Greinar

Þriðja höggið í London

Greinar

Eftir Manhattan og Madrid er London orðin þriðja fórnardýr sjálfsvígssveita íslamskra trúarofstækismanna. Stjórnendur ódæðisins í London segja, að Róm og Kaupmannahöfn komi næst, enda eru þær höfuðborgir ríkja, sem hafa eindregnast fylgt styrjaldarstefnu Bandaríkjanna í löndum Múhameðs spámanns.

Sjálfsvígssveitir myndast daglega um þessar mundir. Algengast er, að konungsfjölskyldan og ríkar fjölskyldur í Sádi-Arabíu kosti madrössur, trúarskóla múslima, einkum í Pakistan, þar sem fátækt er mikil og jarðvegur góður fyrir ofstækið, sem Osama bin Laden og al Kaída predika.

Sjálfsvígssveitirnar ganga fyrir óslökkvandi trúarhatri á Bandaríkjunum og fylgiríkjum þeirra fyrir að fara með eldi og brennisteini um lönd múslima, vanhelga helgidóma þeirra, slátra óbreyttum borgurum holt og bolt og eyðileggja innviði heilla ríkja, fyrst Afganistans og síðan Íraks.

Fyrir 11. september 2001 voru sjálfsmorðssveitir einkum ræktaðar í Pakistan og Afganistan. Eftir 11. september er allur heimur múslima gróðurhús trúarofstækis. Gegn þessu verður ekki varizt með því að leggja innviði Íraks í rúst, drepa óbreytta borgara, eyða vatnsleiðslum og rafleiðslum.

Óhjákvæmilega verða hertar aðgerðir á Vesturlöndum til að hindra ætlunarverk sjálfsvígssveita. Brezk stjórnvöld hafa lengi reynt að þrengja svigrúm borgara og fá nú gott færi til framkvæmda. Nafnskírteini verða innleidd og fólk verður að sæta líkamsskoðun við anddyri mikilvægra mannvirkja.

Fáir tala um, að orsök alls þessa er krossferðin, sem George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur blásið til með stuðningi Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Þessa krossferð verður að stöðva, því að heimur kristinna manna græðir ekki á endurtekningu þúsund ára gamalla óhæfuverka í Jerúsalem.

Helzta vandamál heimsins um þessar mundir er ofstækið í samskiptum kristinna manna og múslima. Þetta ofstæki verður að stöðva með auknum samskiptum og auknum viðskiptum. Það verður ekki stöðvað með loftárásum og sjálfsvígsárásum. Því miður stuðla nýir harmar ekki að slíku sáttaferli.

Íslendingar geta þó lagt sitt af mörkum til að draga úr víxlverkun ofbeldis með því að eiga ekki á nokkurn hátt óbeina aðild að ofbeldi bandarískra og brezkra krossfara.

DV

Blaðamaðurinn í flórnum

Greinar

Flestir félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands eru í öðru starfi en blaðamennsku, sennilega af því að grænni hagar eru handan við girðingarnar. Við þessu er ekkert að gera, en eftirsjá er að góðu fólki yfir í störf blaðurfulltrúa og ímyndarhönnuða fyrir valdamikla aðila í þjóðfélaginu.

Helmingur af restinni eru kontóristar, án þess að með því sé meint neitt ljótt. Það táknar aðeins að fólk fær tölvupóst, klippir úr honum og límir inn í blöð og tímarit, útvarp og sjónvarp. Þetta er vinna, sem þarf að vinna, en snertir ekki nema brot af viðfangsefnum, sem menn læra í blaðaskólum.

Of stór hópur blaðamanna vinnur við eins konar jaðarstörf á gráu svæði auglýsinga. Í gamla daga voru gefin út aukablöð, þar sem birt voru viðtöl við auglýsendur. Enn þann dag í dag býður Frjáls verzlun upp á aukablað um konur, þar sem hægt er að fá viðtal gegn auglýsingu. Slík blöð kallast hóruhús.

Með sjónvarpi hafa hóruhúsin orðið fjölbreyttari. Sumir þættir lifa á kostun fyrirtækja, sem hafa hagsmuna að gæta. Tímarit ganga langt í auglýsingatenginu efnisþátta og lengst allra gengur Lifun, sem Morgunblaðið gefur út og sýnir alls engin mörk efnis og auglýsinga, er eitt samfellt hóruhús.

Hversdagsleg tímarit eru full af vörukynningum, sem borgað er fyrir, svo sem víni vikunnar eða þá af lofi um ágæti veitingahúsa, sem borga fyrir vikið. Þetta hefur lítt sézt í dagblöðum, en ýmsir efnisþættir í Blaðinu benda þó til, að þar sé sjúklegt samhengi milli auglýsinga og efnisvals.

Mjög lítill hluti af félagsmönnum í Blaðamannafélaginu vinnur við alvöru blaðamennsku, eins og hún er kennd í erlendum blaðaskólum. Fáir blaðamenn hafa atvinnu af að efast um upplýsingar, sem flæða sjálfvirkt til þeirra, og reyna í staðinn að skyggnast bak við bullið á yfirborðinu.

Góðir blaðamenn eru á öllum fjölmiðlum, en þeir eiga sums staðar erfiðara uppdráttar en eðlilegt er. Góðir blaðamenn velta fyrir sér, hvort þeir hafi náð öllu, sem segir þér, hver gerði hvað, hvar og hvenær, hvernig og hvers vegna og einkum hvað gerist svo. Rannsóknablaðamennska er fámenn.

Það skrítnasta í þessum heimi er, að bara einn er skammaður fyrir frammistöðu sína. Það er blaðamaðurinn, sem vinnur eftir kennslubókinni. Hann er sagður vera á kafi í flórnum.

DV

Við erum Evrópumenn

Greinar

Forseti Íslands er efnislega úti að aka, þegar hann segir, Íslendinga líkjast Bandaríkjamönnum meira en Evrópumönnum og eigi frekar að efla samskipti vestur um haf en austur um haf. Hins vegar geta ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar verið sérstök aðferð hans við að skjalla viðmælendur sína.

Þótt sumt sé líkara með Bandaríkjamönnum og Íslendingum en með Íslendingum og Evrópumönnum, er öfugt farið um mikilvæg atriði. Þar ber hæst, að Íslendingar bera hlýjan hug til lítilmagnans og vilja ekki, að fólk sé skilið eftir í velmeguninni. Vestan hafs er fátækt fátæklingum að kenna.

Velferð er gróin í sögu þjóðarinnar. Hrepparnir tóku fyrir mörgum öldum ábyrgð á velferð íbúanna og gerðu ráðstafanir til að bjarga fátæku fólki frá hungurdauða, þótt misjafnlega hafi oft til tekizt. Á síðustu öld fóru Íslendingar í kjölfar Norðurlanda og byggðu upp flókið kerfi velferðar.

Við sjáum mismuninn til dæmis í afstöðunni til sakamanna. Í Bandaríkjunum eru dómar eins konar hefnd þjóðfélagsins, þar sem líflát er endastöð, en hér hallast menn að hinum öfgunum, eins konar endurhæfingu, sem oft tekst ekki. Hér eru dómar að þyngd ekki nema brot af dómum í Bandaríkjunum.

Ennfremur er sá munur á Bandaríkjamönnum og Íslendingum, að hinir fyrrnefndu eru ofbeldishneigðir, dýrka hernað, fánann, og ofstækisgreinar kristinnar trúar. Hér á landi hafa menn verið friðsamir öldum saman, köstuðu lítils háttar af grjóti á Sturlungaöld, en hafa síðan verið linir og fordómalitlir.

Friðsemi og velferð skilur okkur frá Bandaríkjunum og vegur þyngra í samanburði en áherzla okkur á einstaklingsframtak og frelsi þess. Að því leyti erum við á svipuðu róli og Norðurlönd, sem hafa vikið frá hreinni jafnaðarstefnu og eru með góðum árangri að reyna að samþætta velferð og frelsi.

Að vísu höfum við losnað við verstu öfgar jafnaðarstefnu mikilvægra landa Evrópu, svo sem Þýzkalands og Frakklands. Við sluppum við gjaldþrota kerfi ellilífeyris og við erum sveigjanlegri á vinnumarkaði. Það breytir því ekki, að velferð er grundvöllur og einstaklingsfrelsi yfirbygging.

Veraldarsagan um þessar mundir markast af baráttu milli mjúkra gilda Evrópu og harðra gilda Bandaríkjanna. Við siglum þar á milli, en höfum bara landsýn af Evrópu.

DV

Þeir pynda börn

Greinar

Ellefu ára barn var haft í hinni hræðilegu 1B deild í Abu Gharib pyndingastöð Bandaríkjanna í Bagdað í Írak. Hann sagðist vilja fara heim til mömmu að sögn sjónarvottar. Þrettán ára gamall Mohammed Ismail Agha var hafður í einangrun í Guantanamo í meira en ár og var neitað um svefn.

Sannanir hlaðast upp um ógeðslegt ofbeldi Bandaríkjamanna í garð útlendra barna. Komið hefur í ljós, að 800-900 drengir frá Pakistan, 13-15 ára gamlir, voru hafðir í haldi eftir innrás Bandaríkjanna í Afganistan. Hvar sem bandaríski herinn kemur, stráir hann um sig ofbeldi og pyndingum.

Alþjóðasamtök eru farin að safna skýrslum um þetta og einstök nöfn eru farin að koma í ljós. Við eigum mynd af Omar Khadr, sem var 15 ára, þegar hann var settur í hálft þriðja ár í geymslu í Guantanamo og fékk aldrei að tala við ættingja sína, lögfræðing eða fulltrúa frá Rauða krossinum.

Juda Hafez Ahmad var lítil stúlka í Abu Gharib, sem sagði Amnesty, að verðirnir hefðu leyft hundi að bíta í lærið á 14 ára dreng. Vitnaleiðslur hafa leitt í ljós, að ein bezta skemmtun fangavarðanna var að siga óðum hundum á börn. Þetta eru bara einstök dæmi um bandarískt stjórnkerfi mannhaturs.

Bandaríkin gengu af göflunum sem ríki og þjóð eftir 11. september 2001. Þjóðin varð ofsareið, heimtaði hefnd og var sama, hvar hún kom niður. Fyrst var ráðizt á Afganistan og síðan á Írak, sem ekkert hafði með árásina að gera, né neinar aðrar tilraunir til hryðjuverka á Vesturlöndum.

Engin furða er, að Bandaríkin neita að virða alþjóðlega sáttmála um meðferð stríðsfanga. Engin furða er, að Bandaríkin eru ásamt Sómalíu eina ríkið í heiminum, sem ekki er aðili að sáttmálanum um öryggi barna. Bandaríkin eru nefnilega brjálað heimsveldi, sem vill leika lausum hala.

Ekki verður þess vart, að íslenzkir fjölmiðlar hafi meiri áhuga en bandarískir á naflaskoðun um mál af þessu tagi. Þeim mun meiri áhuga hafa íslenzkir fjölmiðlungar á að fordæma frávik frá þeirri reglu, að oft megi satt kyrrt liggja. Hér vilja þeir liggja í vanþekkingu á tilverunni.

Verst er, að við sem fullvalda þjóð látum okkur í léttu rúmi liggja að hafa her frá brjáluðu heimsveldi og taka óbeinan þátt í ofbeldisverkum þess í Afganistan og Írak.

DV

Skrautlegir bandamenn

Greinar

Erfiðir eru helztu bandamenn Bandaríkjanna í stríðsmálum. Donald Rumsfeld stríðsmálaráðherra lenti í vandræðum um daginn við að hindra ályktun Atlantshafsbandalagsins um rannsókn á fjöldamorðum á vegum stjórnvalda í Úzbekistan. Bretar og fleiri höfðu lagt til, að Nató léti vita af sér.

Rumsfeld óttaðist, að ályktunin mundi spilla fyrir samkomulagi um bandarískar herstöðvar í þar eystra. Vegna þessara herstöðva tekur George W. Bush Bandaríkjaforseti á móti Islam Karimof forseta Úzbekistan, þótt hann sé snargeðveikur og sjóði stjórnmálaandstæðinga í potti.

Pakistan er til enn meiri vandræða. Þar er valdaræningi, sem stjórnar einu fjölmennasta ríki heims í skjóli hersins með samkomulagi við ofstækismenn í trúmálum, sem hafa komið upp atómvopnum milli þess sem þeir þylja kviður úr Kóraninum, Þeir eru helztu stuðningsmenn talibana í Afganistan.

Pakistan er svo frumstætt land, að konum er raðnauðgað út af rifrildi milli annarra aðila og þær síðan settar í fangelsi, meðan glæpamennirnir ganga lausir. Þar eru konur afklæddar á almannafæri fyrir að taka þátt í alþjóðlegu maraþonhlaupi. Á milli þess er Musharraf ríkisstjóri í kaffi hjá Bush.

Pakistan er eldsmiðja andstöðu múslima við Bandaríkin og Vesturlönd. Þar eru skólarnir, sem afturhaldsættir Sádi-Arabíu kosta til að efla trúarofstæki. Úr skólunum koma sjálfsmorðsveitir, sem láta að sér kveða í Afganistan og Írak, á Spáni og Bretlandi, Bandaríkjunum og Ítalíu.

Auðvitað finna Pakistanar ekki Osama bin Laden, af því að þeir skjóta skjólshúsi yfir hann. Þeir eru í þeirri undarlegu stöðu að hýsa helztu óvini Bandaríkjanna og vera bandamenn þeirra um leið. Þannig leiðir undarleg stríðsstefna Bandaríkjanna til ólíklegrar niðurstöðu.

Pakistan er ekki svartasta afturhald, sem til er í heiminum, um þessar mundir, en það er gjaldþrota ríki almennrar örbirgðar, þar sem hver króna fer í rekstur atómvopna og hers. Svartari eru bandamenn Bandaríkjanna í Sádi-Arabíu, þar sem ofstækið í afturhaldi múslima á rætur sínar.

Undarlegast af öllu, er, að heimsveldi með þessa bandamenn og Mubarak í Egyptalandi að auki, skuli prédika lýðræði múslima og reyna að koma þar upp kosningum með handafli.

DV

Hóruhús á fjölmiðlum

Greinar

Spilling blómstrar á fjölmiðlunum. Til skamms tíma greiddu menn stórfé fyrir viðtöl í sumum spjallþáttum sjónvarps eða útlagðan kostnað við utanlandsferðir í sama skyni. Nokkur blöð birtu vínkynningar innflutningsfyrirtækja. Þetta voru hóruhús í fjölmiðlum, sala efnis á vegum hagsmunaaðila.

Alvarlegri var hórdómur lítilla útvarpsstöðva, sem hafa til skamms tíma verið undirlagðar af þessari starfsemi, þótt oft sé erfitt að sjá, hvort fyrirtækið eða starfsmaðurinn er til sölu. Enn verri er Frjáls verzlun, sem selur efni aukablaða sinna svo grimmt, að þar sést ekki frjáls, heiðarleg lína.

Morgunblaðið fer hefðbundnar leiðir dagblaða fyrri tíma, gefur út aukablöð, þar sem efni og auglýsingar fléttast saman og renna sums staðar í samfellda heild. Breyting frá fyrri tíma er, að nú hafa þessi hóruhús sérstaka ritstjórn, en útgefandinn er sem fyrr Árvakur, útgáfufélag Moggans.

Blaðamannafélagið kann í árdaga að hafa tekið á þessum málum, en ekki er það minnisstætt. Enda er félagið einkum skipað frægðarfólki, sem ekki sinnir fréttamennsku, allt frá starfsfólki auglýsinga- og samskiptafyrirtækja yfir í prófarkalesara, þáttastjórnendur og fréttaþuli.

Þeir hafa ekki tíma til að hneykslast á hóruhúsum sínum. Þeim mun meiri tíma hafa þeir til að furða sig á, að fjölmiðlar fylgi reglunni að segja fréttir í botn, þar á meðal nöfn og myndir, sem eru innifaldar í setningunni: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?

“Er ykkur ekkert heilagt”, spyr þáttastjórnandi, sem treður marvaðann í spillingunni. Hann er ekki að tala um hóruhúsin, heldur nafn- og myndbirtingar. Enda hefur Blaðamannafélagið heila siðanefnd til að stöðva nafn- og myndbirtingar, en á ekki orð í siðareglum um rekstur hóruhúsa félagsmanna.

Þegar fólk í samskiptaerfiðleikum hleypur frá ungabörnum hver í faðm annars með allt á hælunum, nenna fjölmiðlar ekki að óskapast yfir siðferðinu í þjóðfélaginu. Nei, það eru haldnir spjallráðstefnur í útvarpi um, hversu dónalegt sé að segja fréttir af framhjáhlaupum. Sögumaðurinn og ótíðindin.

Tilgangslítið er að ræða slík mál við vinnuhjú á hóruhúsum fjölmiðlunar. Þar ræður ríkjum hræsni þjóðfélags, sem telur fréttir eðlisvondar og sannleikann allra sagna verstan.

DV

Evrópu rekur stefnulaust

Greinar

Meiri harka er komin í baráttuna í Evrópu milli þeirra, sem vilja auka samstarfið í Evrópusambandinu, og hinna, sem vilja takmarka það við fríverzlun. Tony Blair frá Bretlandi fór á toppfund Evrópu ákveðinn í að sprengja fundinn og það tókst. Engin niðurstaða náðist í fjárlögum sambandsins.

Bretland hafði stuðning Hollands og Svíþjóðar, en tapaði stuðningi Austur-Evrópu á fundinum. Austanríkin hafa hingað til verið hallari undir Bretland heldur en Frakkland og Þýzkaland, en nú sáu þau slegið á frest væntingum sínum um stóraukin framlög til þróunar. Og kenna Tony Blair um.

Deilurnar í Evrópusambandinu sprungu í loft upp í kjölfar falls stjórnarskrárinnar í kosningum í Frakklandi og Hollandi. Margar ástæður voru að baki niðurstöðunnar, en þeir voru örugglega fáir, sem vildu refsa bandalaginu fyrir að skorta markaðsvæðingu, hnattvæðingu og frjálshyggju.

Miklu fleiri kjósendur höfnuðu stjórnarskránni af ótta við, að samþykkt hennar mundi leiða til öflugari markaðshyggju, hnattvæðingar og frjálshyggju í Evrópu. Flestir voru þeir þó að refsa Evrópusambandinu fyrir að vera hrokafullt embættismannaveldi, óralangt frá venjulegum kjósendum.

Evrópu mun næstu mánuði reka stefnulaust án þess að geta fótað sig í nýjum aðstæðum. Tony Blair verður forseti sambandsins til áramóta og mun ekki ná árangri, því að reiðin út í hann er mikil, bæði af hálfu upphafsríkja sambandsins og nýkomnu ríkjanna frá Austur-Evrópu.

Evrópa fær ekki vind í seglin fyrr en embættismenn og pólitískir ráðamenn þess átta sig á, að ekki er lengur hægt að stýra skipinu án samráðs við almenning. Að ekki er lengur hægt að stýra skipi, sem almenningur hefur í flimtingum og níði. Ráðamenn Evrópu verða að leggja niður embættishroka.

Sem betur fer gerist ekkert alvarlegt næstu misserin. Sambandið gengur af sjálfu sér eins og hver önnur stofnun með fastar tekjur. Evran riðar að vísu um sinn, en mun róast, þegar öldur lægja að nýju. Evrópa í naflaskoðun verður auðvitað minna áberandi á alþjóðlegum vettvangi.

Í þessu millibili verður Evrópa lakari kostur fyrir Ísland, en hins vegar verður hún þverari en áður í samskiptum við þá, sem vilja græða, án þess að vera með, svo sem Ísland.

DV

Góðborgarar bera ábyrgðina

Greinar

Við höfum ónýta yfirstétt í landinu, getulausa kontórista, sem ráðnir eru á vegum vinnumiðlunar Framsóknarflokks til að halda verndarhendi yfir helmingaskiptafélagi kolkrabba og smokkfisks, svo sem sást, þegar ráðherrasonur var ráðinn samkeppnisstjóri til að hindra afskipti í stíl olíumálsins.

Ástæðan fyrir því, að við höfum aumingja í yfirstétt og landsfeður, sem haga sér eins og capi í bófaflokkum, er einföld. Það er sá helmingur landsmanna, sem vill ekkert ljótt sjá. Sem telur, að gefi guð einhverjum embætti, þá gefi hann honum líka skilning. Sem telur leiðtogana hæfa.

Við sjáum þetta fólk alls staðar. Það kaupir Moggann, telur hann vera viðmiðun í blaðamennsku, þótt slíkt blað þekkist ekki annars staðar á Vesturlöndum. Það hafnar afskiptum af því, sem kölluð eru einkamál, vill að blöð séu ekki ónærgætin eða hnýsin, að þau efist ekki um skinhelgina.

Þetta eru íhaldssamir góðborgarar, sem eiga glerkýr og postulínshunda, þar á meðal sósíalistar sem grétu gleðitárum, er Mogginn tók fyrst grein þeirra til birtingar eða Svavar var gerður að sendiherra. Þetta eru patrísear, sem líta niður á plebeja, vilja ekki vita, að þeir séu til.

Það fer til dæmis mjög í taugar þessa fólks, að til sé dagblað, sem tekur ekki mark á yfirstéttinni, ekki frekar en Svetóníus á tíma Rómarkeisara. Dagblað, sem daglega veltir við steinum og sýnir borgurum þessa lands, hvort sem þeir vilja vita eða ekki, að fjölmargt er skrítið hér í landi.

Þar sem ríkissjóður gengur vel vegna sölu á innviðum ríkisins, er helmingur þjóðarinnar sáttur við stjórn yfirstéttarinnar á landinu. Hann mun endurkjósa Davíða og Halldóra endalaust út í eitt. Hann mun lesa Moggann til að frétta nafnlaus og myndarlaus tíðindi, fá geldfréttir.

Við lifum í landi, þar sem mótmælendur eru lokaðir inni nætur og daga, meðan barnaklámsfólki er samstundis sleppt. Við lifum í landi, þar sem stútar við stýri fá sömu dóma og barnaníðingar. Við lifum í landi, þar sem stjórnarflokkar ráða óhæfa kontórista samkvæmt helmingaskiptareglunni.

Það er utan við sýn þessa fólks, að fjölmiðlar geti verið öðru vísi en Mogginn, segi frá fólki með nöfnum og myndum, fólki, sem er öðru vísi en góðborgarar vilja, að fólk sé.

DV

Smáa letrið í góðmennskunni

Greinar

Áður en við förum að tárast út af góðmennsku auðríkjanna að gefa eftir skuldir nokkurra fátækra þróunarríkja, skulum við líta bæði á smáa letrið og fortíðina. Í smáa letrinu eru sett ýmis skilyrði, þar á meðal er krafizt undirgefni við hagfræðireglur, sem hafa sett mörg þróunarríki á höfuðið.

Í fortíðinni eru svik auðríkjanna og sjóða þeirra við þróunarríki. Þessi svik felast í, að Alþjóðabankinn, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og auðríkin hafa óspart lánað ríkjum, þar sem stelsjúkir harðstjórar hafa hirt lánin og ætlazt síðan til, að þrælar þeirra borgi afborganir og vexti.

Í öllum tilvikum hafa Alþjóðabankinn, gjaldeyrissjóðurinn og auðríkin vitað, að peningarnir hafa farið forgörðum og að ekki eru nein efni til að innheimta þá hjá fátæku fólki, sem aldrei hafa séð þá. Þessar illræmdu stofnanir Vesturlanda geta bara snúið sér til svissneskra banka með kröfur sínar.

Staðreyndin er sú, að fátæku þjóðirnar fengu aldrei þessa peninga og eiga því ekki að borga þá til baka. Það er ekki góðmennska að viðurkenna þetta, heldur aðferð til að dreifa athyglinni frá þörfinni fyrir þróunaraðstoð til fátækra ríkja. En slíkt kemur ekki til greina að mati Bandaríkjanna.

Athyglisvert er, að eftirgjöfin er háð kröfu um afnám spillingar. Það er í fyrsta skipti, sem Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa sýnt áhyggjur af spillingu í þriðja heiminum. Ekki hafa auðríkin átta samþykkt sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu í þriðja heiminum.

Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa lagt sig fram um að lána spilltum harðstjórum. Þeir hafa ausið fé í glæpamennina Paul Kagame í Rúanda og Joveri Museveni í Úganda, af því að þeir virða hagfræðireglur frjálshyggju og hafa þannig stuðlað að hruni ríkja um alla Mið-Afríku.

Krafa frjálshyggjunnar hefur verið einkavæðing opinberra fyrirtækja, skefjalaus náttúruspjöll í þágu hnattvæddra fyrirtækja og þrælkun íbúanna við færibönd á nánast engu kaupi. Krafizt er, að fátækir greiði fyrir sjúkrakostnað og menntun. Krafizt er, að græðgi leysi samhjálp af hólmi.

Ef fátæklingarnir tregðast við að fara eftir smáa letrinu í geðveikiskröfum frjálshyggjunnar, fá þeir ekki gefna eftir blóðpeninga Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

DV

Ónýt yfirstétt

Greinar

Nýlega hrósaði ég Höskuldi Jónssyni forstjóra, sem er að skilja við ríkiseinokun áfengis og tóbaks eftir tveggja áratuga starf. Höskuldur er einn af þessum sjaldgæfu embættismönnum, sem hafa staðið sig í stykkinu, innan um endalausar raðir af ónytjungum, sem spilla fyrir þjóðinni.

Ef við lítum á yfirstétt landsins, eru heilir hópar ónýtir. Um dómara landsins má hafa langt mál, þar sem gerðir þeirra spanna frá geðveiki yfir í afturhald til fyrri alda. Almennt eru dómarar ekki í tengslum við þjóðfélagið og fjöldi þeirra gerir sér ekki heldur grein fyrir refsiákvæðum í landslögum.

Stjórnmálamenn eru eins og Akrahreppsmenn Bólu-Hjálmars flestir aumingjar eða illgjarnir, sem betur mega. Þeir reka hér helmingaskiptafélag, þar sem fyrirtæki í atvinnumiðlun kemst upp með að stýra landinu undir nafni Framsóknarflokks. Þjóðarleiðtogarnir eru bófar, sem ógna fólki í símtölum.

Embættismenn í ráðuneytum eru flestir undirmálsmenn, sem geta ekki einu sinni haldið röð og reglu á málum, sem er grundvallaratriði í embættisfærslu. Þeir svara ekki bréfum og þurfa í hverri umferð máls að fá send öll gögn málsins frá upphafi, af því að þeir kynna sér aldrei nein gögn.

Þingmenn eru kapítuli út af fyrir sig. Þeir, sem fylgja ríkisstjórninni að málum, gera ekkert annað en að ýta á réttan hnapp í atkvæðagreiðslum, meira að segja Pétur Blöndal, sem rífur kjaft milli þess sem hann ýtir rétt á hnappinn. Stjórnarandstaðan hefur flutzt út í fjölmiðlana.

Um gamalríka fólkið í landinu dugir að benda á olíuna. Þar var fyrir mistök flett ofan af einu samsærinu af mörgum í fáokun, sem einkennt hefur efnahagslífið um langan feril samstjórna Sjálfstæðisflokks og atvinnumiðlunar Framsóknar. Kolkrabbinn og smokkfiskurinn voru lengst af mara á fólki.

Nú eru komnir til skjalanna nýríkir menn, sem of snemmt er að flokka á ofangreindan hátt. Um suma vitum við, að þeir eru ribbaldar, sem hafa komizt áfram sem innherjar, hafa grætt fé sitt á vitneskju, sem öðrum er ekki aðgengileg. Aðrir eru duglegir og útsjónarsamir í alþjóðlegum stíl.

Í stórum dráttum býr þjóðin við yfirstétt, sem tröllríður landinu og skilur ekkert eftir sig í staðinn. Maður eins og Höskuldur Jónsson er undantekningin, sem sannar regluna.

DV

Mótmæli að atvinnu

Greinar

Kerfiskarlar eru ósáttir við, að fólk sé á kaupi við að mótmæla gerðum þeirra. Þeim finnst fínt að vera sjálfir á kaupi við að gæta hagsmuna stórfyrirtækja, þar sem menn eru líka á kaupi. En þeim finnst ófært, að andstæðingar kerfis og stórfyrirtækja séu á kaupi, það sé nánast ósiðlegt.

Í umræðunni um aðgerðir gegn mótmælendum, sem koma til Íslands, er því mjög haldið á lofti, að við atvinnumenn sé að etja. Þeir eru kallaðir atvinnumótmælendur. Hins vegar eru embættismennirnir ekki kallaðir atvinnuembættismenn og forstjórar fyrirtækja eru ekki kallaðir atvinnuforstjórar.

Mótmælendur leggja á sig mikið erfiði við að mótmæla, ekki sízt á Íslandi, þar sem lögreglu og sérsveitum er sigað á fólk, ekki sízt ef það er eins meinlaust og Falung Gong. Ekki þarf mikið hugmyndaflug til að sjá, að mótmælasamtök finna leiðir til að hafa atvinnumótmælendur á kaupi.

Eins og stjórnmálamenn breyttust í atvinnustjórnmálamenn breytast mótmælendur í atvinnumótmælendur. Það er bara partur af nútímanum. Embættismenn og forstjórar eru núna önnum kafnir við að reyna að gera það grunsamlegt, að mótmælasamtök starfi eins og flokkar, ríki og fyrirtæki.

Endur fyrir löngu var reynt að gera mótmælendur grunsamlega með því að segja þá vera hagsmunaaðila. Menn virtust verða hagsmunaaðilar út á að vera andvígir einhverju. Enginn talaði um, að ranglátir embættismenn og forstjórar væru hagsmunaaðilar. Þessi tilraun dó, hún gekk ekki upp.

Núna er reynt að gera mótmælendur grunsamlega á þeirri forsendu, að þeir séu atvinnumenn. Er Friðrik Sófusson í Landsvirkjun þá ekki atvinnuforstjóri? Er Valgerður Sverrisdóttir þá ekki atvinnuráðherra? Er Magnús Jóhannesson þá ekki atvinnu-ráðuneytisstjóri?

Við skulum ekki láta kerfið villa um fyrir okkur. Ef kerfið ræðst að ósnortnum víðernum landsins eða reynir að koma í veg fyrir, að mótmælt sé heimboðum heimsfrægra morðhunda á borð við kínverska ráðamenn, er eðlilegt að menn safni fé til að létta undir með þeim, sem nenna að mótmæla.

Of lítið er mótmælt hér á landi. Ráðamenn fara sínu fram af hroka og valdníðslu. Við skulum ekki láta þá stýra umræðu um mótmæli með því að misnota orðið: Atvinnumótmælandi.

DV

Hreinsunaræði barnaverndarnefnda

Greinar

Barnaverndarnefndir hafa alltaf verið til vandræða, sumar verri en aðrar, en allar slæmar. Áratugum saman hafa þær verið tilefni frétta, sem allar eru slæmar, fela í sér, að barnaverndarnefndir hafi gripið til aðgerða, sem gera illt verra. Þær rífa börn af fólki og framleiða vandræðafólk.

Sjálf hugmyndafræði barnaverndarnefnda er röng. Það getur ekki verið rétt, að stjórnmálaflokkar í hverju sveitarfélagi skipi fólk hlutfallslega í nefnd til að ráðskast með börn út og suður. Í slíkar nefndir velst alltaf stjórnlynt fólk, sem vill hreinsa vel út úr skúmaskotum á botni samfélagsins.

Barnaverndarnefndir bæta böl með því að búa til annað meira. Með aðgerðum þeirra verða til keðjuverkanir, sem stuðla að erfiðleikum barna, gera þau að vandræðaunglingum og síðan að helztu viðfangsefnum lögreglu og dómstóla. Miklu nær er að fylgjast betur með foreldrum en rífa börnin af þeim.

Barnaverndarnefndin á Akureyri hefur mest verið í fréttum undanfarið, ekki af því að hún sé verri en aðrar, heldur af því að hún sýnir vandann í hnotskurn. Hún tók 90 stunda gamalt barn af móður á fæðingardeild sjúkrahúss og tveggja ára son hennar að auki, af því að þeim væri hætta búin.

Þetta er auðvitað kolruglað. Tveggja ára sonurinn hafði verið hjá foreldrum sínum frá fæðingu, án þess að yfir því væri kvartað og án þess að nágrannar sæju neitt athugavert. Í alvöruþjóðfélagi væri barnaverndarnefndin tekin föst og látin svara til saka fyrir brenglað og ósiðlegt athæfi.

Sama barnaverndarnefnd lét til skarar skríða nokkrum dögum síðar og tók fimm ára gamlan dreng af ömmu sinni á þeim forsendum, að amman hefði greinzt með þunglyndi fyrir 20 árum. Þannig rekur hvað annað í offorsi, valdníðslu og hroka nefndarinnar á Akureyri. Eins og annars staðar í landinu.

Barnaverndarnefndir á að leggja niður, ekki bara nefndina á Akureyri, heldur allar slíkar nefndir, af því að hugsunin að baki þeirra er röng. Ekki er hægt að fela fólki með félagslegt hreinlætisæði, en hvorki með mannlegan skilning né víðsýni, að ráðskast með fólk á botni samfélagsins.

Í stað barnaverndarnefnda þarf að finna skilningsríka aðila, sem geta reynt að vinna að vandamálum fátækra og erfiðra foreldra, svo að líf barna þeirra verði bærilegra en ella.

DV

Dómarar leika lausum hala

Greinar

Einn dómara Héraðsdóms Reykjavíkur, Pétur Guðgeirsson, notar ekki almenna siði í dómhúsinu, tekur ekki undir almennar kveðjur og skellir hurðum. Í stað þess að skrifa greinar um áhugamál sín í Úlfljót eða hliðstæð tímarit, notar hann dómsorð til að koma að áhugamálum sínum um óskylt mál.

Fleiri dómarar í héraðsdómi víðar á landinu eru ekki eins og fólk er flest. Guðmundur L. Jóhannesson í Héraðsdómi Reykjaness telur, að konur geti sjálfum sér um kennt, ef þeim er misþyrmt, því að þær eigi ekki að reita karla til reiði. Líklega eru fleiri karldómarar svipaðrar skoðunar.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari telur, að efni fjölmiðla sé eins konar þáttur í dómskerfinu, þannig að draga eigi úr refsingu í dómum í hlutfalli við umfjöllun málsins í fjölmiðlum. Samkvæmt þessu hafa fjölmiðlar fengið eins konar dálksentimetravald, ígildi mánaða á Litla-Hrauni.

Hæstiréttur í heild skýtur niður möguleika á, að vitni fái vernd gegn ofbeldismönnum, sem eru svo skæðir, að jafnvel lögreglumenn neita að kæra þá. Hæstiréttur hefur í dómi sett óyfirstíganleg skilyrði fyrir vitnavernd. Héraðsdómstólar reyna að halda opnum málflutningi leyndum fyrir fjölmiðlum.

Gunnar Aðalsteinsson telur eðlilegt, að barnaníðingar séu ekki dæmdir til refsingar, heldur til að sækja sálfræðitíma. Þetta getur verið áhugaverð kenning, en hún á ekki heima í dómsorðum, heldur á málþingum og tímaritsgreinum. Dómstjórar og félög dómara þurfa að hafa frumkvæði að slíkri umræðu.

Af hverju reyna dómstjórar ekki að aga dómara, sem leika lausum hala? Af hverju heldur félag dómara ekki málþing, þar sem fjallað er um, hvort þola eigi umræðu um óskyld mál í dómsorðum, hver sé réttur ofbeldismanna, hvernig megi níðast á börnum og hvernig megi fela dómsmál fyrir fjölmiðlum?

Dómsmálaráðuneytið getur fyrir hönd framkvæmdavaldsins ekki haft afskipti af afbrigðilegum dómum. Alþingi getur reynt að bæta stöðuna með skýrari lögum. Eini aðilinn, sem getur haft raunveruleg áhrif á gæði dóma, er þó samfélag dómara, eins og það kemur fram í dómstjórn og málþingum og tímaritum.

Hér í DV birtist um helgina skrá um sérkennilega dóma á síðustu mánuðum, sem benda til, að samfélag dómara þurfi að taka á hinum stóra sínum til að siða undarlega dómara.

DV

Dómstjóri vill banna hefð

Greinar

Aldrei er friður fyrir kerfiskörlum, sem vilja stýra fólki og láta það standa og sitja eins og þeir vilja. Dómstjórinn í Reykjavík er einn þeirra og vill núna leggja niður gamla hefð um ljósmyndir og kvikmyndir á göngum dómhúsa og fyrir utan dómhús. Sú hefð er eins gömul og ljósmyndavélin sjálf.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að taka mark á Helga Jónssyni dómstjóra. Hann er forvígismaður hóps, sem má muna fífil sinn fegurri. Um langt skeið hefur safnast upp í embættum héraðsdómara skrautlegt lið, sem ekki getur unnið fyrir sér í atvinnulífinu og gefur út dóma í þeim stíl.

Héraðsdómur Reykjavíkur er frægastur fyrir andstöðuna við, að yfirheyrslur yfir börnum fari fram í Barnahúsi, þar sem þau eru í vernduðu umhverfi. Helgi Jónsson og félagar heimta að fá börn í nauðgunarmálum niður á Lækjartorg í það kalda og ómanneskjulega umhverfi, sem þeir hafa komið þar upp.

Einna þekktasti dómarinn er Pétur Guðgeirsson, sem upp á síðkastið setur ljósmyndafælni inn í dómsorð sín. Fyrsta tilefni hans var, þegar Ástþór Magnússon réðst með tómatsósuflösku að ljósmyndara á gangi héraðsdóms. Hefði þó staðið dómaranum nær að gagnrýna skrítið framferði Ástþórs.

Dómarar eiga við fjölmörg önnur vandamál að stríða. Sumir þeirra telja, að barsmíðar á eiginkonum séu eðlileg afleiðing þess, að þær reiti eiginmenn sína til reiði. Aðrir telja nauðganir, barsmíðar og annað ofbeldi eðlilegan gang lífsins, svo framarlega sem um undirstéttir sé að ræða.

Dómarar eru teknir upp á því að falsa dómblöð, sem gefin eru út um málflutning hvers dags. Farið er að sleppa málum, sem talið er, að blaðamenn hafi áhuga á ,og sleppa nöfnum í öðrum málum af því tagi, jafnvel þótt um opin réttarhöld sé að ræða. Þess vegna þurfa blaðamenn núna að vakta dómsali.

Auðvitað fylgir slíku meira áreiti en ella, en dómstjórar geta sjálfum sér um kennt. Auk þess komast þeir ekki hjá því að átta sig á, að allt áreiti í þjóðfélaginu er meira en áður, bílar eru fleiri, tímahrakið meira, málaferli fleiri og fjölmiðlarnir fleiri. Ekki er hægt að banna tímans rás.

Skoðun dómstjórans í Reykjavík er alvarleg, þótt hún sé ekki málefnaleg. Hún felur í sér tillögu til viljugra kerfiskarla um að semja og láta samþykkja frumvarp um bann við hefð.

DV

Gengið af göflunum

Greinar

Amnesty kennir Bandaríkjunum um hrun mannréttinda í heiminum á þessu ári og allra síðustu árum. Brot Bandaríkjanna og leppa á vegum þeirra hafi stóraukizt og gefið harðstjórum víðs vegar í heiminum ávísun á aukna grimmd. Allt frá 11. september 2001 hafa mannréttindi verið á hröðu undanhaldi.

Bandaríkin eru ekki versta landið, en völd þeirra eru svo mikil, að þau gefa tóninn. Rússar fara bara að tala um Guantanamo, Abu Gharib og Bagram, þegar útlendingar kvarta yfir framferði rússneska hersins í Tsjetsjeníu. Skúrkarnir telja sér kleift að haga sér eins og sjálft heimsveldið.

Amnesty gaf nýlega út 300 blaðsíðna skýrslu um mannréttindi í heiminum. Þar er mest fjallað um brot á vegum Bandaríkjanna, en einnig á vegum stjórnvalda í Súdan og Kongó, Rússlandi og Kína, Burma og Norður-Kóreu, svo að nefndir séu helztu síbrotamenn á sviði mannréttindabrota.

Amnesty kvartar um stjórnlaust lögleysi í Afganistan og Írak og Haíti, þar sem bandaríski herinn hefur tekið völdin, meira eða minna í andstöðu við heimamenn. Í Afganistan er ástandið þannig, að Bandaríkin og leppar þeirra ráða hluta höfuðborgarinnar, en annars staðar ríkir hreint stjórnleysi.

Amnesty leggur áherzlu á endalausa röð uppljóstrana um ógeðslegt framferði bandarískra hermanna, einkum í Írak og Afganistan, svo og í Guantanamo, þar sem kóraninum var sturtað niður, svo sem frægt er orðið og Newsweek varð að biðjast afsökunar á fréttinni til að friða stríðsóða þjóð.

Vandinn í heiminum um þessar mundir er einfaldur. Bandaríkin hafa gengið af göflunum. Þau sparka í allar alþjóðareglur og öll alþjóðalög, sem hefta svigrúm þeirra, til dæmis reglur um meðferð stríðsfanga, sem hafa orðið til vegna langrar reynslu af ógnum stórstyrjalda fyrri áratuga og alda.

Heimsfriðurinn er ótryggur, af því að eina heimsveldi nýrrar aldar gengur berserksgang í utanríkismálum og hefur breytt þeim í stríðsmál. Bandaríkin strá um sig ógn og skelfingu eins og illveldi fyrri alda. Bandaríkin eru að verða að Assyríu nútímans, illveldi, sem gengur fyrir manndrápum.

Vegna aðstæðnanna, sem Amnesty lýsir, má vestrænt fólk ekki sleppa neinu tækifæri til að vekja athygli Bandaríkjamanna á, að þeir eru almennt hataðir fyrir það, sem þeir gera.

DV