Dómsmálaráðuneytið lét í sumar kyrrt liggja, þótt rússneskur flóttamaður tæki sér ólöglega landvist og gæfi sig ekki fram við rétt yfirvöld. Naut í embættismannastétt fengu ekki að ráða ferðinni í það skiptið.
Dómsmálaráðherra veitti Rússanum landvist, þótt sparðatínslumenn í ráðuneytinu hefðu varað hann við slíkri mannúð. Sú niðurstaða féll alveg saman við hugmyndir þjóðarinnar um gestrisni við erlenda kerfisflóttamenn.
Í kjölfar þessa kom því óþægilega á óvart, að dómsmálaráðuneytið skuli nú vilja vísa franska flóttamanninum Gervasoni úr landi. Bréf ráðuneytisins um það efni er lítið annað en sparðatíningur embættisnauta.
Venjulegu fólki virðist hérvist Frakkans ekki vera mikið ólöglegri en Rússans á sínum tíma. Og þjóð, sem sjálf hefur ekki herþjónustu, á erfitt með að skilja áhuga ráðuneytis á viðhaldi aga í franskri herþjónustu.
Steininn tekur þó úr, þegar ráðuneytið leggur manninum til lasts franska refsidóma fyrir neitun herþjónustu og þátttöku í mótmælum. Dómsmálaráðherra ber þó skylda til að hafa hemil á embættisnautum sínum.
Frestað hefur verið framkvæmd málsins. Gervasoni var enn í landi, þegar þetta var ritað. Nú er nauðsynlegt að skoða þetta betur og komast að réttari niðurstöðu en fyrr, – Gervasoni fái að vera hér um kyrrt.
Við viljum ekki eiga í útistöðum við frönsk stjórnvöld, fremur en sovézk. En við viljum ekki taka þátt í ofsóknum gegn mönnum, sem ekki hafa framið neitt það, sem flokkast undir afbrot samkvæmt íslenzkum lögum.
Minnkandi mannréttindi.
Ólafur Jóhannesson lagði sérstaka áherzlu á Afganistan í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á mánudaginn var. Bæði þetta og önnur atriði hinnar óvenju umbúðalitlu ræðu voru Íslandi til sóma.
Ólafur minnti á, að í engu hefði verið sinnt kröfu samtakanna um tafarlausa brottför erlends hers frá Afganistan. Hann kallaði þetta stærsta þátt kólnandi sambúðar, dekksta skuggann í alþjóðamálum um þessar mundir.
Ólafur fór réttilega bil beggja í Palestínumálinu. Hann sagði hvort tveggja nauðsynlegt, viðurkenningu á rétti Ísraels til öruggra og viðurkenndra landamæra, svo og á þjóðarrétti Palestínumanna og þátttökurétti þeirra í samningum um málið.
Ólafur gagnrýndi árásina á bandaríska sendiráðið í Teheran og töku gíslanna þar. Hann sagði þessa árás sýnu alvarlegasta dæmið um aukningu ofbeldisverka og virðingarleysi fyrir lífi og frelsi manna.
Ólafur fór aðeins almennum orðum um önnur vandamál. Hann sagði, án þess að nefna nöfn, að lýðréttindi og virðing fyrir manninum eigi mjög í vök að verjast í heiminum og að þessa óheillaþróun þyrfti að stöðva.
Einhvern tíma kemur þó að því, að íslenzkur utanríkisráðherra verður að þora að rekja umbúðalaust, hvernig mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er þverbrotin af hálfu ríkisstjórna mikils og vaxandi meirihluta þátttökuþjóðanna, svo sem skjalfest er af Amnesty og fleiri samtökum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið