Má oft satt kyrrt liggja?

Greinar

Útvíkkun friðhelgi einkalífs yfir í frístundir á opinberum stöðum nýtur ekki stuðnings laga, reglugerða eða siðvenja á vesturlöndum, hvorki í Vestur-Evrópu né í Norður-Ameríku. Svokallaður Karólínudómur mannréttindadómstóls Evrópu fyrir hálfu ári hefur ekki sett neitt ferli af því tagi í gang.

Dómstólar í Evrópu hafa ekki sjáanlega breytt dómvenju í kjölfar Karólínudómsins, né heldur hefur frægðarfólk tekið upp á að kæra myndatökur af sér á opinberum stöðum á borð við skemmtistaði, sundstaði og sportstöðvar, þeim stöðum sem Persónuvernd nefnir sérstaklega í greinargerð sinni.

Karólínudómurinn var eins og steinn, sem féll í poll. Fyrst heyrðist skvamp og síðan komu gárur, en fyrir löngu er allt orðið eins og áður var. Almennt er litið á Karólínudóminn sem eins konar höfuðhögg mannréttindadómsstólsins, enda hafa tækninýjungar gert einkalíf ókleift á opinberum stöðum.

Myndsíminn og veraldarvefurinn hafa breytt aðstæðum, svo og eftirlitsmyndavélar. Nú er einfalt að taka myndir af fólki og koma þeim umsvifalaust á vefinn. Ef farísear vesturlanda reyndu að koma böndum á tímarit og sjónvarpsþætti með lögum og reglum, mundi fjölmiðlun bara færast á veraldarvefinn.

Á öllum vesturlöndum er mikill fjöldi tímarita, sem að meirihluta fjalla um frístundir frægðarfólks á opinberum stöðum. Mikið er sýnt af svipuðu efni í sjónvarpi. Jafnvel Morgunblaðið birtir fjölda mynda af þessu tagi, svo framarlega sem frægðarfólkið sé útlent, en ekki innlent.

Erfitt verður að framfylgja því, að friðhelgisblaðra fylgi fólki af heimili þess yfir á opinbera staði, sem það sækir í frístundum. Það hefur hvorki verið reynt í Vestur-Evrópu né í Norður-Ameríku, en er auðvitað reglan í heimi múslima, þar sem farísear eru félagslega öflugir eins og hér á landi.

Kenning Persónuverndar er angi af þeirri stefnu farísea, að fjölmiðlar séu hluti af valdakerfinu. Þá beri að skipuleggja eins og aðrar stofnanir. Sérstaklega beri þeim að þjóna því, sem farísear telja hafa samfélagslegt eða þjóðfélagslegt gildi, auðvitað eins og farísearnir sjálfir túlka það.

Persónuvernd fylgir séríslenzku trúarsetningunni, að oft megi satt kyrrt liggja. Trúarsetningin hefur gefizt þjóðinni illa og mun verða henni harðari fjötur um fót í framtíðinni.

DV