Góða fólkið í landinu

Greinar

Góða fólkið er hornsteinn þjóðfélagsins eins og farísearnir í Nýja testamentinu. Það veit af stöðu sinni í þjóðfélaginu og vill ekki heyra eða lesa fréttir af fólki, sem hefur orðið undir í þjóðfélaginu. Almennt telur það, að opinberir aðilar gegni vel skyldu sinni og að gagnrýni sé til ills.

Sjálft lítur þetta fólk ekki á sig sem farísea. Það telur sig ábyrga þjóðfélagsþegna fremur en frjálsa borgara. Það telur eindregið, að fjölmiðlar eigi að vera hluti af kerfinu og fræða fólk um gangverkið í því. Það hafnar því alveg, að fjölmiðlar eigi að vera með læti eða hnýsast í einkamál.

Farísearnir telja, að fjölmiðlar eigi að hafa samfélagslegt hlutverk, jafnvel að þeir séu fjórða valdið í þjóðfélaginu. Þess vegna þurfi að setja um þá strangar reglur, eins og um framkvæmda-, löggjafar- og dómsvald, og koma í veg fyrir, að þeir fjalli á ósvífinn hátt um ótilhlýðileg málefni.

Góðu fólki er illa við DV, meðal annars af því að það fjalli um undirheima þjóðfélagsins og segi frá lífi fólks, sem sé allt öðru vísi en líf faríseanna. Af því að það efist um verk og greind kerfisins. Af því að það sé með nefið niðri í hvers manns koppi. Af því að það láti fólk ekki í friði.

Farísear hafna því, að fjölmiðlar séu utan valdakerfisins, stéttlausir stjórnleysingjar. Það treystir Morgunblaðinu, þótt það birti ekki upplýsingar, sem þykja sjálfsagðar annars staðar á Vesturlöndum. Það vill, að vinnubrögð Moggans verði með lögum tekin upp af öðrum fjölmiðlum.

Þetta er fjölmennur hópur, kannski um þriðjungur fólks. Þar er mikið um álitsgjafa, stjórnmálamenn, opinbera starfsmenn og fjölmiðlunga. Það er ekki hægt að skipta honum eftir kyni eða búsetu, aldri eða pólitík. Sameiningartákn hópsins er annað, trúnaður við heimsmynd Morgunblaðsins.

Lesendur DV eru allt öðru vísi. Þeir koma úr hópi, sem er heldur fámennari en farísearnir, en nógu margir til að standa undir fjölmiðli, kannski fjórðungur þjóðarinnar. Þeir vilja geta skilið fréttir og vilja sjá hinn persónulega raunveruleika að baki stofnanafrétta Morgunblaðsins.

Lífsviðhorf faríseanna eru í andstöðu við grundvallarreglur frjálsrar fjölmiðlunar. Þeir vilja móta aðra eftir kerfinu og halda sem mestum friði um kerfislæg sjónarmið Moggans.

DV