Author Archive

Óhófleg einföldun.

Greinar

Ljóst er, að hækkun Kjaradóms á launum þingmanna og háskólamanna verður ekki hnekkt. Tillaga fjármálaráðherra hefur ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Þar er litið á úrskurðinn sem hnekki, er stjórnvöld verði að sætta sig við.

Í deilum þessa máls hefur gætt vanhugsunar og misskilnings. Þátttakendur vilja ekki sjá nein tilbrigði í röksemdum. Þeir vilja flokka öll sjónarmið í tvær skúffur, aðra fyrir þá, sem eru með, og hina fyrir þá, sem eru á móti.

Sumpart er talið, að deilan snúist um, hversu há laun þingmenn skuli hafa. Og sumpart er talið, að deilan snúist um, hvort stjórnvöldum leyfist að krukka í úrskurði dómstóla. Hvorugt er rétt, nema að tiltölulega lítilfjörlegum hluta.

Í fyrsta lagi hafa bráðabirgðalög á sér of neikvætt orðspor. Ekki er hægt að bera saman tíðni bráðabirgðalaga í flóknum og hraðfleygum nútíma saman við tíðnina fyrr á áratugum, þegar þjóðfélagið var einfaldara og hæggengara.

Eina leiðin til að draga úr nauðsyn bráðabirgðalaga er að láta alþingi sitja lengur, stytta jólafrí þess og einkum þó sumarfrí. Þegar alþingi starfar aðeins hálft árið, er nauðsynlegt, að hlaupið sé í skarð þess til bráðabirgða.

Í öðru lagi er rangt að tala um Kjaradóm sem þátt í sjálfstæðu dómskerfi landsins. Kjaradómur á ekki að túlka landslög og úrskurðum hans verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Það er villandi, að hann skuli heita “-dómur”.

Hann gæti alveg eins heitið Kjararáð, Kjaranefnd eða Kjarasemjari. Enda er verksvið hans mun skyldara verðlagsráðum og -nefndum, svo og sáttasemjara. Kjaradómur er nefnilega hluti af stjórnkerfi landsins, framkvæmdavaldinu.

Hitt er svo líka rétt, að Kjaradómur á að skera úr launadeilum, þar sem ríkisvaldið er annar málsaðila. Þess vegna má ætla, að ríkisstjórn sé ekki dómbær um, hvort úrskurðir séu svo vondir, að þeim þurfi að hnekkja með lögum.

Af þeirri ástæðu er rétt að fagna, að ríkisstjórnin skuli hafa neitað afskiptum af Kjaradómi. Málið er búið og gert. En í framtíðinni þarf Kjaradómur að bæta ráð sitt, ef hann á ekki að teljast krabbamein í ríkinu.

Í þriðja lagi er rangt að tala um, að áróðursmenn séu að reyna að spilla því, að þingmenn fái sanngjörn laun fyrir mikla vinnu og ábyrgð. Það eru ekki launin sjálf, heldur vinnubrögð við ákvörðun þeirra, sem gagnrýnd hafa verið.

Til skamms tíma ákváðu þingmenn sjálfir laun sín og ýmis fríðindi. Það gerðu þeir með ýmsu pukri og einkum þó með því að úrskurða sér skattfrelsi í fríðindum, sem skattlögð eru hjá öðrum. Þetta pukur gekk sér til húðar.

Mun skárra er að hafa valdið hjá Kjaradómi. En á því er sá hængur, að lögin um breytinguna gerðu ekki ráð fyrir, að skattlagning fríðinda þingmanna yrði samræmd skattlagningu fríðinda annarra manna. Og dómurinn lét það spillta kerfi í friði.

Því er vel hægt að halda fram með rökum, að laun þingmanna séu of lág, jafnvel allt of lág, og að þau hvetji ekki hæfa menn til þingmennsku. En þar með er ekki sagt, að þingmenn megi bæta sér það upp með flóknu fríðindasvindli.

Uppákoma Kjaradóms hefur valdið umræðum um stöðu stofnunarinnar, réttmæti bráðabirgðalaga og stöðu alþingis. Sumt af því hefur verið fróðlegt, en meira hefur þó stungið í augun óhófleg einföldun á flóknum málsatriðum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Gerilsneydd reglugerð.

Greinar

Verkefnasnauð þjóðarljós í heilbrigðisráðuneytinu hafa bannað sölu á kjúklingum hér á landi öðruvísi en frystum. Birt hefur verið reglugerð um þessa björgun heilsufars þjóðarinnar, enn eitt skrefið til ríkis stóra bróður.

Um kjúklinga gildir eins og um fisk, að fersk vara er mun betri og næringarmeiri. Flestar menningarþjóðir taka ferska vöru fram yfir frysta, svo sem Íslendingum má vera ljóst, ef þeir bera saman ferskan fisk og freðfisk.

Norðmenn eru undantekning á þeirri reglu, að menningarþjóðum þyki gaman að borða góðan mat. Þeir eru svo grátt leiknir af langvinnu heimatrúboði, að áhugi á mat þykir nánast ósiðlegur. Þaðan er líka fyrirmynd ráðuneytisins.

Íslenzkir landbúnaðarmenn hafa áttað sig á, að hér á landi blundar áhugi á góðum mat. Þeir hafa tekið upp á að selja ófryst lömb á stórhátíðum á borð við páska, hvítasunnu og jól. Margir neytendur hafa tekið þessu fegins hendi.

Frysting er auðvitað mikilvæg aðferð til að brúa bil framboðs og eftirspurnar, einkum þegar framleiðsla er árstíðabundin eða flytja þarf matvælin um óravegu. Hún er næstbezti kosturinn, þegar ekki er hægt að fá ferska vöru.

Hitt er verra, að frystingu er beitt í vaxandi mæli til að spara mönnum rétta og vandaða meðferð viðkvæmrar vöru. Þegar allt er stílað á frystingu, dregur úr tilfinningu manna fyrir meðferð þeirrar vöru, sem ekki er fryst.

Slíkt mun einmitt vera áhyggjuefni ráðuneytisins. En það velur ekki þann kost að fræða menn og upplýsa um meðferð ferskrar vöru, heldur bannar það fersku vöruna yfirleitt. Þar er reitt hátt til höggs af litlu tilefni.

Fræðilega séð er mögulegt, að salmonella berist með ófrystum kjúklingum til manna. Er þá gert ráð fyrir, að menn annaðhvort nagi kjúklingana hráa eða borði með tólum, sem áður voru notuð við meðferð hrárra kjúklinga.

Slys af slíku tagi gerast að sjálfsögðu hjá fólki, sem er orðið svo gegnsýrt af færibandahætti frystingar, að það gerir sér ekki lengur grein fyrir natni og nákvæmni í meðferð matvæla. Þannig er vítahringur ráðuneytisins.

Í framhaldi af þessu er eins víst, að stóri bróðir í ráðuneytinu taki upp á að banna sölu á lunda og svartfugli öðruvísi en frystum. Það er nefnilega ekki hægt að fortaka, að á þeim leynist einn eða tveir koli-gerlar úr fjörunni.

Svo að ekki sé nú minnzt á þau ósköp, að hingað eru fluttir ferskir ávextir úr öllum heimshornum, þar sem grassera hinir verstu gerlar, mun verri en aumingja salmonellan, sem ekki hefur einu sinni mannslíf á samvizkunni.

Þegar við erum orðnir svo afsiðaðir af færibandastefnu frystingar, að við erum hættir að þvo ferska ávexti, má búast við, að þjóðarljós heilbrigðisráðuneytisins gefi út reglugerð um bann við sölu ávaxta, annarra en niðursoðinna.

Sumt mataráhugafólk hefur haft mikið fyrir að ná sér í ferska kjúklinga, alveg eins og það kaupir ferskan fisk í stað freðins. Þá ánægju hefur stóri bróðir nú afnumið af misráðinni umhyggju fyrir velferð þessa fólks.

Óþarfi ætti að vera að éta upp allar reglur Norðmanna sem af færibandi. Einhver önnur leið hlýtur að vera til að bæta úr atvinnuástandi þeirra íslenzkra embættismanna, sem hinum megin verða látnir naga frysta kjúklinga.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

25 aura töggan.

Greinar

Heyrzt hefur, að einhvers staðar fáist súkkulaðihúðaðar rúsínur fyrir fimm aura stykkið. Væri þá fundin tímabundin forsenda minnstu mynteiningarinnar í nýkrónukerfinu. Að öðru leyti eru 25 ára töggur ódýrasta vara markaðarins.

Þrátt fyrir myntbreytinguna þarf 25 taldar einingar til að mæla verð einnar töggu. Og fimm einingar smæstu myntar þarf til að greiða verð þessarar töggu.

Dæmið sýnir, að neðri endi nýkrónukerfisins nýtist ekki sem skyldi. Hin nýja króna er orðin verðbólgin um leið og hún heldur innreið sína. Hún er eftir sem áður lélegasta króna Norðurlanda, þótt litlu muni á hinni dönsku.

Þetta er náttúrlega ekki nógu góð niðurstaða fyrirhafnar og kostnaðar. Með meiri framsýni hefði mátt ákveða niðurskurð þriggja núlla í stað tveggja. Þá mundi krónan mæla verðlag með svipuðum hætti og myntir gerðu í gamla daga, fyrir stóru kreppur, þegar verðbólgan í heiminum var því sem næst engin.

Niðurskurði núlla fylgir gífurlegur undirbúningur og útgjöld. Þessi fyrirhöfn og kostnaður eru ekki meiri, þótt einu núllinu fleira sé fækkað. Við höfum misst af að nýta gullið tækifæri myntbreytingar til hins ítrasta.

Segja má, að þægilegt sé að færa kommuna fram um tvö sæti. Hinar gömlu upphæðir gilda eftir sem áður, en nú taldar í aurum í stað króna. Ef menn hafa þetta í huga, eiga þeir auðvelt með að átta sig á sambandi nýs og gamals verðs.

Fólki hefði þó verið enn auðveldara að venja sig á að reikna í krónum í stað þúsunda króna og í þúsundum króna í stað milljóna króna. Einingin þúsund er nefnilega mun merkari áningarstaður í reikningskerfinu en einingin hundrað.

Auðvitað er ekki til mikils að setja fram þessa vizku eftir á að hyggja. Þó er jafnan gott að staðnæmast að loknum mikilvægum áfanga og gera sér grein fyrir, hvað betur hefði mátt fara. Til þess eru mistökin að læra af þeim.

Við ættum að geta verið sammála um, að betra hefði verið að skera þrjú núll í stað tveggja og slá einseyrings mynt til viðbótar. Jafnvel þótt slíkt hefði verðbelgt tögguna úr 25 nýaurum upp í þrjá beztuaura.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Lipur skipti.

Greinar

Myntbreytingin hefur reynzt merkilega lipur og vandræðalaus. Meirihluti hinnar gömlu myntar féll úr umferð strax á fyrsta degi. Og nú er skilatalan komin upp fyrir 80%. Þetta er mun betri árangur en náðst hefur í öðrum löndum.

Tæknilega séð voru skiptin vel skipulögð. Mikil áherzla var lögð á upplýsingastrauminn. Þar kom sér vel, að Ísland er lítið og þéttriðið þjóðfélag með öflugt kerfi samgangna í upplýsingum. Nærri allir voru með á nótunum.

Nú þegar eru margir farnir að hugsa í nýjum krónum eins og þeir hafi aldrei notað neitt annað. Aðrir eru ekki eins snöggir, en eru smám saman að átta sig. Allt er þetta mun fljótvirkara en búast hefði mátt við af erlendri reynslu.

Þetta er athyglisvert dæmi um keðju framleiðslu, dreifingar og sölu. Vandað upplýsingakerfi kemst til skila og nær snöggum árangri. Síðast en ekki sízt bendir það til, að íslenzkt þjóðfélag sé bara furðu virkt, þrátt fyrir allt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kjaradómur úti að aka.

Greinar

Kjaradómur á hvorki að vera launsátur skotglaðra stjórnarandstæðinga né hagsmunaklúbbur háskólamanna. Allra sízt má hann temja sér úrskurði, sem ríkisstjórn verður síðan að hrinda með bráðabirgðalögum, svo að ekki fari allt á hvolf.

Í sumar var með samningum komið á nauðsynlegu samræmi milli launa háskólamanna og manna í háum launaflokkum ríkisstarfsmanna. Þessu samræmi hefur Kjaradómur nú skyndilega spillt með því að úrskurða háskólamönnum 6% hækkun frá 1. desember.

Þetta gefur áhorfendum tilefni til að ætla, að ekki sé heilbrigt, að allir dómarar í Kjaradómi séu sjálfir háskólamenn. Slíkt ástand getur hæglega spillt Kjaradómi sýn inn í hin víðari samhengi og samræmi stéttanna í landinu.

Á undanförnum misserum hefur ríkt láglaunastefna. Samningarnir í fyrra báru þess merki, bæði hjá opinberum starfsmönnum og Alþýðusambandinu. Hærri launum var haldið niðri til að unnt yrði að hækka lægri laun þeim mun meira.

Margir háskólamenn eru þeirrar skoðunar, að stefnan sé röng. Launamunurinn í þjóðfélaginu sé of lítill. Ekki sé tekið nægilegt tillit til tíma og kostnaðar við öflun menntunar. En þessi skoðun á að vera utan ramma Kjaradóms.

Hafi stjórnvöld og öflugustu þrýstihópar launamála með ærinni fyrirhöfn komið sér saman um ákveðnar línur, sem auðvitað eru gallaðar, en eru þó hornsteinn vinnufriðar í landinu, má Kjaradómur ekki hefja skothríð úr launsátri.

Verkefni dómstólsins er að meta hinar pólitísku aðstæður og kveða upp úrskurði, sem hæfa andrúmslofti launamála á hverjum tíma. Þetta hefur honum mistekizt í máli háskólamanna. Og þá ekki síður í máli alþingismanna.

Kjaradómur hefur ákveðið, að alþingismenn fái þessi sömu 6%, einnig frá 1. desember síðasta árs. Sá úrskurður hefur ekki fótfestu í samningum ársins fremur en hinn fyrrnefndi. Það þýðir ekki að miða við 12% hækkun hjá láglaunafólki.

