Samanburður á ofbeldi

Greinar

Sumir farísear vilja greina milli ofbeldis ofstækismanna og ofbeldis á vegum ríkisstjórna, einkum vestræns ofbeldis gegn þriðja heiminum. Þessa verður mjög vart hjá þeim, sem harma sjálfsmorðssprengingar gegn almenningi í London og New York, en láta ekki mörg orð falla um vestrænar loftárásir á fólk.

Einhvern veginn finnst þessum faríseum, að nafnlaust ofbeldi úr lofti á saklaust fólk eða ofbeldi hernámsliðs gegn saklausu fólki sé sagnfræðilega viðurkennt ofbeldi, sem hafi fylgt mannkyni alla tíð. Þannig frömdu Vesturlönd ofbeldi í Hiroshima, Nagasaki og í Dresden í síðari heimsstyrjöldinni.

Stærðargráðurnar eru ólíkar. Læknaritið Lancet telur, að hundrað þúsund sakleysingjar hafi verið drepnir í Írak á vegum Vesturlanda. Hins vegar hafa ekki nema nokkur þúsund sakleysingjar verið drepnir á Vesturlöndum og ekki nema nokkrir tugir á þessu ári. Samt þykir það meiri óhæfa.

Ýmiss konar millispil sést í þessum samanburði. Ef meintir vinstri menn kvarta meira yfir vestrænu ofbeldi en ofbeldi gegn vestrinu, eru farísear tilbúnir til að fjalla í löngu máli um ofbeldi Stalíns og Maós, sem var hrikalegt, en utan gátta sem innlegg í heimspólitíkina í upphafi 21. aldar.

Trúarofstækismenn og aðrir glæpamenn, sem fremja árásir í höfuðborgum Vesturlanda hafa það að yfirvarpi, að þeir séu að hefna fyrir ofbeldi og yfirgang Vesturlanda í löndum múslima. Það ofbeldi er sannanlega meira og alvarlegra en sjálfsmorðssprengingar í New York og London og Madrid.

Fyrir utan skökk stærðarhlutföll á ofbeldi, sem framið er af Vesturlöndum, og ofbeldi, sem framið er gegn þeim, berum við á Íslandi misjafna ábyrgð. Við berum ekki ábyrgð á ofbeldi gegn Vesturlöndum, en við erum yfirlýstir stuðningsmenn og aðilar að ofbeldi Vesturlanda gegn Afganistan og Írak.

Ofbeldi, sem við erum aðilar að, varðar okkur meira en ofbeldi, sem við erum ekki aðilar að. Við getum ekki friðað samvizkuna með því að froðufella yfir ársásum á fólk í London og talað um óendanlega mannvonzku glæpamannanna, þegar við sjálf styðjum enn verri glæpi í viku hverri.

Brengluð fjarlægðarsýn í stjórnmálum er hluti af eðli farísea,forsenda þess, að þeir sjá ekki stærri glæpi okkar bandamanna, þegar þeir hneykslast á minni glæpum hinna.

DV