Nýr kóngur er valtur

Greinar

Nýi kóngurinn í Sádi Arabíu er eini frambærilegi maðurinn í 30.000 manna konungsætt Sáda. Ættin er hrædd við Abdullah, af því að hann hefur gert tilraunir til að draga úr velferð þeirra, minnka laun þeirra fyrir að vera til og draga úr möguleikum þeirra á að mjólka aðstöðu sína til að græða fé.

Allt var á hverfanda hveli í Sádi Arabíu, þegar Abdullah tók við. Gamli kóngurinn Fahd var búinn að vera áratug út úr heiminum og allt hafði rekið á reiðanum. Helmingurinn af tekjum ríkisins fer í herinn og mikið af restinni fer í rándýran rekstur velferðar hinnar fjölmennu konungsættar.

Þessi ætt er frægust fyrir spillingu, hórdóm og drykkjuskap. Hún hefur gersamlega komið sér út úr húsi almennings í landinu, sem mundi kjósa yfir sig Osama bin Laden í frjálsum kosningum. Til þess að halda völdum, hefur konungsættin stutt róttæka klerka heima fyrir og einkum þó erlendis.

Þessi helzti bandamaður Bandaríkjanna í heimi múslima er um leið helzti styrktaraðili trúarlegra ofstækisskóla, sem framleiða sjálfsmorðssveitir á vegum al Kaída. Hin opinbera trú í Sádi Arabíu er Wahabismi, róttækasta afbrigði íslams í nútíma, sem hefur allt önnur gildi en róttæk Múhameðstrú.

Sádi Arabía skiptir okkur máli, því að þar er fjórðungur af olíubirgðum heimsins og þar er aðstaða til að jafna sveiflur í framleiðslu á olíu. Um leið eru olíuleiðslur þar í landi viðkvæmar fyrir árásum skæruliða, er geta nánast stöðvað olíuvinnslu til langs tíma með þremur flugskeytum.

Robert Baer segir í Atlantic Magazine, að skæruliðar geti með slíkum hætti keyrt olíuverð úr 40 dollurum á tunnuna í 150 dollara með afdrifaríkum afleiðingum fyrir efnahag Vesturlanda, því að olía er ekki enn farin að renna úr fyrirhuguðum leiðslum á svæðum Sovétríkjanna sálugu.

Búast má við, að Abdullah kóngur reyni að draga úr stuðningi Sáda við róttæka skóla og hryðjuverkamenn, en erfiðara verður fyrir hann að auka öryggi ríkis og olíuvinnslu í landi, þar sem almenningur hatar konungsættina. Hann er valtur í sessi, en Vesturlönd verða þó að treysta honum.

Eina lausn Vesturlanda á vanda Sádi Arabíu er að flýta eigin aðgerðum til að láta vetni og aðra nýja orkugjafa leysa olíu af hólmi sem hornsteinn flutninga, iðnaðar og húshitunar.

DV