Þá hefur dómstóllinn bætt gráu ofan á svart með því að afhenda þingmönnum til viðbótar 16,5% launahækkun frá 1. maí síðasta árs. Á tíma láglaunastefnu eru laun eins tekjuhæsta hópsins hækkuð mun hraðar en annarra hópa.

Kjaradómur afsakar sig með að segja þessi 16,5% vera niðurskurð frá hinni illræmdu 20% hækkun, sem þingmenn kusu sér sjálfir í fyrravor og leiddi til þess, að yfirráð launamála þingmanna féllu dómstólnum í skaut.

Málið fólst þó ekki í, að þingmenn hefðu ofmetið einhvern þátt launaþróunar í landinu, sem þeir sjálfir hefðu misst af. Þeir ætluðu hreinlega að krækja sér í þessi 20% umfram aðra. Og dómstóllinn lætur þá halda þorra þýfisins.

Kjaradómur ver sig einnig með, að hann hafi á móti dregið dálítið úr ýmsum hlunnindum alþingismanna. Satt er, að heildarhækkun þingmanna nemur ekki alveg þeim 23,4%, sem dómstóllinn hefur úrskurðað þeim í beina kauphækkun.

Hitt er þó alvarlegra, að enn er viðhaldið því spillta tvískinnungskerfi, að þingmenn koma hlunnindum sínum framhjá skatti, þótt þeir hafi sett lög, sem banna öðrum borgurum að koma sömu hlunnindum framhjá skatti.

Áramótaúrskurðir Kjaradóms eru eins og köld vatnsgusa. Neðan frá að sjá virðist mönnum, sem gusan komi úr klúbbi fína fólksins í þjóðfélaginu. En vonandi eru dómararnir bara úti að aka, utan þjóðfélagslegs veruleika.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hvar er “allt, sem þarf”?

Greinar

Með frjálslyndum og einkum þó gamansömum hugarreikningi má spá hvarfi verðbólgunnar á tíu árum, ef bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar hafa tilætluð áhrif. Það er eins konar niðurtalning fyrir þá, sem hugsa í áratugum, en ekki leiftursóknum.

Í þessu dæmi er miðað við, að verðbólgan hafi verið 61% í hittifyrra og 56% í fyrra, en verði 50% á þessu ári. Með sama áframhaldi ættum við að geta fetað verðbólgulausir inn í síðasta áratug þessarar aldar, í byrjun ársins 1991.

Svo er önnur saga, að ríkisstjórnir hafa í árslok yfirleitt ekki náð þeim árangri í baráttu við verðbólgu, sem þær settu sér í byrjun árs. Er ríkisstjórnin búin að gleyma, að hún ætlaði einmitt niður fyrir 50% í fyrra.

Margt getur komið fyrir á vítisvegi hins góða vilja, þótt varðaður sé góðum áformum. Olían getur hækkað og freðfiskurinn neitað að hækka. Einkum vantar þó, að ríkisstjórnir hafi einbeitni og úthald til að standa við góðu áformin.

Ætli ríkisstjórnin í raun að koma verðbólgunni niður í eða niður fyrir 50% á þessu ári, er vissara fyrir hana að fara að ráðum Framsóknarflokksins um að stefna að 40% fremur en Alþýðubandalagsins, sem þykir nú nóg gert.

Í ágreiningi Framsóknarflokks og Alþýðubandalags er auðvelt að taka afstöðu. Bráðabirgðalögin eru enginn töfrasproti. Þau eru ágætur biðleikur til að verjast 80% verðbólgu á þessu ári. Meira eru þau ekki og annað þarf til að koma.

Ef hinn góði vilji til frekari aðgerða á að koma fram í uppbótum og millifærslum, er þó rétt að segja strax pass. Og vona eins og Verzlunarráð Íslands, að áætlanir ríkisstjórnarinnar um slíkt séu ekki annað en friðþægingartexti.

Í hið verðbólgna tungutak leiðarahöfunda vantar orð til að lýsa áformum um uppbætur og niðurgreiðslur. Þó skal hætt á að segja þau vera tómt rugl. Með því orðalagi er reynt að koma því til skila, að áformin séu einkar heimskuleg.

Ísland þarf landa mest á utanríkisverzlun að halda. Frjálsir markaðir eru okkur mikilvægari en öðrum. Haftakerfi spillir samkeppnisgetu okkar og spillir þar á ofan aðgangi okkar að Fríverzlunarsamtökum og Efnahagsbandalagi.

Verið getur, að ráðherrar hafi um jólin komizt í ævintýri Grimms eða Munchausens og telji sig hafa aðgang að matarholum í góðbúi Jóhannesar Nordal í Seðlabankanum til að fjármagna frystingu gengis krónunnar, það er fölsun hennar.

Hliðstæðir dagdraumar virðast felast í svonefndri efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar, sem ætti raunar fremur að heita drög að málefnasamningi. Þar virðist gert ráð fyrir ýmsum huldum matarholum til að fjármagna hinn góða vilja.

Í senn eiga innvextir að hækka og útvextir að lækka. Gera á iðnaðinn jafn réttháan forréttindagreinum í Seðlabanka. Breyta á lausaskuldum húsbyggjenda í föst lán. Gott og fallegt, en fyrir hvaða peninga? Fyrir ríkissparnað?

Meðan við bíðum eftir skrá um opinberar framkvæmdir, sem frestað verði á þessu ári, er þó rétt að láta ríkisstjórnina njóta þess, að sekt hennar er ekki sönnuð. Það getur verið, að hún slefi verðbólgunni niður fyrir 50%.

Um leið þarf að benda á, að hvert stig verður þyngra, eftir því sem lengra dregur í niðurtalningu. Áramótatexti ríkisstjórnarinnar svarar ekki spurningunni um, hvort hún hafi “allt, sem þarf”, það er viljann.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kannski hvorki hvítt né svart.

Greinar

Eðlilegt er, að alþingi komi nú þegar saman til að taka afstöðu til bráðabirgðalaga ríkisstjórnarinnar, svo sem stjórnarandstaðan hefur krafizt. Undanbrögð ríkisstjórnarinnar fela í sér siðblindu, þótt hefðbundin sé orðin.

Samt leikur ekki vafi á, að bráðabirgðalögin verða samþykkt, hvort sem alþingi kemur nú saman eða síðar. Ríkisstjórnin hefur meirihluta, hvað sem saklausir þjóðmálamenn fjölmiðla ímynda sér í fásinni skammdegis og vetrarveðra.

Óraunsætt er allt tal um ímyndaða afstöðu Guðrúnar Helgadóttur og Alberts Guðmundssonar. Staðreyndir hinnar pólitísku skiptingar breytast ekki í meginatriðum, þótt einstakir þingmenn hafi ýmsa fyrirvara eða efasemdir.

Ekki er beinlínis hægt að kvarta yfir, að ríkisstjórnin notar jólafríið til að koma sjónhverfingum sínum á framfæri. Alþingi var allt til jóla önnum kafið við að ljúka afgreiðslu þeirrar árlegu óskhyggju, sem kallast fjárlög.

Ef eitthvað átti að gera fyrir þjóðarhag í tilefni gjaldmiðilsskiptanna um áramótin, varð að gera það milli jóla og nýárs, svo sem ríkisstjórnin gerði. Rangt er, að hún hafi sent þingið í frí til að geta sett bráðabirgðalög.

En nú er nauðsynlegasta jólafríi lokið. Þingmenn þurfa ekki að hvíla sig langt fram eftir þessum mánuði. Efnahagslög og -áætlun ríkisstjórnarinnar kalla á fundi alþingis nú, þótt annað hafi áður verið ákveðið.

Þegar ríkisstjórn kastar nýjum kjarasamningum út um gluggann og hótar að koma upp millifærslu- og uppbótakerfi eftir tveggja áratuga hlé, er að sjálfsögðu komið tilefni til að stytta jólafrí þingmanna úr heilum mánuði í hálfan.

Þjóðin má samt ekki búast við neinu uppbyggilegu frá þingmönnum, hvort sem þeir koma saman fyrr eða síðar. Þingmenn eru sjálfvirkar vélar, sem sjá allt í hvítu eða svörtu eftir afstöðu þeirra til ríkisstjórnar.

Við höfum þegar séð hin sjálfvirku viðbrögð þrýstihópanna. Eins og áður samþykkir Alþýðusambandið það, sem Alþýðubandalagið hefur ákveðið. Þó má Ásmundur Stefánsson forseti eiga það, að hann maldar örlítið í móinn.

Á hinum kantinum tala Davíð Scheving Thorsteinsson og Þorsteinn Pálsson eins og þeir séu málsvarar meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna. Svona geta innanflokksátök leikið menn grátt, þótt þeir hafi skyldum að gegna utan Valhallar.

Hinar svörtu og hvítu myndir eru svo alls ráðandi, að mönnum bregður lítillega, þegar Björn Þórhallsson segist vilja sjá og skoða útreikninga ríkisstjórnarinnar áður en hann taki afstöðu til niðurstaðna þessara sömu útreikninga.

Í rauninni eru niðurstöður ríkisstjórnarinnar að mestu leyti lítt áþreifanleg loforð eða hótanir um aðgerðir næstu mánaða. Sumt er raunhæft, en annað eru draumórar og þverstæður á borð við hvern annan málefnasamning stjórnmálaflokka.

Tvennt hefur ríkisstjórnin illt gert um áramótin. Hún hefur fryst hina neikvæðu vexti og hún hefur hækkað opinbera þjónustu holt og bolt um 10%. Enn alvarlegri eru þó hótanir hennar um gengisfrystingu, millifærslu- og uppbótakerfi.

Hið góða er svo, að hún hefur með brottkasti kjarasamninga komið verðbólguspá ársins úr 80% í 50%, að mati Verzlunarráðs, og hugsanlega án þess að skerða lífskjörin meira en orðið hefði við fullgilda samninga og opinbert aðgerðaleysi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Óskirnar sjö.

Greinar

Sjö óskir flytur Dagblaðið Íslendingum við upphaf níunda tugar aldarinnar. Allar fjalla þær um, að þjóðin efli með sér gildi, sem hún hefur löngum haft að markmiði, mörg hver frá upphafi þessa sérstæða mannfélags hér norður í höfum.

Jafnréttisstefna er okkur í blóð borin. Bilið milli hins hæsta og hins lægsta er styttra hér á landi en hjá nokkurri annarri nútímaþjóð, sem við höfum spurnir af. Þetta gildir bæði um lífskjör og annan lífsstíl stétta og annarra félagshópa.

Þetta jafnrétti þurfum við að efla. Einkum þurfum við að gæta þess að skilja ekki eftir nokkra hópa, sem miður mega sín, aldrað fólk, öryrkja, einstæðar mæður, yfirvinnulaust lágtaxtafólk og fjölskyldur drykkjusjúkra.

Umburðarlyndi ríkir hér á flestum sviðum. Við kippum okkur ekki upp við sérkennilegt atferli og sérstæða hugsun, jafnvel ekki frávik í trúarbrögðum. Við erum að töluverðu leyti laus við einsýnisofsann, sem leikið hefur aðrar þjóðir grátt.

Þetta umburðarlyndi þurfum við að leiða inn í stjórnmálin. Við þurfum smám saman að venja okkur við staðreyndir hins pólitíska lífs. Þar eru engir svartir og hvítir fletir, aðeins mismunandi gráir. Kostur og löstur er á öllu.

Metnaður hefur jafnan verið okkur kær. Við höfum talið til góðs, að menn leiti sér fjár og frama, forustu eða fullkomnunar. Þennan metnað megum við ekki kæfa í velsældarríkinu, því að hann er hornsteinn velsældar þjóðarinnar.

Athafnasemi hefur einkennt þessa þjóð. Starfsgleði liggur að baki löngum vinnudegi, aukastarfi og frístundaiðju. Ásókn í peninga getur ekki ein útskýrt, hversu mikla áherzlu við leggjum á að nota tímann í stað þess að drepa hann.

Þessa athafnasemi megum við ekki sljóvga með því að koma á fót atvinnuleysi. Miklu fremur þurfum við að eyða hinu dulda atvinnuleysi, sem sums staðar kemur fram og ljósast í landbúnaði. Arðbær störf gera menn upprétta.

Útþrá hefur fylgt okkur frá upphafi Íslandsbyggðar. Sigldir menn eru að jafnaði víðsýnni en kolbítar, þótt sólarlandaferðir séu kannski ekki bezta dæmið til slíks samanburðar. Við þurfum að sía inn lærdóm frá umhverfi okkar.

Þessi útþrá og víðsýni gæti hamizt óþarflega mikið af tímabundnum erfiðleikum okkar við að halda uppi örum og snöggum samgöngum við umheiminn beggja vegna hafsins. Þar þurfum við að vera vel á verði, þótt kosti fórnir í bili.

Raunsæi hefur löngum keppt við hugarflug hér á landi og sennilega oftar haft betur. Í framtíðinni þurfum við enn frekar en áður að finna leiðarljós okkar í reynslu, fremur en í loftköstulum og kenningakerfum, nýjum sem gömlum.

Frelsisást er sögð hafa átt þátt í landnámi Íslands. Og hún veldur því einnig að við erum nú aftur orðin sjálfstæð þjóð, sem meira að segja hefur dálítinn aðgang að skákborði valda á norðanverðu Atlantshafi.

Þessa frelsisást hljótum við að telja upprunna í einstaklingunum og megum því ekki láta hana koðna niður í óhóflegri félagshyggju nútímans. Við megum ekki smíða rammana svo stífa, að ónógt svigrúm verði til frelsis.

Með því að óska ykkur jafnréttisstefnu, umburðarlyndis, metnaðar, athafnasemi, útþrár, raunsæis og frelsisástar er Dagblaðið að óskar ykkur farsæls nýs árs og farsæls nýs áratugar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Varðandi um að ræða

Greinar

Stundum er ástæða til að fagna, að ekki skuli allir ílendast í kennslu, heldur hafna í minniháttar störfum, sem hvorki raga til og frá, til dæmis þingmennsku. Með því móti ætti skaðinn að verða minni, svo sem dæmið sannar.

Kennari á alþingi hefur nýlega lagt fram þingsályktunartillögu um nýtingu kolmunna. Að verulegu leyti er greinargerð hans tilvitnun í aðra menn, sem kunna þolanlega íslenzku. Um 40 línur eru þó þingmannsins sjálfs.

Hann segir: “Þarf hér að vera um að ræða stóra hráefnisgeymslu”. “Jafnframt yrði um afurðageymslu að ræða”. “Verði um verulega nýtingu að ræða”. “Hér er um mikinn ónýttan auð að ræða”. “Hér er um milljarða að ræða”. “Hér er um brýnt þjóðhagslegt atriði að ræða”.

Í 40 línum hins fyrrverandi kennara rúmast fleira, sem íslenzkir blaðamenn þora ekki að segja á 40 síðum, svo að þeir verði ekki krossfestir í daglegu máli læks og lækjar í útvarpinu. En þeirra störf skipta líka nokkru máli.

“Tilheyrandi frystiþættinum” og “gagnvart ríkisvaldinu” blómstra í texta þingmannsins eins og “varðandi sókn í aðra fiskistofna” og “ákvörðun ráðherra þar um”, “sem tillagan lýtur að” og “sem þessi tillaga lýtur að”.

“Eins og markaðsmál standa í dag” og “þegar verðbætur eru í dag greiddar á fisktegundir”, þá má segja, að “kjörnasti staðurinn” fyrir kennara af þessu tagi sé einmitt í sölum alþingis. Þar eru þeir nógu langt frá börnunum.

Í hnotskurn mætti kannski segja: “Varðandi íslenzkuþátt Helga Seljan yrði að geta verið um kjörnustu leið gagnvart ríkisvaldinu að ræða til að lúta að menntakerfinu, þegar það stendur í dag, svo sem ráðherra hefur ákveðið þar um”.

Hrossakaup játuð.

Vakið hefur réttmæta athygli, að lítt reyndur þingmaður hefur í ógáti játað hrossakaup á alþingi við afgreiðslu nokkurra þingmála fyrir jólahlé. Hrossakaup eru algeng þar á bæ, en hingað til hafa menn skirrzt við að viðurkenna það.

Eggert Haukdal greiddi atkvæði með nýju vörugjaldi á sælgæti og tóbak, þótt hann væri því andvígur. Sagðist hann hafa gert það, af því að gjaldið hafi fengizt lækkað úr 10% í 7% og af því að leyst hefðu verið fleiri mál.

Við nánari eftirgrennslan missti þingmaðurinn út úr sér, að hann hefði jafnframt náð hálfum öðrum milljarði króna í Byggðasjóð Framkvæmdastofnunar, þar sem hann er formaður. Þessa játningu hentu menn auðvitað á lofti.

Síðan hefur þingmaðurinn reynt að draga í land með því að segja þetta tvö óskyld mál. Fremur er það dauflegt yfirklór eftir fyrri yfirlýsingar, þótt aðrir þingmenn hafi kannski ekki ráð á grjótkasti úr glerhúsi.

Almenningur þarf ekki að furða sig á, að ríkisgeirinn skuli stöðugt þenjast út og hossa verðbólgunni. Alþingi og ríkisstjórn geta ekki haldið fjárlögum í skefjum, þegar hugarfar hrossakaupanna ræður ferðinni, leynt og ljóst.

Einn þingmaður fær brú, annar skuttogara og hinn þriðji byggðafé. Síðan senda þeir almenningi reikninginn fyrir samanlagða spillingu sína. Þetta er gamalkunn verzlunarstefna á alþingi, sem nú hefur fengið gæðastimpil með játningu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Reagan gengur þegar laus.

Greinar

Nýlega furðuðu menn sig á, að hermenn ríkisstjórnar El Salvador skyldu hafa geð í sér til að limlesta og myrða fjórar bandarískar nunnur, sem voru að hjálpa fátæku fólki. En þetta var aðeins smábrot af stjórnarstefnunni.

Herflokkar stjórnarinnar fara um landið eins og Atli Húnakonungur og leggja heilu þorpin í rúst. Markmiðið er að hræða fátæklinga landsins til hlýðni við hina auðugu valdhafa, svo að þeir megi verða ríkari en nokkru sinni fyrr.

Eitt lítið dæmi frá 14. maí í vor hefur verið nákvæmlega skráð. Þá dunduðu hermenn stjórnarinnar í Salvador sér við að fleygja börnum í fljót, skera þau og skjóta. Hundruð manna létu lífið í þessu blóðbaði á ábyrgð stjórnvalda.

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa yfir 2000 manns látið lífið í ofsóknum stjórnvalda á hendur öllum þeim, sem grunaðir eru um að vera ekki grunnmúraðir fasistar. Þannig er El Salvador hin rómanska Ameríka í hnotskurn.

Flestum ríkjum þessarar álfu, allt frá Mexíkó til Argentínu, ráða meira eða minna óðir fasistar í skjóli kvalasjúkra morðingja. Skýrslur mannhelgisamtaka um framferði þessara villimanna eru átakanlegri en nokkur orð fá lýst.

Undanfarin fjögur ár hefur Carter Bandaríkjaforseti farið ákaflega í taugar valdhafa á þessum slóðum. Þeim fannst hann hafa óþarflega mikinn áhuga á mannréttindum og óþarflega lítinn áhuga á útrýmingu svokallaðra kommúnista.

Carter vék frá þeirri bandarísku stjórnarhefð að styðja jafnan við bakið á öflum, sem voru yzt til hægri og líklegust til að halda kommúnisma í skefjum. Hann tók upp á því að styðja miðjumenn og framfarasinna.

Carter hafði vit á púðurtunnunni, sem felst í nágrannaríkjum, þar sem skipulega er stefnt að því að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari. Hins vegar hafa hvorki valdhafar rómönsku Ameríku né Reagan, verðandi forseti, þessa yfirsýn.

Kjöri Reagans var tekið með áköfum fögnuði hjá villimönnum álfunnar. Þeir eru sannfærðir um, að nú muni Bandaríkjastjórn láta af tilfinningasemi og afskiptasemi og fara aftur að styðja þá, sem eru yzt til hægri í fasismanum.

Reagan hefur svo sem ekkert sjálfur sagt, er gefi slíkt til kynna. En sumir ráðgjafar hans og aðstoðarmenn hafa látið falla orð um, að tímabært sé að láta mannréttindastefnu víkja fyrir raunsæispólitík í málum rómönsku Ameríku.

Þetta hefur haft þær afleiðingar, að blóðbaðið og kvalalostinn hafa magnazt. Fasistarnir hafa fært sig upp á skaftið og eru nú meira að segja farnir að takast á við kaþólsku kirkjuna, síðasta vígi lítilmagnans.

Morð á erkibiskupi og nunnum í El Salvador eru dæmi um vaxandi ofsa valdhafa í rómönsku Ameríku. Þannig má segja, að Reagan gangi þegar laus, enda hefur hann ekki lyft fingri til að afneita svokallaðri raunsæispólitík.

Svo virðist sem kaþólska kirkjan muni taka við hlutverki Carters, þegar bandarísk stjórnvöld hverfa aftur inn í siðblinduna. Hún hefur áttað sig á, að hlutverk hennar er ekki að standa við hlið hinna grimmu og gráðugu.

En hún fær ekki heldur hindrað, að á morgun eins og í gær verði lifandi fólki varpað úr flugvélum yfir sjó og rafmagni hleypt á ungabörn. Svo virðist sem Reagan muni gæta þess, að lífið gangi sinn vanagang í myrkasta hluta veraldar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

5 milljarðar milli vina.

Greinar

Iðnaðarráðherra hefur birt gögn, sem benda til, að Alusuisse, eigandi Ísals, hafi komið um 5 milljörðum króna undau skatti til íslenzka ríkisins á undanförnu hálfu sjöunda ári. Gögn þessi eru studd af alþjóðlegri endurskoðunarstofu.

Þetta er ekki sannað mál, enda hefur forstjóri Ísals neitað harðlega. Álmenn hafa nú fengið tækifæri til að koma athugasaemdum sínum á framfæri við endurskoðunarstofu Coopers og Lybrand í London, sem íslenzka ríkið hefur Ísal til aðhalds.

Iðnaðarráðuneytið hefur fengið tölur frá Hagstofu Ástralíu, svo og aðflutningsskýrslur, farmbréf og vörureikninga. Hin alþjóðlega endurskoðunarstofa hefur staðfest gildi þessara heimilda og útreikninganna, sem á þeim eru byggðir.

Samkvæmt þessu á Ísal að hafa greitt nokkurn veginn rétt verð fyrir hráefni sitt, súrál frá Ástralíu, fram til ársins 1974. En síðan þá hafi fob. verðið, eins og það er skráð hér, verið miklum mun hærra en raunverulegt fob. verð þar.

Viðskipti þessi fara raunar fram milli skúffa í sama skrifborði. Hið svissneska Alusuisse á 100% hlutafjár í Ísal og í Austraswiss, sem á aftur á móti 70% í súrálsverksmiðjunni. Alusuisse kaupir súrálið af henni og endurselur Ísal.

Við slíkar aðstæður er auðvitað sérstaklega erfitt fyrir utangarðsmenn að átta sig á gildi talna. Þær geta endurspeglað raunverulegan markað. Og þær geta líka falið hrikalega fjármagnsflutninga til skattalega hagstæðari skúffa.

Hér í blaðinu hefur til dæmis verið dregið í efa, að nokkurt mark væri takandi á skiptingu Flugleiða á hagnaði og tapi milli innanlandsflugs, Evrópuflugs og Bandaríkjaflugs. Við höfum enga möguleika á að sannreyna tölurnar.

Þetta hjálparleysi er enn alvarlegra gagnvart fjölþjóðlegum fyrirtækjum eins og Alusuisse. Þess vegna er nauðsynlegt að beita raunverulegum og alþjóðlega þjálfuðum eftirlitsmönnum til að elta uppi fjármagnsflutninga milli skrifborðsskúffa.

Með þessu er ekki sagt, að Alusuisse og Ísal hafi gert neitt af sér. Ragnar Halldórsson hefur bent á, að hliðstæð rannsókn bandarískra skattayfirvalda á þarlendu dótturfyrirtæki Alusuisse hafi ekki leitt nein vafasöm Ástralíuviðskipti í ljós.

Einnig segir Ragnar, að Ísal greiði fyrir súrál 12-13% af verði fullunnins áls, en ætti raunar samkvæmt heimsmarkaðsverði að greiða 16-19% af verði fullunnins áls. Súrálsverðið sé því síður en svo skráð of hátt hér á landi.

Þá segja stjórnendur Alusuisse, að talnamisræmið stafi af því, að á leið súrálsins til Íslands sé bætt á það fjárfestingarkostnaði, sem Alusuisse hafi í Ástralíu, en liggi þó utan Ástralíu, væntanlega innflutt aðföng framkvæmdanna.

Skýringin sýnir þó í raun, hvílíka talnaleiki má stunda í alþjóðlegum viðskiptum af þessu tagi. Meðferð Alusuisse á fjárfestingarkostnaði sínum í Ástralíu er í hæsta máta óvenjuleg, frá íslenzkum bæjardyrum séð. Hún þarfnast skoðunar.

lðnaðarráðherra segir, að fyrri endurskoðun hafi leitt í ljós misræmi fob. verða árið l974. Þá hafi menn talið, að álmenn mundu bæta ráð sitt. Þess vegna hafi endurskoðun ekki farið aftur fram fyrr en nú, og samfellt misræmi því hlaðizt upp.

Ljóst er, að staða þessa máls er hin alvarlegasta. 5 milljarðar króna eru enginn smápeningur. Svo sem gert hefur verið, þarf að leggja þunga áherzlu á víðtækt starf endurskoðenda og þefara. Að öðrum kosti getur Ísland ekki staðið í viðskiptum við fjölþjóðafyrirtæki af þessu tagi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Lilju þarf að kveða.

Greinar

Allir vildu Lilju kveðið hafa, var sagt um frægan ljóðabálk á miðöldum. Hið sama gerist nú, nokkur hundruð árum eftir að Eysteinn Ásgrímsson orti sína Lilju. Nú vilja margir kveðið hafa þá leiftursókn, sem þjóðin hræddist fyrir ári.

Helztu leiðtogar stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins hafa ástæðu til að brosa út í annað, nú þegar Alþýðubandalagið vill stöðva víxlverkun launa og verðlags í einu vetfangi, um leið og nýja krónan verður tekin upp um áramótin.

Alþýðubandalagið er ekki eitt um leiftursóknarhituna. Frá Seðlabankanum heyrum við, að draga verði “úr verðbólgunni með samstilltu átaki á tiltölulega skömmum tíma, á meðan hagstæð áhrif gjaldmiðilsbreytingarinnar geta enn orðið að liði”.

Enginn vafi er á, að kjósendur tóku niðurtalningarstefnu fram yfir leiftursókn í kosningunum í fyrra. Líklega hafa margir óttazt, að lækningin yrði sársaukameiri en sjúkdómurinn. En síðan þá hefur mörgum snúizt hugur.

Fyrir ári töldu margir sig og þjóðina ekki hafa efni á hjöðnun verðbólgu. Menn töldu sig og aðra þurfa verðbólgu til að standa við fjárfestingar sínar og greiða niður skuldir. Nú eru þeir ekki lengur vissir um kosti verðbólgunnar.

Það væri líka sögulegt slys, ef við létum núllafækkunina ríða yfir án þess að nota tækifærið til uppskurðar á þjóðarhag. Ríkisstjórnin hefur bæði hér í blaðinu og annars staðar verið hvött til að láta nú ekki deigan síga.

Hingað til hefur ágreiningurinn í ríkisstjórninni einkum virzt vera milli niðurtalningar og algers aðgerðaleysis. Ennfremur að niðurtalningarmenn Framsóknarflokksins væru þar í hreinum minnihluta gegn aðgerðaleysissinnum.

Góðar eru því fréttirnar af því, að ráðherrar Alþýðubandalagsins hafi hreyft hugmyndum um því sem næst algera stöðvun hækkana launa og verðlags um áramótin. Þeir virðast þar með vera horfnir frá fyrri stefnu aðgerðaleysis.

Enda hefur Jóhannes Nordal seðlabankastjóri bent á, að ekki sé “ástæða til að ætla, að kjararýrnun þurfi að verða umfram það, sem þegar á sér stað við núgildandi verðbótakerfi”. Óskert verðtrygging leiðir líka til kjaraskerðingar.

Í grein í nýútkomnum Fjármálatíðindum heldur Jóhannes Nordal því fram, að verðbólga síðasta áratugar sé annars eðlis en verðbólga tveggja áratuganna þar á undan. Þá fór verðbólgan af og til niður í alþjóðlega verðbólgu, en aldrei síðan.

Jóhannes segir, að verðbólgu áratuganna 1950-1970 megi kenna sveiflum í gjaldeyristekjum og viðskiptakjörum Íslendinga. Á áratugnum 1970-1980 sé hins vegar kominn til sögunnar heimatilbúinn vítahringur 40-60% verðbólgu.

Seðlabankastjórinn segir niðurtalninguna gjaldþrota með því að benda á “þann litla og yfirleitt skammæra árangur, sem náðst hefur á undanförnum árum með því að reyna að draga úr verðbólgunni með hægfara aðgerðum á tiltölulega löngum tíma”.

Jóhannes segir það lítils virði að benda á augljósar staðreyndir af þessu tagi. Aðalatriðið sé að koma á trausti milli stjórnvalda og helztu þrýstihópa þjóðfélagsins, ef ráðizt verður í eins konar leiftursókn gegn verðbólgunni.

Vangaveltur Alþýðubandalagsins eru dæmi um, að nú er myndaður jarðvegur fyrir aðgerðir, er séu svo róttækar, að dugi. Þá skiptir ekki máli, hver kveðið hefur Lilju eða leiftursókn, heldur að hún verði kveðin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Haftakarlar á kreiki.

Greinar

Nú er slegizt um, hvort selja megi bækur í vöruhúsum og húsgögn í blómabúðum. Þessi þvingunarmál bætast ofan á hinar hefðbundnu deilur um, hve lengi kaupmenn megi hafa opið og hvaða vörur megi selja í sjoppum og á bensínstöðvum.

Neytendur eru ekki spurðir ráða, frekar en fyrri daginn. Það eru samtök til takmörkunar verzlunarfrelsis, sem ráða ferðinni. Þau láta meira að segja borgarstjórn Reykjavíkur sitja og standa eins og þeim þóknast.

Bóksöludeilan er undarlegust. Svo virðist sem það sé höfuðverkefni samtaka bókaútgefenda að skipuleggja og standa vörð um svæðisbundna einokun í bóksölu, svo strangan vörð, að landslög um óréttmæta verzlunarhætti verða að víkja.

Að óreyndu mundu menn ætla, að bókaútgefendum kæmi bezt að hafa bækur sem víðast í sölu. Það ætti að örva bóksölu, ef bækur yrðu víðar á vegi neytenda. Bækur væru sjálfsagðari hlutur í þjóðfélaginu, ef þær fengjust utan sérverzlana.

Í gamla daga voru bókaútgefendur og bóksalar sömu mennirnir. Þeir voru því að gæta hagsmuna hver annars, þegar þeir komu á fót hinni svæðisbundnu einokun, sem hefur orðið áhorfendum ærið undrunarefni þessa síðustu daga ársins 1980.

Flestar algengar vörur eru bæði seldar í sérverzlunum og víðtækari verzlunum. Þannig er selt kjöt, mjólkurvörur, brauð og fiskur. Þannig eru seld húsgögn, heimilistæki, hreinlætisvörur og föt. Af hverju ekki líka bækur?

Auðveldara er að átta sig á þeim hagsmunum, sem liggja að baki takmarkaðs opnunartíma verzlana og takmarkaðs vöruframboðs utan þess tíma. Þar eru samtök kaupmanna og verzlunarmanna að standa vörð um þægindi sín á kostnað neytenda.

Þessi samtök hafa borgarstjórn Reykjavíkur í vasanum og eru sífellt að reyna að ná svipuðum tökum á sveitarstjórnum í nágrenninu, þar sem verzlunarfrelsi er. Einokunin er til lítils, þegar Reykvíkingar streyma um kvöld og helgar út á Nes.

Margir kaupmenn eru andvígir hinum takmarkaða opnunartíma og vilja hafa opið, þegar neytendur hafa frí til innkaupa. Þeir fá það ekki fyrir þeirra eigin samtökum, af því að hinir eru í meirihluta, sem vilja hafa frið um kvöld og helgar.

Ófrelsissamtökin hafa séð svo um, að bundið er í reykvískri reglugerð, hvað selja megi í sjoppum. Þar má ekki selja kex, nema það sé súkkulaðihúðað. Þar má helzt aðeins selja óþarfa, en ekki kaffi og te, tannkrem og sápu.

Sumir ágætir kaupmenn hafa ólæst milli sjoppu og búðar og hlaupa ótalinn sprettinn í þágu viðskiptavina. Þessa greiðasemi hafa samtökin á hornum sér og sjá þó alténd um, að neytendur geti ekki verzlað í skjóli innandyra um kvöld og helgar.

Höftin vilja rakna á fleiri sviðum. Við getum til dæmis keypt verkfæri og tónsnældur á bensínstöðvum. Við getum keypt grænmeti, gjafavörur og jafnvel húsgögn í blómabúðum. En einokunarsinnar eru líka að reyna að skrúfa fyrir þetta.

Gjafavörusalar hafa nú klagað blómabúðirnar og segja þær stela markaðnum. En hvernig væri, að gjafavörusalar byggjust til varnar með því að koma sér saman um að hafa opið, þegar viðskiptavinirnir þurfa á því að halda?

Reykvíkingar þurfa að hrista af sér slenið og setja á svartan lista þá borgarfulltrúa, sem þjóna undir haftasamtökin. Menn eiga að fá að kaupa og selja hvaða vöru sem er, í hvaða verzlunartegund sem er, og á hvaða tíma sem er.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Neita fé og væla samt.

Greinar

Fyrstu ár svarthvíta sjónvarpsins á Íslandi kostaði ein auglýsingamínúta nokkurn veginn hið sama og ein svarthvít auglýsingasíða í dagblaði. Þetta jafnvægi milli mínútu og síðu hefur smám saman verið að raskast á allra síðustu árum.

Nú er svo komið, að ein svarthvít auglýsingamínúta kostar tæplega helming af svarthvítri auglýsingasíðu og litmínútan kostar rúmlega fjórðung af litasíðu. Þannig hefur myndazt allt að fjórföldu misræmi á tiltölulega fáum árum.

Þetta stafar ekki af óeðlilega mikilli hækkun auglýsingaverðs dagblaða á þessum tíma. Það verð hefur bara fylgt verðbólgunni. Enda væru dagblöðin ekki svo sneisafull af auglýsingum sem raun ber vitni, ef verðið væri of hátt.

