestrænu ofbeldi en ofbeldi gegn vestrinu, eru farísear tilbúnir til að fjalla í löngu máli um ofbeldi Stalíns og Maós, sem var hrikalegt, en utan gátta sem innlegg í heimspólitíkina í upphafi 21. aldar.

Trúarofstækismenn og aðrir glæpamenn, sem fremja árásir í höfuðborgum Vesturlanda hafa það að yfirvarpi, að þeir séu að hefna fyrir ofbeldi og yfirgang Vesturlanda í löndum múslima. Það ofbeldi er sannanlega meira og alvarlegra en sjálfsmorðssprengingar í New York og London og Madrid.

Fyrir utan skökk stærðarhlutföll á ofbeldi, sem framið er af Vesturlöndum, og ofbeldi, sem framið er gegn þeim, berum við á Íslandi misjafna ábyrgð. Við berum ekki ábyrgð á ofbeldi gegn Vesturlöndum, en við erum yfirlýstir stuðningsmenn og aðilar að ofbeldi Vesturlanda gegn Afganistan og Írak.

Ofbeldi, sem við erum aðilar að, varðar okkur meira en ofbeldi, sem við erum ekki aðilar að. Við getum ekki friðað samvizkuna með því að froðufella yfir ársásum á fólk í London og talað um óendanlega mannvonzku glæpamannanna, þegar við sjálf styðjum enn verri glæpi í viku hverri.

Brengluð fjarlægðarsýn í stjórnmálum er hluti af eðli farísea,forsenda þess, að þeir sjá ekki stærri glæpi okkar bandamanna, þegar þeir hneykslast á minni glæpum hinna.

DV

Nýr kóngur er valtur

Greinar

Nýi kóngurinn í Sádi Arabíu er eini frambærilegi maðurinn í 30.000 manna konungsætt Sáda. Ættin er hrædd við Abdullah, af því að hann hefur gert tilraunir til að draga úr velferð þeirra, minnka laun þeirra fyrir að vera til og draga úr möguleikum þeirra á að mjólka aðstöðu sína til að græða fé.

Allt var á hverfanda hveli í Sádi Arabíu, þegar Abdullah tók við. Gamli kóngurinn Fahd var búinn að vera áratug út úr heiminum og allt hafði rekið á reiðanum. Helmingurinn af tekjum ríkisins fer í herinn og mikið af restinni fer í rándýran rekstur velferðar hinnar fjölmennu konungsættar.

Þessi ætt er frægust fyrir spillingu, hórdóm og drykkjuskap. Hún hefur gersamlega komið sér út úr húsi almennings í landinu, sem mundi kjósa yfir sig Osama bin Laden í frjálsum kosningum. Til þess að halda völdum, hefur konungsættin stutt róttæka klerka heima fyrir og einkum þó erlendis.

Þessi helzti bandamaður Bandaríkjanna í heimi múslima er um leið helzti styrktaraðili trúarlegra ofstækisskóla, sem framleiða sjálfsmorðssveitir á vegum al Kaída. Hin opinbera trú í Sádi Arabíu er Wahabismi, róttækasta afbrigði íslams í nútíma, sem hefur allt önnur gildi en róttæk Múhameðstrú.

Sádi Arabía skiptir okkur máli, því að þar er fjórðungur af olíubirgðum heimsins og þar er aðstaða til að jafna sveiflur í framleiðslu á olíu. Um leið eru olíuleiðslur þar í landi viðkvæmar fyrir árásum skæruliða, er geta nánast stöðvað olíuvinnslu til langs tíma með þremur flugskeytum.

Robert Baer segir í Atlantic Magazine, að skæruliðar geti með slíkum hætti keyrt olíuverð úr 40 dollurum á tunnuna í 150 dollara með afdrifaríkum afleiðingum fyrir efnahag Vesturlanda, því að olía er ekki enn farin að renna úr fyrirhuguðum leiðslum á svæðum Sovétríkjanna sálugu.

Búast má við, að Abdullah kóngur reyni að draga úr stuðningi Sáda við róttæka skóla og hryðjuverkamenn, en erfiðara verður fyrir hann að auka öryggi ríkis og olíuvinnslu í landi, þar sem almenningur hatar konungsættina. Hann er valtur í sessi, en Vesturlönd verða þó að treysta honum.

Eina lausn Vesturlanda á vanda Sádi Arabíu er að flýta eigin aðgerðum til að láta vetni og aðra nýja orkugjafa leysa olíu af hólmi sem hornsteinn flutninga, iðnaðar og húshitunar.

DV

Skuggi gleðinnar í dag

Greinar

Þegar árleg hátíð homma og lesbía nær hámarki í dag, minnist DV, hvernig fordómar okkar urðu Erni Jákup Dam Washington að falli í sumar. Hann varð sem barn fyrir einelti vegna litar og síðar vegna samkynhneigðar. Hann reyndi að lifa við andstreymið, en varð 19. júlí að gefast upp á þessu lífi.

Móðir hans lýsir ævi hans og þrengingum í viðtali í blaðinu í dag, sömuleiðis ýmsir helztu vinir hans. Samanlagt sýnir textinn, hversu erfitt er fyrir fólk að lifa sómasamlegu lífi, ef það er einhvern veginn öðru vísi en annað fólk. Samfélag farísea hafnar slíku fólki ómeðvitað og ákveðið.

Við þykjumst vera komin lengra inn í nútímann en ýmsar aðrar þjóðir. Við höfum viðurkennt homma og lesbíur, svart og gult fólk, en við gerum það í yfirvitundinni, meðan fordómar leika sem fyrr lausum hala í undirvitundinni. Við eigum þannig öll sök í erfiðleikum og andláti Arnar Jákups.

Annars vegar horfum við á skrúðgöngur samkynhneigðra og látum okkur þykja þær skemmtilegar. Hins vegar höldum við uppi ofstækisfullum trúarsöfnuðum, þar sem samkynhneigð er fordæmd sem andstæð guði almáttugum. Við þykjumst virða svarta, gula og samkynhneigða, en gerum líka grín að þeim.

Það hefur ekki verið til siðs hjá fjölmiðlum hér á landi að fjalla um sjálfsvíg. Á þeim hefur verið bannhelgi, studd yfirráðum farísea, sem vilja stýra sjálfsmynd samfélagsins. DV neitar að taka þátt í þessari ógeðfelldu hefð, sem er hluti af veikri sjálfsmynd þjóðar, er efast um stöðu sína.

Sjálfsvíg eru meiri háttar vandi í þjóðfélaginu. Þau hafa fjórfaldazt á stuttu árabili. Það er ekki hægt að tala um þau eingöngu sem tölur á blaði, heldur þurfum við að skyggnast í raunveruleikann að baki talnanna. Á bak við hverja einingu í talnarunum liggur persónulegur harmleikur.

Þjóðin mun aldrei skilja sjálfsvíg, ef hún telur bannhelgi hvíla á skrifum um fólk, sem lætur bugast af erfiðleikum, sem samfélagið bakar því. Þjóðin mun aldrei skilja fámenna minnihlutahópa, ef hún vill ekki heyra eða lesa um, hvernig hún sjálf hrekur fólk til að taka hina endanlega ákvörðun.

Ég hvet lesendur DV til að lesa vel viðtölin á bls. 28-31 í blaðinu í dag. Ég efast um, að þeir, sem gera það með opnum huga, hafi óbreytta sýn á lífið í landinu að því loknu.

DV

Persónuvernd gegn lýðræði

Greinar

Markmið Persónuverndar er að minnka gegnsæi í þjóðfélaginu með því að víkka hugtak einkamála yfir á ýmis opinber svið. Þar sem gegnsæi er hornsteinn lýðræðis er Persónuvernd með þessu að veikja lýðræðið, auka lagskiptingu þjóðfélagsins og draga úr getu fólks til að skilja gangverk þjóðfélagsins.

Menn verða að átta sig á, að gegnsæi er meiri hornsteinn lýðræðis en frjálsar kosningar. Mubarak stjórnar Egyptum, þótt þar séu frjálsar kosningar. Hann stjórnar í krafti þess, að gegnsæi er nánast ekkert í landinu. Þannig stjórna einræðisherrar með kosningum án gegnsæis, án lýðræðis.

Hluti af gegnsæi þjóðfélagsins er, að fólk hafi aðgang að upplýsingum, til dæmis um ættatengsl, um tjónaferil bíla, um framkomu fólks á opinberum vettvangi, um skatta fólks, um hlutafjáreign og svo framvegis. Persónuvernd og forveri hennar hafa barizt gegn þessum og öðrum aðgangi almennings.

Dr. Herdís Þorgeirsdóttir prófessor er sérfræðingur í alþjóða- og fjölmiðlarétti. Nýlega setti hún í grein í Morgunblaðinu ofan í við Persónuvernd fyrir óeðlileg afskipti hennar af fjölmiðlun. Taldi Herdís, að stofnunun væri komin út fyrir verksvið sitt samkvæmt landslögum.

Persónuvernd er hrifin af hálfs árs gömlum Karólínudómi hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, þar sem úrskurðað var, að ekki mætti ljósmynda gleðipinnann Karólínu af Mónakó á kaffihúsum og í reiðtúrum á opinberum stöðum. Þessi dómur stingur í stúf við dómvenju í Evrópu og þykir vægast einkennilegur.

Ekkert bendir til þess, að dómur mannréttindadómstólsins hafi áhrif á dómvenju í löndum Evrópu, beinlínis af því að dómarar í Evrópu telja þar vera rugl á ferðinni. Hins vegar er Persónuvernd mjög hrifin, enda fellur dómurinn að dálæti hennar á sem víðtækastri túlkun á sviði einkalífs.

Herdís segir Karólínudóminn umdeildan og vekur athygli á áhrifum hans á gerðir Persónuverndar. Hún gagnrýnir Persónuvernd fyrir að vera á gráu svæði í afskiptum af fjölmiðlun og fyrir að misskilja hugtök á borð við vinnsluhætti, efnistök og framsetningu blaðamanna.

Grein Herdísar er þörf ábending um, að kominn er tími til að kanna störf Persónuverndar og hvernig þau miða þráfaldlega að því að draga úr gegnsæi í þjóðfélaginu og skerða lýðræði.

DV

Launabilið springur út

Greinar

Nokkrir tugir Íslendinga hafa sprengt mánaðartekjur sínar yfir tvær milljónir króna og hafa því meira en tífaldar tekjur venjulegs launafólks og meira en tuttugfaldar tekjur hinna lægst launuðu. Þeir hafa allir vafalaust allir unnið fyrir ofurtekjunum og um leið skilað Íslandi fram á veg.

Hins vegar er vaxandi launabil í þjóðfélaginu orðið brýnt íhugunarefni. Miðaldra fólk man þá tíma, þegar bilið milli ríkra og fátækra var fimmfalt og ekki eru mörg ár síðan bilið var tífalt. Nú er það skyndilega orðið tuttugfalt. Með sama áframhaldi, hvenær fer límingin úr þjóðfélaginu?

Til skamms tíma bjó hér ein þjóð í einu landi. Nú eru þær orðnar að minnsta kosti tvær. Annars vegar eru þeir, sem ýmissa kosta vegna eru allir vegir færir heima og erlendis. Hins vegar eru þeir, sem lepja dauðann úr skel og eru skammaðir fyrir að vera meira eða minna á sósíalnum.

Fámennt þjóðfélag þarf góða límingu, tilfinningu almennings fyrir að vera aðili að þjóðfélaginu, í sama báti og aðrir landsmenn. Menn gera ekki mikið veður út af athafnamönnum, sem sigra heiminn, en verða forviða, þegar heilu hæðirnar í bankahöllum borga meira en milljón á mann í laun.

Launaskrið er mikið og fer vaxandi. Stéttarfélög hafa ekki reynzt geta fylgt hagsmunum umbjóðenda sinna í samningum um laun og eru að hverfa í skuggann í þjóðfélagi, þar sem hver sér um sig eða getur ekki séð um sig. Við erum á siglingu frá velferðarþjóðfélagi, þar sem stóri bróðir passar þig.

Meiri kraftur er í þjóðfélagi, þar sem kraftar fólks leika lausbeizlaðir. Við þurfum að efla og nýta framtak. En við þurfum um leið að gæta að hagsmunum hinna, sem ekki njóta góðs af framtaki. Við þurfum að gæta þeirra, sem ekki fá neitt út úr því, að hagvöxtur sé 4% fremur en 2% á ári.

Við þurfum einhverja sátt í þjóðfélaginu, sátt framtaks og velferðar. Við höfðum árum saman eins konar sátt af því tagi, oftast kölluð þjóðarsátt, sem var samkomulag milli ríkis, stéttarfélaga og atvinnulífs. Þessi sátt er ekki lengur til, stéttarfélög skipta ekki lengur máli.

Skattskráin sýnir, að við erum komin að mörkum þess, að tekjubilið í þjóðfélaginu gangi út í öfgar. Með sama framhaldi hætta lágstéttirnar að styðja þjóðskipulagið.

DV

Símamilljarðar greiði skuldir

Greinar

EF DAVÍÐ ODDSSON HEFÐI ORÐIÐ VEÐURTEPPTUR í Vestmannaeyjum, hefði hann lagt til, að hluti af sölu Símans yrði notaður í jarðgöng milli lands og Eyja. En hann hafði verið á spítala og lagði til, að hluti af sölunni yrði notaður í nýjan risaspítala.

HVORT TVEGGJA ER GEÐÞÓTTI, notkun herfangs í gæluverkefni á borð við Ráðhús og Perlu. Hvort tveggja er slæmt, því að sölu eigna á að nota til að létta á skuldum. Það liggur raunar í augum uppi, að allir 67 milljarðarnir af sölu Símans eiga að fara í að grynna á skuldum hins opinbera.

RÍKIÐ HEFUR GETAÐ SAFNAÐ SKULDUM, af því að það átti eignir. Nú hefur sem óðast verið selt undan ríkinu, fyrst bankarnir, núna síminn og síðar orkuver og dreifikerfi. Þar með hafa veðin minnkað, sem ríkið hefur fyrir skuldum sínum. Þegar veðin minnka, er bezt að minnka skuldir að sama skapi.

ALLIR GRÆÐA Á LÆKKUN OPINBERRA SKULDA. Ríkið borgar minni vexti og getur farið að safna fyrir eftirlaunaskuldbindingum opinberra starfsmanna, svo að ekki þurfi að skattleggja börnin okkar í framtíðinni fyrir greiðslum, sem ríkið vanrækir um þessar mundir.

LÖGMÁL MARKAÐSHAGKERFISINS GILDA EKKI hjá ríkisstjórninni og því verða markaðslögmál ekki látin ráða ferðinni. Einhver gæluverkefni verða sett á oddinn að hætti ríkisstjórna fyrri tíma, þegar Marshallaðstoð var eytt í áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju, sem urðu miklir baggar á þjóðinni.

ALLIR ÞESSIR MARKAÐSHYGGJU- OG FRJÁLSHYGGJUMENN, sem einkenna þjóðfélagið í auknum mæli um þessar mundir, ættu að reyna að fá ríkisstjórnina til að mæla með skynsamlegri meðferð 67 milljarða, sem koma úr lausu lofti með sölu Símans.

DV

Tveggja vikna skattskrárgluggi

Greinar

Fyrir tíð Geir Haarde fjármálaráðherra voru skattskrár opnar almenningi árið um kring. Hann hefur ítrekaðar reynt að loka þeim, svo að fólk geti ekki gert sér grein fyrir, hverjir svíkja undan skatti. Honum hefur tekizt að minnka tímabil opinnar skattskrár niður í tvær vikur á hverju sumri.

