Kláði í gikkfingri.

Greinar

Engin félagsleg eða önnur vandamál hafa komið í kjölfar tveggja byltinga áttunda áratugsins í prenttækni hér á landi. Þrátt fyrir vinnusparandi tækni hefur full atvinna haldizt hjá bókagerðarmönnum og raunar rúmlega það.

Fyrir áratug héldu tölvuritvélar innreið sína og ruddu setjaravélum úr vegi. Nú eru tölvutengdar skermaritvélar komnar til viðbótar. Í bæði skiptin sömdu málsaðilar um skipan mála, sem staðizt hefur dóm reynslunnar.

Þannig hefur verið búið um hnútana, að framleiðniáhrif hinnar nýju tækni hafa nýtzt nokkurn veginn til fulls. Jafnframt hefur verið tryggt, að enginn missti atvinnu sina. Bæði atvinnurekendur og launamenn fengu sitt fram.

Um þetta gildir þekkt lögmál tæknibyltinga. Þær fækka að vísu handtökum við hvert verkefni, en fjölga svo aftur á móti verkefnum. Útkoman er sú, að heildaratvinna í greininni eykst fremur en hitt – vegna útþenslu greinarinnar.

Hin nýja tækni hefur eflt prentun og útgáfu hér á landi. Vinnusparnaðurinn hefur drukknað í aukinni prentun og útgáfu. Og satt að segja er ekki fyrirsjáanlegt, að frekari tækniþróun muni leiða til atvinnuskorts.

Um leið hefur tæknin gert innlenda prentun mun samkeppnishæfari en áður. Í mörgum þáttum er framleiðnin sambærileg við nágrannalöndin og jafnvel betri. Á þeim sviðum gætu Íslendingar farið út í fjölprent fyrir alþjóðamarkað.

Í ljósi þessa tvöfalda árangurs sýnist ekki rétt að efna til verkfalla til að reyna að breyta þegar gerðum tækniþróunarsamningum, sem hafa reynzt til þess fallnir að gæta hagsmuna beggja málsaðila. Tilefni breytinga er ekkert.

Þessi reynsla er líka svipuð og í nágrannalöndunum, þar sem samkomulag um tækniþróun hefur náðst á svipuðum nótum. Núverandi skipan mála hér á landi er hin sama og á Norðurlöndum. Ekki er þar að finna fordæmi fyrir breytingum.

Dæmin um Berlingske Tidende og London Times eru undantekningar, þar sem víðtækar uppsagnir áttu að fylgja tæknibyltingu. Hér á landi kæmu slíkar uppsagnir ekki til greina, einmitt vegna gildandi samnings um tækniþróun.

Hið ótímahæra verkfall í prentiðnaðinum gengur líka þvert á hægan og markvissan gang almennra kjarasamninga í landinu. Þar líður varla svo dagur, að ekki náist árangur í einum eða fleiri þáttum samninganna.

Það er verið að semja samtímis á nærri öllum sviðum hins almenna vinnumarkaðar. Það er verið að samræma launaflokka innan samtaka og milli samtaka. Þetta er gífurlega mikið verk, sem hlýtur að taka nokkurn tíma.

Stundum hafa forustumenn einstakra samtaka eða félaga orðið óþolinmóðir. Þeir hafa minnzt á, að verkföll þyrfti til að flýta málum. Ekki hefur þó komið til aðgerða, því að þeir hafa séð, að gangurinn er raunar furðu góður.

Einstaka uppákomur hafa tafið gang mála, svo sem skyndileg afturköllum atvinnuleyfa erlends farandverkafólks. Menn hafa þó fljótt jafnað sig aftur og afsakað slíkar uppákomur sem kláða í gikkfingri.

Fyrsti alvarlegi hnekkir kjarasamninganna eru verkföllin, sem boðuð hafa verið í prentiðnaði. Þau munu ekki leiða til árangurs, aðeins til tjóns, enda ekki í stíl hinna almennu viðræðna. Þau eru hættulegur kláði í gikkfingri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið