Hagvöxtur er hættulegur

Greinar

Jónas Kristjánsson
“Það er grundvallaratriði í hagfræði nútímans að átta sig á, að 2% hagvöxtur er alls ekki betri en 1% hagvöxtur, líklega verri”

Hagvöxtur er hættulegur

Markmið þjóðfélags er að fólk búi við öryggi og líði vel, ekki að hagvöxtur aukist úr 1% í 2%. Markmið þjóðfélags er, að allir séu aðilar, ekki að efla auð forstjóranna. Markmið þjóðfélags er franski draumurinn um frelsi, jafnrétti og bræðralag, ekki bandaríski draumurinn um að verða forstjóri.

Bandaríski draumurinn er dauður. Um það vitna Wall Street Journal og New York Times. Menn klifra ekki lengur upp þjóðfélagsstigann, heldur fæðast þeir og deyja í sömu stétt. Hreyfiaflið er horfið í bandaríska draumnum og hinir ríkustu eru farnir að loka sig inni í læstum hverfum bak við múra.

Á sama tíma er skrifað gáfulega á efnahagssíðum dagblaða um, að Evrópa sé að tapa fyrir Bandaríkjunum, af því að hagvöxtur sé ekki nema 1%, en eigi að vera 2%. Samt líður fólki miklu betur í Svíþjóð og Noregi en í Bandaríkjunum og miklu betur í Frakklandi og Belgíu en í Bretlandi.

Hagvöxtur er bull, enda mælir hann ekki það, sem máli skiptir. Hann mælir sízt af öllu öryggi fólks eða vellíðan þess. Forstjórar heimta lægri laun, hraðari vinnu og lengri vinnutíma til að efla hagvöxtinn. Þetta sjónarhorn hagvaxtar er vont fyrir almenning. Hann lifir ekki á hagvexti.

Norðurlönd hafa reynt að finna þolanlegt jafnvægi milli hagvaxtar og velferðar. Norræna mynztrið var gagnrýnt á tíma Ronald Reagan og Margaret Thatcher, en það hefur síðan fundið betri meðalveg milli auðs og öryggis. Frakkar hafa fetað leið meiri ríkisafskipta að svipaðri niðurstöðu.

Þjóðverjar hafa þá sérstöðu, að þeir hafa tekið á ýmsum stórmálum. Þeir hafa smíðað stórfellt öryggisnet. Þeir hafa gert iðnað sinn vistvænan, jafnvel efnaiðnaðinn. Þeir hafa léttilega tekið inn tuttugu milljónir fátæklinga frá Austur-Þýzkalandi. Ef þetta kostar þá 1% í hagvexti, hvað með það?

Bretar hafa hins vegar fylgt Bandaríkjunum og telja sig hafa náð góðum árangri. Í hagvexti. Ef horft er bak við hann, sjáum við aukna stéttaskiptingu, lélegri sjúkrahús með lengri biðlistum og lélegri skóla með versta skólamat í heimi. Hagvöxtur er nefnilega ekki æskilegur mælikvarði.

Það er grundvallaratriði í hagfræði nútímans að átta sig á, að 2% hagvöxtur er alls ekki betri en 1% hagvöxtur, líklega verri. Mælikvarðar almennings eru allt aðrir og merkilegri.

DV