Tímaritið Frjáls verzlun hefur undanfarin ár nýtt sér vel þennan glugga og gefið út sérstakt tímarit með töflum um skatta og tekjur valda-, frægðar- og mektarfólks í þjóðfélaginu. Þetta merka framtak tímaritsins hefur vegið upp á móti tilraunum Geirs til að loka skattskrárglugganum.

Aðgerðir fjármálaráðherra eru liður í viðleitni til að einkamálavæða þjóðfélagið. Stór hópur valdamanna, studdur faríseum þjóðfélagsins, telur, að skattar fólks séu einkamál, svo og mikilvæg atriði í rekstri fyrirtækja, svo sem hluthafaskrár þeirra og eignarhald hluthafa.

Þeir, sem vilja vera í felum með fjármál sín og fyrirtæki, hafa verið í sókn í þjóðfélaginu. Þetta er víðtæk sókn, studd valdastofnunum á borð við dómstóla, Persónuvernd og Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. Þessir aðilar taka tillitssemi fram yfir sannleikann í fjölmiðlun.

Persónuvernd og forveri hennar hafa leitað fanga á fleiri sviðum, meðal annars reynt að hindra birtingu á nöfnum og myndum í ættfræði, svo sem í hinni mjög svo nytsamlegu Íslendingabók, sem Íslenzk erfðagreining gaf þjóðinni. Einnig var reynt að takmarka aðgang að tjónaskrá bifreiða.

Skattskrá, þjóðskrá og tjónaskrá eru dæmi um gagnlegar skrár, sem eiga að vera opnar almenningi í þjóðfélagi, sem stefnir að því að verða gegnsætt, svo að valda-, mektar- og frægðarfólk geti ekki falið meira eða minna opinber mál sín í skjóli útvíkkunar á hefðbundnum skilningi einkamála.

Mikilvægt er, að almenningur styðji viðleitni fjölmiðla til að varðveita gegnsæi í þjóðfélaginu og standi gegn tilraunum til að varpa slæðu yfir upplýsingar, sem eru viðkvæmar, af því að þær varpa ljósi á spillingu í þjóðfélaginu. Því miður skortir nokkuð á, að sá stuðningur sé fullnægjandi.

Geir Haarde er fulltrúi kerfis, sem frægðar- og mektarfólk er að reisa til að skilja sig frá almenningi og draga úr möguleikum hans til að skilja gangverkið í þjóðfélaginu.

DV

Stórpólitískar hettupeysur

Greinar

Stórmarkaðakeðjan Bluewater í Bretlandi hefur bannað viðskiptavinum sínum að nota hettupeysur í búðunum, en hefur þær samt til sölu á stöðunum. Annars vegar lítur fyrirtækið á hettupeysur sem söluvöru og hins vegar sem skálkaskjól ungs fólks, er ekki vill þekkjast í eftirlitsmyndavélum.

Þverstæðan er orðin að stórpólitísku máli í Bretlandi, þar sem Tony Blair forsætisráðherra studdi ákvörðun keðjunnar í von um fylgi millistéttarfólks, sem er hrætt við hópa af unglingum í hettupeysum. Ráðherrar hafa lýst, hvernig uggur læðist að þeim í nánd við hópa ungs fólks í hettupeysum.

Hettupeysur hafa lengi verið tákn hins andlitslausa og illa. Fólk er hrætt við verur, sem eru án andlits og fela sig bak við djúpar hettur. Um leið eru unglingarnir með hettunum að fela sig fyrir gagnrýnu samfélagi. Flestir þeirra eru bara feimnir og finnst augnsamband við fólk vera óþægilegt.

Hettupeysur eru því ekki bara tízka, heldur skírskota þær til djúpra tilfinninga í þjóðarsálinni. Þær hindra einnig gagnsemi eftirlitsmyndavéla. Útkoman úr dæminu er dæmigerður veggur milli kynslóða, þar sem annars vegar eru unglingar og hins vegar varðmenn hinna hefðbundnu gilda í þjóðfélaginu.

Ruddaskapur á almannafæri breiðist út, ekki bara í þáttunum um Little Britain. Hann er vafalítið einnig að skjóta rótum hér á landi, því að erlendir siðir og erlend tízka koma oft fljótt. Auk þess eru það fjörutíu alda gömul bókfærð sannindi, að heimur versnandi fer, einkum ungdómurinn.

Ef ungt fólk sýnir samfélaginu ekki umbeðna virðingu, myndast gjá, sem stækkar lítil mál út yfir allan þjófabálk og gerir hettupeysur að hálfgerðum einkennisbúningi skríls, sem forsætisráðherrar vilja skipuleggja út af götum og öðrum opinberum stöðum. Þjóðfélagið skipast í ólíkar sveitir.

Svo brengluð verður birtingarmynd vandans, að búðir selja hettupeysur og meina viðskiptavinum sínum að klæðast þeim. Aðstoðarmanni íslenzka forsætisráðherrans hefur dottið í hug, að íslenzk börn verði klædd í skólabúninga að hætti kynskiptra sérskóla fyrir yfirstétt og skjólstæðinga hennar.

Hettupeysur eru dæmi um, að sífellt myndast núningsfletir milli kynslóða og hópa. Mikil líkamleg nálægð og andleg fjarlægð er ávísun á vandræði á borð við kynslóðaátök.

DV

Kyssa upp og sparka niður

Greinar

Sjóliðsforingjar danska hersins fyrir hundrað árum voru embættismenn, ekki möppudýr, sem hoppuðu kringum geðþótta ráðherra. Þeir fóru um landið og kortlögðu það eins og þeir sáu það, ekki eins og þeim var sagt að sjá það. Ef þeir sáu reiðleiðir, settu þeir þær í gæðaflokka og merktu á kortin.

Löngu síðar tóku Íslendingar við landmælingum og þá tók við þessi sérkennilega ónáttúra íslenzkra embættismanna að kyssa upp á við og sparka niður á við. Stórbændur gátu hringt í skrifstofu landmælinganna og látið taka út reiðleiðir, sem þeim fannst vera fyrir sér. Þær hurfu því á nýjum kortum.

Þetta var eins og í Sovétinu, þar sem viðkvæmum stöðum var sleppt í kortagerðinni. Þar var það pólitísk ákvörðun, hvað var sýnt á kortum og hvað ekki. Það er einmitt þessi sovézka hugsun, sem hefur lengi ráðið embættisfærslu hér á landi, ekki lög og réttur eða annar áþreifanlegur veruleiki.

Þegar Ágúst Guðmundsson varð forstjóri landmælinganna, var þessum geðþótta hætt og aftur farið að kortleggja landið eins og það var landfræðilega, en ekki eins og það átti að vera samkvæmt einhverjum pólitískum sjónarmiðum. Eftirmaður hans tók hins vegar upp ósiði fyrri tíma, pólitísk kort.

Einu sinni var ég á fundi í landbúnaðarráðuneyti út af því að Garðyrkjuskólinn og ráðuneytið höfðu sitt á hvað leigt út sama landið. Núverandi ráðuneytisstjóri hafði að geðþótta ákveðið, hvor ætti að vera leigusali hverju sinni og fleygt bréfum, sem hann mat, að hefðu ekki verið send réttum aðila.

Í annað sinni sendi ég umhverfisráðuneytinu lýsingu á ferðalagi að Fjallabaki með tillögum um ódýra aðgerð til að vernda svæðið. Núverandi ráðuneytisstjóri svaraði þessu bréfi aldrei, enda er hann alinn upp í kerfi, sem svarar aldrei bréfum, þveröfugt við ráðuneyti nágrannaríkjanna.

Þannig eru embættismennirnir, hvort sem þeir heita Magnús Guðmundsson, Guðmundur B. Helgason, Magnús Jóhannesson eða annað. Þeir eru ekki aldir upp í evrópsku þjóðfélagi, þar sem alþýðan tók völdin fyrr á öldum, heldur í íslenzku þjóðfélagi, þar sem alþýðan hefur aldrei tekið nein völd.

Sjóliðsforingjarnir dönsku þjónuðu borgurum. Íslenzkir embættismenn sparka hins vegar í þrælana eins og forverar þeirra gerðu, enda þjóðin skipuð þrælum að langfeðgatali.

DV

Búvörustyrkir strikaðir út

Greinar

Nýsjálenzkum bændum hefur gengið vel að laga sig að afnámi styrkja til landbúnaðar. Árið 1984 voru þessi styrkir teknir með einu pennastriki, hverju nafni, sem þeir nefndust, uppbætur, niðurgreiðslur og kvótar, samtals 30 tegundir. Samtök bænda fóru hamförum, en fengu ekki við neitt ráðið.

Ríkisstjórnin gerði ráð fyrir, að 10% bænda yrðu gjaldþrota við breytinguna. Reynslan var hins vegar sú, að 1% bænda fór á hausinn. Hinum tókst að klóra í bakkann og laga búskapinn að lífi án uppbóta, niðurgreiðslna og kvóta. Nú eru 40% útflutningsins frá landbúnaði og 17% af landsframleiðslunni.

Bændur fóru ýmsar leiðir. Flestir sérhæfðu sig og fóru að framleiða vöru á borð við smáralömb og hikkorílömb, þar sem þeir buðu neytendum vöru, sem hafði verið á sérstöku fóðri. Hér á landi hefur fæstum bændum dottið í hug að sérhæfa sig og ná beinu sambandi við neytendur, sem vilja sérhæfða vöru.

Einkaframtakið er illa séð í sambúð bænda. Kerfið hér leggst gegn því, að bændur séu að braska beint. Því er illa tekið, ef bóndi vill auðkenna vöru sína og láta nafn sitt eða jarðarinnar fylgja henni alla leið inn í stórmarkaði. Þú veizt ekki, hvaðan kjötið, osturinn og mjólkin kemur.

Landbúnaðarráðuneytið og bændasamtökin vernda skussana með því að fela þá og afurðir þeirra innan um aðra bændur. Fyrir bragðið verður meðalkostnaður framleiðslunnar miklu hærri en hann þarf að vera. Reynsla nýsjálenzkra bænda sýnir, að framleiðslukostnaður hríðfellur við afnám styrkjanna.

Kostnaður okkar af þessu kerfi er gífurlegur. Helmingur af tekjum bænda kemur í styrkjum frá kerfinu. Framleiðslugeta hvers bónda er skipulögð með framleiðslurétti og kvótum. Allt stefnir þetta að frystingu á gömlu ástandi og dregur úr vilja og getu til breytinga. Dauð hönd ríkisins ræður ferð.

Nýsjálenzkir bændur njóta þess, að hafa misst styrkina og vera frjálsir menn á frjálsum markaði. Ef framsóknarflokkar þar í landi settu fram tillögur um endurheimt styrkjanna, mundu bændur og samtök þeirra mótmæla. Þeir hafa áttað sig á, að frelsið er betra en skjólið og vilja halda frelsinu.

Áratugum saman hefur verið rifizt um íslenzka kerfið, sem kostar skattgreiðendur milljarða á hverju ári. Við getum hætt að rífast og leitað ráða hjá bændum á Nýja-Sjálandi.

DV

Hagvöxtur er hættulegur

Greinar

Jónas Kristjánsson
“Það er grundvallaratriði í hagfræði nútímans að átta sig á, að 2% hagvöxtur er alls ekki betri en 1% hagvöxtur, líklega verri”

Hagvöxtur er hættulegur

Markmið þjóðfélags er að fólk búi við öryggi og líði vel, ekki að hagvöxtur aukist úr 1% í 2%. Markmið þjóðfélags er, að allir séu aðilar, ekki að efla auð forstjóranna. Markmið þjóðfélags er franski draumurinn um frelsi, jafnrétti og bræðralag, ekki bandaríski draumurinn um að verða forstjóri.

Bandaríski draumurinn er dauður. Um það vitna Wall Street Journal og New York Times. Menn klifra ekki lengur upp þjóðfélagsstigann, heldur fæðast þeir og deyja í sömu stétt. Hreyfiaflið er horfið í bandaríska draumnum og hinir ríkustu eru farnir að loka sig inni í læstum hverfum bak við múra.

Á sama tíma er skrifað gáfulega á efnahagssíðum dagblaða um, að Evrópa sé að tapa fyrir Bandaríkjunum, af því að hagvöxtur sé ekki nema 1%, en eigi að vera 2%. Samt líður fólki miklu betur í Svíþjóð og Noregi en í Bandaríkjunum og miklu betur í Frakklandi og Belgíu en í Bretlandi.

Hagvöxtur er bull, enda mælir hann ekki það, sem máli skiptir. Hann mælir sízt af öllu öryggi fólks eða vellíðan þess. Forstjórar heimta lægri laun, hraðari vinnu og lengri vinnutíma til að efla hagvöxtinn. Þetta sjónarhorn hagvaxtar er vont fyrir almenning. Hann lifir ekki á hagvexti.

Norðurlönd hafa reynt að finna þolanlegt jafnvægi milli hagvaxtar og velferðar. Norræna mynztrið var gagnrýnt á tíma Ronald Reagan og Margaret Thatcher, en það hefur síðan fundið betri meðalveg milli auðs og öryggis. Frakkar hafa fetað leið meiri ríkisafskipta að svipaðri niðurstöðu.

Þjóðverjar hafa þá sérstöðu, að þeir hafa tekið á ýmsum stórmálum. Þeir hafa smíðað stórfellt öryggisnet. Þeir hafa gert iðnað sinn vistvænan, jafnvel efnaiðnaðinn. Þeir hafa léttilega tekið inn tuttugu milljónir fátæklinga frá Austur-Þýzkalandi. Ef þetta kostar þá 1% í hagvexti, hvað með það?

Bretar hafa hins vegar fylgt Bandaríkjunum og telja sig hafa náð góðum árangri. Í hagvexti. Ef horft er bak við hann, sjáum við aukna stéttaskiptingu, lélegri sjúkrahús með lengri biðlistum og lélegri skóla með versta skólamat í heimi. Hagvöxtur er nefnilega ekki æskilegur mælikvarði.

Það er grundvallaratriði í hagfræði nútímans að átta sig á, að 2% hagvöxtur er alls ekki betri en 1% hagvöxtur, líklega verri. Mælikvarðar almennings eru allt aðrir og merkilegri.

DV

Skörðóttur hundskjaftur Reykjavíkur

Greinar

Þegar lóðum er úthlutað í Reykjavík, fara fyrst lóðir undir einbýlishús. Þegar lóðir eru boðnar út, fara lóðir undir einbýlishús á hæstu verði. Markaðurinn segir okkur, að helzt vanti slíkar lóðir, miklu frekar en lóðir undir íbúðaturna. En markaðurinn er ekki spurður álits um lóðir í Reykjavík.

Borgarstjórnin hlustar ekki á markaðinn. Meirihluti hennar hefur tekið trú á hugmyndafræði þéttari byggðar. Í stað þess að prófa þessa hugmyndafræði á nýju svæði og reisa þar mikið af þéttum háhýsum hefur meirihlutinn hvað eftir annað reynt að þétta byggð í gömlum og grónum og gisnum hverfum.

Ef þú gengur um Vesturbæinn frá höfninni til Ægissíðu, sérðu hverfi frá ýmsum tímum, elzt á Vesturgötusvæðinu, síðan koma Vellir, Melar og Hagar, hver með sínum heillega svip, þar sem hver er barn síns tíma. Þessi hverfi suður af Vesturgötu hafa enn sem komið er sloppið við stefnu þéttari byggðar.

Víða annars staðar hefur borgin búið til skörðótta hundskjafta með því að byggja ný háhýsi í nýjum stíl ofan í gömul smáhýsi í gömlum stílum. Alls staðar hefur þetta leitt til sárinda og reiði fólks, sem fyrir er á staðnum. Það hefur skrifað undir mótmæli og mætt á fundi til að mótmæla.

Sumir mótmæla því að missa útsýni, aðrir mótmæla breyttu eðli hverfisins. Sumir vísa til fyrra skipulags, sem átti að verja þá gegn ofbeldinu, sem felst í þéttingu byggðar. Aðrir vísa til hefðar, er komin var á það ástand, sem var áður en þétting hófst. Öllum þessum rökum hafnar borgin.

Stefna þéttari byggðar byggist á því ofbeldi, að meirihluti borgarstjórnar hlustar á nokkra hugmyndafræðinga en ekki á markaðinn. Hún byggist líka á, að borgin fæst ekki til að prófa fanatíkina á afviknum stöðum, heldur steypir hana upp úr gamalgrónu ástandi, sem breytist í skörðóttan hundskjaft.

Meirihlutinn í Reykjavík breytir borginni ekki í París, þótt hann margfaldi nýtingarhlutfall fólks á fermetra með því að planta háhýsum í gömul hverfi. Hann framleiðir bara óvild og hatur íbúanna, sem vilja búa við fyrra ástand. Hann þjónar ekki heldur því fólki, sem vill kaupa lóðir fyrir einbýli.

Stefna þéttari byggðar er dæmigerð fyrir ástand, þar sem hugmyndafræði er tekinn fram yfir markaðsöfl. Það mun leiða til, að skipt verður um meirihluta í næstu kosningum.

DV

Forvitnin og sannleikurinn

Greinar

Upprunalegur tilgangur frjálsra og óháðra fjölmiðla er að svala forvitni fólks, annarra fjölmiðla að koma sjónarmiðum á framfæri. Í frumsögu íslenzkra fjölmiðla blandaðist þetta á ýmsa vegu, en nú eru fjölmiðlar yfirleitt orðnir meira eða minna óháðir og þurfa sem slíkir að muna eftir upprunanum.

Taka ber með varúð hugmyndum um, að tilgangur frjálsra fjölmiðla sé annar en að svala forvitni fólks. Þar á meðal, að þeir séu hluti af valdakerfinu og lúti hugmyndum áhrifaafla þess um, að fjölmiðlar hafi samfélagslegt eða þjóðfélagslegt hlutverk, sem valdaaðilar kerfisins ákveða.

Svo að fjölmiðill geti svalað forvitni þarf hann að leita sannleikans, alls sannleikans og aðeins sannleikans. Hann má ekki ljúga með því að leyna hluta sannleikans, svo sem vegna regluverks um, að oft megi satt kyrrt liggja vegna einkalífs fólks á opinberum stöðum eða til að valda ekki sárindum.

Það ekki hlutverk frjálsra fjölmiðla, að ákveða, að einhver hluti sannleikans sé óþarfur, komi ekki málinu við, hafi ekki samfélagslegt eða þjóðfélagslegt gildi; að ekki skuli birta sannleika á borð við nöfn og myndir; að einhver hluti sannleikans geti valdið sárindum eða skerði einkalíf fólks.

Frjáls fjölmiðill kann að telja sig þurfa að beygja sig undir regluverk, sem stangast á við ofangreindar forsendur; svo sem undir kenningu Persónuverndar, sem skilgreinir opinber svæði sem einkasvæði; eða undir almenn lög, sem hefta frelsi fjölmiðla, í þeim tilgangi að halda friðinn.

Frjáls fjölmiðill hlýtur samt að vera andvígur þessum kvöðum og lýsa þær andstæðar eðli frjálsrar fjölmiðlunar, það er að segja andstæðar forvitni og sannleika. Þær eiga koma böndum á forvitnina og sannleikann og búa til kerfi um, hvernig satt megi kyrrt liggja. Allt þetta regluverk lýtur lyginni.

Að vísu er gott, að öll dýrin í skóginum séu vinir, sem kunni umgengnisvenjur. Það er hins vegar komið í óefni, þegar búið er til séríslenzkt regluverk, sem setur siði á borð við víðtækt einkalíf og óbeit á sárindum ofar en forvitnina og sannleikann, sjálfar grundvallarforsendurnar.

Vandi íslenzkrar fjölmiðlunar í dag er sá mestur, að of stór hluti fjölmiðlunga hafnar forsendum fjölmiðlunar og telur sjálf höftin vera eins konar heiðursmerki í fínimannsleik.

DV

Má oft satt kyrrt liggja?

Greinar

Útvíkkun friðhelgi einkalífs yfir í frístundir á opinberum stöðum nýtur ekki stuðnings laga, reglugerða eða siðvenja á vesturlöndum, hvorki í Vestur-Evrópu né í Norður-Ameríku. Svokallaður Karólínudómur mannréttindadómstóls Evrópu fyrir hálfu ári hefur ekki sett neitt ferli af því tagi í gang.

Dómstólar í Evrópu hafa ekki sjáanlega breytt dómvenju í kjölfar Karólínudómsins, né heldur hefur frægðarfólk tekið upp á að kæra myndatökur af sér á opinberum stöðum á borð við skemmtistaði, sundstaði og sportstöðvar, þeim stöðum sem Persónuvernd nefnir sérstaklega í greinargerð sinni.

Karólínudómurinn var eins og steinn, sem féll í poll. Fyrst heyrðist skvamp og síðan komu gárur, en fyrir löngu er allt orðið eins og áður var. Almennt er litið á Karólínudóminn sem eins konar höfuðhögg mannréttindadómsstólsins, enda hafa tækninýjungar gert einkalíf ókleift á opinberum stöðum.

Myndsíminn og veraldarvefurinn hafa breytt aðstæðum, svo og eftirlitsmyndavélar. Nú er einfalt að taka myndir af fólki og koma þeim umsvifalaust á vefinn. Ef farísear vesturlanda reyndu að koma böndum á tímarit og sjónvarpsþætti með lögum og reglum, mundi fjölmiðlun bara færast á veraldarvefinn.

Á öllum vesturlöndum er mikill fjöldi tímarita, sem að meirihluta fjalla um frístundir frægðarfólks á opinberum stöðum. Mikið er sýnt af svipuðu efni í sjónvarpi. Jafnvel Morgunblaðið birtir fjölda mynda af þessu tagi, svo framarlega sem frægðarfólkið sé útlent, en ekki innlent.

Erfitt verður að framfylgja því, að friðhelgisblaðra fylgi fólki af heimili þess yfir á opinbera staði, sem það sækir í frístundum. Það hefur hvorki verið reynt í Vestur-Evrópu né í Norður-Ameríku, en er auðvitað reglan í heimi múslima, þar sem farísear eru félagslega öflugir eins og hér á landi.

Kenning Persónuverndar er angi af þeirri stefnu farísea, að fjölmiðlar séu hluti af valdakerfinu. Þá beri að skipuleggja eins og aðrar stofnanir. Sérstaklega beri þeim að þjóna því, sem farísear telja hafa samfélagslegt eða þjóðfélagslegt gildi, auðvitað eins og farísearnir sjálfir túlka það.

Persónuvernd fylgir séríslenzku trúarsetningunni, að oft megi satt kyrrt liggja. Trúarsetningin hefur gefizt þjóðinni illa og mun verða henni harðari fjötur um fót í framtíðinni.

DV

Góða fólkið í landinu

Greinar

Góða fólkið er hornsteinn þjóðfélagsins eins og farísearnir í Nýja testamentinu. Það veit af stöðu sinni í þjóðfélaginu og vill ekki heyra eða lesa fréttir af fólki, sem hefur orðið undir í þjóðfélaginu. Almennt telur það, að opinberir aðilar gegni vel skyldu sinni og að gagnrýni sé til ills.

Sjálft lítur þetta fólk ekki á sig sem farísea. Það telur sig ábyrga þjóðfélagsþegna fremur en frjálsa borgara. Það telur eindregið, að fjölmiðlar eigi að vera hluti af kerfinu og fræða fólk um gangverkið í því. Það hafnar því alveg, að fjölmiðlar eigi að vera með læti eða hnýsast í einkamál.

Farísearnir telja, að fjölmiðlar eigi að hafa samfélagslegt hlutverk, jafnvel að þeir séu fjórða valdið í þjóðfélaginu. Þess vegna þurfi að setja um þá strangar reglur, eins og um framkvæmda-, löggjafar- og dómsvald, og koma í veg fyrir, að þeir fjalli á ósvífinn hátt um ótilhlýðileg málefni.

Góðu fólki er illa við DV, meðal annars af því að það fjalli um undirheima þjóðfélagsins og segi frá lífi fólks, sem sé allt öðru vísi en líf faríseanna. Af því að það efist um verk og greind kerfisins. Af því að það sé með nefið niðri í hvers manns koppi. Af því að það láti fólk ekki í friði.

Farísear hafna því, að fjölmiðlar séu utan valdakerfisins, stéttlausir stjórnleysingjar. Það treystir Morgunblaðinu, þótt það birti ekki upplýsingar, sem þykja sjálfsagðar annars staðar á Vesturlöndum. Það vill, að vinnubrögð Moggans verði með lögum tekin upp af öðrum fjölmiðlum.

Þetta er fjölmennur hópur, kannski um þriðjungur fólks. Þar er mikið um álitsgjafa, stjórnmálamenn, opinbera starfsmenn og fjölmiðlunga. Það er ekki hægt að skipta honum eftir kyni eða búsetu, aldri eða pólitík. Sameiningartákn hópsins er annað, trúnaður við heimsmynd Morgunblaðsins.

Lesendur DV eru allt öðru vísi. Þeir koma úr hópi, sem er heldur fámennari en farísearnir, en nógu margir til að standa undir fjölmiðli, kannski fjórðungur þjóðarinnar. Þeir vilja geta skilið fréttir og vilja sjá hinn persónulega raunveruleika að baki stofnanafrétta Morgunblaðsins.

Lífsviðhorf faríseanna eru í andstöðu við grundvallarreglur frjálsrar fjölmiðlunar. Þeir vilja móta aðra eftir kerfinu og halda sem mestum friði um kerfislæg sjónarmið Moggans.

DV