Trúarsetningin er, að ríkir menn í Reykjavík megi ekki eignast landið. Þess vegna hafa verið sett lög, sem takmarka eigna- og sölurétt bænda á jörðum, sem þeir vilja losna við. Þessi búalög voru sett að kröfu bænda.
Samkvæmt lögunum gildir markaðsverð ekki um jarðir. Hinir betri bændur í stjórnum búnaðarfélaga skipa matsnefndir til að meta jarðir hinna verr settu uppgjafarbænda á hálfvirði eða fjórðungsvirði til annarra bænda.
Þetta er nýjasti átthagafjöturinn af mörgum. Þetta er síðasti hlekkurinn í keðju, sem á að tryggja frambúð landbúnaðar í erfiðu landi á mörkum freðmýrabeltisins. Hann á að tryggja, að bóndinn sleppi ekki á mölina.
Árangur landbúnaðarstefnunnar er ljós. Jörðum í ábúð á Íslandi hefur fækkað tvöfalt til þrefalt hægar en á Norðurlöndum. Ef þróunin hefði verið hin sama, væru nú rúmlega 2000 bændur á Íslandi í stað 4000, hæfilegur fjöldi.
Ekkert er gert hér til að liðsinna bónda, sem vill bregða búi. Enginn útvegar honum húsnæði á mölinni, nýja menntun eða starf. Enginn styrkir hann eða lánar honum fé til að koma sér fyrir við arðbærari verkefni.
Allt er hins vegar gert til að halda honum við hokrið. Boðið er upp á styrki og lán til að fá hann til að sökkva fé í búskapinn. Og honum er gulltryggð sala allra afurða, sem hann getur framleitt. Hann skal vera kyrr.
Í þessu skyni er öllum markaðslögmálum kippt úr sambandi. Flutningskostnaði er jafnað niður, svo að menn ráði því, hvort þeir framleiði dilkakjöt við þéttbýlið og mjólk í afskekktum sveitum. Og bráðum verða eggin sett í kerfið.
Þetta hrikalega úthald kostar ríkissjóð og skattgreiðendur rúma 37 milljarða króna á þessu ári, aðeins í styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum. Eru þá ótalin lánin, jöfnunargjöldin, samgöngurnar og rafmagnið.
Enn skelfilegra er að hugsa til þess, að í ár verða bundnir rúmir 16 milljarðar í landbúnaði, heldur meiri fjárfesting en í fiskvinnslu og heldur minni en í iðnaði. Þessi sóun gerist ár eftir ár, áratug eftir áratug.
Annars staðar í heiminum hafa menn komizt að raun um, að þrælahald er of dýrt. En við streitumst við að fjárfesta eina Kröflu á ári í landbúnaði til að geta borgað með honum tvær Kröflur á ári.
Samt dugir þetta ekki hinum ánauðugu. Kerfið er sprungið. Kvótakerfi og fóðurbætisskattur er það, sem nú er ritað á vegginn. Ekkert getur hindrað þjóðina í að komast að raun um, að hún er með landbúnaði að fremja sjálfsmorð.
Og allt er þetta átthagafjötur, sem beygir bak bóndans í tilgangslausu striti fyrir innantóma hugsjón. Þessi fjötur dæmir hann til að strita sem mest, svo að velta sölufélaganna og nýting vinnslustöðvanna aukist.
Þar á ofan ímyndar hann sér, að hann eigi þessi sölufélög og þessar vinnslustöðvar. Formlega séð kann það rétt að vera. En hann ræður engu í sölufélögunum og vinnslustöðvunum. Þar ráða þeir, sem fremja búalög.
Landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur trúarbrögð þrælahalds til bölvunar bændum og skattgreiðendum. Innan skamms munum við sjá ljósið og fara að borga hinum ánauðugu fyrir að kjósa frelsið, hvað sem kaupfélagið segir.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið