Iðnaðarráðherra hefur birt gögn, sem benda til, að Alusuisse, eigandi Ísals, hafi komið um 5 milljörðum króna undau skatti til íslenzka ríkisins á undanförnu hálfu sjöunda ári. Gögn þessi eru studd af alþjóðlegri endurskoðunarstofu.
Þetta er ekki sannað mál, enda hefur forstjóri Ísals neitað harðlega. Álmenn hafa nú fengið tækifæri til að koma athugasaemdum sínum á framfæri við endurskoðunarstofu Coopers og Lybrand í London, sem íslenzka ríkið hefur Ísal til aðhalds.
Iðnaðarráðuneytið hefur fengið tölur frá Hagstofu Ástralíu, svo og aðflutningsskýrslur, farmbréf og vörureikninga. Hin alþjóðlega endurskoðunarstofa hefur staðfest gildi þessara heimilda og útreikninganna, sem á þeim eru byggðir.
Samkvæmt þessu á Ísal að hafa greitt nokkurn veginn rétt verð fyrir hráefni sitt, súrál frá Ástralíu, fram til ársins 1974. En síðan þá hafi fob. verðið, eins og það er skráð hér, verið miklum mun hærra en raunverulegt fob. verð þar.
Viðskipti þessi fara raunar fram milli skúffa í sama skrifborði. Hið svissneska Alusuisse á 100% hlutafjár í Ísal og í Austraswiss, sem á aftur á móti 70% í súrálsverksmiðjunni. Alusuisse kaupir súrálið af henni og endurselur Ísal.
Við slíkar aðstæður er auðvitað sérstaklega erfitt fyrir utangarðsmenn að átta sig á gildi talna. Þær geta endurspeglað raunverulegan markað. Og þær geta líka falið hrikalega fjármagnsflutninga til skattalega hagstæðari skúffa.
Hér í blaðinu hefur til dæmis verið dregið í efa, að nokkurt mark væri takandi á skiptingu Flugleiða á hagnaði og tapi milli innanlandsflugs, Evrópuflugs og Bandaríkjaflugs. Við höfum enga möguleika á að sannreyna tölurnar.
Þetta hjálparleysi er enn alvarlegra gagnvart fjölþjóðlegum fyrirtækjum eins og Alusuisse. Þess vegna er nauðsynlegt að beita raunverulegum og alþjóðlega þjálfuðum eftirlitsmönnum til að elta uppi fjármagnsflutninga milli skrifborðsskúffa.
Með þessu er ekki sagt, að Alusuisse og Ísal hafi gert neitt af sér. Ragnar Halldórsson hefur bent á, að hliðstæð rannsókn bandarískra skattayfirvalda á þarlendu dótturfyrirtæki Alusuisse hafi ekki leitt nein vafasöm Ástralíuviðskipti í ljós.
Einnig segir Ragnar, að Ísal greiði fyrir súrál 12-13% af verði fullunnins áls, en ætti raunar samkvæmt heimsmarkaðsverði að greiða 16-19% af verði fullunnins áls. Súrálsverðið sé því síður en svo skráð of hátt hér á landi.
Þá segja stjórnendur Alusuisse, að talnamisræmið stafi af því, að á leið súrálsins til Íslands sé bætt á það fjárfestingarkostnaði, sem Alusuisse hafi í Ástralíu, en liggi þó utan Ástralíu, væntanlega innflutt aðföng framkvæmdanna.
Skýringin sýnir þó í raun, hvílíka talnaleiki má stunda í alþjóðlegum viðskiptum af þessu tagi. Meðferð Alusuisse á fjárfestingarkostnaði sínum í Ástralíu er í hæsta máta óvenjuleg, frá íslenzkum bæjardyrum séð. Hún þarfnast skoðunar.
lðnaðarráðherra segir, að fyrri endurskoðun hafi leitt í ljós misræmi fob. verða árið l974. Þá hafi menn talið, að álmenn mundu bæta ráð sitt. Þess vegna hafi endurskoðun ekki farið aftur fram fyrr en nú, og samfellt misræmi því hlaðizt upp.
Ljóst er, að staða þessa máls er hin alvarlegasta. 5 milljarðar króna eru enginn smápeningur. Svo sem gert hefur verið, þarf að leggja þunga áherzlu á víðtækt starf endurskoðenda og þefara. Að öðrum kosti getur Ísland ekki staðið í viðskiptum við fjölþjóðafyrirtæki af þessu tagi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið