Skörðóttur hundskjaftur Reykjavíkur

Greinar

Þegar lóðum er úthlutað í Reykjavík, fara fyrst lóðir undir einbýlishús. Þegar lóðir eru boðnar út, fara lóðir undir einbýlishús á hæstu verði. Markaðurinn segir okkur, að helzt vanti slíkar lóðir, miklu frekar en lóðir undir íbúðaturna. En markaðurinn er ekki spurður álits um lóðir í Reykjavík.

Borgarstjórnin hlustar ekki á markaðinn. Meirihluti hennar hefur tekið trú á hugmyndafræði þéttari byggðar. Í stað þess að prófa þessa hugmyndafræði á nýju svæði og reisa þar mikið af þéttum háhýsum hefur meirihlutinn hvað eftir annað reynt að þétta byggð í gömlum og grónum og gisnum hverfum.

Ef þú gengur um Vesturbæinn frá höfninni til Ægissíðu, sérðu hverfi frá ýmsum tímum, elzt á Vesturgötusvæðinu, síðan koma Vellir, Melar og Hagar, hver með sínum heillega svip, þar sem hver er barn síns tíma. Þessi hverfi suður af Vesturgötu hafa enn sem komið er sloppið við stefnu þéttari byggðar.

Víða annars staðar hefur borgin búið til skörðótta hundskjafta með því að byggja ný háhýsi í nýjum stíl ofan í gömul smáhýsi í gömlum stílum. Alls staðar hefur þetta leitt til sárinda og reiði fólks, sem fyrir er á staðnum. Það hefur skrifað undir mótmæli og mætt á fundi til að mótmæla.

Sumir mótmæla því að missa útsýni, aðrir mótmæla breyttu eðli hverfisins. Sumir vísa til fyrra skipulags, sem átti að verja þá gegn ofbeldinu, sem felst í þéttingu byggðar. Aðrir vísa til hefðar, er komin var á það ástand, sem var áður en þétting hófst. Öllum þessum rökum hafnar borgin.

Stefna þéttari byggðar byggist á því ofbeldi, að meirihluti borgarstjórnar hlustar á nokkra hugmyndafræðinga en ekki á markaðinn. Hún byggist líka á, að borgin fæst ekki til að prófa fanatíkina á afviknum stöðum, heldur steypir hana upp úr gamalgrónu ástandi, sem breytist í skörðóttan hundskjaft.

Meirihlutinn í Reykjavík breytir borginni ekki í París, þótt hann margfaldi nýtingarhlutfall fólks á fermetra með því að planta háhýsum í gömul hverfi. Hann framleiðir bara óvild og hatur íbúanna, sem vilja búa við fyrra ástand. Hann þjónar ekki heldur því fólki, sem vill kaupa lóðir fyrir einbýli.

Stefna þéttari byggðar er dæmigerð fyrir ástand, þar sem hugmyndafræði er tekinn fram yfir markaðsöfl. Það mun leiða til, að skipt verður um meirihluta í næstu kosningum.

DV