Fimm ár verða á morgun liðin frá stofnun blaðsins. Þá verður snædd terta aldarinnar á heimilissýningunni í Laugardalshöll. Lesendur blaðsins eru hvattir til að koma og fá sér bita af þessari mörg þúsund manna afmælistertu.
Margs er að minnast, þótt árin séu ekki nema fimm. Að þessu sinni minnumst við helzt hins góða árangurs af rúmlega tveggja ára neytendasíðu Dagblaðsins. Brot af því starfi má sjá í aukaútgáfu blaðsins á heimilissýningunni.
Dagblaðið kom því til leiðar, að tómatar og annað grænmeti er selt á niðursettu verði í stað þess að fara á haugana. Dagblaðið hefur barizt við einokunarstofnanir á borð við Póst og síma, oft með nokkrum árangri fyrir neytendur.
Samstarf neytendasíðu Dagblaðsins við lesendur, sem stunda heimilisbókhald, hefur meðal annars leitt í ljós, að verðlag í landinu hefur á tveimur árum hækkað um tæp níu prósentustig umfram hina opinberu, fölsuðu vísitölu.
Á þessum rúmum tveimur árum neytendasíðunnar hefur Dagblaðið birt víðtækar verð- og vörukannanir. Í því skyni hefur nú síðast verið seilzt yfir báða ála Atlantshafsins. Þetta hefur sýnt fram á ótrúlega mikinn verð- og vörumun.
Við gætum alveg eins minnzt hins frábæra árangurs, sem náðst hefur í skoðanakönnunum Dagblaðsins. Þær hafa verið stundaðar ósleitilega öll fimm árin. Úrslit forsetakosninganna í sumar tóku af öll tvímæli um markvísi kannananna.
Í skoðanakönnunum segjum við frá sjónarmiðum hins þögla meirihluta. Á neytendasíðunni birtum við bréf neytenda. Frá upphafi höfum við lagt mikla áherzlu á að birta raddir lesenda og gera kjallaragreinar að íslenzkri blaðahefð.
Þannig hefur Daghlaðið í fimm ár gegnt hlutverki símstöðvar fyrir fólkið í landinu, símstöðvar utan hins pólitíska kerfis. Með tilkomu blaðsins er fyrst í sögunni umræða utan yfirráðasvæðis stjórnmálaflokkanna.
Dagblaðinu var kennt um eða þakkað fyrir kosningasigur Alþýðuflokksins 1978, Framsóknarflokksins 1979 og klofning Sjálfstæðisflokksins 1980. Raunveruleikinn er þó sá, að blaðið stendur og hefur alltaf staðið utan kerfisins.
Og fólkið hefur ekki látið á sér standa. Óháð fjölmiðlakönnun Hagvangs hefur sannað, að Dagblaðið er næstmest selda og lesna blað landsins. Ennfremur, að það er meira notað en sjálft sjónvarpið. Þetta hefur gerzt á aðeins fimm árum.
Á nokkrum sviðum hefur Dagblaðið farið fram úr Morgunblaðinu samkvæmt tölum Hagvangs. Það gildir um sumar byggðir Suðurnesja, Snæfellsness og Austfjarða. Mikilvægast er þó, að fólk á þrítugsaldri tekur Dagblaðið fram yfir aðra fjölmiðla.
Sigurganga smáauglýsinga Dagblaðsins er þáttur þessarar þróunar. Svo er nú komið, að blaðið hefur jafnaðarlega um tólf sinnum fleiri nýjar, áður óbirtar smáauglýsingar á degi hverjum en nokkurt annað blað í landinu.
Öll þessi fimm ár hefur Dagblaðið komizt hjá því að þiggja ölmusuna, sem skattgreiðendur eru látnir gefa blöðum, sem fólk vill ekki lesa. Jafnvel Morgunblaðið hefur hingað til þegið hluta þess samtryggingakerfis stjórnmálaflokkanna.
Dagblaðsmenn telja því ærnar ástæður til að fagna fimm ára afmæli blaðsins á morgun. Það gera þeir með því að bjóða lesendum sínum að snæða með sér tertu aldarinnar á heimilissýningunni í Laugardalshöll upp úr hádegi á morgun.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið