Launabilið springur út

Greinar

Nokkrir tugir Íslendinga hafa sprengt mánaðartekjur sínar yfir tvær milljónir króna og hafa því meira en tífaldar tekjur venjulegs launafólks og meira en tuttugfaldar tekjur hinna lægst launuðu. Þeir hafa allir vafalaust allir unnið fyrir ofurtekjunum og um leið skilað Íslandi fram á veg.

Hins vegar er vaxandi launabil í þjóðfélaginu orðið brýnt íhugunarefni. Miðaldra fólk man þá tíma, þegar bilið milli ríkra og fátækra var fimmfalt og ekki eru mörg ár síðan bilið var tífalt. Nú er það skyndilega orðið tuttugfalt. Með sama áframhaldi, hvenær fer límingin úr þjóðfélaginu?

Til skamms tíma bjó hér ein þjóð í einu landi. Nú eru þær orðnar að minnsta kosti tvær. Annars vegar eru þeir, sem ýmissa kosta vegna eru allir vegir færir heima og erlendis. Hins vegar eru þeir, sem lepja dauðann úr skel og eru skammaðir fyrir að vera meira eða minna á sósíalnum.

Fámennt þjóðfélag þarf góða límingu, tilfinningu almennings fyrir að vera aðili að þjóðfélaginu, í sama báti og aðrir landsmenn. Menn gera ekki mikið veður út af athafnamönnum, sem sigra heiminn, en verða forviða, þegar heilu hæðirnar í bankahöllum borga meira en milljón á mann í laun.

Launaskrið er mikið og fer vaxandi. Stéttarfélög hafa ekki reynzt geta fylgt hagsmunum umbjóðenda sinna í samningum um laun og eru að hverfa í skuggann í þjóðfélagi, þar sem hver sér um sig eða getur ekki séð um sig. Við erum á siglingu frá velferðarþjóðfélagi, þar sem stóri bróðir passar þig.

Meiri kraftur er í þjóðfélagi, þar sem kraftar fólks leika lausbeizlaðir. Við þurfum að efla og nýta framtak. En við þurfum um leið að gæta að hagsmunum hinna, sem ekki njóta góðs af framtaki. Við þurfum að gæta þeirra, sem ekki fá neitt út úr því, að hagvöxtur sé 4% fremur en 2% á ári.

Við þurfum einhverja sátt í þjóðfélaginu, sátt framtaks og velferðar. Við höfðum árum saman eins konar sátt af því tagi, oftast kölluð þjóðarsátt, sem var samkomulag milli ríkis, stéttarfélaga og atvinnulífs. Þessi sátt er ekki lengur til, stéttarfélög skipta ekki lengur máli.

Skattskráin sýnir, að við erum komin að mörkum þess, að tekjubilið í þjóðfélaginu gangi út í öfgar. Með sama framhaldi hætta lágstéttirnar að styðja þjóðskipulagið.

DV