Borgarrölt

18. Egyptaland – Aswan – Abu Simbel

Borgarrölt
Abu Simbel, Aswan 2

Risastyttur af Ramesses II framan við Abu Simbel

Abu Simbel

Hof Ramsesses II og Nefertari eru syðst í Egyptalandi, 230 km fyrir sunnan Aswan. Þau voru upphaflega höggvin í klett á 13. öld f.Kr. Þegar Aswan-stíflan var reist, voru hofin færð á þann stað, sem þau eru nú. Klettarnir voru sagaðir sundur, fluttir á nýja staðinn og settir þar saman.

Ramesses II lét reisa þessi hof til að frægja orrustu hans við Hittíta í Kadesh, sem raunar lauk ekki með sigri hans, heldur hálfgerðum ósigri eða pattstöðu.

Framan við hofin eru fjórar heimsfrægar risastyttur af Ramesses II, 20 metra háar. Framan við hof Nefertari eru líka fjórar styttur, 10 metra háar, af Ramesses og Nefertari.

Bak við stytturnar eru hofin höggvin í berg.

Abu Simbel, Aswan

Inni í Abu Simbel

Við hverfum aftur til Aswan og tökum flugið til baka til Cairó. Notalegt er að taka fljótabát þessa leið niður Níl og teyga í sig landslagið beggja vegna fljótsins, sem gefur landinu líf.

Abu Simbel, Aswan 3

Forhlið Abu Simbel hofsins

17. Egyptaland – Aswan – Philae

Borgarrölt
Philae, Aswan 2

Philae hofið

Philae

Philae Aswan

Forhlað Philae hofsins

Þetta fræga musterissvæði á eyju í Níl var fært til, þegar Aswan stíflan var reist, og flutt til eyjarinnar Agilkia í nágrenninu. Þeim flutningi lauk 1970.

Musterið var helgað guðinum Osiris og varð mjög vinsælt upp úr 322 f.Kr., þegar Grikkir tóku völd í landinu. Í kjölfarið varð mikil uppbygging, svo að núverandi minjar eru einkum frá þessu gríska skeiði.

Næstu skref

16. Egyptaland – Aswan

Borgarrölt

 

Old Cataract hótel Aswan 2

Horft frá Old Cataract Hotel yfir Níl. Grafhýsi Aga Khan er efst handan árinnar

Old Cataract hótel, Aswan 4

Horft frá Old Cataract Hotel yfir Níl

 

 

 

 

 

 

 

Aswan

Við tökum flug frá Luxor til Aswan.

Aswan er einkum þekkt fyrir stífluna miklu í Níl, reist 1960-1970 að tilhlutan Nassers forseta. Hún framleiðir rafmagn fyrir Egyptaland og jafnar flóðin í Níl, svo að þau margfalda ræktun án þess að skapa hættu á ofurflóði.

Í nágrenni stíflunnar eru minnisvarðar úr fortíðinni. Við heimsækjum Philae og síðan eitt frægasta hof Egyptalands, Abu Simbel.

Í borginni Aswan er hótelið Old Cataract Hotel á bökkum Nílar, frægt úr sögu eftir Agötu Christie. Andspænis hótelinu handan fljótsins er grafhýsi Aga Khan. Þangað kemur flugvél daglega frá Amsterdam með nýjar blómaskreytingar.

Næstu skref

15. Egyptaland – Luxor – Hof Hatshepsut

Borgarrölt
Hatsepsut útfararhof, Dalur konunganna

Útfararhof Hatsepsut

Hatsepsut útfararhof, Dalur konunganna 2

Hatsepsut útfararhof

Hof Hatshepsut

Skammt frá Dal konunganna er grafarhof Hatshepsut, hinnar herskáu prinsessu, sem varð einn merkasti faraó Egyptalands og einn sá langlífasti. Musterið er sérstætt í hönnun, byggt af Senenmut, elskhuga faraós, með langri súlnaröð í forgrunni. Musterið er óvenjuleg vel varðveitt og hefur þar að auki verið lagfært á síðustu áratugum.

Næstu skref

Litirnir sjást enn í útfararhofi Hatsepsut

14. Egyptaland – Luxor – Dalur konunganna

Borgarrölt
Tutankahmon, Dalur konunganna

Gröf Tutankahmon í Dal konunganna

Grafir faraóa

Þutmosis III, Dalur konunganna

Stigi upp að gröf Þutmosis III

Í rótum fjallanna norðan Ramesseum eru risavaxin gil, Dalur konunganna, þar sem fundizt hefur 63 grafir faraóa í neðanjarðarhvelfingum. F
rægust er gröf Tutankhamen með haug af fjársjóðum, sem grafarræningjar höfðu ekki komizt í.

