Of stór flugstöð.

Greinar

Forsendur nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurvelli hafa breytzt verulega, síðan bandarískir skjólstæðingar flotans forhönnuðu þar átján milljarða mannvirki, sem Íslendingar áttu að borga að hálfu. Forsendurnar hafa minnkað.

Fyrirhugaða ferlíkið átti að kosta eins mikið og Þjóðarbókhlaða, Borgarleikhús og útvarpshús samanlagt. Það var allt of dýrt fyrirtæki, þrátt fyrir þáverandi vöxt Flugleiða og millilendinga á Keflavíkurvelli.

Minnkun millilandaflugsins veldur því, að núverandi flugstöð annar yfirleitt umferðinni án sjáanlegra erfiðleika. Til dæmis er mjög sjaldgæft, að ekki séu til hægir stólar fyrir alla, sem kæra sig um.

Flöskuhálsar sjást helzt, þegar íslenzku flugvélarnar koma úr Evrópuflugi. Þá myndast þrengsli við hillur útibús Fríhafnarinnar og biðröð við vegabréfsskoðunina þar fyrir innan. Úr þessu mætti bæta með viðbótum.

Annar álagstími dagsins er klukkan 7-8:15 á morgnana. Þá kemur vél frá New York og fer til Luxemborgar. Önnur vél fer til Kaupmannahafnar og hin þriðja venjulega til Glasgow og London eða til Osló og Stokkhólms.

Hinn álagstíminn er síðdegis klukkan 15:25-17:45. Þá kemur vél frá Luxembourg og fer til New York . Og hinar vélarnar tvær úr Evrópufluginu koma til baka. Hina tuttugu tíma sólarhringsins er oftast friðsælt í flughöfninni.

Með þessu er alls ekki sagt, að núverandi flugstöð sé fullnægjandi. Ýmislegt rými hennar er að vísu nógu stórt. Og annað rými mætti auka með tiltölulega einföldum aðgerðum. En það eru önnur atriði í ólagi.

Verulegur galli er útivistin milli flughafnar og flugvélar. Hún er óþægileg fyrir þá, sem eru að koma úr öðru loftslagi eða fara í það. Menn þurfa að taka með sérstakan fatnað fyrir þessa vinda- og votviðrasömu 100 metra.

Í flestum flughöfnum fyrir farþega á Vesturlöndum eru rampar af ýmsu tagi, sem hindra veður og vinda í að ná til farþega á leið milli flughafnar og flugvélar. Slíkir rampar ættu ekki sízt við hér á landi.

Þetta atriði þarf þó ekki að ráða úrslitum um smíði nýrrar flugstöðvar. Tvo-þrjá rampa mætti auðveldlega reisa við þá flugstöð, sem nú er. En það er annað atriði, sem veldur því , að ný flugstöð er æskileg.

Óbærilegt má telja, að borgaralegt flug og herstöð séu í því sambýli, sem nú er. Með nýrri flugstöð má skilja þessa tvo þætti í sundur. Þá þarf fólk í borgaralegu flugi ekki að fara um hernaðarsvæði.

Einnig má nefna, að gaman væri, ef fyrsta landkynning Íslands gagnvart ferðamönnum væri lítil og falleg flugstöð, hönnuð í íslenzkulegum stíl af íslenzkum arkitektum. Núverandi flugstöð er ekki boðleg til slíks brúks.

Auðvitað þyrfti að hanna þessa flugstöð í samráði við erlenda sérfræðinga í hönnum lítilla flugstöðva. En alls ekki í samráði við þá villimenn, sem hönnuðu fyrstu útgáfu flugturnsins á Keflavíkurvelli.

Að lokum má ekki gleyma, að engin ákvörðun hefur verið tekin um flutning innanlandsflugs til Keflavíkurvallar. Að öllu samanlögðu er því rétt að taka flugstöðvarmálið upp á nýjan hátt og hafna hinni dýru flugstöð, sem drög hafa verið lögð að.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið