Borgarrölt

15. Marokkó – Marrakech – Koutoubia

Borgarrölt

Koutoubia

Marrakesh Koutoubia

Kallturn moskunnar Koutoubia

Við hlið Djemaa El-Fna er Koutoubia moskan með frægum bænakallsturni, fagurlega upplýst að kvöldlagi, þegar mest er um að vera á torginu. Koutoubia er fyrirmynd kallturnsins við dómkirkjuna í Sevilla á Spáni.

El Bahia

El Bahia höllin í nágrenninu er fagurlega skreytt, skipulögð í görðum með hallir á milli blómskrúðsgarða

Næstu skref

14. Marokkó – Marrakech – Souk

Borgarrölt
Marrakesh Souk 2

Kryddsali í Souk í Marrakech

Marrakesh Riad Zina 2

Miðgarður í Riad Zina, einu smáhótelinu í Souk í Marrakech

Souks

Frá torginu liggja göngusund inn í forna miðbæinn, í Souks, þar sem kaupmenn og handverksmenn hafa búðarholur sínar í þéttum röðum.

Í herragörðum Medina er töluvert af litlum gistihúsum og veitingahúsum, sem hafa verið innréttuð með öllum þægindum í hinum gömlu húsum, sem byggð eru utan um miðgarð með blómum og bunulækjum. Slíkir herragarðar kallast Riad og eru í öllum borgum þessarar ferðar, en flest eru þau hér í Marrakech.

Næstu skref

13. Marokkó – Marrakech – Djemaa El-Fna

Borgarrölt
Marrakesh Djemma El Fna 4

Reykurinn og ilmurinn liðast upp frá veizluborðunum á Djemaa El-Fna

Djemaa El-Fna

Djemaa El-Fna er eitt af undrum veraldar, risavaxið torg í miðju hinnar fornu Medina eða miðbæjar í borginni, autt á daginn en að springa af lífi og fjöri á kvöldin.

Þar er hátíð á hverju kvöldi, þegar veitingamenn og farandsalar, tónlistarfólk, dansarar og sagnaþulir slá upp búðum sínum og fylla kvöldloftið af trumbuslætti og ópum sínum. Mest ber á snákatemjurum og apatemjurum. Seiðmagnaður kryddilmur rís upp af eldstóm og grillum.

Næstu skref

12. Marokkó – Marrakech

Borgarrölt
Marrakesh La Mamounia hótel Útsýni

Horft frá hótelinu La Mamounia, leitið að og finnið íslenzka fánann við innkeyrsluna á miðri mynd

Marrakech

Það er löng 390 km leið frá Fez til Marrakech. Borgin liggur miklu sunnar en aðrar konungsborgir Marokkó. Borgin er nálægt rótum Atlas fjallgarðsins og Sahara handan hans.

Borgin skiptist í tvennt, hina fornu borg og hina yngri frönsku borg. Þegar Frakkar réðu þarna ríkjum, vildu þeir ekki spilla hinni sérstæðu borg, heldur byggðu við hlið hennar aðra borg, Gueliz, með breiðstrætum í frönskum stíl.

Næstu skref

11. Marokkó – Fez – Mellah

Borgarrölt
Marrakesh Ghetto

Hús með gluggum út að götu eru sjaldgæf í gömlum bæjarhlutum. Hér eru hús í Mellah, hverfi gyðinga

Mellah

Mellah er gettóið í Fez. Gyðingahverfið í Fez er frábrugðið hverfum múslima. Venjuleg hús hafa gluggalausa veggi að götum og port í miðjunni til að gefa birtu. Hús gyðinga hafa hins vegar stóra glugga út að götum.

Næstu skref

10. Marokkó – Fez – Souk

Borgarrölt
Fez Souk 2

Skinnalitun undir berum himni í Souk í Fez

Souks

Fez Souk 4

Fallegar veggskreytingar í Souk

Gamli miðbærinn er stærsta bíllausa svæði heimsins, enda eru göturnar svo þröngar, að þar kemst enginn bíll. Þessu 1200 ára gamla hverfi er skipt í svæði eftir tegundum iðnaðar og verzlunar. Fræg eru litunarsvæði skinna undir berum himni. Hurðirnar í gamla miðbænum eru margar athyglisverðar, kallaðar Babs.

Næstu skref

9. Marokkó – Fez

Borgarrölt
Fez Palais Jamai hotel 2

Fez séð frá Palais Jamai hóteli

Fez

Frá Volubilis eru 80 km. til Fez, sem er frægust fyrir gamla miðbæinn, Fez el Bali, sem er á heimsminjaskrá Unesco. Minni medínan, Fez el Jedid, er líka áhugaverð.

Fez er ein af hinum frægu konungsborgum landsins, var höfuðborg landsins fram til 1925, þegar Rabat tók við. Ekki missa af gullnu hliði konungshallarinnar.

Al-Qarawiyyin moskan og madrasan er elzta starfandi moska heimsins, frá 859.

Næstu skref
Fez Royal Palace

Hlið konungshallarinnar í Fez

8. Marokkó – Volubilis

Borgarrölt
Volubilis Sigurbogi

Sigurbogi Caracalla

Volubilis

Frá Moulay Idriss til Volubilis eru aðeins 3 km.

Volubilis eru rústir rómverskrar borgar, byggðar á fönísk-púnverskum grunni og er talið vera gott dæmi um rómverskt borgarskipulag á útjaðri heimsveldisins.

Volubilis 2

Capitolum og basilíka

Þar stendur enn rómverskur sigurbogi Caracalla og heilmikið af mósaík-gólfum, svo og leifar af Capitolum musterishæð og basilíku þar við hliðina. Svæðið er á heimsminjaskrá Unesco.

Volubilis Mósaík

Mósaík í gólfi í Volubilis

Volubilis Mósaík 2

Gólf í Volubilis

Næstu skref

7. Marokkó – Moulay Idriss

Borgarrölt

Moulay Idriss

Moulay Idriss

Gata í Moulay Idriss

Frá Meknes til Moulay Idriss eru 25 km.

Moulay Idriss var fyrsti arabakóngurinn í Marokkó, langalangafabarn Múhameðs spámanns, stofnandi íslams í landinu. Hann var erfingi kalífatsins í Damaskus, en var flæmdur frá völdum og flúði til Marokkó.

Hann settist að í Volubilis og stofnaði bæinn, sem heitir Moulay Idriss eftir honum. Hér er gröf hans og hingað flykkjast múslimar til að minnast hans. Eftir lát hans var höfuðborgin fljótlega flutt til Fez.

Næstu skref

6. Marokkó – Meknes

Borgarrölt
Meknes Bab Mansour

Bab Mansour miðborgarhliðið í Meknes

Meknes

Meknes Moulay Ismail Grafh

Flísalögn í minningarhúsi Moulay Ismail

Milli Rabat og Meknes eru 120 fljótfarnir kílómetrar.

Meknes var konungsborg hins fræga Moulay Ismail 1672–1727. Eftir lát hans var konungsborgin flutt til Marrakech.

Moulay Ismail Mausoleum er minningarhöll hans. Þar má sjá afburða handverk í skreytingum. Nálægt minningarhöllinni eru Heri es-Souani korngeymslur Moulay Ismail fyrir 12.000 stríðshesta hans.

Meknes Heri As Souani

Heri Es Souani korngeymslurnar

Heri As Souani korn-geymslurnar

Bab Mansour er stærsta borgarhliðið að Medina, gamla miðbænum, sem er á heimsminja-skrá Unesco.

Næstu skref

5. Marokkó – Rabat – Chellah

Borgarrölt
Rabat Sala Colonia

Sala Colonia í Rabat

Chellah

Rabat Chella

Kallturn mosku með storkshreiðri í Chellah

Í suðurjaðri Rabat er Chellah eða Sala Colonia, rústir föníska og  rómverska bæjarins, sem var ein helzta borg skattlandsins Tingis. Þar hefur lengi verið mikill fornleifagröftur. Í nútímanum er svæðið jafnframt lystigarður borgarbúa.

Næstu skref

4. Marokkó – Rabat – Medina

Borgarrölt
Rabat Royal Palace

Inngangur konungshallarinnar í Rabat

Konungshöllin

Dar al-Makhzen nefnist konungshöllin í Touarga hverfinu í Rabat, reist 1864 eftir hönnun franskra arkitekta. Þetta er sú konungshöll landsins, sem hann notar mest, enda eru þar líka ráðuneyti hans.

Kasbah

Kasbah des Oudaia er kastalahverfið uppi á kletti við ströndina í Rabat. Við förum upp langar tröppur og gegn voldugt hlið og erum þá komin inn í aldagamalt íbúðahverfi í bláum og hvítum litum og þröngum göngugötum. Nú er þetta fínt hverfi, snyrtilegt og gerilsneytt.

Rabat Kasbah

Blámálaðar götur í kastalahverfinu Kasbah í Rabat

 

 

Rabat Souk

Medina, verzlunarhverfið í Rabat

Medina

Rabat Kasbah 2

Hliðið að Kasbah virkinu í Rabat

Neðan við Kasbah er Medina, gamla verzlunar-hverfið í Rabat. Það nær yfir stórt svæði, umlukið Atlants-hafinu á eina hlið, Bou Regreg fljótinu á aðra hlið og voldugum kastalamúr á hinar tvær. Í verzlunargötunum má sjá konur í síðum jalabas-sloppum með slæður fyrir andliti og dömur á háhæluðum skóm og Parísar-tízkuklæðum. Hér mætast miðaldir og nútími í friði og spekt.

Næstu skref

3. Marokkó – Rabat – Mohammed V

Borgarrölt

Rabat

Rabat, Mohammed V Grafhýsi

Minningarhús Mohammed V

Leiðin frá Casablanca til Rabat er 86 km.

Rabat er höfuðborg landsins með frægum höllum og miðaldahverfum á strönd Atlantshafsins. Þar hefjum við ferð okkar um borgir Marokko.

Grafhýsi Mohammed V

Grafhýsi Mohammed V við Yacoub al-Mansour breiðgötuna hýsir gröf hans og gröf sonar hans Hassan II, fyrstu konunga landsins eftir sjálfstæði landsins 1956. Það er stíl, sem kenndur er við núverandi konungsætt Alavíta. Í grafhvelfingunni situr oft klerkur og les upp úr kóraninum.

Rabat Hassan Tower

Hassan kallturninn í Rabat

Marokkómenn eru afar trúfastir og klæðast margir síðum, hvítum kuflum eins og Sádi-Arabar. Þeir eru þó alavítar eins og sumir Sýrlendingar. Það er grein af shia, sem einnig er ríkjandi trú í Íran og í Írak, mjög andsnúin súnnítum, sem ráða á Arabíuskaga. Réttarstaða kvenna er tiltölulega bágborin eins og í ýmsum löndum múslima.

Hassan turninn

Turn Hassans II er handan götunnar, bænaturn mosku, sem hafin var smíði á 1195. Byrjað var á turninum og 200 súlum. Smíðinni var hætt fjórum árum síðar, þegar turninn var kominn í 44 metra hæð og stubbar komnir af súlunum.

Byggingameistari var konungurinn Yacoub al-Mansour, sá sami og lét byggja kallturninn í Sevilla á Spáni. Báðir turnarnir eru byggðir í stíl turns Koutoubia moskunnar í Marrakech. Al-Mansour lét einnig byggja Udayas kastalann í Rabat og grafreitinn í Chellah. Hann var mikill herkonungur og vann ýmsa sigra í herferðun til Spánar og Portúgal.

Næstu skref

2. Marokkó – Casablanca – Hassan II

Borgarrölt
Casablanca Hassan II Moska

Moska Hassan II og hæsti kallturn heims

Casablanca

Casablanca Hassan II Moska 2

Brunnskreyting við mosku Hassan II í Casablanca

Flugvélin lendir í Casablanca, stærstu borg Marokkó, frægri af samnefndri kvikmynd. Þar er risamoska Hassans II á nesi, sem skagar út í Atlantshafið. Kallturn moskunnar er sá hæsti í heimi 210 metra hár, sem samsvarar þremur Hallgrímskirkjuturnum. Moskan rúmar 25.000 manns á bænastundum, auk 80.000 manns í forgarðinum.

Næstu skref

A. Marokkó

Borgarrölt, Marokkó
Marrakesh Djemma El Fna 3

Djemaa El-Fna í Marrakesh að springa af lífi og fjöri á kvöldin.

Marokkó

Marokkó er vestasta ríki múslima á norðurströnd Afríku og snýr í senn að Miðjarðarhafi og Atlantshafi. Hefur lengst af verið sjálfstætt konungsríki, en laut franskri stjórn 1912-1956. Fyrir ferðamenn eru áhugaverðastar konungaborgirnar Rabat, Meknes, Fez og Marrakech.

Næstu skref