Þótt lausir fjársjóðir séu týndir og tröllum gefnir, eru þessar grafir þaktar myndum og letri, sem segja sögu hinna látnu faraóa. Þær gefa innsýn í merkasta ríki heims á fimm alda tímabili frá 16. öld f.Kr. til 11. aldar f.Kr. Þetta var tímabil hinna miklu herkonunga Nýja ríkisins, sem öttu kappi við Hittíta og Assýringa um yfirráð miðausturlanda.

Næstu skref

 

13. Egyptaland – Luxor – Ramesseum

Borgarrölt
Ramesseum, Dalur konunganna

Ramesseum

Ramesseum

Handan fljótsins eru tveir skoðunarstaðir á láglendinu, Ramesseum og Memnon-risarnir.

Ramesseum er musteri Ramesses II, guðs á jörð í hans tíð, illa skemmt af flóðum í fljótinu. Mikið er þar í lágmyndum gert úr sigri hans á Hittítum við Kadesh 1285 f.Kr., þótt raunar hafi þar orðið þrátefli herjanna.

Ozymadias, Dalur konunganna, Egypt

Ozymadias í Ramesseum

Memnon-risarnir eru tvær frístandandi styttur af sitjandi Amenhotep III frá 1350. Upphaflega var að baki þeirra risavaxið musteri Amhenhotep III á 35 hektörum, en lítið sést eftir af því. Stytturnar eru illa farnir af völdum flóða í fljótinu.

Colossi of Memnon, Dalur konunganna

Colossi of Memnon

Næstu skref

12. Egyptaland – Luxor – Karnak

Borgarrölt
Forveggur Karnak

Forveggur Karnak musteris með röðum af svingsum fyrir framan

Karnak musteri

Í Karnak musterinu var hins vegar Amon-Ra einkum dýrkaður og það er sá hluti, sem er opinn ferðafólki. Mannvirkin er frá ýmsum tímum í sögu Egyptalands.

Hatsepsut einsteinungur Karnak

Hatsepsut einsteinungur í Karnak

Mest áberandi er skógur 134 hásúlna í 16 röðum. Framan við innganginn eru raðir svingsa eins og fyrir framan inngang Luxor musterisins. Í musterinu er hæsti einsteinungur heims, einsteinungur Hatshepsut kven-faraó.

Næstu skref
Hásúlnasalur Karnak 2

Hásúlnasalurinn í Karnak hofinu

11. Egyptaland – Luxor musteri

Borgarrölt
Luxor hofið

Luxor hofin séð frá Níl

Luxor musterin

Musteri var opnað hér í Þebu um 1400 f.Kr. Það er á bakka fljótsins og tengist musterinu í Karnak með braut svingsa, þar sem styttur af ljónum með mannshaus standa í röðum beggja vegna. Yzta anddyri muserisins stendur enn og síðan liggur leiðin undir súlnaröðum inn að risastyttu Ramses II. Í rústunum er hár einsteinungur úr graníti. Hér í þessu musteri var einkum faraó dýrkaður.

Næstu skref
Stytta af Ramses II faraó í hofinu í Luxor

Stytta af Ramses II faraó í hofinu í Luxor

Einsteinungur og Ramses II styttur framan við Luxor musterið

Einsteinungur og Ramses II styttur framan við Luxor musterið

10. Egyptaland – Luxor

Borgarrölt
Níl Luxor

Níl rennur hér hjá Luxor, í baksýn fjöllin ofan við Dal konunganna

Luxor

Nílarbátar Luxor

Nílarbátar séð frá Winter Palace í Luxor

Við tökum flug frá Cairo til Luxor eða förum þangað með fljótabát.

Luxor er þar, sem áður var Þeba, sem lengi var höfuðborg Egyptalands. Að fornu var hún ein af þremur stóru borgunum í Egyptalandi. Henni hefur verið lýst sem heimsins stærsta safn undir beru lofti.

Musterishverfi Luxor og Karnak ná næstum saman hér á austurbakkanum. Og handan fljótsins á vesturbakka þess er Necropolis og síðan Dalur konunganna og Dalur drottninganna þar að baki.

Þeba hafði þá sérstöðu að vera borg guðsins Amon—Ra og á þann hátt trúarmiðstöð landsins allt fram að grískum tíma.

Nú á tímum gistir fína fólkið á Old Winter Palace Hotel, sem blasir við á fljótsbakkanum.

Næstu skref

9. Egyptaland – Memfis – Sakkara

Borgarrölt
Heb Sed + Zoser stallapíramídi Sakkara

Heb Sed hofið og Djoser stallapíramídinn í Sakkara

Sakkara

Annað svæði píramída er í Sakkara, 30 km sunnan við Cairo. Þar er stallapíramídi Djoser faraó, eldri en píramídarnir við Giza, raunar elzta þekkta mannvirki jarðar, reist fyrir rúmlega 4000 árum. Steinarnir í hleðslunni eru miklu smærri í stallapíramídanum en í píramídunum við Giza. Píramídanum fylgja ýmis musteri og önnur mannvirki á 15 hektara svæði.

Ramses II Memfis

Risalíkneski Ramses II í safninu í Memfis

Memfis

Að fornu var Sakkara grafarsvæði borgarinnar Memphis, sem er 20 km sunnan við Cairo. Memphis var höfuðborg nyrðri hluta Egyptalands fyrir sameiningu landsins og var síðan mikilvæg borg allt fram að grískum tíma.

Í Memfis er fornminjasafn, sem hefur að geyma risastóra styttu, 10 metra langa, af Ramses II faraó.

Næstu skref

8. Egyptaland – Giza – Svingsinn

Borgarrölt
Svingsinn, píramídarnir í baksýn

Svingsinn, píramídarnir í baksýn

Svingsinn

Svingsinn er 400 metrum suðaustan við Keops-píramídann, risavaxin, útgrafin stytta af ljóni í hvíldarstöðu með mannshöfuð. Ekki er vitað, hvaða hlutverki svingsinn þjónaði, en hann er frá sama tíma og píramídarnir og hefur sennilega þjónað við helgisiði, sem tengdust píramídunum.

Næstu skref

7. Egyptaland – Giza – píramídar

Borgarrölt
Keops píramídi Giza

Keops píramídinn mikli

Píramídarnir

Píramídarnir við Giza eru þekktustu mannvirki heims, reistir fyrir rúmlega 3800 árum sem grafhýsi faraóa. Stærstur er Keops- eða Khufu-píramídinn, upphaflega 146,5 metrar, en rennislétta, yzta byrðið úr kalksteini er horfið. Það, sem nú sést, er burðarvirkið úr risavöxnum granítbjörgum.

Inni í píramídunum eru göng, sem liggja að grafhvelfingum. Ótal hugleiðingar hafa komið fram um annað og langsóttara hlutverk píramídanna, en engar þeirra hafa hlotið hljómgrunn til langs tíma.

Þrír stærstu píramídarnir eru kenndir við Keops/Khufu, Khafre og Menkaure. Einnig eru á svæðinu margir litlir píramídar, svo og bátaskýli með leifum af 43 metra líkflutningsbátum.

Öll þesi grafhýsi voru rænd öllu skrauti fyrir þúsundum ára, nema bátaskýlin, sem fundust ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina.

Næstu skref
Píramídar frá Mena House Giza 2

Píramídarnir séðir frá Mena House hóteli

6. Egyptaland – Cairo – moskurnar

Borgarrölt
Sultan Hassan moska Cairo

Sultan Hassan moskan vinstra megin, Al-Rifa’i moskan hægra megin

Moskurnar

Mohamed Ali moska Cairo, Egypt

Muhamed Ali moskan efst á hæð Cairo-virkisins

Muhamed Ali moskan, Al-Rifa’i moskan og Sultan Hassan moskan eru þekktustu moskur miðborgarinnar. Tvær þær síðari eru samhliða undir Cairo-virkinu og sú fyrstnefnda er uppi í virkinu. Þannig að þægilegt er að skoða þær allar í einum pakka.

Muhamed Ali moskan frá 1830 er efst á hæð Cairo-virkisins og þess vegna sýnilegasta moska borgarinnar. Hönnuð af tyrkneskum arkitekt í tyrkneskum stíl. Sjálft Cairo-virkið var reist á vegum Saladíns 1176 til varnar gegn krossförum.

Al-Rifa’i moskan frá 1869 er greftrunarstaður egypzkra kónga, meðal annars þess síðasta, Farouk. (hægra megin)

Sultan Hassan moskan frá 1361 er merkust þessara moska, enda miklu eldri. Hún er ein stærsta moska heimsins og er í senn moska og madrassa, kennslustofnun. (vinstra megin)

Næstu skref

5. Egyptaland – Cairo – bazarinn

Borgarrölt
Bazar Cairo

Bazarinn í Cairo

Khan el-Khalili bazarinn

Kryddsali á Bazar Cairo

Kryddsali á bazarnum í Cairo

Einn stærsti bazar heimsins á rætur í lok fjórtándu aldar og hefur verið í núverandi formi frá 1511 með beinum og hornréttum götum. Tvö af hliðum bazarsins, Bab al-Badistan og Bab al-Ghuri, eru frá þeim tíma. Bazarinn skiptir að venju í nokkur hverfi eftir vörutegundum. Kryddhverfið er sérstaklega spennandi.

Næstu skref