Misræmið stafar af því, að stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa statt og stöðugt neitað að færa auglýsingaverð til verðbólgustigs hvers tíma. Með því hafa þeir stundað undirboð, sem þeir vilja láta útvarps- og sjónvarpsnotendur borga.

Afleiðinguna sjáum við í auglýsingaflóði útvarps og sjónvarps. Dagskrár hafa að meira eða minna leyti farið úr skorðum. Auglýsingatími sjónvarps hefur hvað eftir annað sprungið út úr leyfilegum skorðum. Þetta rýrir sjálfa dagskrána.

Ef verðlag auglýsinga útvarps og sjónvarps væri á eðlilegu markaðsgengi, mundi flóðið minnka, en tekjur stofnunarinnar eigi að síður aukast. Og slíkt mundu stjórnvöld leyfa, af því að auglýsingaverð er utan vísitölu.

Stjórnvöld reyna hins vegar að hamla gegn hækkunum afnotagjalda, af því að þau eru innan vísitölu og magna því verðbólgureikninga þá, sem eru alfa og ómega íslenzkra stjórnmála. Þetta gremst ráðamönnum Ríkisútvarpsins.

Þeir hafa nú í nokkrar vikur rekið gengdarlausan áróður fyrir hækkun afnotagjalda. Í því skyni hafa þeir miskunnarlaust beitt fréttatímum og fréttaskýringatímum. Þar hóta þeir notendum lélegri dagskrá, ef þeir komi ekki í þrýstihópinn.

Þetta stanzlausa vol um samdrátt og stöðvun innlendrar dagskrárgerðar er óneitanlega fremur undarlegt, þegar það er skoðað í ljósi þess, að sömu menn neita sér um auglýsingatekjur, er hæfa verðbólgustigi líðandi stundar.

Hitt er svo rétt, að afnotagjaldið hefur ekki alveg fylgt verðbólgu á undanförnum árum. En sú tregða er ekki nema sanngjörn, því að Ríkisútvarpið er hætt að auka þjónustu sína. Lengd dagskrár hefur staðið nokkurn veginn óbreytt á þessum tíma.

Áskriftar- og lausasöluverð dagblaða hefur hins vegar nokkurn veginn fylgt verðbólgu. En þau hafa líka aukið þjónustu sína. “Dagskrárlengd” síðdegisblaðanna hefur t.d. tvöfaldazt á fimm árum. þau hafa aukið framleiðni sína fyrir sama raunverð.

Framleiðni Ríkisútvarpsins hefur hins vegar ekki aukizt. Það er illa rekið fyrirtæki, svo sem meðal annars má sjá af innheimtukerfi þess og gífurlegu mannhafi tónlistardeildar. Það hefur ekki farið ofan í saumana á kostnaði.

Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart. Ríkisútvarpið er opinbert fyrirtæki. Það er markað öllum þeim kerfisgöllum, sem fylgja slíkum stofnunum. Framleiðnin er minni en annars staðar og skilningur á markaðslögmálum takmarkaður.

Auglýsingaundirboðin og afnotagjaldavælið eru lóð á vogarskál þeirrar stefnu, að rekstur útvarps og sjónvarps ætti að vera frjáls hér á landi eins og í sumum öðrum löndum. Þá létu menn hendur standa fram úr ermum í eðlilegri samkeppni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Sumt er bezt, annað kleift.

Greinar

Í sjávarútveginum eru að mótast sættir milli þess, sem bezt væri að gera, og þess, sem talið er kleift að gera. Þetta nær yfir aflamagn helztu fiskitegunda og skiptingu þess, annars vegar á skipategundir og hins vegar á veiðitímabil.

Í hópi útvegsmanna hefur furðulega vel tekizt að sætta misjöfn sjónarmið bátamanna og togaramanna, fiskvinnslumanna og sjálfstæðra og meira að segja misjöfn landshlutasjónarmið. Þetta afrek hefur gert útvegsmenn að öflugum þrýstihópi.

Horfur eru á, að útvegsmenn fái því framgengt, að hér eftir verði árlega veidd 400 þúsund tonn af þorski í stað þess að auka aflann varlega upp úr 300 þúsund tonnum samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Þetta þýðir, að þorskstofninn verður seinni en ella að ná eðlilegu hámarki, sem á að geta gefið 450 þúsund tonna afla á ári. Þetta þýðir, að menn fórna miklum framtíðarafla fyrir afla líðandi stundar, en fórna ekki framtíðinni sjálfri.

Með 400 þúsund tonna ársveiði á hrygningarstofninn að fara hægt vaxandi, ekki eins hratt og fiskifræðingar hafa lagt til. Þróunin er eigi að síður í rétta átt. Hin blönduðu skammtíma- og langtímasjónarmið útvegsmanna munu ráða.

Á svipaðan hátt er sennilegt, að ná megi tökum á loðnustofninum, áður en það verður um seinan. Meira verður veitt en fiskifræðingar vilja, en þó með nokkru tilliti til sjónarmiða þeirra, svo að alger brestur verður varla í stofninum.

Útvegsmenn telja, að fiskifræðingar hafi vanmetið loðnustofninn, en telja jafnframt sem betur fer þau ein ráð tiltæk, “að allt verði gert til að fylgzt verði með loðnustofninum og loðnurannsóknir stórauknar” með hliðsjón af þjóðarhag.

Hitt mega útvegsmenn hugleiða, að örlögin spyrja ekki um áttir. Telji þeir, að fiskifræðingar geti gróflega vanmetið fiskistofna, er jafn líklegt, að þeir geti gróflega ofmetið þá. Vanmatið á þorskstofninum var einstakt lán.

Aflamagnið er svo bara önnur hliðin á framleiðni sjávarútvegsins. Hin hliðin er tilkostnaðurinn, með hve mikilli eða lítilli fyrirhöfn næst sá afli, sem um er samkomulag að veiða. Þar er líka stefnt að meðallagslausnum.

Útvegsmenn og stjórnmálamenn hafa ekki viljað hlusta á kenningar um, að beiting markaðslögmála á borð við sölu veiðileyfa muni á virkastan og öruggastan hátt færa sóknina niður í samræmi við leyfilegt aflamagn.

Útvegsmenn á loðnu höfðu þann hátt á, að þeir báðu yfirvöld að skipta aflanum á hvert skip. Kvótakerfi þetta náði nokkrum árangri, takmarkaði kapphlaup skipstjóra, dró úr olíunotkun og sliti veiðarfæra og skipa.

Sumir eru lengi að fylla kvótann, aðrir fljótir. Við notkun markaðslögmála mundu hinir síðarnefndu einir veiða, með enn meiri sparnaði fyrirhafnar en kvótakerfið býður upp á. En oft er ekki aðstaða til að velja bezta kostinn.

Kvótakerfið gengur ekki eins langt í þorskveiðunum. Þar er heildaraflanum skipt nokkurn veginn jafnt milli báta og togara og síðan milli fjögurra mánaða veiðitímahila. En kvóti er ekki settur á einstök skip.

Í öllum þessum skiptingum er farið að óskum útvegsmanna. Aðgerðirnar auka framleiðni sjávarútvegsins, en auka hana ekki eins og hægt er. Alvarlegasta gatið er, að þær stefna ekki hið minnsta að minnkun allt of stórs flota.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið