Stórpólitískar hettupeysur

Greinar

Stórmarkaðakeðjan Bluewater í Bretlandi hefur bannað viðskiptavinum sínum að nota hettupeysur í búðunum, en hefur þær samt til sölu á stöðunum. Annars vegar lítur fyrirtækið á hettupeysur sem söluvöru og hins vegar sem skálkaskjól ungs fólks, er ekki vill þekkjast í eftirlitsmyndavélum.

Þverstæðan er orðin að stórpólitísku máli í Bretlandi, þar sem Tony Blair forsætisráðherra studdi ákvörðun keðjunnar í von um fylgi millistéttarfólks, sem er hrætt við hópa af unglingum í hettupeysum. Ráðherrar hafa lýst, hvernig uggur læðist að þeim í nánd við hópa ungs fólks í hettupeysum.

Hettupeysur hafa lengi verið tákn hins andlitslausa og illa. Fólk er hrætt við verur, sem eru án andlits og fela sig bak við djúpar hettur. Um leið eru unglingarnir með hettunum að fela sig fyrir gagnrýnu samfélagi. Flestir þeirra eru bara feimnir og finnst augnsamband við fólk vera óþægilegt.

Hettupeysur eru því ekki bara tízka, heldur skírskota þær til djúpra tilfinninga í þjóðarsálinni. Þær hindra einnig gagnsemi eftirlitsmyndavéla. Útkoman úr dæminu er dæmigerður veggur milli kynslóða, þar sem annars vegar eru unglingar og hins vegar varðmenn hinna hefðbundnu gilda í þjóðfélaginu.

Ruddaskapur á almannafæri breiðist út, ekki bara í þáttunum um Little Britain. Hann er vafalítið einnig að skjóta rótum hér á landi, því að erlendir siðir og erlend tízka koma oft fljótt. Auk þess eru það fjörutíu alda gömul bókfærð sannindi, að heimur versnandi fer, einkum ungdómurinn.

Ef ungt fólk sýnir samfélaginu ekki umbeðna virðingu, myndast gjá, sem stækkar lítil mál út yfir allan þjófabálk og gerir hettupeysur að hálfgerðum einkennisbúningi skríls, sem forsætisráðherrar vilja skipuleggja út af götum og öðrum opinberum stöðum. Þjóðfélagið skipast í ólíkar sveitir.

Svo brengluð verður birtingarmynd vandans, að búðir selja hettupeysur og meina viðskiptavinum sínum að klæðast þeim. Aðstoðarmanni íslenzka forsætisráðherrans hefur dottið í hug, að íslenzk börn verði klædd í skólabúninga að hætti kynskiptra sérskóla fyrir yfirstétt og skjólstæðinga hennar.

Hettupeysur eru dæmi um, að sífellt myndast núningsfletir milli kynslóða og hópa. Mikil líkamleg nálægð og andleg fjarlægð er ávísun á vandræði á borð við kynslóðaátök.

DV