Kjaradómur á hvorki að vera launsátur skotglaðra stjórnarandstæðinga né hagsmunaklúbbur háskólamanna. Allra sízt má hann temja sér úrskurði, sem ríkisstjórn verður síðan að hrinda með bráðabirgðalögum, svo að ekki fari allt á hvolf.
Í sumar var með samningum komið á nauðsynlegu samræmi milli launa háskólamanna og manna í háum launaflokkum ríkisstarfsmanna. Þessu samræmi hefur Kjaradómur nú skyndilega spillt með því að úrskurða háskólamönnum 6% hækkun frá 1. desember.
Þetta gefur áhorfendum tilefni til að ætla, að ekki sé heilbrigt, að allir dómarar í Kjaradómi séu sjálfir háskólamenn. Slíkt ástand getur hæglega spillt Kjaradómi sýn inn í hin víðari samhengi og samræmi stéttanna í landinu.
Á undanförnum misserum hefur ríkt láglaunastefna. Samningarnir í fyrra báru þess merki, bæði hjá opinberum starfsmönnum og Alþýðusambandinu. Hærri launum var haldið niðri til að unnt yrði að hækka lægri laun þeim mun meira.
Margir háskólamenn eru þeirrar skoðunar, að stefnan sé röng. Launamunurinn í þjóðfélaginu sé of lítill. Ekki sé tekið nægilegt tillit til tíma og kostnaðar við öflun menntunar. En þessi skoðun á að vera utan ramma Kjaradóms.
Hafi stjórnvöld og öflugustu þrýstihópar launamála með ærinni fyrirhöfn komið sér saman um ákveðnar línur, sem auðvitað eru gallaðar, en eru þó hornsteinn vinnufriðar í landinu, má Kjaradómur ekki hefja skothríð úr launsátri.
Verkefni dómstólsins er að meta hinar pólitísku aðstæður og kveða upp úrskurði, sem hæfa andrúmslofti launamála á hverjum tíma. Þetta hefur honum mistekizt í máli háskólamanna. Og þá ekki síður í máli alþingismanna.
Kjaradómur hefur ákveðið, að alþingismenn fái þessi sömu 6%, einnig frá 1. desember síðasta árs. Sá úrskurður hefur ekki fótfestu í samningum ársins fremur en hinn fyrrnefndi. Það þýðir ekki að miða við 12% hækkun hjá láglaunafólki.
Þá hefur dómstóllinn bætt gráu ofan á svart með því að afhenda þingmönnum til viðbótar 16,5% launahækkun frá 1. maí síðasta árs. Á tíma láglaunastefnu eru laun eins tekjuhæsta hópsins hækkuð mun hraðar en annarra hópa.
Kjaradómur afsakar sig með að segja þessi 16,5% vera niðurskurð frá hinni illræmdu 20% hækkun, sem þingmenn kusu sér sjálfir í fyrravor og leiddi til þess, að yfirráð launamála þingmanna féllu dómstólnum í skaut.
Málið fólst þó ekki í, að þingmenn hefðu ofmetið einhvern þátt launaþróunar í landinu, sem þeir sjálfir hefðu misst af. Þeir ætluðu hreinlega að krækja sér í þessi 20% umfram aðra. Og dómstóllinn lætur þá halda þorra þýfisins.
Kjaradómur ver sig einnig með, að hann hafi á móti dregið dálítið úr ýmsum hlunnindum alþingismanna. Satt er, að heildarhækkun þingmanna nemur ekki alveg þeim 23,4%, sem dómstóllinn hefur úrskurðað þeim í beina kauphækkun.
Hitt er þó alvarlegra, að enn er viðhaldið því spillta tvískinnungskerfi, að þingmenn koma hlunnindum sínum framhjá skatti, þótt þeir hafi sett lög, sem banna öðrum borgurum að koma sömu hlunnindum framhjá skatti.
Áramótaúrskurðir Kjaradóms eru eins og köld vatnsgusa. Neðan frá að sjá virðist mönnum, sem gusan komi úr klúbbi fína fólksins í þjóðfélaginu. En vonandi eru dómararnir bara úti að aka, utan þjóðfélagslegs veruleika.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið