Skuggi gleðinnar í dag

Greinar

Þegar árleg hátíð homma og lesbía nær hámarki í dag, minnist DV, hvernig fordómar okkar urðu Erni Jákup Dam Washington að falli í sumar. Hann varð sem barn fyrir einelti vegna litar og síðar vegna samkynhneigðar. Hann reyndi að lifa við andstreymið, en varð 19. júlí að gefast upp á þessu lífi.

Móðir hans lýsir ævi hans og þrengingum í viðtali í blaðinu í dag, sömuleiðis ýmsir helztu vinir hans. Samanlagt sýnir textinn, hversu erfitt er fyrir fólk að lifa sómasamlegu lífi, ef það er einhvern veginn öðru vísi en annað fólk. Samfélag farísea hafnar slíku fólki ómeðvitað og ákveðið.

Við þykjumst vera komin lengra inn í nútímann en ýmsar aðrar þjóðir. Við höfum viðurkennt homma og lesbíur, svart og gult fólk, en við gerum það í yfirvitundinni, meðan fordómar leika sem fyrr lausum hala í undirvitundinni. Við eigum þannig öll sök í erfiðleikum og andláti Arnar Jákups.

Annars vegar horfum við á skrúðgöngur samkynhneigðra og látum okkur þykja þær skemmtilegar. Hins vegar höldum við uppi ofstækisfullum trúarsöfnuðum, þar sem samkynhneigð er fordæmd sem andstæð guði almáttugum. Við þykjumst virða svarta, gula og samkynhneigða, en gerum líka grín að þeim.

Það hefur ekki verið til siðs hjá fjölmiðlum hér á landi að fjalla um sjálfsvíg. Á þeim hefur verið bannhelgi, studd yfirráðum farísea, sem vilja stýra sjálfsmynd samfélagsins. DV neitar að taka þátt í þessari ógeðfelldu hefð, sem er hluti af veikri sjálfsmynd þjóðar, er efast um stöðu sína.

Sjálfsvíg eru meiri háttar vandi í þjóðfélaginu. Þau hafa fjórfaldazt á stuttu árabili. Það er ekki hægt að tala um þau eingöngu sem tölur á blaði, heldur þurfum við að skyggnast í raunveruleikann að baki talnanna. Á bak við hverja einingu í talnarunum liggur persónulegur harmleikur.

Þjóðin mun aldrei skilja sjálfsvíg, ef hún telur bannhelgi hvíla á skrifum um fólk, sem lætur bugast af erfiðleikum, sem samfélagið bakar því. Þjóðin mun aldrei skilja fámenna minnihlutahópa, ef hún vill ekki heyra eða lesa um, hvernig hún sjálf hrekur fólk til að taka hina endanlega ákvörðun.

Ég hvet lesendur DV til að lesa vel viðtölin á bls. 28-31 í blaðinu í dag. Ég efast um, að þeir, sem gera það með opnum huga, hafi óbreytta sýn á lífið í landinu að því loknu.

DV