Author Archive

Frakkinn fái frið.

Greinar

Dómsmálaráðuneytið lét í sumar kyrrt liggja, þótt rússneskur flóttamaður tæki sér ólöglega landvist og gæfi sig ekki fram við rétt yfirvöld. Naut í embættismannastétt fengu ekki að ráða ferðinni í það skiptið.

Dómsmálaráðherra veitti Rússanum landvist, þótt sparðatínslumenn í ráðuneytinu hefðu varað hann við slíkri mannúð. Sú niðurstaða féll alveg saman við hugmyndir þjóðarinnar um gestrisni við erlenda kerfisflóttamenn.

Í kjölfar þessa kom því óþægilega á óvart, að dómsmálaráðuneytið skuli nú vilja vísa franska flóttamanninum Gervasoni úr landi. Bréf ráðuneytisins um það efni er lítið annað en sparðatíningur embættisnauta.

Venjulegu fólki virðist hérvist Frakkans ekki vera mikið ólöglegri en Rússans á sínum tíma. Og þjóð, sem sjálf hefur ekki herþjónustu, á erfitt með að skilja áhuga ráðuneytis á viðhaldi aga í franskri herþjónustu.

Steininn tekur þó úr, þegar ráðuneytið leggur manninum til lasts franska refsidóma fyrir neitun herþjónustu og þátttöku í mótmælum. Dómsmálaráðherra ber þó skylda til að hafa hemil á embættisnautum sínum.

Frestað hefur verið framkvæmd málsins. Gervasoni var enn í landi, þegar þetta var ritað. Nú er nauðsynlegt að skoða þetta betur og komast að réttari niðurstöðu en fyrr, – Gervasoni fái að vera hér um kyrrt.

Við viljum ekki eiga í útistöðum við frönsk stjórnvöld, fremur en sovézk. En við viljum ekki taka þátt í ofsóknum gegn mönnum, sem ekki hafa framið neitt það, sem flokkast undir afbrot samkvæmt íslenzkum lögum.

Minnkandi mannréttindi.

Ólafur Jóhannesson lagði sérstaka áherzlu á Afganistan í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á mánudaginn var. Bæði þetta og önnur atriði hinnar óvenju umbúðalitlu ræðu voru Íslandi til sóma.

Ólafur minnti á, að í engu hefði verið sinnt kröfu samtakanna um tafarlausa brottför erlends hers frá Afganistan. Hann kallaði þetta stærsta þátt kólnandi sambúðar, dekksta skuggann í alþjóðamálum um þessar mundir.

Ólafur fór réttilega bil beggja í Palestínumálinu. Hann sagði hvort tveggja nauðsynlegt, viðurkenningu á rétti Ísraels til öruggra og viðurkenndra landamæra, svo og á þjóðarrétti Palestínumanna og þátttökurétti þeirra í samningum um málið.

Ólafur gagnrýndi árásina á bandaríska sendiráðið í Teheran og töku gíslanna þar. Hann sagði þessa árás sýnu alvarlegasta dæmið um aukningu ofbeldisverka og virðingarleysi fyrir lífi og frelsi manna.

Ólafur fór aðeins almennum orðum um önnur vandamál. Hann sagði, án þess að nefna nöfn, að lýðréttindi og virðing fyrir manninum eigi mjög í vök að verjast í heiminum og að þessa óheillaþróun þyrfti að stöðva.

Einhvern tíma kemur þó að því, að íslenzkur utanríkisráðherra verður að þora að rekja umbúðalaust, hvernig mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er þverbrotin af hálfu ríkisstjórna mikils og vaxandi meirihluta þátttökuþjóðanna, svo sem skjalfest er af Amnesty og fleiri samtökum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Frakkinn fái frið

Greinar

Dómsmálaráðuneytið lét í sumar kyrrt liggja, þótt rússneskur flóttamaður tæki sér ólöglega landvist og gæfi sig ekki fram við rétt yfirvöld. Naut í embættismannastétt fengu ekki að ráða ferðinni í það skiptið.

Dómsmálaráðherra veitti Rússanum landvist, þótt sparðatínslumenn í ráðuneytinu hefðu varað hann við slíkri mannúð. Sú niðurstaða féll alveg saman við hugmyndir þjóðarinnar um gestrisni við erlenda kerfisflóttamenn.

Í kjölfar þessa kom því óþægilega á óvart, að dómsmálaráðuneytið skuli nú vilja vísa franska flóttamanninum Gervasoni úr landi. Bréf ráðuneytisins um það efni er lítið annað en sparðatíningur embættisnauta.

Venjulegu fólki virðist hérvist Frakkans ekki vera mikið ólöglegri en Rússans á sínum tíma. Og þjóð, sem sjálf hefur ekki herþjónustu, á erfitt með að skilja áhuga ráðuneytis á viðhaldi aga í franskri herþjónustu.

Steininn tekur þó úr, þegar ráðuneytið leggur manninum til lasts franska refsidóma fyrir neitun herþjónustu og þátttöku í mótmælum. Dómsmálaráðherra ber þó skylda til að hafa hemil á embættisnautum sínum.

Frestað hefur verið framkvæmd málsins. Gervasoni var enn í landi, þegar þetta var ritað. Nú er nauðsynlegt að skoða þetta betur og komast að réttari niðurstöðu en fyrr, – Gervasoni fái að vera hér um kyrrt.

Við viljum ekki eiga í útistöðum við frönsk stjórnvöld, fremur en sovézk. En við viljum ekki taka þátt í ofsóknum gegn mönnum, sem ekki hafa framið neitt það, sem flokkast undir afbrot samkvæmt íslenzkum lögum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Minnkandi mannréttindi

Greinar

Ólafur Jóhannesson lagði sérstaka áherzlu á Afganistan í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á mánudaginn var. Bæði þetta og önnur atriði hinnar óvenju umbúðalitlu ræðu voru Íslandi til sóma.

Ólafur minnti á, að í engu hefði verið sinnt kröfu samtakanna um tafarlausa brottför erlends hers frá Afganistan. Hann kallaði þetta stærsta þátt kólnandi sambúðar, dekksta skuggann í alþjóðamálum um þessar mundir.

Ólafur fór réttilega bil beggja í Palestínumálinu. Hann sagði hvort tveggja nauðsynlegt, viðurkenningu á rétti Ísraels til öruggra og viðurkenndra landamæra, svo og á þjóðarrétti Palestinumanna og þátttökurétti þeirra í samningum um málið.

Ólafur gagnrýndi árásina á bandaríska sendiráðið í Teheran og töku gíslanna þar. Hann sagði þessa árás sýnu alvarlegasta dæmið um aukningu ofbeldisverka og virðingarleysi fyrir lífi og frelsi manna.

Ólafur fór aðeins almennum orðum um önnur vandamál. Hann sagði, án þess að nefna nöfn, að lýðréttindi og virðing fyrir manninum eigi mjög í vök að verjast í heiminum og að þessa óheillaþróun þyrfti að stöðva.

Einhvern tíma kemur þó að því, að íslenzkur utanrikisráðherra verður að þora að rekja umbúðalaust, hvernig mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er þverbrotin af hálfu ríkisstjórna mikils og vaxandi meirihluta þátttökuþjóðanna, svo sem skjalfest er af Amnesty og fleiri samtökum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kláði í gikkfingri.

Greinar

Engin félagsleg eða önnur vandamál hafa komið í kjölfar tveggja byltinga áttunda áratugsins í prenttækni hér á landi. Þrátt fyrir vinnusparandi tækni hefur full atvinna haldizt hjá bókagerðarmönnum og raunar rúmlega það.

Fyrir áratug héldu tölvuritvélar innreið sína og ruddu setjaravélum úr vegi. Nú eru tölvutengdar skermaritvélar komnar til viðbótar. Í bæði skiptin sömdu málsaðilar um skipan mála, sem staðizt hefur dóm reynslunnar.

Þannig hefur verið búið um hnútana, að framleiðniáhrif hinnar nýju tækni hafa nýtzt nokkurn veginn til fulls. Jafnframt hefur verið tryggt, að enginn missti atvinnu sina. Bæði atvinnurekendur og launamenn fengu sitt fram.

Um þetta gildir þekkt lögmál tæknibyltinga. Þær fækka að vísu handtökum við hvert verkefni, en fjölga svo aftur á móti verkefnum. Útkoman er sú, að heildaratvinna í greininni eykst fremur en hitt – vegna útþenslu greinarinnar.

Hin nýja tækni hefur eflt prentun og útgáfu hér á landi. Vinnusparnaðurinn hefur drukknað í aukinni prentun og útgáfu. Og satt að segja er ekki fyrirsjáanlegt, að frekari tækniþróun muni leiða til atvinnuskorts.

Um leið hefur tæknin gert innlenda prentun mun samkeppnishæfari en áður. Í mörgum þáttum er framleiðnin sambærileg við nágrannalöndin og jafnvel betri. Á þeim sviðum gætu Íslendingar farið út í fjölprent fyrir alþjóðamarkað.

Í ljósi þessa tvöfalda árangurs sýnist ekki rétt að efna til verkfalla til að reyna að breyta þegar gerðum tækniþróunarsamningum, sem hafa reynzt til þess fallnir að gæta hagsmuna beggja málsaðila. Tilefni breytinga er ekkert.

Þessi reynsla er líka svipuð og í nágrannalöndunum, þar sem samkomulag um tækniþróun hefur náðst á svipuðum nótum. Núverandi skipan mála hér á landi er hin sama og á Norðurlöndum. Ekki er þar að finna fordæmi fyrir breytingum.

Dæmin um Berlingske Tidende og London Times eru undantekningar, þar sem víðtækar uppsagnir áttu að fylgja tæknibyltingu. Hér á landi kæmu slíkar uppsagnir ekki til greina, einmitt vegna gildandi samnings um tækniþróun.

Hið ótímahæra verkfall í prentiðnaðinum gengur líka þvert á hægan og markvissan gang almennra kjarasamninga í landinu. Þar líður varla svo dagur, að ekki náist árangur í einum eða fleiri þáttum samninganna.

Það er verið að semja samtímis á nærri öllum sviðum hins almenna vinnumarkaðar. Það er verið að samræma launaflokka innan samtaka og milli samtaka. Þetta er gífurlega mikið verk, sem hlýtur að taka nokkurn tíma.

Stundum hafa forustumenn einstakra samtaka eða félaga orðið óþolinmóðir. Þeir hafa minnzt á, að verkföll þyrfti til að flýta málum. Ekki hefur þó komið til aðgerða, því að þeir hafa séð, að gangurinn er raunar furðu góður.

Einstaka uppákomur hafa tafið gang mála, svo sem skyndileg afturköllum atvinnuleyfa erlends farandverkafólks. Menn hafa þó fljótt jafnað sig aftur og afsakað slíkar uppákomur sem kláða í gikkfingri.

Fyrsti alvarlegi hnekkir kjarasamninganna eru verkföllin, sem boðuð hafa verið í prentiðnaði. Þau munu ekki leiða til árangurs, aðeins til tjóns, enda ekki í stíl hinna almennu viðræðna. Þau eru hættulegur kláði í gikkfingri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

“Okkar tíkarsynir”.

Greinar

Suður-Kórea er enn eitt ríkið, sem hverfur af braut mannréttinda. Chun Doo Hwan forseti er búinn að koma þar á fót einræðisríki. Líflátsdómurinn yfir Kim Dae Jung, hinum vinsæla stjórnarandstæðingi, er bara eitt skrefið.

Stjórnin hefur látið loka nærri 200 blöðum og tímaritum og reka meirihluta blaðamannastéttar landsins. Allar fréttir af sýndarréttarhöldum yfir Kim og fleirum eru vandlega ritskoðaðar, svo að einungis stjórnarhliðin sjáist.

Stjórnir Japans og Bandaríkjanna hafa harðlega mótmælt afnámi mannréttinda í Suður-Kóreu. Chun forseti lætur slíkt sem vind um eyru þjóta. Hann þykist vita, að Bandaríkin þoli ekki að missa herstöðvar sínar í landinu.

Þetta er enn eitt dæmið um vandamálið, sem Bandaríkjamenn kalla “okkar tíkarsynir”. Það eru þeir í hópi ógeðslegra valdhafa þriðja heimsins, sem halla sér fremur að Bandaríkjunum heldur en Sovétríkjunum.

Með brottför Kissingers utanríkisráðherra og innreið Carters forseta dró verulega úr siðblindunni, sem löngum hefur mótað utanríkisstefnu Bandaríkjanna. “Okkar tíkarsynir” þykja ekki lengur sjálfsagðir bandamenn.

Greinilegast hefur þetta komið fram í Suður- og Mið-Ameríku, leikvelli villimanna á borð við Somoza, Duvalier, Pinochet, Videla og Strösser. Slíkir foringjar hafa ekki lengur getað reitt sig á bandaríska hagsmuni.

Siðvæðing Carters hefur samt ekki náð til þeirra “tíkarsona”, sem taldir eru standa næst öryggi ríkisins. Og í Suður-Kóreu bíða 40.000 bandarískir hermenn eftir nýrri innrás kommúnista frá Norður-Kóreu.

Chun forseti telur greinilega, að hann geti staðið af sér óánægju Bandaríkjastjórnar. Hún muni neyðast til að vinna með sér að sameiginlegum öryggishagsmunum. Hann hefur líka skipað bandarískt menntaða menn sem ráðherra.

Áleitin er samt spurningin um illu kostina tvo: Hvenær verður einræði “tíkarsona” svo skelfilegt, að það jafnist á við einræði kommúnismans, sem stjórnir Bandaríkjanna hafa löngum reynt að bjarga öðrum þjóðum frá?

Því miður virðist spurningin nú eingöngu snúast um líf Kim Dae Jung. Stjórn Bandaríkjanna mun bregðast við af meiri hörku, ef Chun Doo Hwan lætur drepa hann. Ef aðeins minni spámenn verða drepnir, mun það látið kyrrt liggja.

Þannig er Suður-Kórea blettur á Bandaríkjunum sem forusturíki þess hluta mannkyns, er trúir á víðtæk mannréttindi, þar sem talið skoðanafrelsi og upplýsingafrelsi . “Okkar tíkarsynir” eru enn til, þótt þeim hafi fækkað.

Enn óþægilegar er til þess að hugsa, að senn geti Reagan orðið forseti Bandaríkjanna. Augljóst er, að villimenn í hópi hægri sinnaðra valdhafa í þriðja heiminum bíða með ofvæni stjórnarskipta í Bandaríkjunum og nýrrar Kissinger-aldar.

Ummæli Reagans benda líka til, að hugur hans sé alveg lokaður fyrir hinum fíngerðari þáttum baráttunnar milli hugmyndafræði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Sem forseti mundi hann rýra siðferðilega stöðu Bandaríkjanna.

Þeir, sem dæma Carter óvægilega, gleyma því oft, að með honum fluttist loks í Hvíta húsið utanríkisstefna, sem leit meira á innihald en ytra borð. Suður-Kórea er þó dæmi um takmörk þau, sem siðvæðingu Carters eru sett.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Enn eitt Parkinsonsfrumvarpið.

Greinar

Enn er verið að smíða fjárlagafrumvarp og enn er það unnið í anda lögmáls Parkinsons. Stjórnendur opinberra stofnana hafa skilað skýrslum um áætlaða fjárþörf þessara stofnana á næsta ári. Í þessum áætlunum er mikið um dýrðir.

Alls staðar þarf fleiri starfsmenn til að búa til verkefni fyrir þá, sem fyrir eru. Alls staðar er nóg af verkefnum, sem gaman væri að vinna að. Og alltaf hefur alþingi samþykkt lög, sem leiða til nýrra útgjalda á fjárlögum.

Ofan á allt þetta bætist svo vissa stjórnenda opinberra stofnana, að áætlanir þeirra verði skornar niður um 10-20%. Þeir gera ráð fyrir niðurskurðinum með því að ofáætla fjárþörf sína, sem þessu nemur.

Niðurstaðan verður því samansöfnuð óskhyggja stjórnenda opinberra stofnana og alþingismanna. Þessi samansafnaða óskhyggja er kölluð fjárlagafrumvarp. Þetta frumvarp er ár eftir ár langt umfram greiðslugetu þjóðarinnar.

Til þess að minna beri á þessu tíðkast í vaxandi mæli, að fjárfestingarþættir séu teknir úr hinu venjulega fjárlagafrumvarpi. Þeir eru settir í annað fjárlagafrumvarp, sem kallað er lánsfjáráætlun, í sjónhverfingaskyni.

Afleiðingarnar eru margþættar. 15% útflutningstekna þjóðarinnar fara í afborganir og vexti af löngum, erlendum lánum. Þetta hlutfall var 13% í fyrra. Jafnframt þyngist skattbyrðin. Á þessu ári hækka beinir skattar um 5%.

Alvarlegast er þó, að útþensla hins opinbera kemur niður á hinum tveimur aðilum þjóðarbúsins, atvinnuvegum og almenningi. Þeir berjast í vinnudeilum um, hvernig skipta skuli köku, sem ríkið lætur minnka ár eftir ár.

Margoft er búið að benda á, að fjárlög má ekki byggja á samansafnaðri óskhyggju. Þau á að smíða á þveröfugan hátt, með því að byrja á niðurstöðutölunum og enda á einstökum greiðsluliðum. Alveg eins og launamaðurinn byggir á launaumslaginu.

Fyrst þarf að taka pólitíska ákvörðun um, hve mikill eigi að vera hlutur ríkisins af þjóðartekjunum, til dæmis 10%. Síðan þarf að ákveða, hve mikið eigi að fara til rekstrar og hve mikið til fjárfestingar, til dæmis 6% og 4%.

Næst þarf að skipta þessum upphæðum milli ráðuneyta. Það þarf ekki endilega að gerast í sömu hlutföllum og árið áður, heldur breyttum. Væri þá tekið tillit til pólitískra forgangsatriða á borð við orkubúskap þjóðarinnar.

Einnig þurfa ráðamenn að fá tækifæri til að íhuga, hvort nokkur heil brú sé í að verja 10% fjárlaga til styrkja, uppbóta og niðurgreiðslna í landbúnaði og auka þannig enn framtíðarkostnaðinn af þessu þjóðarmeini.

Þegar loksins er búið að brjóta fjárlagafrumvarpið niður í smæstu einingar, sjá menn til dæmis, hve mikið fé þjóðin getur lagt í heimavistarskóla á næsta ári. Þá væru hálftómir Hafralækjarskóli og Stóru-Tjarnaskóli ekki byggðir í senn.

Við slíkar aðstæður mundu embættismenn og stjórnmálamenn vanda sig mun betur og gera meira að því að velja og hafna. Þeir gætu jafnvel látið sér detta í hug, að leggja megi niður óþarfar stofnanir til að ná fé til þarfari hluta.

Fjárlagafrumvarp á að byggjast á þrennu. Í fyrsta lagi fastri hlutdeild ríkisbús í þjóðarbúi. Í öðru lagi vinnslu frá niðurstöðutölu í átt til einstakra útgjaldaliða. Í þriðja lagi, að greiðslur verði ekki að hefð, heldur séu endurmetnar á gagnrýninn hátt á hverju ári.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þrjár þráhyggjur.

Greinar

Landbúnaðarstjórar eru að mestu hættir að halda fram hagnýtu gildi dilkakjöts- og mjólkurvöruframleiðslu hér á landi. Í staðinn tala þeir um þjóðaröryggi, hættu á matarskorti, byggðastefnu eða benda bara á fordæmi annarra.

Það er þráhyggja ein, að framleiðsla hefðbundinna landbúnaðarafurða þurfi að vera í samræmi við þarfir þjóðarinnar. Mun hagkvæmara væri að hafa framleiðsluna minni en þarfirnar og flytja mismuninn inn.

Verzlunar- og innflutningsfrelsi leiða til stöðugs framboðs á vörum. Síðustu árin hefur hinn frjálsi markaður jafnan boðið upp á ferska ávexti. Hann gæti auðveldlega hindrað skort á kjöti og mjólkurvörum, ef hann mætti.

Það er líka þráhyggja, að þessi framleiðsla þurfi af öryggisástæðum að vera í landinu. Að vísu vilja ýmis iðnríki hafa upp á einhvern landbúnað að hlaupa, ef til styrjaldar kæmi. Aðstæður okkar eru hins vegar betri.

Við höfum mataröryggið í fiskvinnslustöðvum um land allt. Þar er jafnan til nægur matur, sem unnt er að grípa til, ef á þarf að halda. Þessi varaforði er mun meiri en iðnþjóða, sem reyna að halda uppi leifum landbúnaðar.

Ef olíusamgöngur rofna milli Íslands og umheimsins, stöðvast tæknivæddur landbúnaðurinn eins og aðrar atvinnugreinar. Flestar frystigeymslur eru hins vegar knúnar rafmagni frá vatnsaflsstöðvum, sem þurfa ekki olíu.

Ennfremur er það þráhyggja, að víglína íslenzkrar byggðastefnu liggi í afskekktum héruðum landsins. Fullveldi þjóðarinnar stóð ekki og féll með því, hvort Hornstrandir héldust í byggð. Altjend græddi náttúran á niðurstöðunni.

Landflóttinn er alvarlegri byggðavandi Íslands. Á einum áratug hafa 5.500 manns flutzt úr landi umfram aðflutta. Ef þessi straumur vex, getum við staðið andspænis landauðn á nokkrum áratugum.

Raunhæf byggðastefna ætti að miða að svo góðum lífskjörum í landinu, að landflóttinn stöðvaðist. Víglína byggðastefnunnar stendur því í þéttbýlinu og einkum á Reykjavíkursvæðinu, glugga landsins gagnvart umheiminum.

Þegar fokið er í öll skjól, benda landbúnaðarstjórar á fordæmi Norðmanna og ýmissa annarra þjóða. Þeir segja stuðninginn þar á hvern starfsmann í landbúnaði vera nokkurn veginn jafn háan og hér á landi.

Við þessu eru mörg svör. Einfaldast er þó að benda á, að við erum ekki skyldugir til að endurtaka mistök annarra þjóða. Þar á ofan eru mörgum sinnum fleiri skattgreiðendur að baki hverjum starfsmanni í landbúnaði í Noregi en hér.

Einnig má benda á, að Norðmenn styrkja hvern starfsmann í sjávarútvegi jafn myndarlega og í landbúnaði. Stóriðja þeirra og olía gerir þeim kleift að hafa bæði landbúnað og sjávarútveg á baki skattgreiðenda.

Við höfum hins vegar litla stóriðju og enga olíu. Hér gegnir sjávarútvegurinn hlutverki auðsuppsprettunnar. Og hún er ekki meiri en svo, að við höfum ekki efni á að hafa hinar þrjár árlegu Kröflur landbúnaðar á herðunum.

Hin einu gildu rök landbúnaðarstjóra er atvinnustaða bænda og starfsfólks búvöruiðnaðar, búseturöskun og aðrar félagslegar aðstæður. Allar tillögur um samdrátt landbúnaðar verða að taka tillit til þessara vandamála.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hið neikvæða vinnsluvirði.

Greinar

Fróður maður reiknaði út fyrir nokkrum árum, að það væri neikvæð iðja að nota íslenzka kú til að breyta innfluttum fóðurbæti í mjólk, ef selja ætti mjólkina á heimsmarkaðsverði. Ódýrara væri að flytja inn mjólk og spara kúna.

Margir telja offramleiðslu landbúnaðarafurða til gildis, að hún afli nokkurs gjaldeyris. Þeir segja, að einhver gjaldeyrir sé betri en enginn. Staðreyndin er hins vegar sú að landbúnaðurinn eyðir meiri gjaldeyri en hann aflar.

Á aðra vogarskálina getum við sett allt kjöt, mjólkurduft, osta, ull, teppi, lopa, band, prjónavörur, skinn og húðir. Semsagt allan útflutning afurða landbúnaðarins og búvöruiðnaðarins, að ullariðnaði meðtöldum.

Hinum megin getum við sett innflutt skepnufóður, áburð, vélar og tæki, svo og eldsneytið, sem notað er í landbúnaði. Þessi innflutningur er samtals dýrári í gjaldeyri en það sem fæst í staðinn í hina vogarskálina.

Ef við ímyndum okkur, að enginn landbúnaður dilkakjöts og mjólkurafurða væri hér á landi, þá mundi dæmið líta þannig út, að við spöruðum töluverðan gjaldeyri upp í innflutning þessara sömu afurða.

Þar á ofan mundum við spara töluverða fjárfestingu og starfskrafta til margvíslegrar iðju, sem annaðhvort mundi spara gjaldeyri eða afla hans beint. Svo hláleg er staða landbúnaðarins í þjóðarbúskapnum.

Þjóðhagsstofnunin upplýsir, að á þessu ári verði sóað sextán milljörðum króna í fjármunamyndun í landbúnaði. Í þessari tölu eru styrkir hins opinbera, lán ýmissa sjóða, stofnana og banka, svo og eigið fé bænda.

Fjárlög upplýsa, að á þessu ári verði sóað 33 milljörðum króna til viðbótar í uppbætur og niðurgreiðslur. Þetta er herkostnaður skattgreiðenda af óhóflegri fjárfestingu í landbúnaði síðustu áratugina.

Þessar tölur gera samtals 49 milljarða, en segja þó ekki alla söguna af uppihaldskostnaði landbúnaðar á Íslandi. Í ofanálag mundi vöruverð lækka, ef innfluttar vörur á borð við smjör og osta kæmu í stað íslenzkra.

Dagblaðið benti á það í gær, að innflutt smjör mundi kosta neytendur og skattgreiðendur tvo milljarða króna á ári í stað þeirra níu milljarða króna, sem innlenda smjörið kostar neytendur og skattgreiðendur nú.

Hér hefur verið bent á, að ofan á allt annað böl sogar landbúnaðurinn til sín meiri gjaldeyri en hann og búvöruiðnaðurinn aflar. Allar þessar staðreyndir sýna, að þjóðin þarf að vinna að örum samdrætti landbúnaðar.

Að baki ástandsins liggur hörð samkeppni vel tæknivæddra ríkja tempraða beltisins við landbúnað okkar á mörkum freðmýrabeltisins. Við ráðum ekki við landbúnað og eigum að snúa okkur að fiski, orku og iðnaði.

Margt hefur orðið Íslands óhamingju að vopni. Ekkert eitt atriði vegur þó þyngra en landbúnaðurinn. Hann hefur í lífskjörum dregið okkur aftur úr nágrannaþjóðunum. Hann stendur í vegi fjárfestinga í framtíðargreinum.

Bændur bera sjálfir lítið úr býtum þessa Bakkabræðraleiks. Þeir eru láglaunastétt þjóðfélagsins, sumir hverjir í botnlausum skuldum. Þeir eru meira að segja bundnir átthagafjötrum búalaga, sem meina þeim sölu jarða á sannvirði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Látum aðra um landbúnað.

Greinar

Íslendingar tapa sjö milljörðum króna árlega á því einu að framleiða sjálfir smjör til eigin nota í stað þess að kaupa það fyrir slikk af Efnahagsbandalaginu, sem situr uppi með varanlegt smjörfjall eins og við.

Þau rúmu 1.500 tonn, sem við notum af smjöri árlega, kosta okkur níu milljarða króna. Í Efnahagsbandalaginu er framleiðslukostnaður þessa magns þrír milljarðar króna eða þriðjungur af okkar tilkostnaði.

Efnahagsbandalagið hefur árum saman greitt útflutningsbætur með smjörfjalli sínu og mun gera það um ókomna framtíð. Þar með getur bandalagið boðið upp á 1.500 tonn af smjöri á ári á einn milljarð króna.

Ef við ímyndum okkur, að við sætum ekki uppi með landbúnað, mundi það ef til vill kosta okkur tæpan milljarð á ári að flytja inn evrópskt smjör og hafa af því geymslu- og sölukostnað. Í þessari einu afurð væri sparnaðurinn sjö milljarðar.

Að baki mismunarins liggur misjöfn lega á hnettinum. Við sitjum í kuldanum við jaðar freðmýrabeltisins. Lönd Efnahagsbandalagsins eru hins vegar í tempraða beltinu, alveg eins og gresjur Bandaríkjanna.

Misjöfn aðstaða veldur því, að íslenzkur starfsmaður í landbúnaði brauðfæðir tæplega tíu manns, meðan starfsbróðir hans í Efnahagsbandalaginu brauðfæðir tuttugu manns og Bandaríkjamaðurinn heila sextíu manns.

Hinn tæknivæddi og vel staðsetti landbúnaður iðnvelda Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu framleiðir langtum meiri afurðir en unnt er að losna við. Umframmagnið er boðið fyrir slikk hverjum þeim, sem hafa vill.

Nútímalíf byggist á verkaskiptingu. Menn búa sjálfir til það, sem þeir gera vel, og láta aðra um hitt. Við seljum til útlanda samkeppnishæfan fisk og ýmsar iðnaðarvörur. Í staðinn flytjum við inn þriðjunginn af þörfum okkar.

Við látum okkur ekki detta í hug að framleiða eigin bíla eða flugvélar. Ekki heldur hveiti eða sítrónur. En við látum okkur detta í hug að eyða kröftum okkar í framleiðslu á ósamkeppnishæfu kjöti og mjólkurvörum.

Á sama tíma látum við afskiptalausan verulegan hluta af hinum raunverulegu verðmætum landsins, orkunni í fallvötnum og jarðvarma. Á þeim sviðum eru verkefni fyrir margfalt fleiri en þá, sem nú stunda landbúnað.

Menn einblína of mikið á okkar smjör-, osta- og kjötfjöll. Vandi okkar er ekki eingöngu sá, að við framleiðum dilkakjöt og mjólkurvörur langt umfram eigin þarfir. Vandinn er fremur sá, að við framleiðum þessar vörur yfirleitt!

Offramleiðslan kostar okkur eina Kröflu á ári í fjárfestingu og tvær Kröflur í uppbætur og niðurgreiðslur. Þar á ofan kostar landbúnaðurinn okkur eina Kröflu á ári í banni á innflutningi ódýrra afurða.

Miðað við samkeppni nútímans og legu landsins er út í hött að stunda hinn hefðbundna landbúnað á Íslandi. Svo framarlega sem unnt er að finna arðbær, samkeppnishæf verkefni fyrir alla þjóðina. Og til þess eigum við nægar auðlindir.

Lífskjör byggjast á lögmáli verkaskiptingar. Það lögmál segir, að menn eigi að fást við þau verkefni, sem þeir eru hæfastir til að leysa eða hafa bezta aðstöðu til að leysa, en eigi að láta aðra um hin verkefnin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Nokkrar Kröflur á ári.

Greinar

Nú er Ingólfskan að springa í loft upp eftir tveggja áratuga feril. Offramleiðslan í hinum hefðbundna landbúnaði kindakjöts og mjólkurafurða hefur keyrt svo úr hófi fram, að bændur eru farnir að borga brúsann.

Ekki er rétt að kenna Ingólfi einum um hina hrikalegu peningabrennslu. En það var þó í ráðherratíð hans, að hið sjálfvirka kerfi styrkja og lána, uppbóta og niðurgreiðslna náði þeirri fullkomnun, sem entist tæpa tvo áratugi.

Allan þennan tíma hafa bændur verið hvattir gegndarlaust til fjárfestingar og framleiðslu. Styrkir og lán sáu um, að þeir framkvæmdu sem mest. Uppbætur og niðurgreiðslur sáu um, að afurðunum yrði jafnan komið í lóg.

Mörg þessi ár hefur fjárfestingin í landbúnaði verið meiri en í iðnaði. Og enn þann dag í dag er hún meiri en í fiskvinnslu. Árið 1980 verður rúmlega 16 milljörðum króna fórnað á altari fjármunamyndunar í landbúnaði.

Í landbúnaði er þannig fjárfest ein Krafla á ári. Þar á ofan borga skattgreiðendur tvær Kröflur á ári til að koma afurðunum út. Í ár nema uppbætur og niðurgreiðslur rúmum 33 milljörðum króna. Og svona hefur þetta verið í tvo áratugi.

Svo fór, að þetta kerfi brast. Í fyrra komst stjórnskipuð nefnd að því, að um áramótin þar á undan voru til í landinu eins árs birgðir af osti, smjöri og dilkakjöti. Hún fann, að af dilkakjöti var framleitt 50% umfram þarfir.

Þessi niðurstaða segir ekki alla söguna. Hún gerir ráð fyrir framhaldi á niðurgreiðslunum, sem skekkja markaðinn, auka sölu niðurgreiddra afurða á kostnað annarra, er gætu komið í staðinn með beinum eða óbeinum hætti.

Óniðurgreidd mundi mjólkin kosta 471 krónur lítrinn, dilkakjötið 3.124 krónur kílóið, smjörið 5.846 krónur kílóið og osturinn 4.000 krónur kílóið. Hætt er við, að salan mundi minnka stórlega, ef menn yrðu að greiða þessar tölur.

Hluti neyzlunnar mundi færast til. Margir mundu drekka vatn eða ávaxtasafa í stað mjólkur. Menn mundu auka neyzlu á fiski og kjúklingum í stað dilkakjöts. Og smjörlíki mundi að hluta koma í stað smjörs.

Ef markaðurinn væri heilbrigður, mundi koma í ljós, að hinn hefðbundni landbúnaður framleiðir ekki helming umfram þjóðarþarfir. Hann framleiðir að minnsta kosti tvöfalt meira en þjóðin mundi torga við eðlilegar aðstæður.

Þar á ofan er ósvarað spurningunni um, hvers vegna landbúnaðurinn ætti endilega að framleiða dilkakjöt og mjólkurvörur í samræmi við þarfir. Af hverju skyldum við ekki kaupa EBE-smjör á 800 krónur í stað innlends á 6.000 krónur?

Einstaka gagnrýnendur hafa árum saman bent á, að hið sjálfvirka fyrirgreiðslukerfi hins hefðbundna landbúnaðar mundi fyrr eða síðar leiða til ófarnaðar allra, ekki síður bænda en annarra. Á þetta var ekki hlustað.

Lagt hefur verið til, að skrúfað verði fyrir fjárfestingu í landbúnaði. Peningarnir verði notaðir til að greiða bændum fyrir að bregða búi og til að reisa iðngarða í kauptúnum strjálbýlisins. Þetta var kallaður fjandskapur við bændur.

Slíkar aðgerðir hefðu leitt til hliðstæðrar fækkunar býla og varð á Norðurlöndum þessa tvo áratugi. En skyldi samdrátturinn ekki hafa orðið bændum farsælli en kvótakerfið og fóðurbætisskatturinn, sem nú koma í stað skynseminnar?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Smjör drýpur ekki af stráum.

Greinar

Hin viðkvæma náttúra Íslands var í ósnortnu jafnvægi, þegar landnámsmenn komu hingað á hlýviðrisskeiði fyrir ellefu öldum. Landið var viði vaxið milli fjalls og fjöru. Suður og norður greru saman á Kili.

Í ellefu aldir hafa Íslendingar stundað rányrkju á landi sínu, svokallaðan landbúnað. Er nú svo komið, að einungis er til um helmingur af upprunalegum jarðvegi. Og enn fer gróður minnkandi á afréttum landsins.

Fyrstu kynslóðir Íslendinga lifðu góðu lífi á því að höggva, brenna og beita. Smám saman hætti smjör að drjúpa af hverju strái. Í ljós kom, að land þetta á mörkum freðmýrabeltisins þoldi ekki álagið.

Fiskurinn bjargaði þjóðinni. Hafið tók fljótlega við af landinu sem hornsteinn atvinnulífsins. Auðlindirnar við strendur landsins gerðu þjóðinni kleift að lifa af myrkar aldir og öðlast nútímann.

Um síðustu aldamót komu línuveiðarar fyrst og síðan togarar. Þá hófst velsældin, sem síðan hefur staðið í þessu landi. Hún hefur til skamms tíma eingöngu byggzt á fiskveiðum og fiskvinnslu. Sú er uppspretta auðsins.

Landbúnaðurinn hefur notið sjávarútvegsins eins og öll önnur starfsemi í landinu. Landbúnaðurinn er orðinn tæknivæddur og hefur lítt takmarkaðan aðgang að fjármagni. Þar er árleg fjárfesting meiri en í vinnslu sjávarafurða.

Allt hefur þetta komið fyrir ekki. Hinn hefðbundni landbúnaður er enn rányrkja og þar að auki gersamlega ósamkeppnishæf rányrkja. Tilkostnaður hans er mun meiri en í hinum tempraðri löndum, sem ráða heimsmarkaðsverði.

Frægt er orðið, að framleiðslukostnaður nýsjálenzks bónda á 16,8 tonnum af kjöti og 6,6 tonnum af ull eftir 1650 kindur er svipaður og framleiðslukostnaður íslenzks bónda á 6,9 tonnum af kjöti og 0,62 tonnum af ull eftir 355 kindur.

Þessi munur er óyfirstíganlegur. Og við þurfum ekki að leita til Nýja-Sjálands. Í hinum auðugu iðnríkjum beggja vegna Atlantshafsins er gífurleg og varanleg offramleiðsla á landbúnaðarafurðum.

Við stritumst við að framleiða smjör fyrir níu milljarða króna á ári í stað þess að kaupa það af Efnahagsbandalaginu fyrir einn milljarð króna. Hvert býli á Íslandi kostar skattgreiðendur rúmar tíu milljónir á ári.

Landbúnaðurinn er og hefur alltaf verið baggi á landi og þjóð. Hann var og er rányrkja, sem menn stunduðu, af því að þeir áttu ekki annars kost. Nú eigum við hins vegar næga möguleika í fiski, fossum og jarðvarma.

Landbúnaður er versti atvinnuvegur, sem unnt er að stunda á mörkum freðmýrabeltisins. Þjóðargjöfin dugar þar skammt. Gróðri fer enn hnignandi á flestum afréttum landsins. Helzt er það eyðiströndum Vestfjarða, sem fer fram.

Bændur strita, búfræðingar tæknivæða og stjórnmálamenn fjármagna, allir fyrir gýg. Landbúnaður í nútímastíl verður aldrei stundaður af neinu viti í viðkvæmu landi, sem þolir lítið sem ekkert álag.

Við eigum að hagnýta okkur offramleiðslu nágrannalandanna. Við eigum að snúa okkur að arðbærari verkefnum en hinum hefðbundna landbúnaði. Við eigum að létta honum af herðum skattgreiðenda. Við eigum að klæða landið á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Dýrir þrælar.

Greinar

Trúarsetningin er, að ríkir menn í Reykjavík megi ekki eignast landið. Þess vegna hafa verið sett lög, sem takmarka eigna- og sölurétt bænda á jörðum, sem þeir vilja losna við. Þessi búalög voru sett að kröfu bænda.

Samkvæmt lögunum gildir markaðsverð ekki um jarðir. Hinir betri bændur í stjórnum búnaðarfélaga skipa matsnefndir til að meta jarðir hinna verr settu uppgjafarbænda á hálfvirði eða fjórðungsvirði til annarra bænda.

Þetta er nýjasti átthagafjöturinn af mörgum. Þetta er síðasti hlekkurinn í keðju, sem á að tryggja frambúð landbúnaðar í erfiðu landi á mörkum freðmýrabeltisins. Hann á að tryggja, að bóndinn sleppi ekki á mölina.

Árangur landbúnaðarstefnunnar er ljós. Jörðum í ábúð á Íslandi hefur fækkað tvöfalt til þrefalt hægar en á Norðurlöndum. Ef þróunin hefði verið hin sama, væru nú rúmlega 2000 bændur á Íslandi í stað 4000, hæfilegur fjöldi.

Ekkert er gert hér til að liðsinna bónda, sem vill bregða búi. Enginn útvegar honum húsnæði á mölinni, nýja menntun eða starf. Enginn styrkir hann eða lánar honum fé til að koma sér fyrir við arðbærari verkefni.

Allt er hins vegar gert til að halda honum við hokrið. Boðið er upp á styrki og lán til að fá hann til að sökkva fé í búskapinn. Og honum er gulltryggð sala allra afurða, sem hann getur framleitt. Hann skal vera kyrr.

Í þessu skyni er öllum markaðslögmálum kippt úr sambandi. Flutningskostnaði er jafnað niður, svo að menn ráði því, hvort þeir framleiði dilkakjöt við þéttbýlið og mjólk í afskekktum sveitum. Og bráðum verða eggin sett í kerfið.

Þetta hrikalega úthald kostar ríkissjóð og skattgreiðendur rúma 37 milljarða króna á þessu ári, aðeins í styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum. Eru þá ótalin lánin, jöfnunargjöldin, samgöngurnar og rafmagnið.

Enn skelfilegra er að hugsa til þess, að í ár verða bundnir rúmir 16 milljarðar í landbúnaði, heldur meiri fjárfesting en í fiskvinnslu og heldur minni en í iðnaði. Þessi sóun gerist ár eftir ár, áratug eftir áratug.

Annars staðar í heiminum hafa menn komizt að raun um, að þrælahald er of dýrt. En við streitumst við að fjárfesta eina Kröflu á ári í landbúnaði til að geta borgað með honum tvær Kröflur á ári.

Samt dugir þetta ekki hinum ánauðugu. Kerfið er sprungið. Kvótakerfi og fóðurbætisskattur er það, sem nú er ritað á vegginn. Ekkert getur hindrað þjóðina í að komast að raun um, að hún er með landbúnaði að fremja sjálfsmorð.

Og allt er þetta átthagafjötur, sem beygir bak bóndans í tilgangslausu striti fyrir innantóma hugsjón. Þessi fjötur dæmir hann til að strita sem mest, svo að velta sölufélaganna og nýting vinnslustöðvanna aukist.

Þar á ofan ímyndar hann sér, að hann eigi þessi sölufélög og þessar vinnslustöðvar. Formlega séð kann það rétt að vera. En hann ræður engu í sölufélögunum og vinnslustöðvunum. Þar ráða þeir, sem fremja búalög.

Landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur trúarbrögð þrælahalds til bölvunar bændum og skattgreiðendum. Innan skamms munum við sjá ljósið og fara að borga hinum ánauðugu fyrir að kjósa frelsið, hvað sem kaupfélagið segir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Dagblaðið stækkar.

Greinar

Á föstudaginn sáu lesendur Dagblaðsins fyrsta skref stækkunar blaðsins í tilefni fimm ára afmælis þess. Þá birtist í miðju blaði átta síðna kálfur með ótal hugmyndum um, hvernig mætti verja frístundum helgarinnar.

Í kálfinum voru upplýsingar um messur og menningarviðburði, íþróttir og skemmtanir, ferðalög og bóklestur, svo og dagskrá útvarps og sjónvarps, Ætlunin er, að lesendur Dagblaðsins fái framvegis þessa þjónustu á föstudögum.

Þeir, sem lesa þennan leiðara, finna sennilega, að tölublaðið er óvenju þykkt, af mánudegi að vera. Næstu dagar verða einnig viðameiri en áður. Ætlunin er, að framvegis verði blaðið 16 síðum stærra á viku.

Lögð verður aukin áherzla á ýmsa fleiri þætti en upplýsingaþjónustu fyrir helgar. Aukið verður við kjallaragreinar og menningarefni. Í fréttum verður meira rými lagt í upplýsingar fyrir neytendur og sambandið við umheiminn.

Þetta er afmælisgjöf Dagblaðsins til lesenda. Þeir fá nú meira fyrir peninga sína. Jafnframt vona Dagblaðsmenn, að í tilefni stækkunarinnar bætist fleiri lesendur í hópinn. Þannig getum við haldið áfram að stækka blaðið.

Dagblaðinu hefur vegnað vel á fimm árum ævinnar. Á hverju ári hefur dálítið verið afgangs til kaupa á tækjum og búnaði. Og nú er hafin smíði veglegs húss, sem rúma á alla starfsemi blaðsins. Það er við Þverholt 11, steinsnar frá Hlemmi.

Þessi smíði á enn langt í land. Við vitum ekki, hvenær sá draumur rætist, að við getum sett Dagblaðið saman á einum stað. Því ráða þeir, sem kaupa blaðið og auglýsa í því. Allt er þetta á uppleið, en því hraðar því betra.

Stækkun Dagblaðsins í tilefni fimm ára afmælisins eykur að sjálfsögðu rekstrarútgjöldin á kostnað fjárfestingar – í bili. En Dagblaðsmenn eru bjartsýnir á, að nýir lesendur verði fljótir að brúa bilið og vel það.

Sjálfur afmælisdagurinn var í gær, þegar tertuveizlan mikla var haldin á heimilissýningunni í Laugardalshöll. Dagblaðsmönnum er hlýtt til þess staðar, því að þar var Dagblaðinu ýtt úr höfn með 4.000 áskrifendum fyrir fimm árum.

Mikið vatn hefur síðan runnið til sjávar. Áskrifendur eru nú orðnir um 15.000 og jafnmargir kaupa blaðið í lausasölu. Nokkur hundruð hafa bætzt í hópinn á heimilissýningunni. En það er enn nóg pláss fyrir fleiri.

Dagblaðið verður hér eftir sem hingað til gefið út fyrir almenning í landinu. Það mun halda áfram að rjúfa skörð í einokun stjórnmálaflokkanna á fjölmiðlun. Það hefur staðið utan við valdakerfið og mun gera það áfram.

Dagblaðið hefur verið og verður símstöð fyrir fólkið. Þar hafa menn getað og munu geta komið skoðunum sínum á framfæri utan yfirráðasvæðis stjórnmálaflokkanna. Með stækkun blaðsins verður á þetta lögð aukin áherzla.

Dagblaðið hefur verið og verður þjónusta fyrir fólkið. Það hefur reynt og mun reyna að gæta hagsmuna almennings gegn valdamiðstöðvum þjóðfélagsins, til dæmis með neytendaefni. Með stækkuninni verður lögð á þetta aukin áherzla.

Þannig eigum við samleið, fólkið í landinu og Dagblaðið. Á tímamótum fimm ára afmælisins er það von okkar og trú, að samstarfið muni halda áfram að eflast næstu árin, báðum aðilum til hagsbóta, ánægju og menningarauka.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Terta aldarinnar.

Greinar

Fimm ár verða á morgun liðin frá stofnun blaðsins. Þá verður snædd terta aldarinnar á heimilissýningunni í Laugardalshöll. Lesendur blaðsins eru hvattir til að koma og fá sér bita af þessari mörg þúsund manna afmælistertu.

Margs er að minnast, þótt árin séu ekki nema fimm. Að þessu sinni minnumst við helzt hins góða árangurs af rúmlega tveggja ára neytendasíðu Dagblaðsins. Brot af því starfi má sjá í aukaútgáfu blaðsins á heimilissýningunni.

Dagblaðið kom því til leiðar, að tómatar og annað grænmeti er selt á niðursettu verði í stað þess að fara á haugana. Dagblaðið hefur barizt við einokunarstofnanir á borð við Póst og síma, oft með nokkrum árangri fyrir neytendur.

Samstarf neytendasíðu Dagblaðsins við lesendur, sem stunda heimilisbókhald, hefur meðal annars leitt í ljós, að verðlag í landinu hefur á tveimur árum hækkað um tæp níu prósentustig umfram hina opinberu, fölsuðu vísitölu.

Á þessum rúmum tveimur árum neytendasíðunnar hefur Dagblaðið birt víðtækar verð- og vörukannanir. Í því skyni hefur nú síðast verið seilzt yfir báða ála Atlantshafsins. Þetta hefur sýnt fram á ótrúlega mikinn verð- og vörumun.

Við gætum alveg eins minnzt hins frábæra árangurs, sem náðst hefur í skoðanakönnunum Dagblaðsins. Þær hafa verið stundaðar ósleitilega öll fimm árin. Úrslit forsetakosninganna í sumar tóku af öll tvímæli um markvísi kannananna.

Í skoðanakönnunum segjum við frá sjónarmiðum hins þögla meirihluta. Á neytendasíðunni birtum við bréf neytenda. Frá upphafi höfum við lagt mikla áherzlu á að birta raddir lesenda og gera kjallaragreinar að íslenzkri blaðahefð.

Þannig hefur Daghlaðið í fimm ár gegnt hlutverki símstöðvar fyrir fólkið í landinu, símstöðvar utan hins pólitíska kerfis. Með tilkomu blaðsins er fyrst í sögunni umræða utan yfirráðasvæðis stjórnmálaflokkanna.

Dagblaðinu var kennt um eða þakkað fyrir kosningasigur Alþýðuflokksins 1978, Framsóknarflokksins 1979 og klofning Sjálfstæðisflokksins 1980. Raunveruleikinn er þó sá, að blaðið stendur og hefur alltaf staðið utan kerfisins.

Og fólkið hefur ekki látið á sér standa. Óháð fjölmiðlakönnun Hagvangs hefur sannað, að Dagblaðið er næstmest selda og lesna blað landsins. Ennfremur, að það er meira notað en sjálft sjónvarpið. Þetta hefur gerzt á aðeins fimm árum.

Á nokkrum sviðum hefur Dagblaðið farið fram úr Morgunblaðinu samkvæmt tölum Hagvangs. Það gildir um sumar byggðir Suðurnesja, Snæfellsness og Austfjarða. Mikilvægast er þó, að fólk á þrítugsaldri tekur Dagblaðið fram yfir aðra fjölmiðla.

Sigurganga smáauglýsinga Dagblaðsins er þáttur þessarar þróunar. Svo er nú komið, að blaðið hefur jafnaðarlega um tólf sinnum fleiri nýjar, áður óbirtar smáauglýsingar á degi hverjum en nokkurt annað blað í landinu.

Öll þessi fimm ár hefur Dagblaðið komizt hjá því að þiggja ölmusuna, sem skattgreiðendur eru látnir gefa blöðum, sem fólk vill ekki lesa. Jafnvel Morgunblaðið hefur hingað til þegið hluta þess samtryggingakerfis stjórnmálaflokkanna.

Dagblaðsmenn telja því ærnar ástæður til að fagna fimm ára afmæli blaðsins á morgun. Það gera þeir með því að bjóða lesendum sínum að snæða með sér tertu aldarinnar á heimilissýningunni í Laugardalshöll upp úr hádegi á morgun.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Of stór flugstöð.

Greinar

Forsendur nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurvelli hafa breytzt verulega, síðan bandarískir skjólstæðingar flotans forhönnuðu þar átján milljarða mannvirki, sem Íslendingar áttu að borga að hálfu. Forsendurnar hafa minnkað.

Fyrirhugaða ferlíkið átti að kosta eins mikið og Þjóðarbókhlaða, Borgarleikhús og útvarpshús samanlagt. Það var allt of dýrt fyrirtæki, þrátt fyrir þáverandi vöxt Flugleiða og millilendinga á Keflavíkurvelli.

Minnkun millilandaflugsins veldur því, að núverandi flugstöð annar yfirleitt umferðinni án sjáanlegra erfiðleika. Til dæmis er mjög sjaldgæft, að ekki séu til hægir stólar fyrir alla, sem kæra sig um.

Flöskuhálsar sjást helzt, þegar íslenzku flugvélarnar koma úr Evrópuflugi. Þá myndast þrengsli við hillur útibús Fríhafnarinnar og biðröð við vegabréfsskoðunina þar fyrir innan. Úr þessu mætti bæta með viðbótum.

Annar álagstími dagsins er klukkan 7-8:15 á morgnana. Þá kemur vél frá New York og fer til Luxemborgar. Önnur vél fer til Kaupmannahafnar og hin þriðja venjulega til Glasgow og London eða til Osló og Stokkhólms.

Hinn álagstíminn er síðdegis klukkan 15:25-17:45. Þá kemur vél frá Luxembourg og fer til New York . Og hinar vélarnar tvær úr Evrópufluginu koma til baka. Hina tuttugu tíma sólarhringsins er oftast friðsælt í flughöfninni.

Með þessu er alls ekki sagt, að núverandi flugstöð sé fullnægjandi. Ýmislegt rými hennar er að vísu nógu stórt. Og annað rými mætti auka með tiltölulega einföldum aðgerðum. En það eru önnur atriði í ólagi.

Verulegur galli er útivistin milli flughafnar og flugvélar. Hún er óþægileg fyrir þá, sem eru að koma úr öðru loftslagi eða fara í það. Menn þurfa að taka með sérstakan fatnað fyrir þessa vinda- og votviðrasömu 100 metra.

Í flestum flughöfnum fyrir farþega á Vesturlöndum eru rampar af ýmsu tagi, sem hindra veður og vinda í að ná til farþega á leið milli flughafnar og flugvélar. Slíkir rampar ættu ekki sízt við hér á landi.

Þetta atriði þarf þó ekki að ráða úrslitum um smíði nýrrar flugstöðvar. Tvo-þrjá rampa mætti auðveldlega reisa við þá flugstöð, sem nú er. En það er annað atriði, sem veldur því , að ný flugstöð er æskileg.

Óbærilegt má telja, að borgaralegt flug og herstöð séu í því sambýli, sem nú er. Með nýrri flugstöð má skilja þessa tvo þætti í sundur. Þá þarf fólk í borgaralegu flugi ekki að fara um hernaðarsvæði.

Einnig má nefna, að gaman væri, ef fyrsta landkynning Íslands gagnvart ferðamönnum væri lítil og falleg flugstöð, hönnuð í íslenzkulegum stíl af íslenzkum arkitektum. Núverandi flugstöð er ekki boðleg til slíks brúks.

Auðvitað þyrfti að hanna þessa flugstöð í samráði við erlenda sérfræðinga í hönnum lítilla flugstöðva. En alls ekki í samráði við þá villimenn, sem hönnuðu fyrstu útgáfu flugturnsins á Keflavíkurvelli.

Að lokum má ekki gleyma, að engin ákvörðun hefur verið tekin um flutning innanlandsflugs til Keflavíkurvallar. Að öllu samanlögðu er því rétt að taka flugstöðvarmálið upp á nýjan hátt og hafna hinni dýru flugstöð, sem drög hafa verið lögð að.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið