Símamilljarðar greiði skuldir

Greinar

EF DAVÍÐ ODDSSON HEFÐI ORÐIÐ VEÐURTEPPTUR í Vestmannaeyjum, hefði hann lagt til, að hluti af sölu Símans yrði notaður í jarðgöng milli lands og Eyja. En hann hafði verið á spítala og lagði til, að hluti af sölunni yrði notaður í nýjan risaspítala.

HVORT TVEGGJA ER GEÐÞÓTTI, notkun herfangs í gæluverkefni á borð við Ráðhús og Perlu. Hvort tveggja er slæmt, því að sölu eigna á að nota til að létta á skuldum. Það liggur raunar í augum uppi, að allir 67 milljarðarnir af sölu Símans eiga að fara í að grynna á skuldum hins opinbera.

RÍKIÐ HEFUR GETAÐ SAFNAÐ SKULDUM, af því að það átti eignir. Nú hefur sem óðast verið selt undan ríkinu, fyrst bankarnir, núna síminn og síðar orkuver og dreifikerfi. Þar með hafa veðin minnkað, sem ríkið hefur fyrir skuldum sínum. Þegar veðin minnka, er bezt að minnka skuldir að sama skapi.

ALLIR GRÆÐA Á LÆKKUN OPINBERRA SKULDA. Ríkið borgar minni vexti og getur farið að safna fyrir eftirlaunaskuldbindingum opinberra starfsmanna, svo að ekki þurfi að skattleggja börnin okkar í framtíðinni fyrir greiðslum, sem ríkið vanrækir um þessar mundir.

LÖGMÁL MARKAÐSHAGKERFISINS GILDA EKKI hjá ríkisstjórninni og því verða markaðslögmál ekki látin ráða ferðinni. Einhver gæluverkefni verða sett á oddinn að hætti ríkisstjórna fyrri tíma, þegar Marshallaðstoð var eytt í áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju, sem urðu miklir baggar á þjóðinni.

ALLIR ÞESSIR MARKAÐSHYGGJU- OG FRJÁLSHYGGJUMENN, sem einkenna þjóðfélagið í auknum mæli um þessar mundir, ættu að reyna að fá ríkisstjórnina til að mæla með skynsamlegri meðferð 67 milljarða, sem koma úr lausu lofti með sölu Símans.

DV